30.10.2010

Réttur strandríkis er skýr - vilja Íslendingar afsala honum?

Evrópuvaktin 30. október 2010 - leiðari
Viðkvæðið í umræðum um ESB og Ísland er gjarnan, að það sé sjálfsagður liður í lýðræðislegri þróun og umræðu, að menn ræði málið til lykta og síðan verði það lagt fyrir þjóðina til ákvörðunar. Við þetta er svo gjarnan bætt, að óvissuatriðin varðandi aðild séu svo mörg, að ógjörningur sé að gera sér grein fyrir málinu í heild, fyrr en niðurstaðan hafi verið kynnt í heild.

Þetta er áferðarfalleg skoðun. Hún er hins vegar álíka gáfuleg og að halda að þeir sem greiddu tvisvar atkvæði um Lissabon-sáttmálann á Írlandi, felldu hann í fyrra skiptið og samþykktu hann síðan, hafi skipt um skoðun, af því að þeir kynntu sér sáttmálann með því að lesa hann. Það er af og frá. Fólk skipti um skoðun vegna þess að andrúmsloftið var annað eftir hrun írsku bankanna en fyrir það auk þess sem írskir stjórnmálamenn sögðust hafa fengið viðurkennda fyrirvara af hálfu Íra. Einn þeirra snerist um hlutleysi Íra, ekki mætti beita írska hernum í þágu ESB-aðgerða nema til þeirra væri gripið í umboði Sameinuðu þjóðanna. (Þetta hefur verið túlkað hér á landi á þann veg að Írar þurfi ekki að stofna eigin her!)

Spurningarnar sem unnt er að svara varðandi aðild Íslands, án þess að sjá ESB-pakkann í heild í skrautbandi viðræðunefndanna, eru margar.

Ein spurninganna er þessi: Vilja Íslendingar búa í ríki sem ekki er strandríki samkvæmt alþjóðalögum? Ein helsta skrautfjöður íslensku utanríkisþjónustunnar hefur verið barátta Íslands með öðrum strandríkjum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fyrir rétti þeirra til að ráða yfir stórri lögsögu og landgrunni utan hennar. Nafn Hans G. Andersens, þjóðréttarfræðings, er órjúfanlega tengt þessari baráttu. Hann lagði merkan skerf af mörkum til hafréttarsáttmálans.

Gildi þess að búa í strandríki að alþjóðalögum birtist glöggt um þessar mundir, þegar deilt er um makrílveiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu. Um milljón tonn af makríl eru nú innan lögsögunnar. ESB og Noregur hafa neitað að viðurkenna Ísland og Færeyjar sem strandríki, þegar makríll er annars vegar. Íslenskum og færeyskum stjórnvöldum var haldið frá fundum fulltrúa ESB og Noregs, sjálfskipuðum strandríkjum gagnvart makríl. Sjávarútvegsráðherra Íslands ákvað þá að veiða mætti 130 þúsund tonn innan íslensku lögsögunnar. Í Færeyjum var ákveðið að leyfa 85 þúsund tonna veiði innan færeysku lögsögunnar.

Loks sáu stjórnendur Noregs og ESB að sér. Boðað var til viðræðufunda með fulltrúum Íslands og Færeyja. Tillaga Noregs og ESB hefur verið kynnt: Íslendingar veiði 26.000 tonn, 3,1% af heild, í stað 16% eða 130 þúsund tonna. Boðað er til þriðja fundarins í London um miðjan nóvember.

Íslensk stjórnvöld hafna að sjálfsögðu að samþykkja þetta smánarboð. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að sem strandríki og með vísan til hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sé sá kostur einn fyrir hendi að ákveða kvótann áfram einhliða.

Innan ESB yrði Ísland ekki lengur strandríki að þjóðarétti. ESB kæmi fram sem strandríki fyrir Íslendinga eins og fyrir Breta, Íra og Skota í makrílviðræðunum. Fulltrúar þeirra geta látið í sér heyra á fundum ráðherraráðs ESB en Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB frá Grikklandi, hefur samningsumboðið. Hún, stækkunarstjóri ESB og viðskiptastjóri ESB hafa hótað Íslendingum bréflega. Haldi þeir sig ekki á mottunni hafi það áhrif á önnur samskipti þeirra við ESB, les: aðlögunarviðræðurnar.

Væri Ísland í ESB og ekki lengur strandríki, þyrftu þessir þrír framkvæmdastjórar ekki að skrifa íslenskum stjórnvöldum á þennan veg. Ráðherraráð og framkvæmdastjórn ESB tækju einfaldlega ákvörðun um veiðikvóta Íslendinga. Makrílkvótinn yrði skorinn úr 130.000 tonnum í 26.000 tonn.

Eins og kunnugt er tekur Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, til við að ræða sérlausn Finna í landbúnaðarmálum, þegar þessi framtíð Íslands innan ESB-strandríkisins ber á góma. Skyldi íslenska utanríkisþjónustan hafa gleymt baráttu hennar og íslensku þjóðarinnar fyrir sterkri stöðu strandríkisins Íslands? Sé svo, er undirlægjuhátturinn í þágu ESB-aðildar algjör.

Vilji Íslendingar hætta að búa í strandríki samþykkja þeir aðild að ESB. Þetta er ekki flókið álitaefni. Engar aðlögunarviðræður við ESB breyta því.