14.12.2010

Ríkisstjórn gegn þjóðarhagsmunum

Evrópuvaktin 14. desember 2010


Íslendingar áttuðu sig á gildi alþjóðaréttar fyrir meginhagsmuni sína sem fiskveiðiþjóðar strax eftir að lýðveldið var stofnað. Þá hófst markviss barátta fyrir yfirráðum yfir fiskveiðilögsögu landsins. Að Íslendingar væru þar í fararbroddi fór ekki fram hjá neinum. Bretar sendu til dæmis þrisvar sinnum herskip á vettvang til verndar togurum sínum, af því að þeir töldu Íslendinga ekki hafa farið að alþjóðalögum við útfærslu lögsögu sinnar. Eitt sinn var Íslendingum stefnt fyrir alþjóðadómstólinn í Haag vegna útfærslunnar.

Íslenskir stjórnmálamenn og ráðgjafar þeirra lögðu hins vegar rétt mat á hina alþjóðarréttarlegu þróun. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna kom til sögunnar á níunda áratugnum og tryggði rétt strandríkja til yfirráða yfir eigin 200 mílna efnahagslögsögu og út fyrir hana ef landfræðileg og jarðfræðileg rök hnigu til þeirrar áttar.

Hafréttarsáttmálinn er eitt skýrasta dæmi þess fyrir Íslendinga hve alþjóðalög veita smáríki mikið skjól. Íslensk stjórnvöld hafa óskoraðan rétt til að ákveða nýtingu auðlinda innan lögsögu þjóðarinnar. Enginn fær hróflað við þeim rétti nema hann gerist jafnframt brotlegur við hafréttarsáttmálann og þar með alþjóðalög.

Gengi Ísland í Evrópusambandið, hætti Ísland að vera strandríki í skilningi hafréttarsáttmálans, að minnsta kosti að því er fiskveiðar og stjórn þeirra varðar. Hin einstaka vörn ákvæða hafréttarsáttmálans í þágu íslenskra hagsmuna hyrfi gagnvart öðrum aðildarríkjum ESB, það er þeim ríkjum sem börðust lengst gegn því að Íslendingar eignuðust óskoruð yfirráð yfir 200 mílna lögsögunni.

Í stað reglna hafréttarsáttmálans kæmu ESB-reglur sem yrðu skýrðar hinum stóru og fjölmennu í hag. Skoskur ESB-þingmaður orðaði hneykslan sína á sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga og Færeyinga um makrílveiðar á þennan hátt: Hvað vilja 370 þúsund eyjaskeggjar upp á dekk gagnvart 500 milljón íbúum ESB-ríkjanna?

Lítilsvirðingin í afstöðu skoska þingmannsins hefur birst í kröfu Breta og Hollendinga um að Íslendingar gangi í ábyrgð vegna áhættu sem innlánseigendur í Bretlandi og Hollandi tóku með því að leggja fé inn á Icesave-reikningana. Hið sorglega í því máli er að ríkisstjórn Íslands undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur ekki viljað beita þeim vopnum sem rétt eru í hendur henni til að verjast þessu breska og hollenska ofríki. Ríkisstjórn Íslands leggst í duftið í stað þess að nýta sér réttarstöðu þjóðarinnar.

Nú síðast bendir The Financial Times á það í leiðara, að sé ríkisábyrgð Íslands á Icesave-reikningunum viðurkennd jafngildi það aðför að heilbrigðri samkeppni evrópskra banka- og fjármálastofnana. Er unnt að fá sterkara vopn frá því virta blaði til að berjast fyrir málstað íslenskra skattgreiðenda? Hittir öflug kynning í þágu íslenskra hagsmuna ekki einmitt enn frekar í mark nú en áður? Eru ekki skattgreiðendur allra ESB-ríkja að velta fyrir sér hve hart á að ganga að þeim til að standa við skuldbindingar bankastofnana?

Ríkisstjórn Íslands stefnir að því að afsala þjóðinni rétti samkvæmt hafréttarsáttmálanum með aðild að ESB. Hún berst ekki fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar gegn ofríki Breta og Hollendinga, af því að hún vill ekki styggja ESB. Hún kýs frekar að gera þriðja Icesave-samninginn en verja málstað Íslendinga gagn vart Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Að ríkisstjórn vinni á þennan hátt gegn augljósum hagsmunum þjóðar sinnar er einsdæmi.