11.11.1995

Höggmyndasýning Guðmundar Benediktssonar

Ávarp í Listasafni Íslands - höggmyndasýning Guðmundar Benediktssonar opnuð.
11. nóvember 1995

Góðir sýningargestir!

Við erum hér á sögulegri stundu. Í annað sinn í íslenskri myndlistarsögu er að hefjast sýning eingöngu á höggmyndum Guðmundar Benediktssonar. Hefur hann þó sinnt listsköpun í rúma fjóra áratugi. Fyrri einkasýning Guðmundar var árið 1957. Hann er einn þeirra listamanna, sem hefur starfað í kyrrþey á þessum tímum auglýsinga og ofvirkni í hvers kyns fjölmiðlun. Í samtali við Aðalstein Ingólfsson segist Guðmundur hálfskammast sín fyrir að efna ekki til fleiri einkasýninga. Hann hefur hins vegar sýnt með öðrum og segir þann félagsskap hafa veitt sér þá einu viðurkenningu, sem hann þurfti á að halda.

Að þessu sinni er það Listasafn Íslands, sem veitir Guðmundi verðuga viðurkenningu með því að sýna verk hans í húsakynnum sínum. Sannast hér enn gildi hins ágæta framtaks safnsins að stofna til sýningaraðar á verkum eldri listamanna.

Töluverðar umræður eru nú um starfsmenntun og gildi hennar vegna kynningar á frumvarpi til framhaldsskólalaga. Minni athygli hefur vakið, að í frumvarpinu er nú gert ráð fyrir sérstakri listnámsbraut. Jafnframt erum við að leggja drög að því að koma á fót Listaháskóla Íslands, þar sem gert er ráð fyrir, að listamenn sjálfir hafi frumkvæði um mótun og starfsemi skólans en ríkissjóður og Reykjavíkurborg myndi hinn fjárhagslega bakhjarl.

Þegar litið er yfir feril Guðmundar Benediktssonar sést, að hann hefur notið starfsmenntunar sinnar sem húsgagnasmiður við listsköpun sína. Saga hans kennir okkur, að séu hæfileikar og áhugi fyrir hendi segir hin formlega skólaganga ekki allt um ævistarfið. Greinilegt er, að Guðmundur hefur verið óhræddur við að feta inn á nýjar brautir eftir kynni sín af störfum erlendra listamanna. Hann segir sjálfur að sex vikna dvöl sín í París fyrir fjörutíu árum hafi ráðið úrslitum, um að hann aðhylltist það, sem nú er kallað frammúrstefnumyndlist.

Þótt margt hafi breyst í samskiptum okkar og annarra þjóða síðan fyrir 40 árum og þau séu nú enn meiri en áður, getur það ekki verið markmið í sjálfu sér, að Íslendingar hætti að leita menntunar erlendis. Gróskan í íslensku listalífi á vafalaust að verulegu leyti upptök sín í því, að hingað berast straumar úr öllum áttum og við erum óhrædd við að virkja þá með okkar lagi. Guðmundur segir, að þannig hafi konkretlistin strax höfðað til handverksmannsins í sér. Hann viti ekki af hverju, enda hafi hann lítið skipt sér að kenningum á bak við þetta allt saman.

Við erum mörg í sömu sporum og Guðmundur, að kenningin á bak við þetta allt saman skiptir okkur minna máli en handverkið og listfengin. Með því hugarfari skulum við ganga hér um sali. Ég opna sýninguna og óska listamanni og Listasafni Íslands til hamingju með hana.