13.11.1998

Evrópudagar 1998

Evrópudagar

Fyrir nokkru efndum við til bandarískra og íslenskra vísindadaga hér á landi. Í viðræðum við hina bandarísku þátttakendur í þessum dögum kom fram, að aldrei fyrr höfðu bandarískar vísindastofnanir tekið þátt í slíku tvíhliða samstarfi við nokkra aðra þjóð.

Líklega þykir fleirum en mér þetta einkennileg staðreynd, ekki síst í ljósi þess, hve vísindasamstarf er orðið alþjóðlegt. Þessu höfum við Íslendingar kynnst hvað best í samstarfi okkar við Evrópusambandið innan evrópska efnahagssvæðisins.

Þegar umræður um aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu stóðu sem hæst, bar ekki mikið á því, að menn ræddu um gildi hennar með menntun, menningu, rannsóknir og vísindi að leiðarljósi. Athyglin beindist að hinu fjórþætta frelsi, einkum viðskiptafrelsinu. Ég leyfi mér að slá því föstu, að á fáum einstökum sviðum hefur aðildin að EES skipt okkur meiru en að því er varðar menntun, rannsóknir og vísindi.

Hér eru nú að hefjast Evrópudagar, þar sem margir þættir samstarfs okkar við Evrópusambandið eru kynntir. Menningarsamskiptin aukast jafnt og þétt og áherslan á hlut ungs fólks er mikil og vaxandi. Er ánægjulegt, hve fulltrúum Íslands í þessu samstarfi hefur almennt tekist vel að gæta hagsmuna lands og þjóðar. Gefst tækifæri til að fá staðfestingu á því á Evrópudögunum.

Við þurfum vissulega að fylgjast vel með þróun Evrópumálanna, því að Evrópusambandið tekur stöðugum breytingum. Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið er einstæður í röð alþjóðasamninga að því leyti, að inntak hans er ekki unnt að skilgreina í eitt skipti fyrir öll. Samningurinn er ekki rammi utan um samstarf eins og það var, þegar hann var gerður, heldur þróast hann í takt við breytingar á samstarfi aðildarþjóðanna.

Í almennum umræðum um Evrópusambandið og tengsl okkar við það ber annað yfirleitt hærra en samstarfið í rannsóknum og vísindum. Athyglin beinist einkum að ákvörðunum um sameiginlega mynt eða sameiginlegan seðlabanka um þessar mundir. Þetta eru hin stóru pólitísku mál. Við Íslendingar þurfum að gera okkur glögga grein fyrir því, hvaða áhrif þróun þeirra hefur á almenna stöðu okkar gagnvart samrunanum í Evrópu. Jafnframt þurfum við að fylgjast náið með því, hvernig miðar í aðildarviðræðum sambandsins við ríkin í Mið- og Austur-Evrópu og átta okkur á því, hvað gerist næst þegar ESB opnar aðildardyr sínar. Virðist einsýnt að það verði ekki fyrr en eftir miðjan næsta áratug. Við stækkunina mun sambandið taka miklum breytingum.

Ljóst er, að hrakspár þeirra, sem töldu, að Evrópustefna ríkisstjórnarinnar myndi leiða til pólitískrar eingangrunar á Evrópuvettvangi, hafa ekki ræst. Athyglisvert er, að enginn kraftur er lengur í málflutningi þeirra, sem töldu fyrir síðustu kosningar, að okkur væri lífsnauðsynlegt að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Er fátt, sem bendir til þess, að ágreiningur um stefnu Íslands í Evrópumálum, muni setja mikinn svip á baráttuna fyrir þingkosningarnar næsta vor.

Ástæðan fyrir þessari þróun á hinum almenna stjórnmálavettvangi er einfaldlega sú, að víðtæk sátt hefur tekist um aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er ljóst, að tvíhliða varnarsamstarfið við Bandaríkin og aðildin að Atlantshafsbandalaginu skapar okkur nauðsynlega öryggiskennd. Hlutlausir samaðilar okkar að EFTA vildu á sínum tíma nota tækfærið við hrun Sovétríkjanna og gerast aðilar að Evrópusambandinu með öryggishagsmuni sína að leiðarljósi.

Nauðsynlegt er að hafa þessi stórpólitísku viðhorf í huga, þegar litið er til þess samstarfs, sem við eigum við Evrópusambandið eða Bandaríkin um rannsóknir og vísindi. Þau vega þyngra en ákvarðanir um framkvæmd einstakra áætlana eða verkefna. Við sjáum það til dæmis núna, að Spánverjar neita að standa að ákvörðunum um framgang einstakra umsamninna verkefna innan EES vegna þess að þeir vilja knýja fram greiðslur í þróunarsjóð á vegum Evrópusambandsins.

Spánverjar undrast, að við Íslendingar bregðumst hart við þessari neikvæðu og sérkennilegu afstöðu þeirra, af því að innan Evrópusambandsins tíðkast að taka óskyld mál í gislingu til að knýja fram sér hagstæða niðurstöðu. Kynntumst við þessu oftar en einu sinni í samningaviðræðunum um EES. Reynslan ætti að hafa kennt okkur, að við öllu má búast í þessu samstarfi, þegar leitað er að sameiginlegri niðurstöðu.

Hér í dag verður meðal annars gerð grein fyrir því, hvernig okkur Íslendingum hefur vegnað innan fjórðu rammaáætlunarinnar svonefndu um evrópskan stuðning við rannsóknir og vísindi. Tel ég, að við getum vel við þann árangur unað. Með fjárhagsskuldbindingum sínum vegna samstarfsins eru íslensk stjórnvöld að opna markað fyrir íslenskt hugvit og hugmyndir. Ég er þeirrar skoðunar, að í því felist nokkur skammsýni að nota einungis peningalega mælistiku til að meta árangur okkar innan rammaáætlunarinnar. Miklu meira er í raun í húfi.

Í umræðum um þátttökuna í rammaáætluninni hafa þær raddir heyrst, að vegna aðildar að henni beinist rannsóknir á Íslandi of mikið inn á þær brautir, sem áætlunin markar. Val á verkefnum hverfi úr höndum Íslendinga, af því að þeir verði að taka mið af því, hvernig styrkjum er úthlutað í Brussel, auk þess sem fé renni héðan í gegnum Brussel til rannsókna og vísinda.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera lítið úr þessari gagnrýni. Hún er liður í nauðsynlegum rökræðum um þátttöku okkar í þessu alþjóðasamstarfi. Á hinn bóginn held ég, að það sé ekki síst mikilvægt fyrir fámenna þjóð, þar sem innlend samkeppni í rannsóknum er lítil, að verkefni á þessu sviði séu mæld með alþjóðlegum mælistikum. Án þess gætum við hæglega staðnað vegna ánægju með eigið ágæti.

Þar að auki sé ég ekkert athugavert við, að stjórnvöld taki ákvarðanir um forgangsröðun við fjárveitingar til vísinda- og rannsóknastarfs hvort heldur með alþjóðlegum samningum eða á eigin forsendum Beindi ég meðal annars tillögum um það efni til Rannsóknarráðs Íslands snemma á þessu ári og mæltist til þess að upplýsingatækni og umhverfismál yrðu sett í forgang. Gekk það eftir og blasir nú við, að í ár og á næsta ári fást 115 milljónir króna sem nýir fjármunir til styrkja á vegum Rannsóknarráðs Íslands til verkefna á þessum sviðum og ríkisstjórnin hefur lýst vilja til að gera betur á komandi árum.

Þegar rætt er um hinar evrópsku áætlanir má ekki heldur gleyma því, að kallað er eftir íslenskum viðhorfum þegar þær eru mótaðar. Víðtækt samráð hefur verið haft við stjórnmálamenn og vísindamenn í öllum aðildarlöndunum við mótun fimmtu rammaáætlunarinnar um rannsóknir og vísindi. Íslendingar tilnefna fjölda manna til þátttöku í ráðgjafahópum og stjórnarnefndum vegna þessarar áætlunar og á undanförnum árum hafa að minnsta kosti 10 Íslendingar starfað á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, einkum á sviði rannsókna og þróunar.

Vil ég við þetta tækifæri þakka þeim öllum vel unnin störf. Þeir hafa ekki aðeins sinnt þeim af kostgæfni heldur einnig verið fulltrúar þjóðarinnar á þessum einstæða og mikilvæga vettvangi. Jafnframt vil ég færa þeim þakkir, sem sinna Evrópustarfinu hér heima. Ráðgjöf þeirra, þekking og útsjónarsemi hefur skilað miklum árangri.

Í upphafi máls míns minnti ég á vísindadaga Bandaríkjanna og Íslands, af því að þeir voru nýmæli og verða vonandi til þess að treysta tengsl okkar í rannsóknum og vísindum vestur yfir haf. Þar vorum við að leggja grunn að nýju samstarfi og jafnframt að staðfesta tengsl, sem eru ekki bundin með lifandi samningi eins og samstarf okkar við Evrópusambandið.

Hér í dag gefst færi á að meta, hvernig til hefur tekist í hina evrópska samstarfi og leggja grunn að frekari tengslum. Ég hvet til þess að við ræktum þessi tengsl af metnaðarfullri alúð.

I want especially to welcome those who have come from Brussels to take part in this conference. We are grateful to you for taking the time to travel to Iceland in order to give us your views.

Iceland has participated actively in the fourth framework programme. We are now evaluating the impact of the programme within our country. It is clear that it has given Icleandic scientists in universities, institutes and industry new and valuable opportunities. I want to stress that the benefits of this common activity within the EEA are mutual as in all other fields.

We look forward to the fifth framework programme and to be able to take part in it. It has been both interesting and informative to follow the evolution of the programme in the last months and years. Now we hope that an agreement on the programme and Iceland's participation in it will be reached in time in order to avoid any break in continuity.

Again I welcome you and wish you all the best in your deliberations.