15.11.1997

Málræktarþing 1997

Málræktarþing
15. nóvember 1997

Íslenskt skólakerfi ræður yfir öflugu tölvuneti, sem rekið er af Íslenska menntanetinu. Menntamálaráðuneytið vinnur nú að því að koma á fót sérstöku menningarneti, sem tengir íslenskar menningarstofnanir. Í tengslum við endurskoðun aðalnámskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla verður unnið að svonefndu þekkingarneti, sem auðveldar nýtingu upplýsingatækni og margmiðlunar í almennri kennslu.

Hér komum við saman á málræktarþingi í dag til þess að opna nýjan orðabanka Íslenskrar málstöðvar og ræða um þýðingar á íslensku.

Í tíð minni sem menntamálaráðherra hef ég lagt mikla áherslu á nýtingu tölvu-, margmiðlunar- og upplýsingatækninnar í þágu íslenskrar menningar og menntunar.

Menntamálaráðuneytið kynnti tillögur sínar í þessu efni í ritinu Í krafti upplýsinga í mars 1996. Þar birtast meðal annars eftirfarandi markmið:

Staðinn verði vörður um íslenska tungu í upplýsingasamfélaginu og tryggt að tungumálið fái að þróast í samræmi við íslenska málstefnu.

Hvatt verði til að íslenskt efni verði í auknum mæli á boðstólum á tölvutæku formi.

Nýyrðasmíð sem tengist upplýsingatækni og tölvuvæðingu verði efld.

Algengustu gerðir hugbúnaðar verði íslenskaðar.

Á öllum þessum sviðum hefur okkur miðað fram á veginn. Vitundin um að hin nýja tækni eigi að nýtast móðurmálinu en ekki ógna því er skýr og ótvíræð.

Framtak Íslenskrar málnefndar með orðabankanum fellur vel að stefnu ráðuneytisins í þessu efni.

Orðabankahugmyndin hefur verið lengi á döfinni og tæknin gerir okkur nú kleift að hrinda henni í framkvæmd á þann veg, að allir, sem aðgang hafa að netinu, geta nýtt sér þjónustu bankans.

Í gær lagði ég þá tillögu fyrir ríkisstjórnina, að mér væri heimilað að rita undir samning við Íslenska málstöð, sem miðar að því að styðja hana við rekstur og uppbyggingu orðabankans með því að greiða tímabundna áskrift fyrir menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi. Er gert ráð fyrir, að greiðslur menntamálaráðuneytisins verði 3,2 milljónir króna árið 1999 og 2,5 milljónir króna árið 2000. Eftir árið 2000 er orðabankanum ætlað að standa undir rekstrarkostnaði með áskriftargjöldum eða öðrum sértekjum. Er skemmst frá því að segja, að ríkisstjórnin samþykkti þessa tillögu.

Á þessum forsendum er ætlunin að undirrita hér í dag samning til þriggja ára milli menntamálaráðuneytisins og Íslenskrar málstöðvar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um árangursstjórnun í ríkisstofnunum. Er þetta fyrsti slíki samningurinn, sem menntamálaráðuneytið gerir við stofnun á sviði menningarmála.

Gildi orðabankans er ótvírætt fyrir alla, sem fjalla um sérfræðileg efni á íslensku í ræðu og riti. Sjálfur hef ég fengist nokkuð við þýðingar bæði sem blaðamaður og endranær. Er mér vel ljóst, hve mikilvægt er að hafa góð tæki við höndina í því skyni að skila góðum árangri. Minnist ég þess, eftir að stóra ensk-íslenska orðabókin kom út, að þýðingar á erlendum fréttum í dagblöðum og útvarpi urðu skýrari og markvissari. Menn fundu orð til að lýsa samtímaviðburðum á öllum sviðum. Tungumálið úreldist eins og annað og fyrir þýðendur, kennara, nemendur, fjölmiðlafólk og alla aðra, sem hafa tungumálið sem atvinnutæki, er orðabanki ómetanlegt hjálpartæki.

Tölvutæknin auðveldar mjög notkun tungumálsins. Markmið okkar Íslendinga á í senn að vera að koma sem mestu inn á netið um menningu okkar og sögu jafnframt því, sem við sjáum til þess, að við getum unnið í íslensku umhverfi, þegar við notum tölvur okkar.

Í stefnu menntamálaráðuneytisins um upplýsingatæknina er að finna það markmið, að notendaskil Windows-stýrikerfisins verði á íslensku. Í greinargerð fyrir þessari stefnumörkun segir meðal annars:

“Árið 1993 markaði menntamálaráðuneytið þá stefnu að kosta einungis útgáfu hugbúnaðar fyrir DOS/Windows. Þessi stefna ráðuneytisins er enn í gildi. Þetta hefur orðið til þess að hlutfall DOS/Windowsvéla í skólum vex stöðugt. Sá böggull fylgir þó skammrifi að Windows-stýrikerfið sem fylgir tölvum sem keyptar eru á Íslandi er á ensku. Þetta leiðir til þess að tölvuumhverfi íslenskra skólabarna er á ensku. Þessu þarf að breyta."

Segja verður þá sögu eins og hún er, að erfiðlega hefur gengið að ná þessu markmiði. Þar er glímt við fyrirtæki auðugasta manns heims, Microsoft í eigu Bills Gates.

Skömmu eftir að menntamálaráðuneytið hafði mótað þessa stefnu sína beindi það þeim tilmælum til Ríkiskaupa, sem annast kaup á tölvum fyrir hönd ríkissjóðs, að í útboðsgögnum við tölvukaup yrði sett fram sú krafa að notendaskil Windows-stýrikerfisins frá Microsoft fyrirtækinu yrðu íslenskuð.

Það var ekki fyrr en í síðasta mánuði, sem Ríkiskaup svöruðu þessu erindi ráðuneytisins. Þar kemur fram, að almennt þjóni litlum eða engum tilgangi að setja kröfur í útboðsgögn, sem bjóðendur geti ekki eða vilji ekki uppfylla. Bent er á, að á Íslandi séu tveir seljendur Microsoft-hugbúnaðar en Einar J. Skúlason hf. sé aðalumboðsmaður. Hafi fyrirtækið ítrekað beint þeim tilmælum til Microsoft , að notendaskilin verði íslenskuð. Svörin hafi verið á þann veg, að það sé of dýrt miðað við hinn fámenna íslenska markað. Microsoft heimili umboðsmönnum sínum ekki að þýða notendaskil á eigin vegum eins og IBM og Apple gera. Þýðingamiðstöð Microsoft sé á Írlandi og þar bíði þjóðir í langri röð eftir að fá þjónustu.

Í framhaldi af þessum upplýsingum frá Ríkiskaupum hef ég snúið mér beint til Einars J. Skúlasonar hf. með bréfi frá 5. nóvember síðastliðnum. Þar er því fagnað, að fyrirtækið hafi beint þeim tilmælum til Microsoft, að Windows-umhverfið verði þýtt en jafnframt harmað, að ekki skuli hafa náðst neinn árangur. Krafa markaðarins ætti að leiða til þess, að umboðsmenn Microsoft hér á landi tryggðu íslensk notendaskil fyrir viðskiptavini sína. Skýrt er frá því, að menntamálaráðuneytið muni áfram vinna að því að ná markmiði sínu í þessu efni og takist ekki að íslenska Windows stýrikerfið, verði annarra leiða leitað. Loks er þeim vinsamlegu tilmælum beint til umboðsmanna Microsoft hér á landi, að þeir geri allt, sem í þeirra valdi stendur, til að tryggja, að notendaskil Windows verði á íslensku og taki þannig þátt í að vernda íslenskt tungumál í alþjóðlegu upplýsingasamfélagi.

Góðir áheyrendur!

Á sviði upplýsingatækni, svo sem á mörgum öðrum stöndum við Íslendingar vel að vígi samanborið við aðra, og við höfum þegar orðið öðrum þjóðum fyrirmynd hvað snertir fjölda tölva og nettengingar. Tölvutæknin hefur opnað Íslendingum gátt að öðrum menningarheimum og gefið okkur kost á að hafa ný áhrif á heimsmenninguna. Við þurfum nú að setja okkur skýrara mark en áður, hvernig við ætlum að nýta þessa tækni í þágu mennta og menningar. Við verðum að gera strangar kröfur í þágu íslenskrar tungu.

Með því að opna orðabankann stígum við enn eitt skrefið til að treysta inntak íslenskrar tölvumenningar, ef ég má orða það svo. Með honum leggur Íslensk málstöð nýjan skerf af mörkum í því skyni, að staðinn verði vörður um íslenska tungu í upplýsingasamfélaginu. Ég lýsi því hér með yfir, að orðabankinn er opnaður.