4.12.2010

Króatar snúast gegn ESB

Evrópuvaktin 4. desember 2010 - leiðari

Í byrjun júlí sl. fór Össur Skarphéðinsson í opinbera heimsókn til Króatíu til að stilla saman strengi með stjórnvöldum þar vegna umsóknar ríkisstjórnar landsins um aðild að ESB. Umsókn Króata lá lengi óafgreidd hjá ESB vegna þess að Slóvenar vildu ekki sætta sig við afgreiðslu hennar. Deila þjóðanna snerist um markalínu undan ströndum landa þeirra í Adríahafi. Hún leystist í byrjun júní sl.þegar Slóvenar samþykktu með naumum meirihluta að gerðardómur skæri úr henni.

Eftir niðurstöðuna í Slóveníu var látið eins og Króatar næðu því markmiði sínu að komast í ESB árið 2012. Fór ekki á milli mála að í Zagreb lagði Össur drög að samleið með króatískum stjórnvöldum inn í fyrirheitna landið. Ríkisstjórnum Íslands og Króatíu er ljóst að stjórnendum ESB fellur best að taka við nýjum ríkjum í kippum. Til þessa hefur verið litið þannig á að Ísland og Króatía yrðu í næstu kippu.

Króatar eru ekki á hraðferð í ESB, eins og fram kom í frétt hér á síðunni í gær. Króatar hafa ekki lagað sig að kröfum ESB. Þeir hafa ekki ráðist gegn spillingu, ekki bætt stjórnsýslu sína, ekki ráðist í umbætur á dómskerfinu og ekki heldur leyst markaðsöfl úr læðingi með því að lögfesta reglur um samkeppni og hrinda þeim í framkvæmd.

ESB-aðlögun Króata gengur svo illa, að ekki er lengur rætt um dagsetningar varðandi aðild þeirra. Þá er meirihluti Króata einfaldlega andvígur aðild að Evrópusambandinu samkvæmt könnun Gallups. Króatar óttast að verðmætt land á strönd landsins verði selt og einnig að ESB muni skipta sér af ferðamannaþjónustu og fiskveiðum á nær 1000 km langri Adríahafsströnd landsins. Ríkisskuldir Króatíu eru um 37% af landsframleiðslu sem er mun lægra hlutfall en hjá Írum, Grikkjum, Spánverjum og Portúgölum, vandræðabörnum ESB. Króatar vilja ekki lenda í samskonar skuldasúpu og þessar evru-þjóðir.

Fréttir af Króatíu bera þó með sér, að Stefan Fühle, stækkunarstjóri ESB, láti þetta ekkert á sig fá. Hann lýsti bjartsýni í nýlegri ferð sinni til Zagreb og sagði: „Aðildarviðræðurnar eru á lokastigi. Aðild er í sjónmáli. Í maraþonhlaupi eru síðustu metrarnir oft erfiðastir.“

Setningarnar hljóma álíka og boðskapurinn sem ESB-aðildarsinnar flytja yfir okkur hér á landi. Fühle, stækkunarstjóri, hefur ekki enn sótt okkur heim. Hann mundi örugglega tala á sama veg og í Zagreb eftir að hafa hitt Össur og embættismenn hans.

Stækkunardeildin ætlar auðvitað að snúa Króötum til fylgis við ESB-aðild í tæka tíð fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þótt hún þurfi lengri tíma til þess en upphaflega var ætlað, skiptir ekki höfuðmáli. Deildin lítur sömu augum á Ísland: Þetta er bara spurning um tíma og peninga.