11.9.1998

Skýrslutæknifélagið 30 ára

Hótel Loftleiðum
11. september 1998

30 ára afmæli Skýrslutæknifélags Íslands
30 ára saga skýrslutækni á Íslandi er saga örrar þróunar og skjótrar aðlögunar að nýrri tækni, sem hefur meiri áhrif á daglegt líf okkar og störf en nokkurn óraði fyrir, þegar Skýrslutæknifélag Íslands var stofnað.

Sem háskólastúdent í lagadeild hef ég líklega ekki kippt mér sérstaklega upp við stofnun félagsins. Þó fylgdist ég að sjálfsögðu með umræðum um hina nýju tækni og skýrslugerð með gataspjöldum. Laganema dreymdi ekki einu sinni um tölvu á þessum árum og á Morgunblaðinu, þar sem ég vann með námi, var enn verið að raða saman blýi og leiðrétta prófarkir með því að fjarlægja eina blýlínu og setja aðra í staðinn.

Ég man eftir því, að ég varð að taka próf í vélritun í háskólanum til að vera gjaldgengur til embættisprófs. Nú erum við hins vegar að boða nýja skólastefnu, sem hefur að markmiði, að enginn ljúki grunnskóla án þess að kunna á lyklaborðið og þekkja helstu tölvuforrit.

Raunar þarf ekki að hverfa 30 ár aftur í tímann ef menn ætla að taka dæmi um hina öru þróun og miklu breytingar. Þegar ég hóf störf sem menntamálaráðherra fyrir rúmum þremur árum, hafði ekki verið mótuð nein stefna um nýtingu upplýsingatækninnar í þágu mennta og menningar. Undir forystu Ásdísar Höllu Bragadóttur, aðstoðarmanns míns, vann ráðuneytið með aðstoð fjölda góðra manna bráðan bug á stefnuleysinu og í febrúar 1996 kom út ritið Í krafti upplýsinga, sem síðan hefur verið haft að leiðarljósi.

Breytingin síðan er með ólíkindum. Hef ég notið aðstoðar margra, sem eru virkir hér á þessum vettvangi til að vinna hinni nýju stefnu brautargengi. Færi ég einlægar þakkir fyrir það.
Við komum hér saman til að meta hvert okkur hefur miðað og mig langar að nota tækifærið til að nefna nokkur verkefni menntamálaráðuneytisins á starfsvettvangi Skýrslutæknifélags Íslands.

Í nýrri skólastefnu, sem hafist verður handa við að framkvæma á næsta vetri, er lögð mikil áhersla á, að upplýsingatækni verði sjálfsagt hjálpartæki í öllum námsgreinum. Upplýsingalæsi, hæfnin til að safna, greina og setja fram upplýsingar, verður skyldunámsgrein frá upphafi til loka grunnskóla. Markmiðið er, að öll grunnskólabörn hafi aðgang að margmiðlunartölvum og netinu. Í því efni stöndum við þegar framar en flestar aðrar þjóðir. Stefnt er að því að stofna nýja námsbraut, upplýsinga- og tæknibraut, í framhaldsskólum. Hafa margir skólar lýst áhuga á að bjóða þessa braut. Einnig hefur verið ákveðið að velja þrjá grunnskóla og tvo framhaldsskóla til að verða einskonar þróunarskólar við nýtingu upplýsingatækninnar.

Innan alls skólakerfisins er nú vakning í þessu tilliti. Viðskiptaháskólinn í Reykjavík var að taka til starfa með miklum glæsibrag, hann á rætur sínar í tölvufræðinámi innan Verslunarskólans. Meistaranám í tölvunarfræði er að hefjast í haust við Háskóla Íslands og Háskólinn á Akureyri býður nú 3ja ára nám til BS prófs í tölvu- og upplýsingatækni.

Að tillögu minni og með samþykki ríkisstjórnarinnar er nú verið að hrinda í framkvæmd markáætlun Rannsóknarráðs Íslands um rannsóknir og þróun á sviði upplýsingatækni. Verður innan ramma hennar veitt fé til rannsókna á hagnýtu gildi þessarar tækni á ýmsum sviðum. Fé hefur verið veitt til þróunarstarfs og hagnýtra rannsókna í upplýsingatækni úr þróunarsjóðum grunn- og framhaldsskóla.

Endurmenntun kennara er mikilvægt viðfangsefni, þegar hugað er að hinni nýju tækni í skólastarfi. Er stefnt að því að efla hana. Jafnframt verður gert átak í kennsluhugbúnaðargerð. Hefur Námsgagnastofnun lagt fram framkvæmdaáætlun um þróun hugbúnaðar. Komið verður á fót kennslumiðstöð, þar sem veitt verður ráðgjöf og aðstoð við notkun upplýsingatækninnar á öllum skólastigum.

Fjarnám og fjarkennsla er ofarlega á baugi. Ætlunin er að stofna samræmdan gagnabanka fyrir hugbúnað og námsefni. Verður hann opinn öllum. Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur haft fjarkennslu á framhaldsskólastigi sem tilrauaverkefni. Nú í haust þarf að taka ákvarðanir um framhaldið á þessu skólastigi. Hvarvetna er mikill áhugi á því innan háskóla að bjóða fjarnám. Innlend og alþjóðleg samkeppni á þessu sviði er að aukast. Fjarvinna í þágu byggðastefnu er mikilvægt viðfangsefni á öllum sviðum en ekki síst til að auðvelda mönnum að mennta sig.

Með styrk úr sérstökum sjóði verður almenningsbókasöfnum auðveldað að tölvuvæðast enn frekar. Nefnd vinnur að smíði tillagna um val á bókasafnskerfi, sem nýtist öllum söfnum í landinu, þegar Gegnir og Fengur renna sitt skeið. Eitt samræmt kerfi á að gilda fyrir landið í heild. Önnur nefnd fjallar um aðgang bókasafna, stofnana og einstaklinga að erlendum og innlendum gagnasöfnum. Þriðja nefndin hefur nýlokið störfum en hún samdi tillögur um varðveislu opinberra rafrænna gagna. Verður þar einkum byggt á reynslu Dana.

Loks er ætíð hugað að stöðu íslenskrar tungu gagnvart hinni nýju tækni. Mikilvægur áfangi náðist í sumar, þegar fulltrúar risans Microsoft komu hingað til viðræðna. Var það í fyrsta sinn, sem óskir okkar um íslenskun á hugbúnaði fyrirtækisins komust ótvírætt og formlega inn á borð í höfuðstöðvum þess. Er málið enn í vinnslu hjá fyrirtækinu, ef þannig má að orði komast. Þá hefur verið hugað að því, hvernig staðinn verði vörður um íslenskuna, þegar við hættum að slá á lyklaborðið og gefum tölvunni þess í stað aðeins munnleg fyrirmæli. Rögnvaldur Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, hefur tekið að sér að ritstýra skýrslu um kostina í þessu máli fyrir menntamálaráðuneytið.

Hér hef ég ekki nefnt Íslenska menntanetið, Menningarnet Íslands, Eurodesk - upplýsinganet fyrir ungt fólk, sem allt eru net í skjóli menntamálaráðuneytisins. Ég hef ekki heldur tíundað fjölmörg upplýsingatækniverkefni á vettvangi margra menningarstofnana. Í stuttu máli má segja, að nýja tæknin sé nú drifkraftur í flestu, sem menntamálaráðuneytið sinnir. Og allt hefur þetta gerst á aðeins rúmum þremur árum.

Góðir áheyrendur!

Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin markað heildarstefnu um upplýsingasamfélagið. Málaflokkurinn heyrir undir forsætisráðherra og sérstaka verkefnisstjórn á hans vegum. Hver ráðherra ber hins vegar ábyrgð á sínum málaflokki.

Við upphaf þessarar haustráðstefnu undir heitinu: Upplýsingatækni á tímamótum - höfum við gengið til góðs? hef ég kosið að tíunda fyrir ykkur hið helsta, sem hefur áunnist og er á döfinni innan menntamálaráðuneytisins og snertir starfssvið Skýrslutæknifélags Íslands. Er ég viss um að félagið og einstakir félagsmenn munu koma að mörgum þessum verkefnum, enda hefur félagið ætíð látið þróun og framtíð hinnar nýju tækni sig miklu varða.

Nýlega las ég bókarumsögn eftir Philip Anderson, Nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði. Umsögnin var um framtíðarbók og ekki beint uppörvandi fyrir höfundinn því að Anderson sagði, að árið 1965 hefði komið út bók undir heitinu Til ársins 2000. Bókin hefði þegar verið farin að úreldast illilega árið 1975 og nú væri hún gjörsamlega fjarri veruleikanum. Þetta eru örlög flestra þeirra, sem ætla að spá um þróunina, ekki síst í upplýsingatækni. Þess vegna hef ég kosið, að dveljast frekar við það, sem ég þekki af eigin raun, og einnig hitt, sem ég veit, að á eftir að rætast.


Ég óska Skýrslutæknifélagi Íslands innilega til hamingju með afmælið. Hið eina, sem breytist ekki í öllu þessu upplýsingatæknilega umróti, er nafn þessa ágæta félags. Ég vænti góðrar samvinnu við félagið og félagsmenn þess í framtíðinni og veit, að þið eigið áfram eftir að fá miklu áorkað.

Að svo mæltu lýsi ég þessa ráðstefnu setta.