2.6.2011

Ögmundur bregst illa við að vera kallaður gólfmotta - hvað er hann?

Evrópuvaktin leiðari 2. júní 2011
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ritar grein í Morgunblaðið 2. júní þar sem hann segir að NATO muni halda áfram að berjast í Líbíu þótt hann og aðrir vinstri-grænir slíti stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna, þess vegna ætli vinstri-grænir að sitja áfram í ríkisstjórninni þótt hún styðji aðgerðir NATO í Líbíu og vinstri-grænir séu á móti þeim. Ögmundur leitast stundum við að tala um stjórnmál eins og hugsjónamaður. Þannig lét hann að minnsta kosti síðsumars 2009 þegar hann áttaði sig á eðli Icesave-málsins. Þá sagði hann af sér ráðherraembætti af því að hann taldi setu sína í ríkisstjórn í andstöðu við ráðandi skoðun á Icesave-málinu í ríkisstjórn.

Setningin um að vald spilli og alræðisvald spilli algjörlega á vel við um afstöðu Ögmundar Jónassonar og annarra forráðamanna vinstri-grænna þegar hugað er að setu þeirra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Lágkúruleg afsökun Ögmundar fyrir að sitja áfram í ríkisstjórn sem styður stríðið í Líbíu þótt hann sé á móti því sýnir svart á hvítu að það er rétt sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þegar hann kallaði vinstri-græna gólfmottu Samfylkingarinnar.

Á sömu stundu og Ögmundur Jónasson sat við að semja Morgunblaðsgrein sína ákvað fastaráð NATO að framlengja hernaðaraðgerðir í Líbíu gegn Muammar Gaddafi einræðisherra í 90 daga. Nú gat Ögmundur ráðherra ekki borið því við að hann vissi ekki hvað til stæði. Hann sagði þó í Morgunblaðinu 1. júní að hann hefði orðið að hverfa af ríkisstjórnarfundi þriðjudaginn 31. maí áður en umræðum um stuðning við aðgerðir NATO lauk. Sú forgangsröð sýnir enn að honum var ljóst að orð hans mættu sín einskis við ríkisstjórnarborðið. Hann yrði að sitja og standa eins og Jóhanna og Össur Skarphéðinsson vildu. Þau mundu einfaldlega vaða yfir hann á skítugum skónum eða hann yrði að hverfa úr ríkisstjórninni.

Í grein sinni 2. júní segir Ögmundur: „Ekkert myndi breytast hvað NATÓ áhærir við brotthvarf VG úr stjórninni að því undanskildu að stuðningurinn við hernaðarbandalagið yrði eindregnari í Stjórnarráðinu.“ Þetta segir maðurinn sem ákvað að hverfa af fundi ríkisstjórnarinnar 31. maí áður en hún afgreiddi tillögu innan NATO um að framlengja hernaðaraðgerðir í Líbíu um 90 daga.

Vinstri-grænir eru aðilar að ríkisstjórn sem er þátttakandi í sameiginlegum ákvörðunum NATO-ríkjanna um hernað í Líbíu. Vinstri-grænir sömdu stjórnarsáttmála um að sótt skyldi um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ákvörðun um það efni var tekin á alþingi 16. júlí 2009 með atkvæðum þingmanna vinstri-grænna.

Þegar litið er til greinar Ögmundar Jónassonar um tilgangsleysi þess að VG fari úr ríkisstjórn til að stöðva hernað NATO í Líbíu geta menn rétt ímyndað sér hvernig Ögmundur og félagar hans innan VG mundu láta kæmi til þess að þeir sætu sem ráðherrar við lyktir viðræðna fulltrúa Íslands og ESB.

Þá má einnig minnast þess að VG sagðist á móti samningum um Icesave þegar flokkurinn sat í stjórnarandstöðu. Þegar tekist var á um Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu vildi VG hins vegar að kjósendur segðu já við lögum til að heimila Icesave-samninga.

Pólitískur tvískinnungur af þessari stærðargráðu er sem betur fer fátíður, jafnvel í íslenskum stjórnmálum. Hann ræður þó stundum stefnu og störfum stjórnmálamanna og flokka. Aldrei er þjóðum verr stjórnað en við þær aðstæður.