21.11.1995

Nýskipan í ríkisrekstri - menntun við aldahvörf

Ræða á ráðstefnu um nýskipan í ríkisrekstri á Hótel Loftleiðum
Menntakerfi við aldahvörf
21. nóvember 1995 kl. 13.00.


Ágætu ráðstefnugestir!
Fyrir nokkrum árum hefði þótt goðgá að fjalla um menntamál á ráðstefnu sem þessari. Menntakerfið hefur verið talið byggjast á öðrum hugtökum en samkeppni, hagræðingu og gæðamati. Nú eru aðrir tímar. Umræður um gæðastjórnun fara fram í skólum og spurningar vakna um það hvort markaðsöfl eða stjórnvöld eigi að skipta verkum milli skóla. Ný hugsun er fyrsta skref til nýskipunar. Hennar verður greinilega vart meðal skólamanna, miklu skiptir að virkja hana.


Betri menntun .... tryggir samkeppnisstöðu Íslands
Við aldahvörf blasir við okkur Íslendingum að aðeins þróast hér samkeppnishæft þjóðfélag ef hér býr vel menntuð þjóð, sem getur nýtt sér öll tækifæri til menningarauka og auðsköpunar. Menntun, rannsóknir og vísindi verður að nefna þegar tíunduð eru þau atriði, sem mestu skipta við framkvæmd langtímstefnu í efnahags- og atvinnumálum. Framlög til þessara þátta eru arðbær fjárfesting, því að góð menntun er besta tryggingin fyrir því, að íslenska þjóðin skari fram úr á alþjóðavettvangi.
Ekki er nóg, að hér á landi sé veitt menntun, heldur verður hún að vera góð menntun. Hana veitum við hins vegar ekki nema byggt sé á traustum grunni og lögð rækt við menningu þjóðarinnar og tekið mið af samfélagsþróun undanfarinna áratuga.


Betri menntun ... krefst þess að menntakerfið þarf að endurskilgreina
Til að árétta mikilvægi þess, að skólakerfið sé í takt við samfélagslega þróun á hverjum tíma, langar mig að vitna í bók eftir breska blaðamanninn Hamish McRae, þar sem hann fjallar um veröldina árið 2020 og leggur á ráðin um þróun hennar fram að þeim tíma. Í bókinni segir hann að málum sé þannig háttað alls staðar, að innan skólakerfisins sé beitt sömu tækni og fyrir 150 árum. Tíu til fjörutíu manna hópi nemenda sé kennt af einum kennara. Námsefnið hafi breyst en kennsluaðferðirnar séu hinar sömu. Við kennslu séu menn rétt teknir til við að velta fyrir sér leiðum til að auka framleiðni, til dæmis með því að nota rafeindatækni, sem algeng sé í framleiðslugreinum.
Hollenskan prófessor hef ég heyrt lýsa því að vinnubrögð hans í kennslustofunni sé eini arfur verkmenningar frá miðöldum sem enn sé við lýði.

Þrátt fyrir að hér sé nokkuð djúpt tekið í árinni, er ljóst, að kennarastarfið og þar með að nokkru skólakerfið hefur ekki þróast jafn hratt og ýmsir aðrir þættir samfélagsins. Við erum enn of bundin við púltið og töfluna. Má þar meðal annars kenna um of vernduðu umhverfi skólanna og þunglamalegum stjórnunarháttum.

Í ræðu, sem Jacques Delors, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flutti á aðalráðstefnu UNESCO í París í lok október síðastliðnum, sagði hann, að fram til þessa hefði fólk skipt lífsferli sínum í þrennt: nám, starf og eftirlaunaár. Nú yrði að breyta þessu og fólk að tileinka sér nýja þekkingu allt lífið. Er þetta kjarni menntastefnu 21. aldarinnar, sem verið er að móta á vegum UNESCO. Ég vil taka undir þetta viðhorf. Í því felst viðurkenning á nýju hlutverki menntakerfisins og skyldu þess til að þjóna öllum án tillits til aldurs.

Við nýja skilgreiningu á menntakerfinu þarf að taka tillit til þess, að skólar þurfa að mennta æ fleiri ungmenni á sama tíma og spurn eftir hámenntuðu vinnuafli eykst. Jafnhliða aukningu á hefðbundnu skólastarfi verða menntastofnanir að opna dyr sínar fyrir þeim, sem þegar eru á vinnumarkaði. Þeim er boðin framhalds- eða endurmenntun með símenntun og fjarnámi. Með nánari tengslum menntastofnana og atvinnufyrirtækja eykst þörfin fyrir skólagengið fólk sem getur tekist á við margvísleg verkefni á síbreytilegum vinnumarkaði. Skólarnir verða að geta brugðist við nýjum kröfum.

Væntingar í garð menntakerfisins eru skýrar, spurningin er hvernig skólanir geti komið til móts við þær. Hvernig skólarnir geti bætt starfsemi sína þannig að þeir geti veitt þá þjónustu sem óskað er eftir. Við svörum þessum spurningum þó ekki með því einu að líta til skólanna eða móta skynsamleg lög um þá og reglur, því að við ákveðum ekki, hvaða brautir nemendur velja. Þar koma einnig til sögu ráðandi viðhorf í þjóðfélaginu á hverjum tíma.


Betri menntun ... felur í sér nýskipan í ríkisrekstri
Við ræðum hér nýskipan í ríkisrekstri, af því að við erum sannfærð, um að þessi rekstur hverfi ekki í náinni framtíð. Því skipti máli, að ríkisrekstur sé góður, skilvirkur og þjóni fólki og fyrirtækjum sem best. Ekki er ætlunin að vega að forsendum velferðarkerfisins. Þessi áhersla er ekki síst mikilvæg fyrir menntakerfið sem viðurkennt er, að sé meðal helstu þátta ríkisrekstrar. Í hugmyndum um nýskipan í ríkisrekstri felst áhersla á að valdi sé dreift. Stefnt er að því að auka ábyrgð og flytja ákvarðanir um rekstur sem næst vettvangi og tryggja þannig hagkvæma og góða þjónustu og besta nýtingu skattfjár.
Innan menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið að stefnumörkun síðustu mánuði þar sem hugtökin samkeppni, valddreifing, sjálfstæði stofnana, hagræðing, gæðamat og gæðakröfur eru nauðsynlegar forsendur þess árangurs, sem ætlunin er að ná. Í hugtökunum felast jafnframt svör við þeim spurningum, sem ég varpaði áður fram um það hvernig skólanir geti bætt starf sitt í samræmi við nýjar kröfur um þjónustu þeirra.

Samkeppni, hagræðing og gæðamat eru ekki markmið í sjálfu sér, heldur einungis tæki til að ná tilteknum markmiðum. Mín sannfæring er sú, að með þessum aðferðum sé unnt að bæta menntun þjóðarinnar. Annað markmið er ekki unnt að setja ofar í störfum þeirra sem stjórna menntamálum.


Betri menntun ... með valddreifingu og samkeppni
Valddreifing, þar sem miðstýrt vald víkur smám saman fyrir aukinni ábyrgð fleiri aðila, hefur öðru fremur einkennt þróun ríkisrekstrar undanfarin ár. Þessarar þróunar hefur einnig gætt í menntakerfinu . Hún er nauðsynleg til að auka sveigjanleika menntastofnana.
Þegar rætt er um valddreifingu í menntakerfinu vaknar eðlilega sú spurning, hver eða hverjir eigi að taka ákvarðanir um skólamál í stað ríkisvaldsins. Það eru einkum fimm hópar, sem koma til greina: Sveitarstjórnir, skólastjórnendur og kennarar, foreldrar, nemendur og aðilar vinnumarkaðarins. Þessir sömu aðilar verða jafnframt að vera tilbúnir til að taka á sig þá ábyrgð, sem fylgir valdinu.

Ný grunnskólalög, sem samþykkt voru á Alþingi í febrúar síðastliðnum, eru skýrt dæmi um valddreifingu. Samkvæmt þeim verður grunnskólinn fluttur frá ríki til sveitarfélaga hinn 1. ágúst 1996. Þá flyst ákvarðanataka nær vettvangi og ábygðarskylda sveitarfélaga og skóla er aukin. Kjarni hinna nýju grunnskólalaga er sú ákvörðun, að sveitarfélög taki alfarið við ráðningu kennara og skólastjórnenda og launagreiðslum til þeirra svo og að sérfræðiþjónusta, sem verið hefur í verkahring fræðsluskrifstofa færist yfir til sveitarfélaga.

Frumvarp til nýrra framhaldsskólalaga miðar einnig að valddreifingu. Skipan skólanefnda er breytt á þann veg að fulltrúar kennara og nemenda eiga þar ekki atkvæðarétt. Er þetta í samræmi við þær reglur, að menn eigi ekki að taka ákvarðanir um ráðstöfun á opinberu fé til sjálfra sín. Fjárhagsleg ábyrgð skólanefnda er hert með aukinni hlutdeild þeirra við ákvarðanir er snerta rekstur skólanna og gerð fjárhagsáætlunar fyrir hvern skóla til þriggja ára. Kennslukostnaður skal byggður á reiknilíkani, sem menntamálaráðherra ákveður. Skólanefndum er heimilað að millifæra fé af rekstrarlið fjárlaga til launakostnaðar og af launalið til rekstrarkostnaðar. Skólameistara skal ráða tímabundið, eða til fimm ára í senn, en heimild er til endurráðningar.

Þessi lýsing ber með sér, að litið er á framhaldsskóla sem stofnanir, þar sem unnt er að beita stjórnunarháttum í samræmi við hugmyndir um nýskipan í ríkisrekstri. Hið sama á raunar einnig við um háskólastigið. Er verið að þróa fjármálasamskipti ríkisins við Háskóla Íslands á grundvelli reiknilíkans. Hugmyndum hefur verið hreyft um það, hvort með skólagjöldum sé unnt að ýta undir aukið meistaranám við háskólann. Jafnframt er ástæða til að vekja athygli á því að Háskóli Íslands hefur tekið til við mikinn rekstur sjálfur, þar sem er endurmenntunarstofnun hans. Bendir vöxtur og viðgangur hennar til þess, að ekki sé þörf á miklu stjórnsýslubákni til að bjóða menntun, sem dregur að sér fjölda fólks, þótt það verði að bera kostnaðinn sjálft. Í framhaldsskólafrumvarpinu eru ákvæði, sem gera skólum á því stigi kleift að vera enn virkari við símenntun og fullorðinsfræðslu en áður. Reynslan af námi utan hins hefðbundna ramma skólakerfisins þar sem markaðsöflin ráða meira en stjórnvaldsákvarðanir á vafalaust eftir að auðvelda okkur að takast á við ýmsan vanda, eins og til dæmis biðlista á háskólastigi.

Menntamálaráðuneytið hefur nú stofnað til opinberra umræðna um svonefnda kjarnaskóla á framhaldsskólastigi, sem fóstra ákveðnar námsbrautir, ef svo má segja. Inn í þær umræður tengjast ákvarðanir um verkaskiptingu á milli skóla, sem er nauðsynleg til að nýta sem best fé skattgreiðenda.

Með áherslum á nýskipan í ríkisrekstri hafa einnig verið kynntar hugmyndir um samningsstjórnun í skólarekstri. Menntamálaráðuneytið hefur tekið þátt í tilraunaverkefnum um samningsstjórnun og þjónustusamningur sem gerður var við Kvennaskólann í Reykjavík, er skýrt dæmi um hana. Auk nokkurs fjárhagslegs sjálfstæðis felur samningsstjórnunin í sér mótun markmiða og kröfu um mælanlegan árangur í innra starfi og þjónustu skólans.

Einkareknir skólar eru eitt skýrasta dæmið um valddreifngu í menntakerfinu. Flutningur grunnskólans til sveitarfélaga, vaxandi notkun upplýsingatækni og auknar kröfur um valddreifingu ættu að ýta undir starfsemi einkarekinna skóla, hvort heldur á leikskóla-, gunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi. Á þessum skólavetri eru 205 almennir grunnskólar starfandi í landinu, af þeim eru einungis sjö einkaskólar, fimm í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Norðurlandi eystra. Ég legg áherslu á, að úr ríkissjóði verði áfram veittur styrkur til einkarekinna framhaldsskóla, enda sé gerður verksamningur um starfsemi þeirra. Framlög til einkarekinna grunnskóla verða hins vegar ákveðin af sveitarfélögum. Með einkareknum skólum má auka fjölbreytni og samkeppni. Það er mikill misskilningur, að einkaskólar séu eitthvað óæðri ríkis- eða sveitarstjórnarrskólunum, eins og gefið hefur verið til kynna til dæmis í umræðum um nýjan Listaháskóla, þar sem farnar eru ótroðnar slóðir.

Skólar eiga að hafa frelsi til að setja kröfur og inntökuskilyrði. Landfræðilegum hindrunum á að ryðja úr vegi nemenda. Hvort tveggja krefst þess, að skipulega og vel sé staðið að smíði skólahúsnæðis.


Krafan um gæðastjórnun í skólum er sett fram sem eðlilegur hluti af auknu sjálfstæði og sjálfsforræði skólanna, samfara því sem dregið er úr íhlutun stjórnvalda um innra starf þeirra. Stjórnvöld hafa löngum leitast við að tryggja gæði menntunar með óbeinum aðgerðum. Reglur hafa verið settar um menntun kennara og próf haldin sem tryggja eiga lágmarksfærni nemenda og beina þeim inn á viðeigandi námsbrautir.
Megintilgangur mats á skólastarfi er að auka þekkingu og skilning á starfinu og skapa faglegar forsendur fyrir umbótastarfi og stefnumótun. Með matinu er í raun verið að mæta kröfu þjóðfélagsins til kennara, skóla og menntayfirvalda um aukna ábyrgðarskyldu skóla og betri námsárangur nemenda. Markmiðið er að benda skólum á það sem betur má fara, hvað er vel gert og á hvað beri að leggja áherslu í framtíðinni. Með reglubundnu gæðamati er síðan hægt að fylgja úttektunum eftir og sjá hvernig til hefur tekist með umbætur.

Í nýju grunnskólalögunum er lögð áhersla á reglubundið mat á skólastarfi, einkum sjálfsmat stofnana og gæðastjórnun. Í samræmi við lögin verða mótaðir staðlar bæði fyrir sjálfsmat stofnana og mat annarra aðila. Sérstök áhersla verður lögð á ytra gæðamat og reglulegar úttektir á menntastofnunum á öllum skólastigum. Ekki er síður mikilvægt að skólarnir sjálfir séu virkir í innra gæðaeftirliti og komi upplýsingum um sem flesta þætti starfs síns á framfæri.

Samræmd próf eru mikilvægt hjálpartæki og geta verið snar þáttur í gæðastjórnun skólanna. Í nýju grunnskólalögunum er lögð áhersla á þau og í framhaldsskólafrumvarpinu eru einnig ákvæði um samræmd próf. Loks má ekki gleyma því, að besti mælikvarðinn á gæði menntunar felst í því, hve mikil sókn er á atvinnumarkaði eftir þeim, sem úr skólunum koma.

Nú þegar eru íslenskir skólar farnir að taka þátt í gæðamatsverkefnum og sem dæmi má nefna, að nýlega er lokið úttekt á kennslu í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands og byggingatæknifræði við Tækniskóla Íslands. Úttektin var hluti af evrópsku tilraunaverkefni um mat á gæðum háskólamenntunar og fóru samskonar úttektir fram í 46 háskólastofnunum í 17 ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu. Var útkoman góð fyrir hina íslensku þátttakendur. Markmið með slíkum verkefnum er meðal annars að stuðla að gagnkvæmri viðurkenningu prófa og námstíma milli Evrópulanda og að styrkja þau gæðamatskerfi, sem eru fyrir hendi í Evrópu. Annað dæmi um úttekir, sem menntamálaráðuneytið beitir sér fyrir, er heildarúttekt á viðskiptamenntun á háskólastigi, sem áætlað er að fari fram á árinu 1996.


Ágætu ráðstefnugestir!
Ég hef nú fjallað um ákveðin lykilhugtök sem tengjast nýskipan og betri menntun. Fleiri atriði langar mig að nefna og setja þau mark sitt á menntakerfið fram að aldamótum. Í fyrsta lagi vísinda- og rannsóknarstarf, sem nauðsynlegt er að efla, ekki síst vegna atvinnulífsins. Í öðru lagi upplýsingatæknina, sem gegnir vaxandi hlutverki. Loks í þriðja lagi alþjóðasamskiptin, sem gera okkur meðal annars kleift að nýta það besta, sem menntakerfi annarra þjóða hafa að bjóða.

Betri menntun ... með öflugra vísinda- og rannsóknarstarfi
Öflugt rannsóknar- og þróunarstarf er forsenda framfarasóknar í íslensku þjóðlífi. Vísindasamfélagið verður eins og menntakerfið að laga sig að breyttum aðstæðum. Stefna ríkisstjórnarinnar er, að vísinda- og rannsóknarstarf verði stutt ötullega. Á þessu sviði er einna mikilvægast að tengja saman menntakerfi og atvinnulíf. Hjá fyrirtækjum er vaxandi skilningur á tækifærum sem felast í nýsköpun, rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Kynslóðaskipti eru að verða og yngra fólk með meiri vísindalega þjálfun ræðst til ábyrgðarstarfa hjá fyrirtækjum.
Á 10 ára tímabili hafa Íslendingar varið um 40 milljörðum króna til rannsóknar- og þróunarstarfsemi en enn hefur ekki verið gerð úttekt á því hverju þessi starfsemi hefur skilað okkur. Við þekkjum einstök vel heppnuð dæmi en heildarmyndin liggur ekki fyrir. Það virðist meðal annars stundum alið á þeim misskilningi, að við séum að hagnast einhver ósköp fjárhagslega á evrópskum styrkjum til rannsóknarstarfsemi. Við erum engir bónbjargarmenn í því efni, heldur leggjum í raun meira af mörkum til evrópskra sjóða en við þiggjum frá þeim.

Ég legg áherslu á að árangur í þessu starfi verði að mæla og fjármagnið verði að nýta sem best. Þannig verða styrkir á þessu sviði í auknum mæli að taka mið af árangri og gera verður sömu kröfur til vísindasamfélagsins um hagræðingu og gæðamat og annarra aðila.


Betri menntun ... í upplýsingasamfélaginu
Fyrir nokkru skipaði ég nefndir til að móta stefnu menntamálaráðuneytisins í upplýsingamálum og gert er ráð fyrir, að niðurstöður þeirra liggi fyrir fjótlega eftir áramót. Umfjöllun um upplýsingasamfélagið og menntamál má í raun skipta í tvennt. Í fyrsta lagi er það upplýsingastreymi almennt og mikilvægi þess. Í öðru lagi er það mikilvægi þess, að sú tækni, sem upplýsingasamfélagið býður, sé nýtt til hagsbóta fyrir menntakerfið.
Stjórnun skólamála grundvallast að verulegu leyti á kerfisbundinni öflun upplýsinga og miðlun þeirra til hlutaðeigandi aðila. Nauðsynlegt er, að markviss upplýsingamiðlun eigi sér stað í skólastarfi og almenningur hafi greiðari aðgang að upplýsingum um árangur skólastarfs. Dæmi um mikilvægi upplýsingamiðlunar er að samræmt mat og samræmd próf þjóna ekki fyllilega tilgangi sínum nema veittar séu upplýsingar um niðurstöður þeirra. Því legg ég áherslu á, að niðurstöður samræmdra prófa, flokkaðar eftir meðaleinkunnum, skuli öllum aðgengilegar ásamt útskýringum.

Hin hliðin á upplýsingasamfélaginu tengist einkum tækninni sjálfri. Hún er sú, að hún eykur fjölbreytileika náms og sérhæfingu. Íslenskir skólar þurfa að átta sig á því, að með upplýsingabyltingunni eykst alþjóðleg samkeppni um nemendur. Á þetta sérstaklega við um nám í framhaldsskólum og háskólum og jafnframt símenntun. Í stjálbýlu landi eins og Íslandi ber að leggja aukna áherslu á fjarkennslu til að bæta fræðslu í dreifðum byggðum og auka samkeppni milli skóla.

Með stefnumótun sinni á sviði upplýsingamála vill menntamálaráðuneytið vinna að því, að menntakerfið færi sér upplýsingatæknina í nyt, þannig að íslenskir nemendur hljóti betri menntun en ella. Með nýrri tækni er einnig hægt að efla fullorðinsfræðslu og símenntun. Nú þegar er unnt að stunda fjarnám í nokkrum íslenskum skólum, svo sem í Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands og Verkmenntaskólanum á Akureyri.


Betri menntun ... í alþjóðlegu umhverfi
Það atriði, sem mig langar að nefna hér að lokum en skiptir ekki síst máli fyrir betri menntun þjóðarinnar, er fjölþjóðleg samkeppni og samvinna á sviði vísinda-, mennta- og menningarmála. Hún hefur aukist jafnt og þétt og mun aukast enn frekar. Hér ber hæst gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og þau réttindi, sem hann veitir til þáttttöku í fjölbreyttum samstarfsverkefnum Evrópusambandsins á sviði vísinda-, mennta-, menningar- og æskulýðsmála. Með virku alþjóðlegu samstarfi gefst Íslendingum kostur á að fylgjast náið með þróuninni og samstarfið veitir tækifæri til að meta og velja úr það besta, sem býðst í nágrannaríkjunum og staðfæra það miðað við aðstæður á Íslandi. Einnig gefur það Íslendingum tækifæri til að kynna öðrum þjóðum það helsta, sem er á döfinni hér á landi. Sókn okkar í útgerð og fiskvinnslu erlendis ætti að hvetja til þess, að hér sé til dæmis alþjóðleg fræðsla í þessum atvinnugreinum. Hugmyndir um Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hníga í þessa átt.
Í íslensku skólakerfi verður að leitast við að taka mið af kröfum, sem gerðar eru til nemenda í þeim löndum, þar sem menntun er best á hverju sviði. Reglulega á til dæmis að gera kerfisbundinn samanburð við erlendar námskár. Staðreynd er, að sífellt fleiri Íslendingar hyggja á nám eða vinnu erlendis. Vaxandi aðsókn að erlendum háskólum eykur samkeppni milli nemenda um aðgang að bestu háskólunum. Til að auðvelda þátttöku í þeirri keppni, þarf undirbúningur íslenskra nemenda að vera góður og námskrá og kröfur sambærilegar og í öðrum löndum. Skólar verða að auka samstarf sitt á alþjóðlegum vettvangi og sömuleiðis við opinberar stofnanir og einkafyrirtæki innan lands og utan. Einnig er eðlilegt að íslenskir nemendur ljúki sambærilegum prófum á svipuðum tíma og erlendir jafnaldrar þeirra.

Þegar grunnskólar verða komnir til sveitarfélaga og framhaldsskólar hafa öðlast aukið sjálfstæði, verður aðalnámskrá þessara skólastiga eitt helsta stjórntæki ríkisvaldsins gagnvart skólunum. Þetta tæki verður að hanna á alþjóðlegum forsendum. Gera verður kröfur um að námskrá sé fylgt og halda uppi eftirliti með því að það sé gert. Næsta stórverkefni í íslenskum menntamálum verður að smíða þessi tæki og móta aðferðirnar til að beita þeim.


Ágætu ráðstefnugestir!
Skólarnir eru fjölmennustu vinnustaðir þjóðarinnar. Rannsóknir og vísindi eru forsendur þess, að íslenskt atvinnulíf þróist á þann veg, að einhvers virði sé að ræða um nýskipan í ríkisrekstri. Við allar ákvarðanir, sem teknar eru um ráðstöfun á opinberu fé, ber að hafa hagkvæmni í huga og ávallt leita bestu leiða í því skyni. Við megum hins vegar ekki missa sjónar á þeirri staðreynd, að ríkisrekstur er ekki annað en hluti af umhverfi sínu. Hann er ekki annað en miðlun á fjármunum frá öðrum. Helst stuðlar hann að verðmætasköpun, þegar litið er til fjárfestingar í menntun, rannsóknum og vísindum.
Hér hef ég leitast við að greina frá því, hvernig fjármunum er varið á þessum sviðum um þessar mundir og hvert stefnir. Hugmyndum um alla nýskipan vil ég taka fagnandi, enda sé ekki vegið að undirstöðunni sjálfri, þeirri uppsprettu að auði íslensku þjóðarinnar, sem felst í menntun hennar og framsækni. Einungis með góðu menntakerfi, öflugum rannsóknum og vísindum getum við Íslendingar fagnað aldahvörfum og gengið með reisn inn í 21. öldina.