7.12.2010

Kattarþvottur Samfylkingarinnar

Evrópuvaktin leiðari 7. desember 2011


Samfylkingin efndi til uppgjörsfundar vegna bankahrunsins laugardaginn 4. desember. Jóhanna Sigurðardóttir valdi þann kost að segja allan flokkinn biðjast afsökunar vegna þess hvernig fór á vakt hans í ríkisstjórn, þegar bankarnir hrundu. Afstaða Jóhönnu var dæmigerð fyrir Samfylkinguna, þar sem forystumenn forðast eins og heitan eldinn að ræða einstök málefni ofan í kjölinn. Þeir eru alltaf að leita að nógu lágum og almennum samnefnara til að halda flokknum saman.

Samfylkingin varð fyrst til sem kosningabandalag fyrir þingkosningar 1999 en síðan gerð að formlegum flokki árið 2000. Að henni komu flokkar og flokksbrot sem áttu það helst sameiginlegt þá að skipa sér í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn.

Fyrir þingkosningar vorið 2003 var kallað á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur úr borgarstjóraembættinu til að veita flokknum pólitíska forystu, af því að öfl innan hans treystu ekki Össuri Skarphéðinssyni, flokksformanni, til þeirra stórræða.

Ingibjörg Sólrún valdi Borgarnes 9. febrúar 2003 til að flytja kosninga- og fagnaðarboðskap sinn. Borgarnesræðan er helst í minnum höfð vegna stuðnings ræðumanns við Baug, Jón Ólafsson í Skífunni og Kaupþing. Hitt er ekki eins í hávegum haft að Ingibjörg Sólrún taldi það merkast á 10 ára ferli Davíðs Oddssonar sem forsætiráðherra, að kratarnir Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson hefðu komið Íslandi inn í EES og að bankarnir hefðu verið einkavæddir. Hvorugu var hún andvíg.

Samfylkingin komst ekki í ríkisstjórn eftir kosningarnar vorið 2003. Hún sat áfram í stjórnarandstöðu og myndaði þar bandalag með Baugi í fjölmiðlamálinu og öllum málum sem hún taldi stuðla að því að skapa sem mest frjálsræði í efnahags- og atvinnumálum. Össur tapaði fyrir Ingibjörgu Sólrúnu í formannsslag innan flokksins og við það jókst enn áhersla Samfylkingarinnar á náið samstarf við stórfyrirtækin í landinu.

Fyrir þingkosningar 2007 þurfti Samfylkingin ekki á því að halda að minna stjórnendur stórfyrirtækja á stuðning hennar við málstað þeirra. Þá var hannað nýtt almennt baráttumál sem gæti sameinað sem flesta innan flokksins og sneri það að aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í því stefnumáli fólst síður en svo að spyrnt skyldi gegn frjálsræðisþróun á fjármálamarkaði eða í bankastarfsemi. Þvert á móti gerði Samfylkingin sér vonir um að bankarnir myndu stækka enn frekar með því að Íslendingar tækju upp evru.

Þegar að þessu er hugað og kröfum Samfylkingarinnar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn eftir kosningarnar 2007 um að enn frekar yrði gengið til móts við sjónarmið Evrópusambandsins á öllum sviðum, lýsir það annað hvort einstakri vanþekkingu á sögu og stefnumálum Samfylkingarinnar eða ásetningi til að segja ósatt, þegar svokölluð umbótanefnd Samfylkingarinnar telur það hafa ýtt undir hrun íslenska bankakerfisins, að Samfylkingin setti ekki stefnu sína fram af „nægilegri festu“ í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og „hún gæti aðeins búist við því að með lagni mætti þoka Sjálfstæðisflokknum inn á “rétta braut„ þegar fram í sækti.“

Þennan umbótatexta á vafalaust að lesa á þann veg að á hinni „réttu braut“ Samfylkingarinnar hefði þjóðin komist hjá hruni bankakerfisins. Þetta er dæmalaus blekking og umsnúningur á stefnumálum Samfylkingarinnar allt frá 2003.

Hið hættulegasta við Samfylkinguna er að þar forðast menn að skoða eigin stefnu og greina afleiðingar hennar, afsökun flokksins og Jóhönnu felst í því að skella skuldinni á aðra. Samfylkingin hefur ekki gert upp við daður sitt við Baug og aðra fjármálafursta. Hún hefur ekki heldur þrek til að viðurkenna eðli ESB-stefnu sinnar og afleiðingar hennar fyrir Ísland.