9.3.1996

Árshátíð Heimdallar - ávarp

Ávarp á árshátíð Heimdallar í Þjóðleikhúskjallaranum
9. mars 1996

Ágætu Heimdellingar !

Við Rut þökkum ykkur fyrir að bjóða okkur að vera heiðursgestir hér á árshátíð ykkar í kvöld. Við minnumst þess með ánægju, þegar við vorum á hátíðinni fyrir fáeinum árum í tilefni af því, að ég var tilnefndur þingmaður ársins. Þá hittumst við í Valhöll en nú hafið þið flutt hátíðina hingað í Leikhúskjallarann. Sem ráðherra menningarmála fagna ég því framtaki. Bilið á milli leiklistar og stjórnmála er ekki alltaf stórt, þótt við stjórnmálamenn heyjum orrustur okkar í veruleika samtímans en ekki á leiksviði.

Rut er nýkomin úr miklu ferðalagi með Sinfóníuhljómsveit Íslands til Bandaríkjanna. Þar var hljómsveitin mæld með alþjóðlegri stiku og fékk mjög góða dóma hjá þeim, sem á hvað mest undir sér af þeim, sem rita um músík í bandarísk stórblöð, tónlistargagnrýnanda The New York Times. Ef marka má niðurstöðu hans er Sinfóníuhljómsveitin okkar í fremstu röð. Hljótum við öll að fagna því, meira að segja einnig þeir Heimdellingar, sem vilja að ríkið hætti að leggja fé af mörkum til hljómsveitarinnar.

Ég er ekki talsmaður meiri ríkisafskipta af menntun og menningu en nauðsynleg eru til þess að við getum búið hér við sambærilegar aðstæður og bestar eru annars staðar. Þær sköpum við ekki á þessum mikilvægu sviðum án þess að um sameiginlegt átak sé að ræða. Á þeirri forsendu finnst mér, að við sjálfstæðimenn eigum að ganga fram, þegar hugað er að þeirri staðreynd, að engir aðrir en Íslendingar leggja rækt við íslenska menningu. Engir aðrir en við halda henni á loft í samfélagi þjóðanna. Til þess að það sé gert þurfum við öflugar stofnanir á borð við Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á vettvangi þeirra geta íslenskir listamenn fengið tækifæri til að sýna og sanna hvað í þeim býr.

Gildi Heimdallar verður aldrei metið til fulls, hvorki fyrir Sjálfstæðisflokkinn né íslenskt stjórnmálalíf almennt. Ykkar félag er í senn tilraunastofa nýrra stjórnmálahugmynda og vettvangur, þar sem menn geta hlotið þjálfun til frekari þátttöku í félagsmálum og stjórnmálum. Síðast en ekki síst er Heimdallur félag, sem allir sjálfstæðismenn líta til með stolti og andstæðingar okkar óttast eins og brýst fram í því, þegar þeir nota hugtökin Heimdallarstrákar eða Heimdallarstelpur til að láta í ljós lítilsvirðingu. Segir það meira um innræti þeirra, sem þannig tala, en ykkur, sem í Heimdalli starfið.

Hugmyndfræðileg barátta er langvinn. Hún ber ekki árangur nema menn séu séu til þess búnir að fylgja henni fram skipulega og með málefnalegum rökum. Í stjórnmálum gildir hið sama herfræðilega lögmál og í vopnuðum átökum, að sá sýnir mesta snilld, sem sigrar án þess að beita vopnum sínum.

Með þessa staðreynd í huga þótti mér fagnaðarefni að lesa stjórnmálaskýringu eða greiningu Páls Vilhjálmssonar, ritstjóra Vikublaðsins, málgagn Alþýðubandalagsins, í blaðinu fyrir tveimur vikum.

Fyrirsögnin var þessi: Sjálfstæðisflokkurinn: Sigur án orrustu. Þar segir, að flokkur okkar hafi endurnýjað hugmyndagrundvöll sinn í lok áttunda áratugarins og búið til orðræðu, sem móti alla stjórnmálaumræðu um þessar mundir. Orðrétt segir: "Á meðan sjálfstæðismenn sögðu frjálshyggjusöguna um borg og bí í hálfan annan áratug höfðu vinstrimenn enga sögu að segja." Og ritstjóri málgagns Alþýðubandalagsins hnykkir á skoðun sinni með þessum orðum: "Tilraun Alþýðubandalagsins með Útflutningsleiðina fyrir síðustu kosningar var fremur aðgerðaráætlun ríksistjórnar en endurnýjun á hugmyndafræði. Útspil Alþýðuflokksins, ESB-umsóknin, var örvænting flokks sem var siðferðilega launaður í upphafi kosningabaráttu.

Að fá slíkan dóm frá andstæðingi er ekki lítils virði, þótt um alþýðubandalagsmann sé að ræða og því ástæða til að setja á stundum að minnsta kosti spurningarmerki við dómgreindina.

Boðskapur minn með þessu til ykkar góðir áheyrendur er hins vegar þessi:

Haldið áfram að vera vettvangur frjórra umræðna um hugmyndafræðileg úrlausnarefni stjórnmálanna. Látið ekki hugfallast, þótt ég eða aðrir hafi ekki á þessari stundu skilning á öllu, sem þið hafið fram að færa. Aðalatriðið er að halda áfram að segja frjálshyggjusöguna og láta hana áfram ýta öðrum stjórnmálasögum til hliðar.

Á sínum tíma, þegar aðrir fjölluðu um efnahagsmál og ríkisrekstur var ég einkum að sinna utanríkismálum, öryggis og varnarmálum. Mig dreymdi aldrei um það, að Sovétríkin myndu liðast í sundur, Varsjárbandalagið hverfa og kommúnisminn yrði almennt viðurkenndur sem helstefna á borð við nasismann. Þið munið eftir þeim þáttaskilum ekki síður en ég.

Góðir Heimdellingar !!

Sagan kennir okkur, að forverar ykkar hafi haft rétt fyrir sér í grundvallaratriðum. Hygmyndafræði Heimdallar hefur sigrað á samkeppnisvettvangi hugmyndanna. Sjálfstæði Íslands hefur verið tryggt og jafnframt sjálfstæði Íslendinga. Ég skora á ykkur að halda áfram á sömu braut. Hafa áfram undirtökin og sigra án þess að heyja blóðugar orrustur.