11.6.2011

Sanderud sendir Íslendingum enn tóninn - er á förum frá ESA

Evrópuvaktin leiðari 11. júní 2011



Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er við sama heygarðshornið og áður í Icesave-málinu þótt íslenska þjóðin hafi hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga í ábyrgð fyrir einkarekinn banka sem starfaði á eigin ábyrgð og tryggingasjóðs innstæðieigenda. ESA heimtar að íslenska þjóðin ábyrgist greiðslur til þeirra sem tóku meiri áhættu en aðrir sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi með Icesave-viðskiptunum.

Afstaða ESA er í samræmi við hroka embættismannavaldsins í Brussel sem hefur gengið í lið með fjármálastofnunum gegn almenningi og túlkar allar reglur ESB/EES-réttarins á þann veg sem þjónar best hagsmunum bankakerfisins. Þessi hroki birtist nú hvað skýrast í afstöðu stjórnenda Seðlabanka Evrópu vegna skuldavanda Grikkja. Þar berjast stjórnendur bankans með kjafti og klóm gegn því að eigendur grískra ríkisskuldabréfa standi undir sínum hluta af kostnaði við að koma gríska ríkinu að nýju á réttan kjör í efnahagsmálum. Stjórnendur seðlabankans heimta að almenningur í evru-ríkjunum öllum gangist í ábyrgð fyrir skuldum Grikkja svo að skuldabréfaeigendur og þá ekki síst seðlabankinn sjálfur hafi allt sitt á þurru.

Ekki er nóg með að ESA skipi sér í fylkingu með fjármálafurstunum heldur er tekið þannig á mótrökum íslenskra stjórnvalda gegn áminningarbréfi ESA sem fram komu í svarbréfi þeirra frá 2. maí 2011 að engu er líkara en ESA vilji líttillækka Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og aðra sem að gerð bréfsins komu.

Miðað við framgöngu Pers Sanderuds, fráfarandi forseta ESA, gagnvart Íslandi kemur yfirlætisfullur tónn í bréfi ESA sem birt var föstudaginn 10. júní ekki á óvart. Fyrir um það bil ári kom Sanderud hingað til lands í því skyni að fagna 50 ára afmæli EFTA. Þá voru aðeins nokkrar vikur frá því að ESA hafði sent Icesave-áminningarbréfið (26. maí 2010) og íslensk stjórnvöld höfðu enn lögbundinn frest til að svara því. Engu að síður talaði Sanderud þannig að öllum var ljóst að hann hafði þegar gefið sér þá forsendu að ESA mundi kæra Íslendinga til EFTA-dómstólsins vegna Icesave. Óttablandin undirgefni Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra gagnvart Brusselvaldinu birtist í máttleysi hans gagnvart dæmalausum yfirlýsingum Sanderuds.

Eftir að nýja ESA-bréfið hefur verið birt og nýr svarfrestur íslenskra stjórnvalda tekur að líða fer Sanderud enn af stað: „Við höfum verið mjög þolinmóð og gefið lengri frest en aðrir fá. En nú verðið þið að borga,“ segir hann við Fréttablaðið 11. júní. Forstjóri ESA segir Íslendinga hafa með réttu átt að greiða innstæðutrygginguna skömmu eftir hrunið. Að gefnum öllum frestum hafi gjalddaginn runnið upp í október 2009. Hann leggur áherslu á að um mikilvægt neytendamál sé að ræða, innstæðueigendur verði að geta treyst því að fá lágmarkstryggingu greidda. „Þið verðið að uppfylla þær skyldur sem stjórnvöld hafa gengist undir með aðild sinni að EES-samningnum,“ segir Sanderud.

Vert er að vekja athygli á því að Sanderud breytir þjónkun ESA við fjármála- og bankakerfið í „mikilvægt neytendamál“. Æ fleiri sjá í gegnum þennan blekkingaráróður. Hvernig getur það verið „mikilvægt neytendamál“ að skattleggja íslenskan almenning til að greiða innstæður þeirra sem tóku sérstaka áhættu í Bretlandi og Hollandi með Icesave-viðskiptunum? Að sjálfsögðu er þetta ekkert „neytendamál“, hér er um það að ræða að láta þá sem komu ekki nálægt þessum viðskiptum borga brúsann.

Per Sanderud heggur ítrekað í sama knérunn gagnvart Íslendingum. Það er fagnaðarefni að hann skuli á förum frá ESA. Hitt er óskiljanlegt að Árni Páll Árnason skuli ekki hafa krafist þess í bréfi sínu 2. maí að Sanderud viki sæti í Icesave-málinu eftir yfirlýsingar hans um það í júní 2010. Að líta á hann sem óhlutdrægan er aðför að öllum hæfisreglum.