20.9.1996

Íslensk menning sem hluti evrópskrar menningararfleifðar

Íslensk menning sem hluti evrópskrar menningararfleifðar - ræða á ráðstefnu á menningararfsdegi
20. september 1996 í Þjóðminjasafni Íslands.

Samstarf innan Evrópuráðsins er af ýmsum toga. Allt miðar það að sama marki, að gera Evrópu að vinsamlegri heimkynnum fyrir íbúa sína. Sjá til þess, að þeir búi við sæmileg réttindi og geti lifað saman í sátt og samlyndi, þrátt fyrir ólíkt þjóðerni og ólíkan menningararf. Við komum hér saman í dag vegna þess, að undir merkjum ráðsins er virðing fyrir menningararfinum talin ein af leiðunum til að ná háleitum markmiðum þess.

Evrópuráðið er meðal þeirra stofnana, sem komið var á fót eftir síðari heimsstyrjöldina til að koma í veg fyrir, að sambærilegur hildarleikur endurtæki sig. Tvær heimsstyrjaldir með upptök í Evrópu á þessari öld kenndu mönnum, að þeir yrðu að leggja rækt við friðinn til að hann héldist. Felst það meðal annars í því að leyfa þjóðum að njóta sín á eigin menningarlegum grunni.

Frelsið er andstæða kúgunar. Þegar kúgun er aflétt brýst fram spenna, sem leiðir til ófriðar, af því að mönnum hefur ekki gefist færi á að leysa ágreiningsefni sín. Þetta hefur sannast eftir hrun stjórnkerfis kommúnisma. Nú er ófriður í Evrópu vegna þess og á hann að verulegu leyti menningarlegar rætur.

Mennta- og menningarmálaráðherra Bosníu-Herzegóvínu sagði á ráðherrafundi um evrópska menningararfinn í Helsinki undir lok maí síðastliðins: “Þetta stríð og árásirnar beindust gegn menningu okkar og gegn hefðum okkar."

Með aðild að Evrópuráðinu höfum við Íslendingar ákveðið að taka þátt í samstarfi með þeim friðsamlega hætti, sem einkennir alla stefnumörkun innan vébanda ráðsins. Raunar tel ég, að við eigum að leggja meira af mörkum til þessa samstarfs, því að fyrir vopnlausa þjóð gefast þar tækifæri, sem ekki er unnt að finna annars staðar í alþjóðasamtökum. Á þann hátt getum við styrkt evrópska menningararfinn. Sérstaða hans felst í margbreytileika hans.

Minnumst þess, að íslensk menning er hluti evrópskrar menningararfleifðar. Engum er hins vegar skylt að halda íslenskri menningu á loft öðrum en okkur sjálfum. Missum við áhuga eða getu til þess, hyrfi íslenska stefið úr hinn evrópsku hljómkviðu.

Á undanförnum áratugum hafa umræður um menningararfinn snúist um úrræði til að vernda hann. Hin síðari ár hefur athyglin í vaxandi mæli beinst að því, hvernig menn fái notið arfsins, og hvernig unnt sé að nýta hann til að auka skilning á almennri þróun þjóðfélagsins.

Þegar við Íslendingar lítum í eigin barm og metum stöðu okkar í samanburði við aðra, ber hæst tunguna, söguna og náttúruna. Í okkar huga felst framlag okkar til evrópskrar menningararfleifðar í því að halda þessum sérkennum okkar fram.

Þegar dr. Sigurður Nordal fjallaði um íslenska menningu komst hann að þeirri niðurstöðu, að einsætt væri, hvað sitja skyldi í fyrirrúmi, þegar hugsað væri um skerf Íslendinga til heimsmenningarinnar. Þeir hefðu í bókmenntum og orðsins listum varðveitt og skapað varanleg verðmæti. Ætti að telja fram hið athyglisverðasta í fari þeirra, yrði það á því sviði. Ég tel, að við séum flest sama sinnis um þetta efni.

Þegar litið er á skilgreiningu á menningararfinum í evrópskum samningum, ber bókmenntir þar ekki hátt. Granada-samningurinn frá 1985 snýst um vernd byggingararfsins og Möltu-samningurinn frá 1992 er um vernd fornleifaarfsins. Frá íslenskum bæjardyrum séð er ekki nægilegt að miða við hinn hlutbundna menningararf. Þótt byggingararfur okkar og fornleifaarfur sé hluti hinnar evrópsku menningararfleifðar, er hið huglæga framlag okkar jafnvel merkilegra, bókmenntir, þjóðfræði og trúarbrögð. Vil ég þó alls ekki draga úr gildi þess, að við kostum kapps um að varðveita hinar sýnilegu minjar um þá lífsbaráttu, sem háð var á Íslandi við sérstæð og erfið skilyrði til sjós og lands.

Á vegum Árnastofnunar í Kaupmannahöfn er hafin útgáfa Orðabókar um hið norræna prósamál og er fyrsta bindi hennar komið út. Með hugtakinu norrænu máli er í raun vísað til íslenskunnar. Ætlunin er að gefa þessa miklu orðabók út í 11 bindum auk efnisyfirlits og á útgáfunni að verða lokið árið 2025. Vinnan við orðabókina hófst 1939 og hefur efnisöflun og skráning staðið í 50 ár. Orðskýringar eru bæði á dönsku og ensku. Orðabókina geta menn því notað um víða veröld, ekki aðeins þeir, sem vinna að tungumálum heldur einnig bókmenntamenn, mannfræðingar, fornleifafræðingar og aðrir, sem áhuga hafa á norrænum forfeðrum okkar.

Nýlega var skýrt frá þessu mikilvæga menningarframlagi í danska blaðinu Weekendavisen. Þar segir blaðamaðurinn Kirsten Rask meðal annars:

“Erlendir vísindamenn eru hrifnir af þessari dönsku útgáfu á hinni stóru norrænu orðabók - þeir telja það til marks um, að við leggjum rækt við menningararf okkar." Síðan er því velt fyrir sér til hverra þessi orðabók höfði, hver sé markhópur hennar. Þá er haft eftir einum ritstjóra bókarinnar, að um þessar mundir sé mikill áhugi meðal almennings á því, sem er norrænt.

Minnt er á í greininni, að verkið Fjórða kviða Guðrúnar hafi verið sýnt í flotkví í Kaupmannahafnarhöfn en tónlist þess samdi Haukur Tómasson. Louise Beck hugmyndasmiður sýningarinnar segist hafa skoðað hina yfirgefnu skipakví og haldið þaðan í Árnastofnun í Kaupmannahöfn, þar sem hún hafi fundið í Eddunum kvæðin um Guðrúnu rituð á kálfskinn. Í sýningarskrá er tekið fram, að Eddukvæðin séu rituð á íslensku og því til áréttingar eru þau birt á tungu okkar í skránni. Var áhugi mikill á að sjá verkið og sumir telja, að í flutningi þess hafi Kaupmannahöfn risið hæst sem menningarborg Evrópu.

Í hinu danska blaði er einnig minnt á, að Suzanne Bröggers hafi endursamið Völsupá og námsmenn í dönskum skólum hafi mikinn áhuga á Íslendingasögunum og Eddukvæðunum. Ekki megi gleyma því, að víkingahátíðir séu vinsælli en nokkru sinni fyrr, æ fleiri bæir efni til þeirra og margar fjöldskyldur kjósi að eyða sumarfríum sínum í víkingastíl, búi í sérbyggðum víkingabúðum, klæðist víkingaklæðnaði og þar fram eftir götunum.

Hinn danski blaðamaður lýkur umsögn sinni um orðabókina með þeirri fullyrðingu, að Danir leiti róta sinna æ meira í hinum norræna arfi á sama tíma og hin pólitíska þungamiðja í Evrópu færist nær miðju og suður á bóginn í álfunni.

Fyrir skömmu var hér sendinefnd frá Normandie í Frakklandi til að undirbúa þátttöku Íslendinga í menningarhátíð þar í nóvember næstkomandi. Á hún rætur í norrænu deildinni í háskólanum í Caen. Nefndarmenn gáfu mér veglega skrá um sögu og áhrif víkinga í Normandie, sem gefin var út í tilefni af mikilli víkingasýningu í Caen nú í sumar. Þar er meðal annars gerð grein fyrir Íslendingasögunum og Eddukvæðunum.

Á næstunni koma Íslendingasögurnar allar út í enskri þýðingu. Eru það einkaaðilar hér á landi, sem hafa af miklum dugnaði unnið að þessu stórvirki.

Góðir áheyrendur!

Fleira gæti ég nefnt til marks um það, að lifandi áhugi er á því að kynna þann hluta íslensku menningararfleifðarinnar, sem tengist bókmenntunum. Í mínum huga er ég sannfærður um, að danski blaðamaðurinn hefur rétt fyrir sér, þegar hann lýsir breyttu viðhorfi til norræna menningararfsins. Eftir síðari heimsstyrjöldina var hann tengdur grimmd þeirra, sem voru upphafsmenn hinna mannskæðu átaka. Viðhorfin eru að breytast og enginn getur með nokkrum rökum sýnt fram á tengsl milli þessarar arfleifðar og hins pólitíska óeðlis nasistanna.

Við Íslendingar þurfum að gæta að því, að hlutur okkar við varðveislu þessa menningararfs glatist ekki. Einnig skulum við minnast þess, að hlutur Íslendinga í evrópsku menningararfleifðinni takmarkast ekki við hinn heiðna heim fortíðarinnar. Þvert á móti er margt úr kristnum menningararfi okkar með þeim hætti, að einstætt er.

Dr. Kristján Eldjárn segir í ritgerð um Ufsakrossinn:

“Kristnin erfði hina gömlu, heiðnu menningu, hugsunarhátt, sögur og ljóð og allar listir. Á norskum stafkirkjum frá 11. og 12. öld eru skreytingar af rótum hinnar fornu skrautlistar Norðurlanda og myndir af atburðum úr heiðnum fornsögum. Steinkrossar á Englandi og eynni Mön eru vissulega hið heilaga, kristna tákn, þótt þeir séu skreyttir myndum af ekki kristilegri atburðum en viðureign Þórs við Miðgarðsorm. Á sama hátt skreyttu skáldin, sem fyrst reyndu að yrkja um kristileg efni, kvæði sín heiðnum líkingum og kenningum. Allt þetta yrði seint upp talið. Hin fyrsta kristna list hlaut hvarvetna að styðjast við heiðnar erfðir. Þess vegna er fullvíst, að fyrstu líkneskin, sem Íslendingar gerðu af Kristi, hinum nýja guði, hafa ekki líkst öðru meira en myndum Þórs og Óðins, þeim er fyrir skemmstu var steypt af stalli í hofunum. Þótt hinn nýi, útlendi guð væri óskyldur hinum gömlu goðum, þá var handbragð heimalandsins hið sama fyrir og eftir kristnitöku, og það hefur hlotið að setja sama svipmót á hvort tveggja."

Handbragðið var hið sama og hefur þróast með sínum hætti hér á landi og að ýmsu leyti annan en í nágrannalöndum, þótt viðfangsefnin verði æ líkari og fjarlægðir verði að engu. Þetta handbragð markar enn í dag hlut okkar Íslendinga í evrópskri menningararfleifð og fyrir það þurfum við ekki að skammast okkar.

Raunar bendir margt til þess, að nú á tímum höfum við orðið fyrri til en margir stærri nágrannar okkar að nýta okkur nýja tækni til að stuðla að menntun og menningu. Vísa ég í því efni til tölvutækninnar, sem ryður sér æ víðar rúms. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur verið mótuð sú stefna, að upplýsingatæknin verði nýtt til markvissrar kynningar og markaðssetningar á íslenskum listum og menningu erlendis. Þannig verði Ísland vel þekkt í fjölþjóðlegu menningarumhverfi. Lögð er áhersla á, að Íslendingar fylgist grannt með og verði virkir þátttakendur í því fjölþjóðlega samstarfi, sem fram fer á sviði upplýsingatækni í framtíðinni.

Þetta samstarf er ekki síst mikilvægt á þeim evrópska vísinda- rannsóknar- og menningarvettvangi, sem við höfum tengst með aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu.

Nú er unnið að því að undirbúa fimmtu rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og vísindi. Við Íslendingar tökum þátt í þessu samstarfi og leggjum fé af mörkum til þess. Einnig höfum við tækifæri til að leggja fram tillögur um áhersluatriði í næstu áætlun, þeirri fimmtu. Hef ég meðal annars lagt það til í bréfi til Edit Cresson, sem fer með vísinda- og rannsóknarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að í áætluninni verði gert ráð fyrir styrkjum til verkefna er lúta að menningararfinum, fjölbreytni hans og sérstaklega stöðu lítilla málsvæða.

Spyrja má, hvort ekki sé ástæða til þess hér á landi að koma á fót evrópsku menningarsetri, þar sem stunduð væru miðaldarfræði í svipuðu náttúrulegu umhverfi og fræðimenn fortíðar nutu, en þar sem nýjustu upplýsingatækni yrði beitt til að treysta alþjóðleg tengsl. Á slíkum stað væri unnt að stunda rannsóknir á fornleifum og örðum minjum. Finnst mér ástæða til að velta því fyrir sér, hvort í Reykholti í Borgarfirði mætti ekki stofna slíkt menningarsetur. Hvergi ætti það frekar heima en þar sem Snorri bjó forðum.

Vil ég hvetja til þess, að þeir, sem taka þátt í menningarsamstarfi Evrópuþjóða, hvort heldur á vettvangi Evrópuráðsins eða annars staðar , leggi á ráðin um það, hvernig best verði unnið að framkvæmd slíkrar hugmyndar.

Því ber að fagna, að Þjóðminjaráð samþykkti, að Íslendingar gerðust aðilar að samstarfi Evrópuráðsins um að halda menningararfsdaga. Um leið og það er tilefni til að líta í eigin barm eins og fjölmargir fyrirlesarar munu gera hér á eftir, gefur dagurinn tækifæri til að minna okkur á, að við höfum nú eins og áður margt til menningar Evrópu og heimsins alls að leggja.

Á þessu málþingi verða kynntar og ræddar tillögur um endurskoðað skipulag Þjóðminjasafns Íslands. Tillögur þessar eru nú til athugunar í menntamálaráðuneytinu, þar sem m.a. er kannað hvort framkvæmd þeirra krefjist breytinga á lögum og reglugerð. Ráðuneytið metur mikils þá vönduðu vinnu sem lögð hefur verið í undirbúning þessara tillagna og mun kosta kapps um að hraða umfjöllun um þær eftir föngum.