22.11.1999

Útvarpslagafrumvarp - framsöguræða

Frumvarp
til útvarpslaga
framsöguræða, 22. nóvember 1999.

Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins. Var það lagt fram á 123. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Fyrir framlagningu nú hefur það verið endurskoðað í ljósi athugasemda sem menntamálanefnd Alþingis bárust og nokkrar breytingar gerðar á því. Nefndinni bárust allmargar umsagnir um frumvarpið, og áður en það var lagt fram á síðasta þingi hafði ráðuneytið sent drög að því fjölmörgum aðilum til umsagnar.

Frá því að frumvarpið var til umræðu hér á þingi síðastliðinn vetur hefur ráðuneytið breytt því í nokkrum atriðum. Þau eru:

1. Samkvæmt ábendingu Barnaverndarstofu er ekki í frumvarpinu talað um börn og ungmenni heldur einungis börn sbr. orðalagsbreytingu í a.lið 5.gr.

2. Samkvæmt ábendingu Póst- og fjarskiptastofnunar er tekið sérstaklega fram í 5. tl. 6. gr. i.f.: að Póst- og fjarskiptastofnun skuli hafa eftirlit með tæknilegum eiginleikum útsendinga, enda úthlutar sú stofnun senditíðnunum, sbr. b lið 4. mgr. 6. gr.

3. Með hliðsjón af umræðum um útvarpslagafrumvarpið í menntamálanefnd sl. vor um almennar menningarlegar skyldur útvarpsstöðva er lagt til að til viðbótar þeim skyldum útvarpsstöðva að stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu, skuli þær ennfremur leggja rækt við sögu þjóðarinnar og menningararfleifð, sbr. 1. mgr. 7. gr. frv.

4. Þá er ennfremur lagt til að hinar sérstöku skyldur skv. 2. mgr. 7. gr. um að kosta skuli kapps um að meiri hluti útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu, taki einungis til sjónvarpsstöðva en ekki bæði til hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva.

5. Þá er í frv. lagt til að 2. mgr. 21. gr., þar sem lagt er bann við kostun fréttaútsendinga og fréttatengds efnis verði breytt á þann veg að felld eru niður dæmi um slíka dagskrárliði, svo sem veðurfréttir og íþróttafréttir og að ákvæðið verði orðað eins og samsvarandi ákvæði tilskipunar ESB um sjónvarpsþjónustu.

6. Í 23. frv. er ákvæði sem hefur það að markmiði að tryggja almenningi sem bestan aðgang að útsendingum frá þýðingarmiklum viðburðum. Í frv. er lagt til að Útvarpsréttarnefnd úrskurði um ágreining um endurgjald fyrir þann rétt sem einkaréttarhafinn lætur af hendi, til þess að tryggja svo sem kostur er að ákvörðun endurgjaldsins verði sanngjörn sbr 4. og 5. mgr. 23. gr.

7. Að tillögu Umboðsmanns barna er tekið fram að það varði refsingu að sýna efni þar sem er að finna tilefnislaust ofbeldi eða klámfengnar myndir á þeim tíma og með þeim hætti að börn sjái sbr. d. liðu 28. gr.

8. Þá er að lokum tekið fram um lok starfstíma núverandi stjórnar Menningarsjóðs útvarpsstöðva í ákvæði til bráðabirgða.

Frumvarpið skiptist í ellefu kafla í hinum fyrsta er að finna skilgreiningar á hugtökum og orðum, sem notuð eru í lagatextanum. Annar kafli snýst um lögsögu, það er til hvaða sjónvarpsstöðva reglur útvarpslaga taki. Í þriðja kafla er greint frá skilyrðum fyrir því, að veitt sé leyfi til útvarps. Í fjórða kafla eru skyldur útvarpsstöðva mótaðar. Í hinum fimmta er mælt fyrir um tekjustofna útvarpsstöðva. Í sjötta kafla er fjallað um auglýsingar, fjarsölu og kostun. Í hinum sjöunda aðgang að almennum fjarskiptanetum. Áttundi kafli frumvarpsins er um takmörkun á einkaréttindum til útsendinga frá þýðingarmiklum viðburðum, níundi um ábyrgð á útvarpsefni, í tíunda er að finna viðurlög og hinum síðasta ýmis ákvæði.

Frumvarpið er alls 36 greinar auk ákvæða til bráðabirgða. Eru sumar greinarnar langar og ítarlegar, sömu sögu er að segja um greinargerð frumvarpsins og athugasemdir. Vænti ég, að þingmenn kunni að meta, hve mikil vinna hefur verið lögð í að draga saman viðamiklar upplýsingar til skýringa á frumvarpinu í heild og einstökum greinum þess.

Að stofni til byggist frumvarpið á núgildandi útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum.

Helstu breytingarnar frá núgildandi löggjöf eru:

1. Frumvarpinu er ætlað að mynda almennan ramma um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Ekki er gert ráð fyrir sérákvæðum um Ríkisútvarpið, eins og eru nú í útvarpslögum, heldur er miðað við að um Ríkisútvarpið gildi sérlög, þó þannig að almenn ákvæði útvarpslaga gildi um Ríkisútvarpið nema annað sé sérstaklega ákveðið.

2. Hið beina tilefni endurskoðunar útvarpslaga nú er setning nýrra reglna með endurskoðaðri tilskipun Evrópusambandsins um sjónvarpsþjónustu. Ber okkur Íslendingum að bregðast við hinni nýju tilskipun samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið.

3. Hin nýja tilskipun ESB hefur meðal annars í för með sér eftirfandi breytingar á íslenskri útvarpslöggjöf:

a. Það er skýrt til hvaða sjónvarpssendinga íslensk lögsaga nær, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Ákvæði um þetta efni eru ekki í lögum nú. Lögsögureglur tilskipunarinnar byggjast á tveimur grundvallarsjónarmiðum: a) frelsi sjónvarpsstöðva innan hvers aðildarríkis EES til þess að sjónvarpa til allra annarra aðildarríkja og b) að sjónvarpsútsendingar eru heimilar um allt Evrópska efnahagssvæðið svo framarlega sem útsending er í samræmi við löggjöf útsendingarríkisins sem á lokaorðið um það.

b. Það nýmæli tilskipunar ESB sem hvað mesta athygli hefur vakið, er heimildin í 3. gr. a tilskipunarinnar fyrir hvert aðildarríki EES til þess að gera skrá eða lista um tiltekna þýðingarmikla viðburði sem senda skal út í dagskrá, sem meginhluti almennings hefur aðgang að, þó að sjónvarpsstöð sem selur sérstaklega aðgang að efni sínu hafi keypt einkarétt til sýningar frá þessum viðburðum. Í reynd mun heimild þessi, a.m.k. að sinni, fyrst og fremst geta átt við meiri háttar íþróttaviðburði, innlenda og fjölþjóðlega, svo sem landskeppni, Ólympíuleika, heimsmeistarakeppni og Evrópumeistarakeppni í knattspyrnu og handknattleik. Er gert ráð fyrir heimild til þess að setja reglugerð um þetta efni í 23. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum við greinina kemur fram að gert er ráð fyrir að sjónvarpsstöð uppfylli það skilyrði að hún nái til meginhluta þjóðarinnar ef hin tiltekna útsending nær til a.m.k. 90% allra landsmanna. Gerir þetta að verkum að allar þrjár helstu sjónvarpsstöðvar landsins uppfylla þetta skilyrði, svo framarlega sem útsendingar þeirra eru opnar. Með þessu móti eru afskipti af samkeppni á sjónvarpsmarkaði í lágmarki. Auk þess verða það tiltölulega fáir viðburðir sem listinn um viðburði getur náð til.

Ástæðan fyrir þessu ákvæði er hugmyndin um upplýsingaþjóðfélagið. Íslenska ríkinu er ekki skylt samkvæmt tilskipuninni að nýta þessa heimild, en rétt þykir að tryggt sé í lögum að unnt sé að gera það vegna hins mikla áhuga sem ríkir hér á landi á sjónvarpsefni frá meiri háttar íþróttaviðburðum. Á Norðurlöndum hefur slíkur listi yfir viðburði aðeins verið samin og lögformlega birtur í Danmörku. Í ljós hefur komið, að mjög erfitt hefur reynst að framfylgja honum og telur menningarmálaráðherra Dana nauðsynlegt að endurskoða ákvæðið í tilskipun ESB um þetta efni. Ég mun ekki nýta heimildina til að semja slíkan lista nema eftir nákvæmt mat á framkvæmd þessa ákvæðis í tilskipun ESB í öðrum löndum.

c. Í beinum tengslum við ákvæði 23. gr. frumvarpsins er ákvæði 24. gr. sem gerir íslenskum sjónvarpsstöðvum skylt að nýta einkaréttindi sín til sjónvarps frá viðburðum, sem ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur ákveðið að teljist hafa verulega þýðingu í því þjóðfélagi, á þann hátt að meginhluti íbúanna í viðkomandi ríki eigi þess kost að fylgjast með viðburðunum. Ákvæði í þessa átt er skylt að leiða í íslensk lög samkvæmt tilskipun ESB.

d. Tekin er upp regla þess efnis að sjónvarpsstöðvar skuli, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til gerðar evrópskra verka, þar á meðal íslenskra verka, sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum (10.gr. frumvarpsins). Þetta ákvæði er fyrst um sinn aðallega stefnuyfirlýsing, en með því að Menningarsjóður útvarpsstöðva verður lagður niður verður sjónvarpsstöðvum gert auðveldara að fara eftir þessu ákvæði.

e. Reglur um auglýsingar og kostun eru gerðar nokkru skýrari en verið hefur. Auk þess er bætt inn ákvæðum um fjarsölu og fjarsöluinnskot, og gilda í meginatriðum sömu reglur um þessi efni og gilda um auglýsingar.

f. Tekin eru upp ákvæði um vernd barna gegn óheimilu efni (14. gr.), sem eiga að styrkja gildandi íslensk lög um það efni, sem og um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum (20. gr.), og er þeim ákvæðum ætlað að vera til fyllingar ákvæðum samkeppnislaga.

4. Þá er það nýmæli í frumvarpinu að menntamálaráðherra er heimilað að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi (34. gr). Stafrænt útvarp, sjónvarp og hljóðvarp, er nú hafið í nágrannalöndunum eða er u.þ.b. að hefjast, a.m.k. á tilraunastigi. Hin stafræna tækni gefur mikla möguleika til betri nýtingar tíðnisviðsins en nú og er þannig m.a. meginforsenda þess að fleiri aðilar eigi þess kost að hefja raunverulega samkeppni, sérstaklega í sjónvarpi, auk víðtækari nota af tíðnisviðinu. Þar sem öll nýting VHF-tíðnisviðsins er nú í raun og veru aðeins í höndum tveggja aðila, Ríkisútvarpsins og Íslenska útvarpsfélagsins hf., komast fleiri aðilar ekki að þar.

5. Ætlunin er að ákvæðin um leyfi til útvarps séu gerð fyllri í lögunum en þau hafa verið. Eru tekin upp í frumvarpið ýmis ákvæði um þetta efni sem verið hafa í reglugerð en réttara þykir að mæla fyrir um í lögum.

6. Hlutverk útvarpsréttarnefndar er aukið frá því sem verið hefur. Skal útvarpsréttarnefnd fylgjast með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt, eins og verið hefur, og hafa að öðru leyti eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpssendingum er lúta íslenskri lögsögu (einnig Ríkisútvarpsins). Gert er ráð fyrir að nokkur viðbótarkostnaður verði vegna aukins verksviðs nefndarinnar.

7. Tekið er upp ákvæði (22. gr.) sem tryggir útvarpsstöðvum aðgang að almennum fjarskiptanetum sem hagnýtt eru til útvarpssendinga. Hefur þótt skorta ákvæði í útvarpslög um rétt útvarpsstöðva til aðgangs að kapalkerfum, og er úr því bætt með þessu ákvæði. Meðal annars er ætlunin að tryggja útvarpsstöðvum aðgang að breiðbandi Landssímans. Um aðgang útvarpsstöðva að fjarskiptanetum fer að öðru leyti samkvæmt fjarskiptalögum og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, þar á meðal um ákvörðun endurgjalds fyrir aðganginn.

8. Ekki er lengur gert ráð fyrir að leyfi útvarpsréttarnefndar þurfi til endurvarps frá erlendum sjónvarpsstöðvum, heldur verði það Póst- og fjarskiptastofnun sem úthlutar rásum fyrir endurvarp.

9. Lagt er til að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður. Sjóðurinn hefur verið mjög umdeildur, sérstaklega fjármögnun sjóðsins og ráðstöfun á fé hans, en hún hefur í raun og veru aðeins falist í því að færa fé á milli útvarpsstöðva. Þar sem í gildandi ákvæðum um Menningarsjóðinn (2. mgr. 11. gr. útvarpslaga) er gert ráð fyrir að hlutur Ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands greiðist af framlagi Ríkisútvarpsins til sjóðsins þarf að huga sérstaklega að fjáröflun til rekstrar hljómsveitarinnar í tengslum við rekstur Ríkisútvarpsins.

10. Lagt er til að felld verði brott úr útvarpslögum nokkur ákvæði er varða tengsl útvarpslaga og fjarskiptalaga.

Herra forseti

Ég hef hér að framan gert grein fyrir helstu nýmælum í frumvarpi til nýrra útvarpslaga. Margoft hefur verið gerð tilraun til þess að endurskoða gildandi útvarpslög frá grunni frá því að þau tóku gildi árið 1985. Hefur sú skylda hvílt á öllum menntamálaráðherrum, sem síðan hafa starfað. Í frumvarpinu er ekki tekið á ákvæðum, sem snerta Ríkisútvarpið sérstaklega. Hafa orðið nokkrar umræður um þá mikilvægu stofnun hér á alþingi á þessu hausti. Hinn 20. október sagði ég meðal annars í svari við fyrirspurn:

"Á vettvangi menntamálaráðuneytisins. hefur verið unnið að því að útfæra hugmyndina um Ríkisútvarpið sem hlutafélag í eigu ríkisins. Hafa verið samin drög að frv. og þau kynnt forráðamönnum Ríkisútvarpsins. Málið er enn á vinnslustigi innan ráðuneytisins og ræðst af pólitísku mati hvort það verður lagt fyrir Alþingi eða ekki.

Ég hef hvað eftir annað lýst þeirri skoðun minni að um breytingar á Ríkisútvarpinu verði að ríkja víðtæk pólitísk sátt. Það stafar af eðli stofnunarinnar. Ég hef einnig sagt oftar en einu sinni að kröfur einkarekstrar verði að fá að njóta sín meira í starfsemi Ríkisútvarpsins. Raunar er auðvelt að færa fyrir því rök að andstæðingar breytinga á Ríkisútvarpinu séu að ganga erinda keppinauta þess."

Síðan þessi orð féllu hafa formenn stjórnarflokkanna rætt um stöðu Ríkisútvarpsins. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var rætt við hæstvirtan forsætisráðherra. Þar segir hann, að innheimta afnotagjalda Ríkisútvarpsins geti vart staðist þar sem það eigi ekki að gera það að skilyrði fyrir því að menn geti nýtt sér þjónustu fyrirtækja úti í bæ að þeir geri fyrst upp við ríkisfyrirtæki. Er þá vísað til þess að menn geta samkvæmt lögum ekki horft á útsendingar einkarekinna sjónvarpsstöðva án þess að greiða fyrst afnotagjald til RÚV.

Í Morgunblaðinu 7. nóvember síðastliðinn er haft eftir hæstvirtum utanríkisráðherra, að vel mætti hugsa sér að Ríkisútvarpið fengi rekstrarfé sitt beint af fjárlögum ríkisins. Jafnframt sagði ráðherrann samkvæmt Morgunblaðinu 6. nóvember, að gera þyrfti ákveðnar grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi Ríkisútvarpsins og losa stofnunina undan því flokkspólitíska stjórnvaldi sem því hefði fram til þessa verið stýrt af. Í öðru lagi yrði að tryggja Ríkisútvarpinu þær tekjur að það geti rækt lögbundnar skyldur sínar með sóma.

Ég nefni þessi ummæli flokksformannanna hér til að árétta, að ekki verður vikist undan því verkefni að endurskoða ákvæði laga um Ríkisútvarpið.

Herra forseti

Hér er flutt frumvarp, sem snertir mikilvægan þátt í þjóðlífinu. Nauðsynlegt er að búa þannig um hnúta, að útvarpsstöðvar á Íslandi starfi við sömu réttindi og skyldur og sambærileg fyrirtæki annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu. Þetta frumvarp tryggir það. Ég óska eftir að því verði vísað til annarrar umræðu og háttvirtrar menntamálanefndar.