Þjóðardagur Íslands á EXPO'98 - Lissabon
Þjóðardagur Íslands - EXPO ´98
Í upphafi máls míns óska ég Portúgal innilega til hamingju með hve glæsilega hefur tekist til að skipuleggja hér og halda heimssýningu. Sýningin ber vott um að Portúgalir eru stórhuga þjóð og óttast ekki frekar nú en áður að taka áhættu og fara inn á nýjar og ókunnar slóðir.
Er einkar vel við hæfi að helga EXPO ´98 hafinu. Aldrei áður hefur verið gengið til verka með þeim hætti að tengja megin þema heimssýningarinnar því málefni sem efst er á blaði hjá Sameinuðu þjóðunum á sýningarárinu.
Ákvörðun Íslands um þátttöku í sýningunni réðst af því að hún er helguð hafinu. Höfum við Íslendingar löngum átt alla afkomu okkar undir gæðum hafsins. Þar til á þessari öld gat heldur enginn heimsótt okkur nema að fara sjóleiðina.
Sögur herma að Kristófer Kólumbus hafi komið til Íslands árið 1477, þegar hann var í þjónustu Portúgala, dvaldist í Bristol í Englandi og snéri aftur til Lissabon árið 1478. Hann var þá orðinn reyndur sæfari og fróðari en áður um landaskipan í norðri og vestri. Var þetta mjög mikilvægur áfangi í undirbúningi leiðangursins mikla um Atlantshaf til Ameríku árið 1492.
Með vísan til nýrra rannsókna er það skoðun sagnfræðinga að eftir komu Kólumbusar til Íslands sé ekki unnt að líta á siglingar Íslendinga til meginlands Ameríku í upphafi 11. aldrar sem einangrað fyrirbæri, eins og oft hefur verið látið að liggja, heldur sem hlekk í þeirri sókn Evrópumanna til annarra landa, sem við köllum landafundina miklu og olli straumhvörfum í veraldarsögunni, en þar voru Portúgalar að sjálfsögðu í fremstu röð. Í ár minnumst við þess með virðingu að 500 ár eru liðin síðan Vasco da Gama fann sjóleiðina til Indlands.
Héðan héldu menn út í óvissuna, unnu glæsilegra sigra og sönnuðu að Evrópa var ekki endir heimsins heldur uppspretta þeirrar menningar og stjórnarhátta, sem byggjast á kristnum gildum og virðingu fyrir frelsi einstaklingsins til orðs og æðis.
Við Íslendingar fögnum góðum samskiptum við Portúgali í aldanna rás, ekki síst hina síðustu áratugi. Sameiginlega höfum við lagt okkar skerf af mörkum innan Atlantshafsbandalagsins til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi.
Við höfum átt gott samstarf innan fjölmargra alþjóðastofnana. Viðskipti milli landanna hafa einnig þróast í rétta átt. Þar er það einnig hafið sem tengir. Hingað sækja fjölmargir Íslendingar til að baða sig í sól og heitu Atlantshafinu. Frá okkur kaupið þið saltfisk og ýmsan búnað til útgerðar og fiskvinnslu. Er það einlæg ósk Íslendinga að þessi samskipti öll megi halda áfram að vaxa. Staðfestum við þann ásetning okkar með þátttökunni hér á EXPO ´98.
Í för með mér hingað er stór hópur íslenskra listamanna; tónlistarmenn, leikarar og dansarar, sem ætla í kvöld að sýna gestum EXPO ´98 að hin fámenna og fjarlæga íslenska þjóð hefur náð langt á þessum sviðum, eins og mörgum öðrum. Hinn forníslenski bókmenntaarfur er heimskunnur og þar er meðal annars að finna staðfestingu á siglingum Íslendinga til Ameríku í kringum árið 1000. Þessar sögur hafa nú í fyrsta sinn verið gefnar út í heild á ensku og hef ég þá ánægju að færa yður þetta nýja heildarsafn Íslendingasagnanna að gjöf.
Portúgalir og Íslendingar eru útverðir Evrópu í vestri. Báðar þjóðirnar hafa ávallt haft mjög mikla þörf fyrir að leita á vit nýrra ævintýra. Þær vilja kynnast því sem býr á bak við ystu sjónarrönd. EXPO ´98 opnar nýjar víddir. Hún minnir okkur á að hafið er sameiginleg auðlind okkar allra og við þurfum að umgangast það með virðingu og alúð.
Ég ítreka hamingjuóskir mínar til Portúgala vegna EXPO ´98, þakka hlýjar móttökur og lýsi þeirri ósk að Portúgalir megi halda áfram að fara með árangursríkum hætti inn á nýjar og ókunnar slóðir.