16.11.2010

ESB-viðræður að breytast í skrípaleik

Evrópuvaktin 16. nóvember 2010 - leiðari
Evrópuvaktin fékk það svar frá utanríkisráðuneyti Íslands í síðustu viku að það liti á viðræðuramma Evrópusambandsins sem einhliða yfirlýsingu af þess hálfu. Ísland væri ekki bundið af honum. Ráðuneytið færi eftir því sem segði í áliti meirihluta utanríkismálanefndar en ekki því sem kæmi frá framkvæmdastjórn ESB í Brussel.

Í framhaldi af þessu spurði Evrópuvaktin sendinefnd ESB í Reykjavík, hvað hún segði um þessa afstöðu utanríkisráðuneytisins. Svar barst frá sendinefndinni 15. nóvember, þar sem þannig er komist að orði að hún geri ekki „sérstakar athugasemdir“ við afstöðu utanríkisráðuneytisins til viðræðurammans. Evrópuvaktin beindi því til sendinefndarinnar að fengnu þessu svari, að orðalag hennar benti til þess að hún gerði einhverjar athugasemdir við íslenska utanríkisáðuneytið‘, hverjar þær væru.

Sama dag og sendinefnd ESB svaraði Evrópuvaktinni á þennan veg á Íslandi leitaði vefsíðan EUobserver í Brussel svara hjá stækkunarskrifstofu ESB í tilefni af hugmynd Ögmundar Jónassonar, dómsmálaráðherra, um tveggja mánaða harðferð í viðræðum við ESB. Svarið í Brussel var skýrt og afdráttarlaust. Íslendingar yrðu að hlíta viðræðuramma ESB. Á vefsíðunni sagði á ensku:

„Our general rules are very clear, and are the same for all candidates,“ enlargement spokeswoman Angela Filota told EUobserver: There is no short-cut and no fast-track negotiations. Each country joins when it is 100 percent ready.„

Á íslensku:

„Almennar reglur okkar eru mjög skýrar, og þær eru hinar sömu fyrir alla umsækjendur,“ sagði Angela Filota, talsmaður stækkunarskrifstofunnar, við EUobserver: Ekki er unnt að stytta sér leið eða stofna til hraðferðar í viðræðunum. Sérhvert land verður aðili þegar það er 100% tilbúið.“

Sama dag og Þorsteinn Pálsson, sem situr í ESB-viðræðunefnd Össurar Skarphéðinssonar, flytur erindi um á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll, vafalaust í því skyni að skýra fyrir þeim hve markvisst og snurðulaust þetta starf er undir styrkri forystu Össurar, hafa verið kynnt fjögur afbrigði af viðræðuferlinu. Tvö af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar og tvö af hálfu ESB.

Íslensku afbrigðin eru þessi:

  • 1. Utanríkisráðuneytið fer að vilja meirihluta utanríkismálanefndar alþingis og hefur viðræðuramma ESB að engu, þegar því hentar.
  • 2. Ögmundur Jónasson vill að viðræðurammi ESB sé að engu hafður og stofnað verði til hraðferðar í ESB-viðræðunum.

ESB-afbrigðin eru þessi:

  • 1. Sendinefnd ESB á Íslandi segist ekki gera „sérstakar athugasemdir“ við afstöðu íslenska utanríkisráðuneytisins til viðræðuramma ESB.
  • 2. Stækkunarskrifstofa ESB segir alla umsækjendur sitja við sama borð, þeir verði allir að hlíta reglum ESB og þar með viðræðuramma þess.

Enn á ný skal minnt á sameiginlegt höfuðmarkmið utanríkisráðuneytis Íslands og ESB: Að allt aðlögunarferlið sé gegnsætt og miðlað skuli haldgóðum upplýsingum, svo að enginn þurfi að velkjast í vafa um efni og stöðu viðræðna Íslands og ESB.

Hvernig væri að utanríkisráðuneyti Íslands og stækkunarskrifstofa ESB gerðu nú hlé á viðræðum sínum áður en þær breytast í enn meiri skrípaleik. Samhæfi skýringar sínar á því um hvað þær snúast og skýri fyrir íslensku þjóðinni, hvað felst í þeirri kröfu stækkunarskrifstofunnar að Ísland verði 100% að uppfylla kröfur ESB um aðild.