16.12.2010

Uppgjöf vegna evru og Icesave

Evrópuvaktin 16. desember 2010


Í Brussel er embættismannalið ESB orðið ofurþreytt á vandræðum vegna evrunnar. Forkólfar framkvæmdastjórnarinnar og forseti leiðtogaráðs ESB vilja kasta þessum vanda aftur fyrir sig til að geta snúið sér að öðru. Þess vegna leggur Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðsins, einfalda og tæknilega tillögu fyrir leiðtoga ESB-ríkjanna sem koma til fundar í ESB-höfuðborginni fimmtudaginn 16. desember. Hann er með því að gera það sem honum var sagt á síðasta leiðtogafundi, að búa til eitthvað sem dygði vonandi til að róa markaðina en þyrfti ekki að bera undir ESB-þjóðirnar eða þing þeirra, þótt um breytingar á stjórnarskrá ESB yrði að ræða.

Hugmyndin er að koma á fót varanlegum björgunarsjóði fyrir evruna frá 2013 en lýsa hlutverki hans og skipulagi á svo hógværan hátt að engum detti í hug að gera veður út af þeim atriðum. Aðferðin er gamalkunn í Brussel. Stjórnmálamenn eru fengnir til að samþykkja eitthvað sem leysir stundarvanda þeirra en skapar síðan ný vandamál þegar kemur að framkvæmdinni. Á þann hátt stóðu menn að því að innleiða evruna á sínum tíma og sömu tökum skal beitt til að takast á við hörmungarnar af því, hve illa var að verki staðið í upphafi.

Hér skal ekki dregið í efa að þessi aðferð dugi enn einu sinni til að samkomulag takist í leiðtogaráði ESB-ríkjanna. Settur verði plástur á hina særðu evru. Vandinn er að sárið grær ekki. Það er óhjákvæmilegt að grípa til mun róttækari aðgerða. Írar og Grikkir eru alls ekki lausir úr skuldakreppunni. Portúgalir stefna óðfluga fram af bjargbrúninni. Skuldaskriðan er að hrekja Spánverja út í horn og hið sama má segja um Belga og Ítali. Plástur á evruna til að ljúka einum leiðtogafundi enn dugar ekki til að breyta þessum köldu staðreyndum.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að þeirri niðurstöðu að setning neyðarlaga hér á landi í október 2008 til að verja íslensku þjóðina fyrir áhrifum bankahrunsins standist EES-samninginn. Þær raddir eiga vaxandi hljómgrunn innan evru-svæðisins sem segja að ríkisstjórnum evru-landa beri að huga að svipaðri leið og hér var farin. Lánardrottnar verði að sitja uppi með afleiðingar af ákvörðunum sínum en ekki skattgreiðendur einstakra landa.

Ríkisstjórnir evru-landanna geta hins vegar ekki um frjálst höfuð strokið: „Þeir sem halda að við getum látið eigendur skuldabréfa sitja uppi með tapið gegn vilja Seðlabanka Evrópu lifa í ímynduðum heimi“, sagði Brian Lenihan, fjármálaráðherra Íra, 15. desember þegar hann tók til varna gegn þeim sem vilja að írska ríkisstjórnin fari leið íslensku neyðarlaganna.

Með setningu neyðarlaganna skáru íslensk stjórnvöld því miður ekki á Icesave-skuldbindingarnar. Viðræður hófust við Breta, Hollendinga og ESB. Íslensk stjórnvöld voru tekin heljartökum. Síðar hefur skýrst að þessi tök byggja á hnefarétti en ekki EES/ESB-rétti. Samt lætur ríkisstjórn Íslands eins og hún sé í sömu stöðu og írski fjármálaráðherrann, hún geti ekkert gert gegn vilja Breta, Hollendinga og ESB.

Nú er svo komið að helstu rök ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar í Icesave-málinu eru að íslenskur almenningur sé orðinn svo leiður á talinu um Icesave að hann vilji bara leysa málið og kasta því aftur fyrir sig. Þessi málefnalega uppgjöf er sama eðlis og uppgjöfin innan ESB gagnvart evru-vandanum. Finnum bara eitthvað sem dugar til að við getum hætt að tala um þetta! Hlaupið er frá efni málsins í von um stundarfrið.

Einföldun á evru-vandanum í leiðtogaráði ESB leysir hann ekki. Ekki verður tekið á Icesave-vandanum hér af stjórnvöldum sem annað hvort nenna ekki að leysa hann eða vilja kasta honum aftur fyrir sig af því að þau nenna ekki að ræða málið og skoða alla kosti til hlítar.