29.3.1996

Lesið í ísinn - ávarp á Grænlandssýningu

Opnun sýningarinnar "Lesið í ísinn", um rannsóknir á Grænlandsjökli.
í Perlunni, Reykjavík, 28. mars 1996

Sú stórfróðlega sýning sem hér er að hefjast varpar nýju og nýstárlegu ljósi á söguleg tengsl Íslands og Grænlands. Hið mikla grannland í vestri var Íslendingum löngum lítt kunnugt eftir að nokkurra alda búseta norrænna manna þar í landi leið undir lok. Á síðustu áratugum hafa samskipti milli landanna hafist á nýjum grunni og fara nú ört vaxandi sem betur fer.

Áhugi okkar á fyrri tíðar sögu Grænlands hefur að vonum beinst mjög að því að verða einhvers vísari um líf og örlög þeirra Íslendinga sem festu þar byggð að fordæmi Eiríks rauða. Þær rannsóknir sem þessi sýning greinir frá hafa hins vegar leitt í ljós, betur en áður var vitað, að á Grænlandi má afla mikilvægrar vitneskju um liðinn tíma í okkar eigin landi og í öllum okkar heimshluta, og þá ekki aðeins um þá stuttu stund sem liðin er frá dögum Eiríks rauða heldur óralangt aftur fyrir upphaf byggðar á Íslandi.

Okkur Íslendingum hefur löngum verið tamt að gera ráð fyrir því að vitneskju um fortíðina væri einkum að leita í rituðum heimildum og við teljum okkur það til gildis hvað forfeður okkar voru iðnir við að færa ýmsan fróðleik í letur. En þekkingin verður ekki eingöngu fundin í bókum, heldur býr hún á svo ólíklegum og torsóttum stöðum sem í iðrum Grænlandsjökuls. Það þarf hins vegar áræði, hugvit og tækni til að sækja hana þangað. Það er ánægjuefni, að íslenskir vísindamenn hafa átt góðan hlut að því mikla verkefni.

Minnist ég þess á dögunum, þegar ég heimsótti Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, að þá sýndu menn mér með stolti niðurstöður þessara rannsókna, sem hér eru kynntar og lýstu aðild sinni að þeim. Athygli vekur, hve loftslagið hefur verið stöðugt undanfarin 10.000 ár og áhyggjur, að slíkt er fremur undantekning en regla.

Danska sendiráðið á þakkir skilið fyrir forgöngu um að fá hingað til lands þessa sýningu sem komið var upp á vegum danska mennta- og vísindamálaráðuneytisins. Ég er þess fullviss, að Íslendingar munu kunna vel að meta tækifærið til að fræðast um þær merkilegu rannsóknir sem hér eru kynntar.