2.10.1997

Markaðssetning á Internetinu

Markaðssetning á Internetinu
Loftkastalinn, 2. október 1997

Hvarvetna koma menn saman um þessar mundir til að ráðgast um áhrif Internetsins. Æ betur rennur upp fyrir stjórnendum fyrirtækja og stofnana, að þessi nýi miðill býður ný og áður óþekkt tækifæri. Jafnframt er nauðsynlegt að opna augu sem flestra fyrir kostum tækninnar, því að enn hafa of margir vantrú á henni eða telja, að hún eigi ekki erindi til sín.

Eftir fáeina daga verður til dæmis alþjóðlegur fundur í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, til að ræða nýja og hraðvirkari gerð af Internetinu. Æðri menntastofnanir, bandarískar stjórnarskrifstofur og einkafyrirtæki á borð við IBM, AT og T, Cisco Systems og MCI standa að fundinum, en þessir aðilar hafa stofnað hóp undir heitinu Inernet 2.

Í frásögn sem ég las af þessum fundi kemur fram, að mikill áhugi er á þátttöku í honum og aðild að Internet 2, sem ætlað er að verði 100 til 1000 sinnum hraðvirkara en núverandi net. Einn fundarboðenda sagði, að höfuðvandi þeirra væri, að undantekningarlaust vildu önnur þróuð ríki og þá helst Evrópusambandsríkin senda menntamálaráðherra sína á fundinn. Gallinn væri bara sá, að þeir ættu ekkert erindi þangað - Evrópumenn yrðu að fara að fordæmi Bandaríkjamanna og ýta slíkum mönnum og kerfiskörlum þeirra til hliðar. Mestu skipti að ná til fólksins, sem hefði vit á tækninni og vildi nýta sér hana. Með virkri þátttöku þess væri best unnt að ná skjótum árangri.

Með þetta í huga þakka ég fyrir boðið um að segja nokkur orð í upphafi þessarar ráðstefnu Útflutningsráðs, Tölvuheima og Midas-netsins um markaðssetningu á Internetinu. Ég er sammála því, að hvorki ráðherrar né embættismenn eiga að stjórna þróun Internetsins. Hins vegar sakar ekki, að þeir nýti sér netið til að markaðssetja skoðanir sínar eða læri að meta aðra kosti netsins.

Fyrir rúmri viku var ég á fundi menningarmálaráðherra Eystrasaltsríkjanna, sem haldinn var í Lübeck í Þýskalandi. Þar var stutt kynning á netinu og gildi þess fyrir menningarstarf og listsköpun. Kom mér sannarlega á óvart, hve starfsbræður mínir töldu þessa nýju tækni fjarlæga sér.

Þegar rætt er um þróun Internetsins nægir hins vegar í raun að segja það eitt, að notkun þess mun halda áfram að vaxa með ótrúlegum hraða. Á þetta ekki síst við þegar litið er til viðskipta á netinu. Þannig telur enska fyrirtækið Datamonitor, að evrópskir neytendur muni á árinu 2001 versla fyrir 3,2 milljarða dollara á netinu í samanburði við 96 milljónir dollara 1997. Viðskiptin muni þannig meira en þrítugfaldast á fjórum árum aðeins í Evrópu. Fyrirtækið Forrester Research í Bandaríkjunum hefur litið á þróunina þar og segir, að í ár nemi viðskipti á netinu í Bandaríkjunum um átta milljörðum dollara en verði orðin 327 milljarðar árið 2002, þannig að aukningin verði fertugföld.

Þessar tölur sýna svo mikinn vöxt, að hann gæti hæglega orðið mun meiri. Þær gefa einnig til kynna að eftir miklu sé að sækjast, þegar litið er á netið sem sölu- og þjónustuvettvang. Viðfangsefni þessarar ráðstefnu er því ákaflega brýnt.

Við Íslendingar getum státað okkur af því að hafa verið fljótir að tileinka okkur hina nýju tækni. Almennur áhugi á nýtingu hennar er meiri en víða annars staðar og kröfur um viðunandi starfsumhverfi eru vel rökstuddar. Þar skiptir miklu, að bandbreidd sé mikil og menn geti treyst á öryggi þeirrar þjónustu, sem þeim er veitt.

Áhugi á því að íslenska skólakerfið búi nemendur sína sem best undir þátttöku í þekkingar- og upplýsingasamfélaginu er víðtækur. Leyfi ég mér að fullyrða, að til dæmis á framhaldsskólastiginu hafi orðið stökkbreyting fram á við síðustu misseri og skólar hér séu tæknilega vel í stakk búnir til að bregðast við auknum kröfum. Vandi okkar er að þróa efni sem fellur að hinni nýju tækni og nýtist í skólastarfi. Við stöndum frammi fyrir ákvörðunum um það, hvort við eigum að nýta hið besta á alþjóðamarkaði í þessu skyni eða treysta nær alfarið á íslenska framleiðslu. Þá þarf að búa tölvunarnámi á háskólastigi viðunandi starfsgrundvöll. Menntamálaráðuneytið hefur samið við Verslunarskóla Íslands um fjölgun nemenda í Tölvuháskólanum og innan Háskóla Íslands hljóta menn að leita lausna sem tryggja stöðu tölvunarfræði þar.

Þegar rætt er um hina nýju tækni og skólakerfið, er nauðsynlegt að velta því fyrir sér, hvort ekki sé skynsamlegt að tileinka sér ný vinnubrögð við kennslu og nám. Þróunin er svo ör, að hið hefðbundna fjárfestingakerfi ríkisins hefur ekki undan að endurnýja tæki og forrit auk þess sem erfitt er að fá hæfa starfsmenn. Ef til vill skilar betri árangri að kaupa þessa þjónustu á öllum skólastigum af einkaaðilum, sem hafa betri aðstöðu en opinberar stofnanir til fjárfestinga í hinni hörðu samkeppni fjármuna og tækni.

Hér á hið sama við og í Bandaríkjunum, að menntamálaráðherrar og embættismenn þeirra hljóta að halda sér nokkuð til hlés, að öðru leyti en móta skólum og menntastofnunum starfsskilyrði, setja þeim markmið og gera kröfur um að árangri sé náð. Það er stjórnenda skóla í samvinnu við atvinnulífið að finna bestu leiðina að markinu.

Það er ekki aðeins í skólakerfinu, sem hin nýja tækni kallar á nýjar starfsaðferðir og ný viðhorf. Aukin almenn viðskipti á netinu hljóta að hafa áhrif á það, hvernig staðið er að því að reka verslunarfyrirtæki. Í stað þess að fjárfesta í steinsteypu, vöruhillum og sýningargluggum, sem eiga að höfða til margra, beinist athyglin að hinum einstaka viðskiptavini og þörfum hans.

Þótt netið hafi gert okkur Íslendingum kleift að eyða fjarlægðum í sýndarveruleikanum eru þær enn fyrir hendi, þegar að því kemur að flytja áþreifanlega hluti milli landa. Hinir nýju viðskiptahættir gera nýjar kröfur til þeirra, sem veita flutningaþjónustu og ríkisvaldið þarf að tileinka sér einfaldari aðferðir við afgreiðslu, þegar einstaklingar flytja sjálfir varning til landsins eftir eigin þörfum.

Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum var komist þannig að orði í vikuritinu The Economist, að hugtakið "efnahagslegt sjálfstæði" hefði gengið sér til húðar. Vildi ég taka undir þetta í stjórnmálaskrifum Morgunblaðsins en ýmsir þar á bæ töldu það ástæðulaust. Víst væri eitthvað til, sem kalla mætti eða ætti að kalla efnahagslegt sjálfstæði, enda hefðu Íslendingar lengi barist fyrir því.

Viðskipti á netinu gera þetta hugtak enn óljósara, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Einmitt þess vegna er brýnna en ella að móta frjálslyndar alþjóðlegar reglur um þessi viðskipti.

Hinn 1. júlí síðastliðinn birti Bandaríkjaforseti skýrslu um meginreglur vegna hnattrænna rafrænna viðskipta. Þar eru kynntar tillögur Bandaríkjastjórnar um þetta efni. Telur forsetinn, að takist að skapa rafrænum viðskiptum umhverfi, þar sem þau geti vaxið og blómstrað, geti sérhver tölva orðið leið til hvers kyns viðskipta um heim allan. Ríkisstjórnir geti ráðið miklu um þróunina sérstaklega ef þær leitist við að hindra hana. Stjórnvöld eigi að virða hið einstaka eðli miðilsins og viðurkenna, að alhliða samkeppni og aukið val neytenda skuli setja svip sinn á hinn nýja markað. Markaðssjónarmið eigi að ráða ferðinni og stuðlað skuli að því að alþjóðlegar lagareglur ýti undir verslun og viðskipti. Hvetur forsetinn til þess að fyrir 31. desember 1999 hafi náðst alþjóðlegt samkomulag ríkisstjórna og einkaaðila um starfsreglur á þessum nýja hnattræna stórmarkaði.

Við Íslendingar þurfum að móta afstöðu okkar til þessara tillagna. Við eigum að gera það með frelsi að leiðarljósi þannig að hin nýja tækni nýtist okkur hverjum og einum sem best á þessu sviði eins og öðrum. Hefur ríkisstjórnin mótað heildarstefnu um málefni upplýsingasamfélagsins, þar sem segir, að hin nýja tækni skuli virkjuð til að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, fjölga atvinnukostum og auka framleiðni, fjölbreytni starfa og nýsköpun. Allar óþarfa hindranir fyrir þróun og notkun upplýsingatækninnar skuli þurrkaðar úr lögum án þess að vegið sé að friðhelgi einkalífs og öryggi.

Undir forystu forsætisráðuneytisins er nú sérstök verkefnisstjórn að hefja störf til að framkvæma þessa heildarstefnu. Skilaboð til hennar eiga að vera skýr og ótvíræð: Leyfið framtaki einstaklingsins að njóta sín á netinu og leggið ekki stein í götu þess. Ég vona, að ráðstefna ykkar hér í dag staðfesti réttmæti slíkra skilaboða hér á landi eins og annars staðar.