18.6.2011

Bankahrunsagan að endurtaka sig í ESB-aðildarmálinu

Evrópuvaktin leiðari 18. júní 2011Einhverjir muna kannski enn eftir því sem sagt var áður en alþingi samþykkti umsóknina um aðild Íslands að ESB. Stuðningsmenn hennar hömruðu á því að í henni fælist einkum tvennt:

Í fyrsta lagi mundi umsóknin ein valda því að staða Íslands í efnahagsmálum yrði öruggari en ella. Við blasti að fyrir stjórnvöldum vekti að hér yrði tekin upp evra og þau mundu því haga efnahagsstjórn sinni í samræmi við það jafnframt því að njóta stuðnings ESB. Var hvíslað um að ESB mundi rétta Íslendingum hjálparhönd með hagstæðu láni eða jafnvel styrkjum eftir að umsóknin yrði afhent.

Í öðru lagi væri umsóknin aðeins til að kanna hvað í boði kynni að vera hjá ESB. Í henni fælist engin viljayfirlýsing um aðild að ESB heldur aðeins hitt að Íslendingar ætluðu að láta svo lítið að gera út menn á vegum stjórnvalda til Brussel til að ræða málið við embættismenn ESB. Þessir sendimenn mundu síðan snúa heim að nýju með eitthvað í pokahorninu sem Íslendingar gætu velt fyrir sér og síðan greitt atkvæði um í fyllingu tímans.

Nú þegar tæp tvö áru liðin síðan talað var á þennan veg af hálfu ESB-aðildarsinna blasa blekkingar þeirra við öllum.

Ríkisstjórninni hefur gjörsamlega mistekist að ná tökum á stjórn efnahagsmála. Hún hefur þvert á móti gripið til aðgerða sem stofna efnahag þjóðarinnar í meiri hættu en áður. Fyrst var áliti þjóðarinnar spillt út á við með andúð í garð erlendra fjárfesta í orkumálum. Síðan var tekið til við að rústa sjávarútveginn. Flutt voru tvö frumvörp um það efni á vorþingi 2011, frumvörp sem bæði hafa hlotið falleinkunn. Sérfræðingahópur á vegum sjálfs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir frumvarp ráðherrans, sem liggur óafgreitt á þingi, fjandsamlegt í garð sjávarútvegsins. Loks berast nú fréttir um að stjórn ríkisfjármála sé í molum og stefni í mikla umframeyðslu á árinu 2011, áætlun til ársins 2013 sé í rúst.

Hafi ríkisstjórnin ætlað að nota ESB-aðildarumsóknina til sjálfsaga við stjórn efnahags- og ríkisfjármála og búa í haginn fyrir evru-aðild eru þau áform fokin út í veður og vind. Seðlabankinn spáir hækkun verðbólgu, halli ríkissjóðs eykst og ríkisskuldir vaxa. Allt gengur þetta þvert á skilyrði evru-aðildar sem ESB ætlar að framfylgja af meiri hörku en áður eftir ófarir Grikkja, Íra og Portúgala.

Hitt hefur einnig reynst rangt að förin til Brussel yrði til að kíkja í poka ESB. Viðræðurnar við ESB eru allt annars eðlis og þunginn í þeim eykst nú undir lok mánaðarins þegar tekið verður til við að ræða það sem ber á milli Íslendinga og ESB. Þá kemur einfaldlega í ljós að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki mótað sér nein samningsmarkmið. Hún getur þar að auki ekki komið sér saman um þau nema vinstri-grænir gangi enn einu sinni á bak orða sinna og svíki kjósendur sína með allt annarri ESB-stefnu en flokkurinn lofaði fyrir kosningar 25. apríl 2009.

Spurning er hvenær þjóðin vaknar upp við að hún hafi verið höfð að fífli í ESB-málinu og dregin svo langt inn í vef ESB-embættismannavaldsins að það kosti verulegt átak að snúa til baka. Þegar sá dagur rennur verða einhverjir til að hrópa að skort hafi aðhald og eftirlit. Þeir verða fyrstir til að hlaupast undan ESB-merkjunum sem helst hafa haldið þeim á loft – sagan frá bankahruninu endurtekur sig.