18.12.2010

Samfylkingin herðir ESB-tökin á vinstri-grænum

Evrópuvaktin 18. desember 2010


Forherðing þeirra sem eru enn í meirihluta innan þingflokks vinstri-grænna og styðja aðildarviðræður Íslands og ESB hefur aukist eftir að þrír þingmenn flokksins sátu hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins vegna ársins 2011. Þessi staðhæfing byggist á því að stjórnarliðar meðal vinstri-grænna og Samfylkingin telja óhjákvæmilegt að stilla strengi sína betur saman en áður til að framlengja líf ríkisstjórnarinnar. Þetta verður ekki gert nema haldið sé áfram að efla tengslin við ESB, enda ræður stefna Samfylkingarinnar ferðinni í ESB-málum.

Á fundi flokksráðs vinstri-grænna fyrir nokkrum vikum tókst Steingrími J. Sigfússyni og Árna Þór Sigurðsson, formanni utanríkismálanefndar alþingi og starfandi þingflokksformanni vinstri-grænna, að haga niðurstöðu í ESB-málum á þann veg að Samfylkingin taldi sig geta við það unað. Hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Össur Skarphéðinsson sáu ástæðu til að veita vinstri-grænum ákúrur.

Þingmennirnir þrír sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins urðu undir í ESB-málum á flokksráðsfundinum. Þeir sæta nú árásum frá Jóhönnu og Össuri. Þau láta eins og líf ríkisstjórnarinnar sé í húfi herði Steingrímur J. ekki enn tökin á flokki sínum. Í því felst að vinstri-grænir hviki ekki í stuðningi sínum við ESB-aðildarviðræðurnar. Verði þeim hætt vita forkólfar Samfylkingarinnar að fleira tekur stakkaskiptum en tengslin við ESB, þeirra eigin flokkur geti hæglega leystst upp í frumeindir – ESB-aðildarmálið er sameiningartákn Samfylkingarinnar.

Á meðan Jón Bjarnason situr sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að minnsta kosti einn ráðherra sem er yfirlýstur andstæðingur ESB-aðildar og hefur ekki látið algjörlega bugast gagnvart hótunum Jóhönnu og Össurar. Ögmundur Jónasson er ekki lengur í þeim flokki. Sannfæring hans tekur mið af vegtyllum honum til handa.

Vegna hjásetu þremenningana við fjárlögin mun Samfylkingin herða kröfur sínar um að Jón Bjarnason víki úr núverandi embætti við uppstokkun á ráðuneytum. Láti Steingrímur J. undan þeirri kröfu þarf hann jafnframt að handjárna Jón á annan veg til að ríkisstjórnin hafi meirihluta á þingi. Hugsanlega með því að gera hann að menntamálaráðherra við brottför Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns vinstri-grænna, úr því embætti. Ólíklegt er að hún snúi aftur til ráðherrastarfa í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Verði Jón Bjarnason utan ríkisstjórnar leita ráðandi öfl meðal vinstri-grænna og Samfylkingar leiða til að koma honum út af alþingi eða gera veg hans þar sem minnstan. Spuni er hafinn gegn honum sem stjórnmálamanni með því að ýta undir fréttir af syni hans og styrkjum til hans úr opinberum sjóðum. Þeir sem þekkja handbragðið á þeim fréttaflutningi sjá að þar standa spunaliðar óbreytts stjórnarsamstarfs að baki.

Vegna ákefðar Steingríms J. Sigfússonar í að verða ráðherra hvað sem það kostaði fór forysta vinstri-grænna út af sporinu með því að samþykkja ESB-aðildina í skiptum fyrir völdin. Steingrímur J. er enn á þessari ESB-leið. Samfylkingin herðir ESB-tökin á honum. Hún veit, að völdin eru honum allt.

Vinstri-grænir eru fyrsta pólitíska fórnarlamb ESB-bröltsins vegna undirgefni við Samfylkinguna.