11.12.2010

Reglur ESB-klúbbsins svipta Ísland rétti strandríkis vegna makríls

Evrópuvaktin 11. desember 2010


Fulltrúar Norðmanna og Evrópusambandsins gerðu sér vonir um samning við Færeyinga um makrílveiðar. Með því tækist þeim að einangra Íslendinga sem slitu viðræðum við Norðmenn og ESB í Ósló 25. nóvember.

Hinn 9. desember slitnaði upp úr viðræðum fulltrúar Færeyinga við Norðmenn og ESB á fundi í Kaupmannahöfn.

Mikil reiði er innan Evrópusambandsins vegna þess að Íslendingar og Færeyingar nýta sér rétt sinn sem strandríki til að ákveða einhliða veiðikvóta sinn. Til marks um það eru endurteknar upphrópanir Struans Stevensons, ESB-þingmanns frá Skotlandi og varaformanns sjávarútvegsnefndar ESB-þingsins. Hann sagði eftir að upp úr slitnaði í viðræðunum við Færeyinga:

„Frekja Íslendinga og Færeyinga þegar þeir neita að ná samkomulagi um makríl sannar að ég hafði rétt fyrir mér þegar ég kallaði þá ‚rænandi víkinga‘. Forfeður þeirra rændu okkur á landi nú stunda þeir rányrkju á hafinu.

Þeir hafa svívirt góða fiskveiðistjórn skoskra sjómanna með því að gefa út þessa risakvóta. Sé þetta sett í samhengi þá leyfa þessar litlu þjóðir – þar sem íbúarnir eru samanlagt aðeins 370.000 – sér að hrifsa til sín stærri hlut af makrílkvótanum í Norður-Atlantshafi árið 2011 heldur en kemur í hlut allra íbúa ESB, 500 milljóna talsins.“

Í tilefni af þessu er ástæða til að staldra við tvennt

  • Í fyrsta lagi er lykilatriði fyrir Ísland að halda stöðu sinni sem strandríki til að geta einhliða varist yfirgangi ESB í makrílmálinu. Með aðild að ESB afsalaði Ísland sér þessari stöðu.
  • Í öðru lagi sýna ummælin í hnotskurn hvernig litið yrði á Íslendinga innan ESB. Þeir yrðu um 320.000 í 500 milljón manna klúbbi. Þeir yrðu sífellt minntir á það, ef þeir vildu árétta sérstöðu sína á einhvern hátt.

Eftir að írska ríkisstjórnin hafði verið niðurlægð og gerð að beiningarmanni gagnvart ríkisstjórnum annarra evru- og ESB-ríkja, kom Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, í sjónvarpsþáttinn Hardtalk í BBC og sagði: Írar eru í ESB, séu menn í klúbbi, ber þeim að virða reglur klúbbsins og haga sér í samræmi við þær. Fulltrúi írsku ríkisstjórnarinnar bukkaði sig og beygði og sagði, að auðvitað væri þetta rétt hjá franska ráðherranum.

Í næstu viku hittast leiðtogar ESB-ríkjanna í Brussel. Föstudaginn 10. desember héldu Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, til að ákveða reglur fyrir ESB-klúbbinn vegna evru-vandans.

Þjóðverjar og Frakkar láta sér í léttu rúmi liggja hvað Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar og formaður ráðherraráðs evru-ríkjanna, segir. Hann leyfði sér í vikunni að lýsa þýsku ríkisstjórnina „ó-evrópska“ þegar hún hafnaði tillögu hans um evru-skuldabréf. Merkel tók því illa eins og Sarkozy tók því illa þegar Lúxemborgarinn, Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB, réðst á Frakka vegna brottvísunar Sígauna. Sarkozy spurði: Hvers vegna tekur Lúxemborg þetta fólk ekki að sér? Utanríkisráðherra Lúxemborgar sagði að Sarkozy hefði horn í síðu Lúxemborgar. Frakkar stöðvuðu afskipti ESB af brottvísun Sígaunanna.

Þetta er ESB-veruleikinn: Smáþjóðir sitja og standa samkvæmt reglum klúbbsins, stórveldin setja reglurnar. ESB- og Icesave-stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er í þessum anda. Þjóðin hefur einu sinni hafnað Icesave-stefnunni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt heimtar ríkisstjórnin að Icesave-samningur verði samþykktur. Þannig hagar ríkisstjórnin sér gagnvart ESB. Hún stefnir markvisst að því að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna víki fyrir reglum klúbbsins – Ísland hverfi sem strandríki.