23.6.2011

Brotlending í Brussel í boði Össurar

Evrópuvaktin leiðari 23. júní 2011Hinn 22. júní 2011 mátti lesa í Morgunblaðinu:

„Alexandra Cas Granje, sviðsstjóri stækkunarskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB, segir að vinnan muni ávallt nýtast ákveði Ísland að fresta viðræðum og hefja þær svo aftur síðar.“

Hér vísar blaðið til fyrirlesturs sviðsstjóra stækkunarskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og smáríkjaseturs þriðjudaginn 21. júní um stöðu ESB-aðildarumsóknar Íslands.

Alexandra Cas Granje byggði að sjálfsögðu á því í fyrirlestri sínum að Íslendingar hefðu átt frumkvæði að aðildarviðræðunum við ESB. Sambandið knúði hvorki alþingi né aðra hér á landi til að senda inn aðildarumsókn í júlí 2009. Hún sagði að Íslendingar réðu alfarið ferðinni í viðræðunum. Þá benti hún á það sem til er vitnað hér að ofan, að vinnu til þessa yrði ekki kastað á glæ þótt hlé yrði gert á viðræðunum, ryki yrði einfaldlega dustað af skjölunum vildu menn taka upp þráðinn að nýju eftir slíkt hlé.

Menn þurfa ekki að vera hámenntaðir í stjórnmálafræðum, alþjóðasamskiptum eða samningatækni til að átta sig á því hvað í hinum tilvitnuðu orðum sviðsstjóra stækkunarskrifstofunnar felst. Á diplómatískan hátt vill sviðsstjórinn slá viðræðunum við Íslendinga á frest þótt látið sé í veðri vaka að íslensk stjórnvöld ráði ferðinni.

Alexandra Cas Granje flutti Össuri Skarphéðinssyni og öðrum ESB-aðildarsinnum á Íslandi þau boð að þeir skuli hugsa sinn gang. Velta því fyrir sér hvort þetta sé virkilega rétti tíminn í samskiptasögu Íslands og ESB til að eyða hugviti og fjármunum í viðræður um samning sem greinilega verði hafnað komi til þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi á næstu árum. Embættismönnum í Brussel er betur ljóst en embættismönnum í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg hve óskynsamlegt er að láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en halda sínu striki í Ísland-ESB-viðræðunum.

Embættismannakerfi ESB hefur aldrei staðið frammi fyrir því áður að ríkisstjórn sæki um aðild að ESB og helmingur ráðherra í henni lýsi sig andvígan aðildinni. Embættismenn í Brussel átta sig einnig á væntanlegum breytingum á ESB vegna evru-vandans og deilna um inntak Schengen-samstarfsins. ESB verður annað eftir fáein ár en það er núna.

Ólíklegt er að Össur Skarphéðinsson skilji boðin frá stækkunarskrifstofu ESB. Hann tekur ekki mið af neinum viðvörunarljósum þegar ESB-aðild er annars vegar. Brotlending í Brussel blasir við undir forystu hans og Samfylkingarinnar.