2.12.2010

Óheilindi spilla utanríkisþjónustunni

Evrópuvaktin 2. desember 2010

Í leiðara Morgunblaðsins er í dag rætt um vaxandi skort á trúverðugleika utanríkisþjónustu Íslands. Í leiðaranum er minnt á, að 18. febrúar 2010 birti WikiLeaks frásögn af samtölum Einars Gunnarssonar, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, við Sam Watson, forstöðumann sendiráðs Bandaríkjanna hér á landi, um miðjan janúar 2010, þar sem ráðuneytisstjórinn sagði Ísland verða gjaldþrota árið 2011, ef Icesave-málið drægist á langinn.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, brást í fyrstu á þann veg við fréttum af þessum leka, að hann sagðist fagna því, hve starfsmenn hans hefðu verið orðhvatir, enda hefði hann sjálfur verið mjög æstur vegna Icesave-málsins á þessum tíma í janúar, rúmri viku eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hefði neitað að skrifa undir Icesave-lögin. Ekki hefði verið ámælisvert af Hjálmari W. Hannessyni, sendiherra Íslands í Washington, að segja forseta Íslands óútreiknanlegan.

Össur var ekki lengi í þessum stellingum. Hann skipti fljótlega um gír og tók að tala á þann veg gjalda ætti varhug við frásögn bandaríska embættismannsins, hún væri skráð af einum manni eftir minni.

Undir þrýstingi frá Össuri í Icesave-málinu urðu embættismenn íslenska utanríkisráðuneytisins sér til skammar í samtölum við bandaríska embættismenn. Fyrst vildi Össur styðja við bakið á sínum mönnum. Þegar hann skynjaði að málstaðurinn var vonlaus beindi hann spjótum sínum að boðbera hinna válegu tíðinda, bandaríska embættismanninum.

Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins spáði gjaldþroti Íslands árið 2011 hefur ekki verið samið um Icesave-málið. Að það stuðli að gjaldþroti Íslands er fráleitt.

Utanríkisráðuneytið ber ábyrgð á stjórn viðræðna Íslands við Evrópusambandsins. Í þeim málatilbúnaði öllum sjá menn sömu taktana og birtust í WikiLeaks-skjölunum vegna Icesave. Utanríkisráðuneytið skipar sér í lið með ESB og lýtur kröfum þess í einu öllu um framgang mála, þótt látið sé í veðri vaka að það fari sínu fram og sé óbundið af viðræðuramma ESB.

Reiði formanns viðræðunefndar Íslands við ESB í garð forráðamanna íslenskra bænda stafar af því, að bændahöfðingjar vilja ekki beygja sig undir kröfur ESB. Þeir standa á rétti sínum. Allir Íslendingar sem gera það gagnvart ESB skapa Össuri Skarphéðinssyni vandræði. Fram hjá vandræðunum verður ekki komist með því að ráðherrann gefir embættismönnum fyrirmæli um að beita blekkingum .

Sú spurning verður æ áleitnari hve langt embættismenn eru tilbúnir að ganga til að þjóna málstað sem á sér síminnkandi hljómgrunn meðal þjóðarinnar og verður ekki málstaður utanríkisráðherra lengur en hann telur sig hafa persónulega gagn af honum. Í janúar tók það Össur fjóra daga að hlaupa frá stuðningi við stóryrði embættismanna sinna og hefja gagnrýni á Bandaríkjamenn. Hve langur tími líður þar til að hann áttar sig á ESB-ógöngum sínum? Á sömu stundu og það gerist skilur hann embættismenn og alla viðræðunefndarhjörðina eftir í sökkvandi skipi – og án trúverðugleika fari svo fram sem horfir.