11.1.2011

Hættulegur feluleikur háskóla um áróðursstarf í þágu ESB

Evrópuvaktin 11. janúar 2011


Evrópuvaktin sagði frá því 9. janúar að fyrir lægi álit efnahags- og félagsmálanefndar sem starfar innan vébanda Evrópusambandsins og er ráðgefandi tengiliður milli embættismannavalds sambandsins og almennings samkvæmt stofn- og stefnuskrá sinni. Stækkunarstjóri ESB fól nefndinni að leggja mat á stöðuna hér á landi og jarðveginn fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Niðurstaða nefndarinnar um viðhorf Íslendinga veldur ekki undrun. Áhuga á ESB-aðild má rekja til þrönga hóps innan Samfylkingarinnar. Hann hefur hrundið stefnu sinni í framkvæmd með aðstoð enn þrengri hóps innan vinstri-grænna undir forystu Steingríms J. Sigfússonar, sem kaus að brjóta allar brýr að baki sér til að komast í ríkisstjórn.

Frétt Evrópuvaktarinnar af skýrslunni sýnir að efnahags- og félagsmálanefndin telur „afar mikilvægt að samtök sem eru jákvæð fyrir aðild [Íslands] hefji í náinni framtíð opinbera umræðu um kost aðildar fyrir Ísland sem og fyrir ESB.“ Nefndin telur að tími sé kominn til að samtök sem eru hlynnt ESB-aðild taki aukinn þátt í opinberri umræðu. Býðst nefndin til að eiga frumkvæði að því að skipuleggja viðburði þar sem sjónum verði einkum beint að hlutverki ýmissa hagsmunasamtaka í þágu ESB-aðildar. Vill nefndin að komið verði á fót samráðshópi við almannasamtök hér á landi til að vinna ESB-aðild fylgi. Markmiðið verði að vinda ofan af „þjóðernislegum málflutningi“ og svara „stefnumótandi“ aðilum sem „hafa almennt ekki viljað tala fyrir nokkru því sem líta mætti á sem ógnun við fullveldi landsins.“

Nefndin samþykkti álit sitt 9. desember og sendi það til framkvæmdastjórnar ESB. Þar verður álitið notað við mótun upplýsingastefnu ESB gagnvart Íslandi með það að markmiði að snúa sem flestum Íslendingum til fylgis við ESB-aðild. Ætlar Evrópusambandið að verja um 150 milljónum króna til þess áróðurs á næstu misserum.

Auglýst var eftir þeim sem vildu koma að þessu áróðursverkefni. Átta aðilar hafa nú verið valdir úr hópi þeirrra sem brugðust við auglýsingunni og hafa þeir frest til 7. febrúar til að skila lokagögnum til framkvæmdastjórnarinnar sem síðan velur einhvern úr hópnum til starfa fyrir sig innan þess umboðs sem ESB-stofnanir setja.

Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík eru meðal umsækjenda í lokavali ESB. Hér skal ítrekuð gagnrýni á skólana fyrir að leggja áróðursstarfi ESB lið á þennan hátt. Viðbrögð málsvara háskólanna við gagnrýni Evrópuvaktarinnar á þátttöku þeirra sýnir strax að þeir eru fúsir til að stunda blekkingaleik í þágu ESB.

Í Fréttablaðinu er 10. janúar haft eftir Margréti Einarsdóttur, forstöðumanni Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík (HR), að í útboðsgögnum ESB „sé skýrt tekið fram að reka eigi hér kynningarstarfsemi og stuðla að upplýstri og málefnalegri umræðu.“ Aðkoma HR tryggi frekar en ella að þannig verði að málum staðið.

Þessi fullyrðing forstöðumanns hjá HR er marklaus þegar menn kynna sér allan bakgrunn málsins og skilyrði ESB. Feluleikurinn um sjálft eðli ESB-kynningarstarfsins grefur undan trúverðugleika HR. Er furðulegt að stjórnendur háskóla stofni heiðri skóla síns í hættu með slíkum rangfærslum. Allt kynningarstarf sem kostað er af ESB miðar að því að styrkja stöðu ESB, kynna ágæti ESB en ekki galla.

Samþykkt efnahags- og félagsmálanefndar ESB er traustari heimild um markmið ESB með kynningarstarfi sínu en feluleikur íslenskra háskólamanna sem stundaður er til að afla stofnunum þeirra fé frá Brussel.

Tilvísanir