27.6.2010

Umræðuefni landsfundar um utanríkismál.

21. júní 2010.

 

Tillögur utanríkismálanefndar vegna

hugmyndaþings landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

 

1.     Staða ESB-málsins.

 

Til upprifjunar:

·       16. júlí 2009: Alþingi samþykkir ESB-aðildarumsókn.

·       23. júlí 2009: Aðildarumsókn afhent Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía.

·       27. júlí 2009: Utanríkisráðherrar ESB fela framkvæmdastjórn ESB að leggja mat á hæfi Íslands.

·       24. febrúar 2010: Framkvæmdastjórn ESB telur Ísland hæft til viðræðna og leggur til, að þær verði hafnar.

·       23. apríl 2010: Þýska þingið veitir ríkisstjórn Angelu Merkel umboð til að ræða aðild Íslands að ESB með skilyrðum, þ. á m. að Íslendingar hætti hvalveiðum.

·       1. júní 2010: Cristian Dan Preda, þingmaður á ESB-þinginu frá Rúmeníu, og félagi í þingflokki European People's Party (EPP) , það er þingmanna hægra megin við miðju á ESB-þinginu, leggur jákvæða umsögn um aðild Íslands fyrir utanríkismálanefnd ESB-þingsins.

·       17. júní 2010: Leiðtogaráð ESB samþykkir aðildarviðræður við Ísland sem miði að því með hvaða hætti Ísland taki upp regluverk ESB, uppfylli skuldbindingar skv. ábendingum ESA og bregðist við athugasemdum framkvæmdastjórnar ESB.  Fari framvinda viðræðna „eftir því hvernig Íslandi tekst að mæta þeim skilyrðum sem sett verða í samningsrammanum“ um fyrirkomulag viðræðnanna en hann krefst samþykkis allra ríkja ESB, sbr. nánar fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins.

 

Í þeim umsögnum og álitum, sem fyrir liggja, kemur ekkert fram, sem gefur vísbendingu um, að Íslendingar fái varanlegar sérlausnir í sjávarútvegsmálum eða landbúnaðarmálum. Íslendingar verða að hætta hvalveiðum, svo að þeir verði gjaldgengir í ESB.

 

Mikið uppnám er innan ESB vegna fjármálavandræða á evru-svæðinu. Komið hefur verið á fót 440 milljarða evru björgunarsjóði í þágu evrunnar. Hlaupið hefur verið undir bagga með Grikkjum að settum ströngum skilyrðum um aðhaldsaðgerðir þeirra í ríkisútgjöldum.

 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur stjórnendum evru-svæðisins lið við að bjarga evrunni. Í öllum ESB-löndum er unnið að miklum niðurskurði ríkisútgjalda. Fyrir dyrum stendur, að eftirlitsmenn á vegum ESB kynni sér fjárlagatillögur í einstökum ESB-ríkjum, áður en þær verða kynntar þingmönnum, til að tryggt sé, að þær séu innan þeirra marka, sem sett eru til að tryggja stöðu evrunnar og fjármálalegan stöðugleika innan ESB. Hugmyndir eru um, að hagstjórn færist í ríkara mæli frá aðildarlöndum til Brussel.

 

Frá því að Alþingi samþykkti tillöguna um aðildarviðræður 16. júlí 2009, hefur andstaða almennings við aðild aukist samkvæmt könnunum og hefur hún aldrei mælst meiri en nú.

 

Athygli er vakin á skýrslu Evrópunefndar, „Tengsl Íslands og Evrópusambandsins“, frá mars 2007. Þar sameinast fulltrúar allra flokka um tillögur, sem miða að því að nýta EES-samninginn á markvissari hátt til að gæta hagsmuna Íslands. Að þeim tillögum hefur ekki verið farið.

 

 

2.     Varnar- og öryggismál.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá því, að Ísland varð sjálfstætt ríki haft forystu meðal þjóðarinnar um stefnu hennar í varnar- og öryggismálum. Flokkurinn hafði stjórnarforystu í september 2006, þegar bandaríska varnarliðið hvarf af landi brott. Þáverandi ríkisstjórn ákvað, að gripið yrði til aðgerða í nokkrum liðum til að tryggja öryggi þjóðarinnar við nýjar aðstæður, eins og fram kemur í yfirlýsingu stjórnarinnar frá 26. september 2006.

 

Unnið hefur verið samkvæmt þessari yfirlýsingu. Framkvæmd hennar ræðst annars vegar af fjárframlögum og hins vegar af lagasetningu. Að því er afskipti löggjafans varðar hefur óvissa skapast vegna varnarmálalaga og endurskoðunar þeirra.

 

Ný stefnumörkun Atlantshafsbandalagsins (NATO) er í undirbúningi fyrir forgöngu framkvæmdastjóra bandalagsins.

 

Í umræðum um íslensk öryggismál er brýnt að hafa hugfast, að íslenska stjórnarskráin heimilar ekki hernaðarlega starfsemi á vegum íslenska ríkisins.

 

Minnt er á, að nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins hefur lagt fram skýrslu, sem hefur að geyma mat á hættum, hnattrænum, samfélagslegum og hernaðarlegum, sem Íslendingum ber að hafa í huga við núverandi aðstæður í heimsmálum. Umræður um skýrsluna hafa verið litlar sem engar. Lagt er til, að hún verði höfð til hliðsjónar við stefnumótun flokksins í þessu efni.

 

3.     Norðurslóðir – loftslagsmál.

 

Vegna hlýnunar jarðar hafa umræður vaxið um nýtingu auðlinda í Norður-Íshafi og siglingar með olíu, gas og varning úr norðri fram hjá Íslandi til Norður-Ameríku. Þessari þróun geta fylgt miklir möguleikar fyrir Ísland ef rétt er að staðið.

 

Ísland er eitt af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins. Á vegum utanríkisráðuneytisins hefur verið unnin skýrsla um norðurslóðir með hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi. Þekking á málefnum norðurslóða er fyrir hendi í landinu sbr. m.a. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

 

Stefnumörkun er óljós í málefnum norðurslóða. Sjálfstæðisflokkurinn ætti að taka  frumkvæði á þessu sviði með því að samhæfa þekkingu og áhuga á málefninu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

 

Talsmenn ESB, stjórnmálamenn og fræðimenn innan ESB hafa séð þann ávinning helstan af aðild Íslands að ESB, að þar með fengi ESB fótfestu á N-Atlantshafi og gátt opnaðist að norðurskauti og Norður-Íshafi, en Ísland og efnahagslögsaga þess ná samanlagt yfir um 860 þús.ferkm. við mörk þessa svæðis.

 

 

4.     Ítarefni

 

Skýrsla Evrópunefndar forsætisráðuneytisins: Tengsl Íslands og Evrópusambandsins (http://www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2558)

 

Skýrsla utanríkisráðuneytisins: Áhættumatsskýrsla fyrir Ísland

Hnattrænir, samfélagslegir og hernaðarlegir þættir

(http://www.utanrikisraduneyti.is/media/Skyrslur/Skyrsla_um_ahattumat_fyrir_Island_a.pdf)

 

Skýrsla utanríkisráðuneytisins: Ísland á Norðurslóðum (http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/4945)

 

Group of experts' report on NATO's new Strategic Concept (http://www.nato.int/strategic-concept/expertsreport.pdf)