25.6.2011

Össur fer til Brussel í ágreiningi við Jóhönnu og ráðherra VG

Leiðari á Evrópuvaktinni 25. júní 2011Á það hefur verið bent hér á þessum vettvangi að af níu mönnum sem sitja í viðræðunefnd Íslands sem er að hefja hinar „eiginlegu samningaviðræður“ við fulltrúa ESB í byrjun næstu viku sitja fimm embættismenn, fjórir frá utanríkisráðherra og einn frá forsætisráðherra. Formaður nefndarinnar er sendiherra í utanríkisþjónustunni. Hann nálgast viðfangsefnið á þann veg að sér hafi verið sett fyrir að koma Íslandi í Evrópusambandið enda sagði húsbóndi hans, Össur Skarphéðinsson, í Brussel fyrir ári að hann hefði viljað Ísland í ESB fyrir 10 árum.

Hinir fjórir nefndarmennirnir eru Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði, Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, Kolfinna Jóhannesdóttir, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar, og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og sendiherra.

Ástæðulaust er að geta sér til um pólitískar skoðanir þeirra sem sitja í nefndinni, öllum er þó ljóst að Þorsteinn Pálsson er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og virkur félagi í þeim hópi manna innan flokksins sem berst fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þorsteinn lítur hins vegar ekki á það sem hlutverk sitt í nefndinni til að veita utanríkisráðherra eða samnefndarmönnum sínum aðhald. Hann ætlar sér eins og þeir að móta samningsmarkmið Íslands á þann veg að ekki skerist í odda í viðræðunum við ESB. Í því efni er hann samstiga embættismönnunum sem starfa á pólitíska ábyrgð utanríkisráðherra eða forsætisráðherra.

Þorsteinn Pálsson gengur raunar lengra en embættismennirnir mundu nokkru sinni gera, að minnsta kosti opinberlega. Hann skjallar Össur Skarphéðinsson á þann hátt að óvenjulegt er, jafnvel þegar flokksbræður eiga í hlut. Í grein í Fréttablaðinu 25. júní segir Þorsteinn: „Utanríkisráðherra stýrir viðræðunum listilega.“

Stjórn Össurar á þessum viðræðum lýtur að því að segja rangt til um eðli þeirra. Hann beitir klækjum til að sigla málum fram hjá samstarfsmönnum í ríkisstjórn. Í lofgrein sinni um Össur bendir Þorsteinn á að utanríkisráðherra eigi ekki aðeins í höggi við vinstri-græna ráðherra heldur einnig sjálfa Jóhönnu Sigurðardóttur af því að hún vilji „ekki fylgja fram þeirri efnahagspólitík sem er forsenda [ESB-]aðildar“. Þorsteinn telur að þess vegna hangi „pólitísk forysta [ESB-] málsins í lausu lofti“. Ríkisstjórnin stefni í raun í aðra átt en inn í ESB.

Spyrja má: Er þessi söguskýring Þorsteins Pálssonar rituð í upphafi hinna „eiginlegu samningaviðræðna“ til að styrkja stöðu nefndarinnar sem starfar undir „listilegri“ stjórn Össurar og fer til Brussel í næstu viku? Hvers vegna sér einn nefndarmanna sig knúinn til að lýsa yfir því að ríkisstjórn Íslands stefni í raun í aðra átt en inn í ESB þegar hann er að hefja hinar „eiginlegu samningaviðræður“ í nafni sömu ríkisstjórnar? Er nokkur furða þótt sviðsstjóri stækkunarskrifstofu ESB segi við íslensku nefndina að skrifstofan hafi fullan skilning á því að gert sé hlé á viðræðunum?

Þorsteinn Pálsson segir pólitíska forystu í ESB-málinu hanga í „lausu lofti“. Við allar venjulegar aðstæður hefði nefnd embættismanna haldið að sér höndum við þær aðstæður og ekki sest að „eiginlegum samningaviðræðum“ um hagsmuni þjóðar sinnar við fulltrúa erlends valds. Þessi regla á ekki við um ESB-viðræðunefnd Íslands. Formaður hennar segir að nefndin ætli að taka sér hið pólitíska hlutverk að móta samningsmarkmið Íslands. Hin „listilega“ stjórn Össurar á ESB-málinu felst í því að hafa eðlilega stjórnarhætti að engu.

Jóhanna Sigurðardóttir á einn fulltrúa í ESB-viðræðunefndinni en Össur fjóra, Össur skortir því einn til að hafa öruggan meirihluta ef Jóhanna segir sínum fulltrúa að fara í aðra átt en Össur kýs. Með grein sinni í Fréttablaðinu vottar Þorsteinn Pálsson Össuri hollustu á þann veg að hann hefur meirihluta í nefndinni hvað sem tautar og raular.

Björg Thorarensen er prófessor í stjórnskipunarrétti. Hún er varaformaður ESB-viðræðunefndarinnar. Leggur hún blessun sína yfir að nefndin gangi til „eiginlegra samningaviðræðna“ við ESB án þess að hafa skýrt pólitískt umboð frá ríkisstjórninni?