Vinstri villu hefur verið hafnað í Evrópu - hvers vegna ekki hér?
Evrópuvaktin leiðari 9. júní 20
Eftir að sósíalistar misstu stjórnartökin í Portúgal sitja aðeins fjórar vinstri stjórnir í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Greinarhöfundar The Guardian í London segja að þetta hljóti að vekja vinstrisinna í Evrópu til umhugsunar um pólitíska stöðu sína og stefnu. Ríkin fjögur innan ESB sem lúta stjórn jafnaðarmanna eða sósíalista eru: Austurríki, Grikkland, Slóvenía og Spánn.
Eins og sést á Guardian-greininni sem var endursögð hér á síðunni fyrr í vikunni hafa höfundarnir, Olof Gramme og Patrick Diamond, hugmyndafræðingar í tengslum við breska Verkamannaflokkinn áhyggjur af því að skoðanabræður þeirra tapa í hverjum þingkosningunum eftir aðrar. Í sveitarstjórnakosningum á Spáni fyrir skömmu fékk flokkur sósíalista hroðalega útreið. Í Austurríki telja 70% aðspurðra að hag sínum sé verr borgið innan ESB en ella hefði verið. Allt er við suðumark í grískum stjórnmálum vegna efnahagsvandans og sífellt harðari skilyrða af hálfu ESB og einstakra ríkja innan ESB.
Meginniðurstaða höfundanna er að vinstrisinnar eigi undir högg að sækja í Evrópuríkjum af því að þeir hafi tekið vitlausan pól í hæðina eftir bankahrunið. Þegar kreppan hófst fyrir þremur árum hafi margir vinstrisinnar talið að hún mundi endurvekja stuðning við íhlutun ríkisins. Hið gagnstæða hafi gerst því að jafnaðarmenn í Evrópu hafi orðið fyrir þungri andstöðu. Þótt kjósendur séu andvígir sérhagsmunum innan fjármálakerfisins og hinum mikla ójöfnuði sem leiði af eftirlitslausum fjármálamörkuðum, sé trú þeirra á getu ríkisins minni en engin.
Hér á landi var skuldasöfnun ríkisins ekki undirrót kreppunnar enda réðu vinstrisinnar ekki fjármálum ríkisins þau 18 ár sem fjármálaráðuneytið var í höndum sjálfstæðismanna. Hér má rekja hrunið til ofvaxtar bankakerfis sem tæmt var innan frá af stjórnendum þess og eigendum. Hefði ríkissjóður ekki staðið eins vel og raun var haustið 2008 hefði allt farið hér á enn verri veg. Þá urðu neyðarlögin til að forða því að skuldabyrði bankanna félli á almenning.
Vandinn var mikill haustið 2008. Hann hefur hins vegar tekið á sig nýja mynd eftir 1. febrúar 2009. Steingrímur J. Sigfússon tók við fjármálaráðuneyti þar sem innviðir voru sterkir. Hann hefur síðan vegið að þessum innviðum með alrangri stefnu í skattamálum og óskynsamlegum fjáraustri eins og í Sjóvá eða sparisjóðina auk þess að verða tvisvar afturreka með Icesave-stefnu sína.
Hér hefur ríkisstjórnin haldið því að fólki að ríkisvaldið sé uppspretta hagvaxtar. Einmitt þess vegna er stjórnvöldum ljúft að halda í gjaldeyrishöft. Í krafti þeirra geta þau ráðskast með stórt og smátt, meðal annars leitað í vösum og peningaveskjum manna í Leifsstöð. Með ofurtrú á ríkisvaldið að leiðarljósi er boðuð breyting á stjórn fiskveiða sem miðar að auknu úthlutunarvaldi ráðherra á veiðiheimildum í stað þess að markaðurinn ráði. Ofríki í nafni umhverfisverndar er beitt til þess að stöðva orkuframkvæmdir.
Bankahrunið var illt og afleiðingar þess hroðalegar en undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur illt verið gert enn verra. Þau fylgja einfaldlega rangri stefnu. Hún hlýtur ýta undir sömu þróun hér á landi og annars staðar þar sem ríkisforsjá er hafnað sem leið út úr kreppunni. Þeim hlýtur að vaxa ásmegin sem átta sig á því að lausnin felst ekki í ofurvaldi ríkisins og íhlutun á öllum sviðum. Hér verða að koma fram stjórnmálamenn sem hafa þrótt til að vekja athygli á hinni raunverulegu ógn af vinstri villunni sem grefur um sig í þjóðfélaginu og veikir undirstöður heilbrigðs atvinnu- og fjármálalífs. Því lengra sem farið er út í fenið þeim mun erfiðara og dýrkeyptara verður að fá aftur fast land undir fætur.