24.4.1996

Upplýsingatækni og bókasöfn - Bókís

Ræða á fundi hjá Bókís, notendafélagi Fengs
24. apríl 1996

Góðir áheyrendur!

Umræða um bókasöfn í upplýsingasamfélagi framtíðar einkennist af þversögnum. Á meðan sumir telja að vægi bókasafna fari þverrandi segja aðrir að mikilvægi þeirra aukist. Efasemdir um framtíð bókasafna felast meðal annars í því að menn telja það úrelt vinnubrögð að safna saman bókum í húsakynnum sem hafa takmarkaðan afgreiðslutíma. Þess í stað eigi að vista þær í gagnabönkum sem menn hafi aðgang að frá heimilum, skólum eða vinnustöðum á öllum tímum sólarhringsins. †msar ástæður hafa verið fyrir þessum áhyggjum manna af framtíð bókasafna. Útlánatölur safnanna lækkuðu töluvert á tímabili. Ólíkar skýringar hafa verið nefndar en ein þeirra var til dæmis myndbandatækjaeign heimilanna. Ef litið er á tölur yfir útlán bókasafna undanfarin ár hefur þróunin verið sú að á árunum 1981-1988 fækkaði þeim jafnt og þétt en síðastliðin fjögur ár hefur þeim aftur fjölgað þó að enn séu þau töluvert færri en þau voru fyrir liðlega áratug. Nýjustu tölur frá árinu 1994 sýna aukningu í útlánum frá árinu 1993.

Þeir sem hafa áhyggjur af framtíð bókasafna líta á starfsemi þeirra frá of þröngu sjónarhorni og orðið ,,bókasafn" endurspeglar í raun tímamótin í starfsemi þeirra. Bækur sem upplýsingamiðill gegna enn mikilvægu hlutverki en aðrir miðlar skipta æ meira máli. Fjölmiðlar, myndbönd og tölvur eru dæmi um miðla sem hafa verið að hasla sér völl. Á flestum heimilum eru til myndbandstæki og á æ fleiri heimilum verður tölvunotkun algeng. Á þessum tímamótun geta bókasöfn farið tvær leiðir. Þau geta hafnað hinum nýju miðlum og haldið áfram að vera bókasöfn í hinni upprunalegu merkingu. Hin leiðin er sú að bókasöfn leggi áherslu á að vera alhliða upplýsingamiðstöðvar þar sem jöfn áhersla er lögð á upplýsingamiðlun með bókum, geisladiskum, myndböndum eða tölvum. Útlánatölur bókasafna endurspegla að einhverju leyti þessa þróun því önnur útlán en bækur, svo sem myndbönd og hljóðbækur, hafa aukist hlutfallslega meira undanfarin ár. Sem betur fer hafa mörg bókasöfn gert sér grein fyrir mikilvægi þess að þau þrói starfsemi sína með notkun upplýsingatækni. Sum þeirra hafa haft tækifæri til að bæta tækjakost sinn til að geta sinnt nýrri tækni en önnur eru enn af vanefnum búin.

Tækjavæðing bókasafna er ekki markmið í sjálfu sér. Markmiðið með notkun upplýsingatækni á bókasöfnum er að hlutverk þeirra verði áfram að efla frjálsan og óheftan aðgang almennings að upplýsingum og þekkingarmiðlum og að stuðla að lýðræðislegri þátttöku almennings í mótun samfélagsins. Nýtt hlutverk bókasafna er því til dæmis það að tryggja jafnan rétt borgaranna að upplýsingum. Bókasafnið á til dæmis að veita almenningi aðgang að tölvuaðstöðu. Þannig geta þeir sem ekki hafa aðgang að tölvum annars staðar stundað fjarnám á bókasafninu eða rætt þar við vini og kunningja í gegnum Internetið.

Í mínum huga getur upplýsingatæknin þannig aukið mikilvægi bókasafna í nútímaþjóðfélagi auk þess sem hún getur greitt einstaklingunum aðgang að þeim gersemum sem bókasöfnin hýsa. Ágætt dæmi um það er bókasafn Vatíkansins sem hefur verið flestum lokað. Einungis fræðimenn með góð meðmæli og ærna ástæðu til að sækja safnið hafa fengið leyfi til þess. Nú er hins vegar búið að setja safnið á Internetið og því má segja að það sé orðið að nokkurs konar almenningsbókasafni þó að enn um sinn hafi menn aðallega aðgang að spjaldskrá safnsins í gegnum netið.

Á þessum fundi er mér ætlað að gera grein fyrir stefnu hins opinbera í upplýsingamálum. Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur undanfarna mánuði farið fram stefnumótun um upplýsingatækni og á hún meðal annars að stuðla að því að bókasöfn og aðrar mennta- og menningarstofnanir færi sér upplýsingatækni í nyt.

Í janúar var mér afhent skýrsla og tillögur nefndar um tengingu íslenskra bókasafna í stafrænt upplýsinganet og í byrjun mars kom út ritið ,,Í krafti upplýsinga" sem eru tillögur menntamálaráðuneytisins um hvernig skuli nýta upplýsingatækni í menntakerfinu og menningarlífinu.

Í þeim hugmyndum sem unnar hafa verið á vegum ráðuneytisins undanfarna mánuði er bókasöfnum ætlað veigamikið hlutverk við að innleiða upplýsingatækni og veita almenningi, skólum og rannsóknastofnunum aðgang að upplýsingalindum heimsins. Þar kemur meðal annars fram að markmið almenningsbókasafna sé að efla lýðræði, jafnrétti, athafnafrelsi, alþýðumenntun og velferð borgaranna. Með starfsemi þeirra sé unnt að jafna aðstöðu fólks til þess að afla sér upplýsinga, þekkingar og afþreyingar og koma þar með í veg fyrir að ójöfnuður skapist í þessu tilliti. Skólasöfn eigi að tryggja að nemendur læri að nýta hvers kyns upplýsingatækni við upplýsingaleit og geti unnið sjálfstætt og skipulega úr mismundandi gögnum. Auk þess eigi rannsóknabókasöfn að greiða fyrir upplýsingastreymi og þekkingarmiðlun í þágu rannsókna.

Gerðar hafa verið tillögur um hvernig stuðla beri að því að bókasöfn geti gegnt hlutverki sínu sem alhliða upplýsingamiðstöðvar. Meðal annars er lagt til að tækjakostur þeirra verði bættur. Mikilvægi samstarfs og samræmingar er undirstrikað, bæði af hálfu embættis bókafulltrúa ríkisins og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Lögð er áhersla á menntun bókasafnsfræðinga og ófaglærðra bókavarða, t.d. með fjarnámi.

Ein þeirra tillagna sem settar hafa verið fram er að sett verði á laggirnar sérsök kjarnabókasöfn sem samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga. Þannig á að byggja upp í ákveðnum bókasöfnum sérþekkingu og reynslu í nýtingu upplýsingatækni í þágu almennings. Gert er ráð fyrir að kjarnasöfn verði fyrirmynd annarra bókasafna hvað varðar beitingu upplýsingatækni í þjónustu við almenning. Lagt er til að tryggt verði að ekki sé alltaf um sömu bókasöfn að ræða en í tillögunum er gert ráð fyrir að fyrstu kjarnabókasöfnin taki til starfa á næsta ári.

Í skýrslu nefndarinnar um tengingu bókasafna við stafrænt upplýsinganet er nákvæm lýsing á því hvernig bókasöfnin tengjast og ítarleg umfjöllun er um bókasafnskerfin Gegni og Feng. Niðurstaða nefndarinnar var meðal annars sú að þessi tvö samskrárkerfi ættu að starfa hlið við hlið og að ekki væri ástæða til að steypa þeim saman. Bókasöfn landsins ættu að leggja samskrárupplýsingar inn í annað hvort kerfið. Nefndin taldi það ekki vera í verkahring sínum að setja fram fyrirmæli um hvort kerfið bókasöfn skuli nýta, það yrðu þau sjálf að meta. Hins vegar yrði auðveldara fyrir þessi tvö kerfi að eiga samskipti þegar þau hefðu bæði tekið í notkun staðalinn Z39.50. Einnig gerði nefndin tillögu um að stærstu almenningsbókasöfnin yrðu styrkt til tölvukaupa og til að starfsmenn þeirra fengju fræðslu.

Skýrsla þessi hefur verið til athugunar innan menntamálaráðuneytisins undanfarnar vikur. Framkvæmd tillagna í henni kallar á breytingar á lögum um almenningsbókasöfn.

Í kjölfar skýrslunnar hafa meðal annars vaknað spurningar um hvernig hægt sé að auka samræmingu og hagræðingu meðal bókasafna. Nú er það ýmist svo að bókasöfn tengjast hvorki Gegni né Feng heldur hafa þau sjálf byggt upp sín eigin litlu kerfi og eru ekki í tengslum við önnur bókasöfn. Hluti safnanna tengist Gegni og greiða ekki fyrir það en þau söfn sem tengjast Feng kaupa áskrift af SK†RR.

Þær spurningar sem ég hef fengið eftir útkomu skýrslunnar eru meðal annars þær hvort unnt sé að jafna stöðu þeirra bókasafna sem annars vegar hafa aðgang að Gegni og hins vegar þeirra sem tengjast Feng. Þar á meðal hafa menn varpað fram þeirri spurningu hvort ríkið geti tekið að sér að greiða kostnaðinn sem bókasöfnin bera vegna tengingar við Feng. Ég geri ráð fyrir að á þessum fundi í notendafélagi Fengs séu menn frekar hlynntir þeirri lausn en það verður hins vegar að hafa í huga að það er ekki hlutverk ríkisvaldsins heldur sveitarfélaganna að reka bókasöfn. Það að ríkið taki að sér að greiða rekstrarkostnað vegna tenginga bókasafna er ekki í samræmi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði. Sveitarfélögin bera alfarið ábyrgð á rekstri safnanna. Auk þess væri varla eðlilegt að með því að styrkja bæði rekstur Gegnis og Fengs stuðlaði ríkisvaldið að því að áfram væru rekin tvö samskrárkerfi í svo litlu landi. Ljóst er að æskilegt hefði verið ef bókasöfn landsins hefðu sameinast um að skrá gögn sín í eitt kerfi og jafnframt unnið að því að rekstur þess hefði orðið sem hagkvæmastur. Þannig hefði mátt koma í veg fyrir margskráningu gagna.

Í gær kynnti ég í ríkisstjórn og gekk síðan frá samningi við Íslenska menntanetið um að menntakerfið taki að sér þá þjónustu sem fyrirtækið hefur hingað til boðið skólum. Meginmarkmiðið með rekstri þess er að tengja saman aðila í skólastarfi, að stuðla að þekkingaröflun og jafnrétti nemenda í litlum og stórum skólum, í dreifbýli og þéttbýli. Í gegnum eitt net á að vera hægt að nálgast all flesta skóla landsins en stefnt er að því að þeir verði allir tengdir Íslenska menntanetinu. Ráðuneytið hefur þannig stuðlað að því að ákveðið samræmi sé í nettengingu menntastofnana en gert er ráð fyrir að reksturinn standi undir sér með því að skólanir greiði fyrir þá þjónustu sem veitt er.

Sé tekið mið af þessu fyrirkomulagi ætti að draga þá ályktun að eðlilegt sé að menntamálaráðuneytið stuðli að ákveðinni samræmingu og samvinnu en að bókasöfnin sjálf greiði fyrir þann aðgang sem þau hafa að gagnabönkum eða fyrir nettengingar. Sveitarfélög verða að sýna þann metnað í rekstri safnanna að þau geti tekið þátt í samstarfi bókasafna sem hlýtur að fela í sér hagræði fyrir söfnin.

Til að fylgja þeirri stefnumótun eftir sem ég hef nú kynnt tel ég að fyrsta skrefið sé að vinna að því að kjarnabókasöfn taki til starfa. Í því skyni hef ég nú sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga bréf þar sem óskað er eftir viðbrögðum sambandsins við þeim hugmyndum sem hér hafa verið reifaðar. Hvort sambandið sé sammála þessum hugmyndum, hvernig það sjái framkvæmdina fyrir sér og hvaða hugmyndir það hafi um samvinnu sambandsins og menntamálaráðuneytisins á þessu sviði. Mikilvægt er að ríkisvaldið og sveitarfélögin vinni sameiginlega að því að koma þessari stefnumótun í framkvæmd þannig að kjarnabókasöfn geti tekið til starfa á næsta ári.

Góðir áheyrendur!

Breytt samfélag kallar á það að mikilvægar stofnanir samfélagsins taki einnig breytingum. Upplýsingatækni felur í sér róttækar breytingar á atvinnuháttum, samskiptum manna, menntun og raunar flestu öðru að ófáar stofnanir munu komast hjá því að nýta sér hana til fulls til að fylgja þróuninni eftir. Bókasöfn eru meðal þeirra stofnana sem einna mest munu breytast. Áfram verða þau lykill að þekkingu en hún eða upplýsingar munu berast eftir mun fjölbreyttari leiðum en áður. Frammistaða bókasafna verður ekki mæld í útlánum bóka heldur frekar í umfangi þeirra upplýsinga sem þau veita viðskiptavinum sínum.

Íslendingar hafa staðið sig ágætlega á þessu sviði. Hér á landi hefur upplýsingatæknin til dæmis nýst betur í menntakerfinu en í mörgum öðrum löndum. Það væri því metnaðarlaust ef bókasöfn fengju ekki tækifæri til að þróast í þær upplýsingamiðstöðvar sem hugmyndir eru um. Ekki dugar að láta Vatíkanið, sem er nú frekar þekkt fyrir íhaldssemi en nútímavæðingu, vera á undan íslenskum bókasöfnum að nýta sér nýja tækni.

Til þess að stefnumótun stjórnvalda nái fram að ganga er mikilvægt að stofnanirnar sem undir ráðuneytin heyra sýni ákveðið frumkvæði. Þær verða líka að sýna þann styrk sem í þeim býr en það gera þær fyrst og fremst með samvinnu. Náist að skapa góða samvinnu á milli ríkisvalds, sveitarfélaga og bókasafna efast ég ekki um að íslensk bókasöfn geti haldið með reisn áfram inn í 21. öldina.