14.12.1996

Jólagleði sjálfstæðismanna í Reykjavík

Jólagleði sjálfstæðismanna í Reykjavík
Valhöll, 14. desember, 1996.

Góðir áheyrendur, ágætu flokkssystkin

Mér er ánægja að fá að ávarpa ykkur nokkrum orðum. Það er orðið árvisst, að við hittumst hér til að fagna komu jólanna á aðventu.

Síðan fyrir ári hafa orðið mikil umskipti á aðstöðunni hér í Valhöll og vil ég nota tækifærið til að óska Kjartani Gunnarssyni framkvæmdastjóra flokksins og okkur öllum til hamingju með hve vel hefur til tekist við þessa framkvæmd.

Stjórnmálaflokkur er að sínu leyti líkur kirkjusöfnuði, hann getur ekki treyst á aðra vegna þess, sem gera þarf í eigin þágu. Ekki síst í því ljósi er hver nýr áfangi ávallt sérstakt fagnaðarefni. Mikil gleði ríkti til dæmis hér í nágrenninu fyrir fáeinum dögum, þegar ný kirkjubygging var vígð, Grensáskirkja. Þar eins og í öðrum söfnuðum höfuðborgarinnar hafa margir lagt hönd á plóginn og unnið fórnfúst starf til að ná langþráðu marki.

Þess var minnst fyrr á árinu, að 200 ár voru liðin frá því að Dómkirkjan var reist. Af því tilefni skráði sr. Þórir Stephensen, flokksbróðir okkar, sögu kirkjunnar. Þetta er mikil og glæsileg bók eins og hæfir hinu ágæta guðshúsi.

Frásögn sr. Þóris sýnir okkur, að menn gripu til ýmissa ráða í því skyni að afla kirkjunni tekna. Eitt úrræði heppnaðist þó ekki, en það var að leigja út kirkjubekkina. Var þetta reynt um miðja síðustu öld og meðal annars til þess vitnað, að í Vestmannaeyjum hafi það tíðkast um skeið, að þeir, sem sæti áttu í kór Landakirkju, greiddu í eitt skipti fyrir öll 24 fiska, en hinir 10 fiska, þeir er sátu í kirkjuskipinu. Var þetta kallaður sætisfiskur.

Kom sú tillaga fram frá biskupi, að utanbæjarmenn í Reykjavík, sem kæmu til árstíðarbundna starfa, sjósóknar, verslunar, mótaks eða torfristu, greiddu sætispening til Dómkirkjunnar.

Þessi biskupstillaga komst ekki til framkvæmda og ekki heldur hin, sem var kynnt í auglýsingu, að allir í söfnuði Reykjavíkurdómkirkju, sem vildu hafa lokaða stóla í kirkjunni, gætu leigt þá fyrir sig og heimili sitt móti því að borga árlega 3 mörk fyrir hvert sæti eða 3 ríkisdali fyrir bekkinn. Skyldu leigumálar aðeins gilda um almennar guðþjónustur en ekki jarðarfarir, fermingar, brúðkaup, setningu Alþingis og prestastefnu.

Segir sr. Þórir í bók sinni, að almannarómur hafi vegna þessara hugmynda alltaf ranglega talið, að lokuðu bekkirnir í Dómkirkjunni hefðu verið leigðir út, og það hefði jafnvel ásamt öðru orðið til þess að skapa grundvöll fyrir stofnun Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík árið 1899.

Góðir áheyrendur!

Ég nefni þetta ekki einungis í því skyni að vekja athygli á góðri bók, sem snertir mjög sögu og þróun í heimabyggð okkar hér í Reykjavík. Heldur drep ég á þetta nú meðal annars til að minna á, að einkavæðing í einni eða annarri mynd er ekki nýmæli, fundið upp á síðari hluta 20. aldarinnar. Það er miklu frekar, að á þessari öld hafi menn í alvöru farið að treysta meira á ríkið en sjálfa sig. Eitt er víst, að til eflingar kirkjunni, sem reist er á orði jólabarnsins, hafa menn hugað að öllum þeim úrræðum, sem ríkisvaldið notar enn í dag til að treysta fjárhag sinn.

Einkavæðing á kirkjubekkjum eða framlag af afla eða nú fiskveiðikvóta til að fá virðulegt sæti við heilaga messu, eru ef til vill ráð, sem eiga eftir að koma til umræðu að nýju.

Við þingmenn vorum í morgun að greiða atkvæði um fjárlagafrumvarp næsta árs við aðra umræðu þess. Er ljóst, að kröfurnar um opinbera þjónustu eru miklar. Útgjöldin eru einnig orðin há. Mörgum finnst að vísu þegar nóg að gert við opinbera tekjuöflun, ekki síst gagnvart eldri borgurunum. Frekar beri að finna leiðir til að aflétta gjöldum en auka þau. Galdurinn er að finna meðalhófið og stuðla að sátt, sem leiðir til meiri farsældar.

Hér komum við saman til hátíðarbrigða. Birta jólanna í skammdeginu á að efla okkur trú á hið góða í mannlegum samskiptum.

Fyrir skömmu efndum við í fyrsta sinn til hátíðar á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, sem framvegis verður dagur íslenskrar tungu og skal hans minnst með þeim hætti, sem við hæfi telst hverju sinni. Þátttakan í hátíðarhöldunum var mikil um land allt og dagurinn vakti áhuga jafnt hjá ungum sem öldnum.

Meðal þess sem menn gerðu sér til hátíðarbrigða var að gefa út ljóð eftir leikskólabörn. Var það Félag íslenskra leikskólakennara, sem að því stóð. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að lesa þrjú ljóð úr þessu skemmtilega kveri.

Hópur þriggja og fjögurra ára barna í leikskólanum Holti í Njarðvík yrkir á þennan veg:

Tunglið er stórt.
Tunglið er feitt.
Tunglið er gult.
Tunglið er fullt.
Það er tungl í glugganum heima hjá mér.
Það er karl í tunglinu heima hjá þér.


Bára Sif fimm ára í leikskólanum Þykkvabæ segir þetta um tunglið:

Þegar tunglið er kringlótt,
þá er það eins og bolti.

Stundum er það mjótt
eins og hálf appelsína.


Loks þetta eftir Johan Sindra, fimm ára í leikskólanum Sæborg í Reykjavík:

Gamla hurðin
heima hjá mér.
Verður blá á nóttunni
draumar fara í gegnum hana.
Lyftir grænum blómum
upp til guðs.


Megi aðventan verða til þess að lyfta hugum okkar og minna á hið mikla gildi jólanna með fæðingu frelsarans í Betlehem. Í þeirri fullvissu óska ég ykkur gleðilegra jóla.