10.3.2010

Þorsteinn Geirsson – minning.

Þorsteinn Geirsson var í leyfi frá störfum ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, þegar ég kom þangað í apríl 2003. Þá hafði hann gegnt ráðuneytisstjórastörfum í sjávaraútvegsráðuneytinu síðan 1999. Var nýmæli, að ráðuneytisstjóri flytti sig tímabundið á milli ráðuneyta. Vissi ég ekki, hvort Þorsteinn vildi snúa aftur í sitt gamla ráðuneyti, fyrr en við hittumst og hann lét þá afstöðu sína afdráttarlaust í ljós. Störfuðum við saman frá upphafi árs 2004, þar til Þorsteinn veiktist af þeim sjúkdómi, sem varð honum að aldurtila.

Þorsteinn var nokkrum árum eldri en ég. Við höfðum kynnst lítillega í lagadeild Háskóla Íslands og síðan fylgst hvor með öðrum. Á embættisárum mínum í forsætisráðuneytinu 1974 til 1979 kynntist ég því, að Þorsteinn var meðal lykilmanna í fjármálaráðuneytinu. Honum var trúað fyrir viðkvæmum og vandasömum verkefnum og naut trausts stjórnmálamanna og embættismanna.

Þegar samstarf okkar í dómsmálaráðuneytinu hófst, hafði Þorsteinn starfað í 32 ár í stjórnarráðinu og bjó yfir ómetanlegri þekkingu og reynslu. Raunar gat hann hæglega frekar valið þann kost að setjast í helgan stein en hefja starf með enn nýjum ráðherra. Embættisstörfin áttu hins vegar hug hans allan. Í minningunni verður mér ánægja og þakklæti í huga vegna samvinnunnar við Þorstein, sem leiddi til vináttu okkar.

Þorsteinn var vandaður embættismaður og farsæll í störfum sem ráðuneytisstjóri. Hann var ráðagóður. Dáðist ég oft að fundvísi hans á leiðir til að leysa viðkvæm mál. Virtust allir ganga sáttir af hans fundi, þótt ekki færi  þar allt á þann veg, sem þeir kysu. Þorsteinn hafði hæfileika til að segja nei, án þess að særa. Hann var glaðsinna og vildi öllum vel. Enginn gat borið til hans kala.

Innan stjórnarráðsins hafa þróast hefðir í samskiptum ráðherra og samstarfsmanna þeirra í áranna rás. Þótt tímarnir breytist er nauðsynlegt að hafa þær í heiðri til að virða góða stjórnsýsluhætti. Í þeim anda var samstarfið við Þorstein. Virðing ráðuneytis og stjórnarráðsins alls var hans leiðarljós.

Við Rut færum Maríu og öllum ástvinum Þorsteins innilegar samúðarkveðjur. Við minnumst margra ánægjustunda með þeim hjónum og söknum vinar í stað.

Blessuð sé minning Þorsteins Geirssonar.