23.12.2010

Stimamýkt Össurar og Stefán Hauks gagnvart ESB í makríldeilunni

Evrópuvaktin 23. desember 2010


Augljóst er að ESB-deild utanríkisráðuneytis Íslands undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, vill fegra makríldeiluna við Evrópusambandið. Þetta hefur komið fram í orðaskiptum Össurar og Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, á alþingi 15. desember síðastlinn. Þá birtist sami boðskapur í orðum sendiherra Íslands gagnvart ESB eftir fund hans í Brussel 22. desember með sjávarútvegsstjóra ESB.

Einar K. Guðfinnsson sagði Evrópusambandið hafa gripið til „purkunarlausra hótana“ í garð Íslendinga til að brjóta á bak aftur löglega ákvörðun íslenskra stjórnvalda um makrílveiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Vísaði hann þar til orða Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, sem hefði hótað íslenskum skipum löndunarbanni í ESB-höfnum.

Einar K. spurði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hvaða áhrif þessi framganga sjávaraútvegsstjóra ESB hefði á aðildarviðræður Íslands við ESB, hvort þeim yrði fram haldið eins og ekkert hefði í skorist.

Össur sagði erfitt að meta áhrifin á þessu stigi, deilan kynni að „virka eins og möl á gangvirkið“ í viðræðunum. Framkoma ESB væri „óheppileg“. Viðbrögð ESB væru „barnaleg“ og reiði í garð Íslendinga innan ESB væri ekki mikil utan Skotlands. Össur reyndi með öðrum orðum að bregða mildu ljósi á hótanir ESB.

Frá því að þessi orðaskipti urðu hefur Damanaki óskað eftir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni í byrjun janúar 2011 til að tilkynna ákvörðun sína um löndunarbann á íslensk makrílskip í ESB-ríkjum. Þetta skref sjávarútvegsstjórans vakti sérstaka gleði Struans Stevensons, ESB-þingmanns í Skotlandi, sem helst hefur í heitingum við Íslendinga. Taldi hann loksins nokkurn mannsbrag á framgöngu Damanaki.

Þá gerist það 22. desember að fulltrúi ESB-deildar utanríkisráðuneytisins, Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og formaður ESB-viðræðunefndar Íslands, gengur á fund Damanaki og kemur þaðan sannfærður um skilning hennar á málstað Íslendinga. Hún vilji leita lausnar á makríldeilunni með samningum.

Við mat á orðum sendiherrans má velta fyrir sér þremur kostum: hvort Stefán Haukur hafi hitt sömu Damanaki og þá sem hrópar á fundum ESB-sjávarútvegsráðherra að hún ætli að láta kné fylgja kviði gagnvart Íslendingum; Damanaki tali tungum tveim; Stefán Haukur hafi ekki skilið ummæli sjávarútvegsstjórans. Enginn þessara þriggja kosta skýrir bjartsýni sendiherrans heldur hitt að hann er undir sömu ESB-stjörnu og Össur. Þeir skýra öll mál ESB í vil. Þeir mega ekki til þess hugsa að embættismenn í Brussel hafi ekki skilning á því sem fulltrúar íslensku ESB-deildarinnar segja við þá. Þeir eru með öðrum orðum komnir undir áhrifavald framkvæmdastjórnar ESB og vilja ekki styggja fulltrúa hennar.

Alex Singleton, leiðarahöfundur hjá The Daily Telegraph, skrifaði 22. desember um makríldeiluna á vefsíðu blaðsins (sjá grein hans hér á síðunni). Hann skammar breska sjávarútvegsráðherrann fyrir að klaga Íslendinga fyrir Mariu Damanaki, honum sé nær að líta í eigin barm. Sameiginleg fiskveiðistefna ESB sé að gera út af við breskan sjávarútveg en ekki Íslendingar sem kjósi eðlilega að veiða makríl þegar hann syndi inn í lögsögu þeirra. Vilji breski ráðherrann bjarga umbjóðendum sínum eigi hann að losa þjóð sína undan oki fiskveiðistefnu ESB sem jafnist á við hörmulegt umhverfisslys en ekki ráðast á Íslendinga.

Dapurlegast við framgöngu Össurar og ESB-deildar utanríkisráðuneytisins er, að fyrir þessum fulltrúum Íslands vakir það eitt að koma Íslendingum í sömu stöðu í fiskveiðimálum og hefur eyðilagt sjávarútveg Breta. Einmitt þess vegna skýra þeir málstað ESB og hótanir á þann milda hátt sem dæmin sýna. Málstaður Íslendinga á annað og betra skilið.