6.3.1999

Viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Degi

Viðtal í Degi
Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á Degi veitti mér heimild til að birta þetta viðtal hér á heimasíðunni og er það hér með þeim hætti, sem það kom frá henni.

Í viðtali ræðir Björn Bjarnason um pólitíkina, Sjálfstæðisflokkinn, Davíð Oddsson, störfin í menntamálaráðuneytinu, Samfylkinguna og hina umdeildu heimasíðu sína.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Hefur það hjálpað þér eða hindrað innan Sjálfstæðisflokksins að vera sonur fyrrverandi formanns og forsætisráðherra?

„Það hefur bæði hjálpað mér og verið notað gegn mér. Ætli þetta endi ekki í núllpunkti þegar upp er staðið. Menn kjósa ekki mann vegna faðernis hans eða ættar heldur vegna verka hans. Einstaka sinnum heyri ég gamla menn sem tala um föður minn vera að bera okkur saman að einhverju leyti en ég held að yngra fólk velti faðerninu ekkert fyrir sér. Ég á öflug frændsystkini og stundum heyri ég það notað gegn okkur að við séum of mörg sem stöndum framarlega. Mér þykir það satt að segja heldur skrítin gagnrýni. Hið gagnstæða þætti mér verra.”

Nú gafstu ekki kost á þér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ertu ekki þá um leið að gefa frá þér möguleikana á því að verða formaður síðar meir?

„Síður en svo. Sagan sýnir okkur að menn geta valið varaformenn í Sjálfstæðisflokknum án þess að viðkomandi kæmi til álita hjá sömu kjósendum sem formaður. Menn hafa einnig verið valdir til varaformennsku í þeim tilgangi að skapa breidd sem mótvægi við formanninn. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einfaldur í sniðum, þar koma mörg sjónarmið til álita. Til þess að verða formaður er ekki skilyrði að hafa verið varaformaður. Við höfum enga slíka goggunarröð.”

Víkjum aðeins að Davíð Oddssyni sem andstæðingar hans segja vera einráðan í Sjálfstæðisflokknum og einsýnan og pirraðan í mótlæti. Hvað segir þú um þessa lýsingu?

„Davíð er í senn mjög góður talsmaður flokksins og öflugur leiðtogi. Hann leggur mál fyrir með skýrum hætti og hikar ekki við að taka upp vandmeðfarin mál. Dómgreind hans hefur reynst flokknum vel. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að hann sé einráðari eða pirraðri en aðrir þeir sem eru í stjórnmálaati og þurfa stundum að ýta frá sér með kröftugum hætti. Það er dæmigert fyrir málefnafátækt samfylkingafólksins að slá fram innistæðilausum fullyrðingum eins og þessum í stað þess að ræða um málefni.”

Nú er Davíð í fullu fjöri, sérðu nokkuð fram á að verða formaður?

„Ég fór ekki út í pólitíkina til að verða formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég hef tekið þeim störfum sem mér hafa verið falin. Fáir hefðu spáð því að ég ætti eftir að verða menntamálaráðherra en ég tók það að mér og hef notið mín mjög vel í því starfi fyrir sjálfan mig og vonandi skilað einhverjum árangri fyrir aðra. Ég bíð bara og sé til. Svo er spurning hvað maður hefur áhuga á að verða lengi í stjórnmálum. Þú sérð að flestir jafnaldrar mínir eru að verða sendiherrar eða að hverfa á brott þannig að ég er í hópi eldri manna á þinginu, þótt ótrúlegt sé.”

Er eðlilegt að stjórnmálamenn séu að deila út sendiherrastörfum og öðrum snobbstörfum til kollega sinna?

„Það má alltaf deila um hvað sé eðlilegt. Sendiherrastörf eru mikilvæg og nauðsynlegt er að í þau veljist hæft fólk. Það má ekki frekar banna mönnum að verða sendiherrar þótt þeir hafi verið í stjórnmálum heldur en að hygla þeim sérstaklega með sendiherrastörfum. Ég held að reynsla okkar Íslendinga af því að stjórnmálamenn fari í sendiherrastörf sé almennt góð. Mér finnst, eins og mörgum fleirum, dálítið sérkennilegt þegar menn sem hafa í grundvallaratriðum alla sína tíð verið andvígir utanríkisstefnu þjóðarinnar taka að sér að túlka hana sem sendiherrar. En það er frekar þeirra vandamál en okkar sem teljum að þjóðin hafi haldið vel á sínum utanríkismálum og fylgt skynsamlegri stefnu.”

Gætir þú hugsað þér að verða sendiherra?

„Ég veit ekki hvort ég gæti hugsað mér það. Þegar ég var yngri var ég kominn á fremsta hlunn með að fara til starfa hjá alþjóðastofnunum en gerði það ekki. Ég hef hins vegar látið alþjóðamál mikið til mín taka. Ég fer bráðum að verða eins og einn vinur minn, danskur prófessor sem er töluvert eldri en ég og sagði eitt sinn við mig: „Þú skalt athuga það að bráðum kemur sá tími að þú verður búinn að sækja allar þær ráðstefnur sem þú getur sótt til að afla þér fróðleiks. Þá muntu sjá að það er betra að sitja heima hjá sér en að vera á fundum.” Ég fer bráðum að öðlast þennan þroska.

Ég er búinn að fara mjög víða og sjá mjög margt, en ef spennandi verkefni byðust á þessu sviði er aldrei að vita hvernig maður tæki því. Maður á aldrei að útiloka neitt. En það er ekki komið að því að ég velti þessu fyrir mér.”

Yrði það áfall fyrir þig að missa ráðherrastólinn?

„Ég myndi ekki líta á það sem persónulegt áfall. Ég fór ekki í pólitíkina sérstaklega til að verða ráðherra. Ég fór í pólitíkina því mér fannst nauðsynlegt að skapa viss þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum eftir mikinn upplausnartíma. Mér fannst ég hafa setið nægilega lengi í sæti gagnrýnandans og áhorfandans og ákvað að bjóða mig fram.”

Fyrir hvaða verk vildirðu helst að þín yrði minnst sem menntamálaráðherra?

„Er þetta kveðjuviðtal? Ertu að gera því skóna að ég sé að kveðja ráðuneytið?”

Ef ég ætti að veðja þá myndi ég frekar álíta að það væru meiri möguleikar en minni á því að þú verðir ekki ráðherra eftir næstu kosningar. Mér sýnist þetta tildragelsi Samfylkingar og Framsóknar nefnilega vera orðið ansi mikið skot og vel geta endað með hjónabandi.

„Þér sýnist það?”

Þú sérð ekki þennan glampa í augum Samfylkingarmanna og Framsóknarmanna þegar þeir skiptast á að koma upp í ræðupúlti á Alþingi?

„Ég hef ekki orðið var við hann. Vissulega segja menn að það sé eggjahljóð í Samfylkingarsinnum en eru þau hljóð ekki bara falskir tónar sem engan heilla? En þú varst að spyrja um störf mín. Það er svo gífurlega margt sem hefur verið gaman að fást við. Við höfum mótað nýja skólastefnu og erum að leggja fram nýja námskrá fyrir grunnskóla og framhaldsskóla og í menningarmálum er svo gífurlega margt og spennandi á döfinni að það myndi fylla allar síður blaðsins ef við ættum að fara að tína það allt saman.”

Við höfum ekki það pláss. En þú segist ekki hafa orðið var við opinbert tilhugalíf forystumanna Samfylkingar og Halldórs Ásgrímssonar.

„Ég hef ekki orðið var við það. En að sjálfsögðu eru menn farnir að velta því fyrir sér með hverjum þeir eigi að starfa eftir kosningar. Ég á eftir að sjá að einhverjir vilji starfa með Samfylkingunni. Ég held að tilhugalíf með henni eigi eftir að kosta skattgreiðendur töluvert mikið. Svo er ekki auðvelt að sjá hvar á að bera upp bónorðið, er það við talsmann Margréti eða leiðtoga Jóhönnu?”

Þú treystir semsagt ekki Samfylkingunni í ríkisstjórn?

„Ég treysti henni þó satt að segja betur í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum en með Framsóknarflokknum. Krafa okkar sjálfstæðismanna um góða fjármálastjórn, andstaða okkar við stóraukna skattheimtu og bruðl með fé almennings kynni hinsvegar að verða ásteytingarsteinninn milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.”

Hvernig sérðu Samfylkinguna, sem stækkaðan Alþýðuflokk, sem vinstri flokk eða sem bandalag sem gæti auðveldlega gliðnað í sundur?

„Mér finnst mjög einkennilegt hvað Samfylkingin fer langt til vinstri. Líklega á að skilgreina hana sem stækkaðan vinstri flokk í ætt við hægri arm Alþýðubandalagsins. Áherslur Samfylkingarinnar eru mjög einkennilegar. Þar segjast menn vera að feta í fótspor Tony Blair en meðan Tony Blair er að ráðast á útgjaldakerfi hins opinbera til að skera niður útgjöldin vilja Samfylkingarsinnar auka útgjöld ríkissjóðs um marga milljarða króna.”

Finnst þér koma til greina að Sjálfstæðisflokkurinn bjóði Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherraembætti til að tryggja áframhaldandi stjórnarsamstarf?

„Mér finnst að menn eigi ekki að leggja mál þannig upp og gefa til kynna að Halldór Ásgrímsson eða aðrir taki ákvarðanir um stjórnarsamstarf á þeirri forsendu hvað þeim er boðið persónulega. Það er hálf niðurlægjandi fyrir stjórnmálamenn þegar látið er í veðri vaka að tilboð um vegtyllur ráði því hvaða ákvarðanir þeir taka um þjóðarhag. Ég held að samfylkingarmenn verði að nálgast málið með öðrum hætti en þeim að gefa í skyn að hégómi Halldórs Ásgrímssonar muni ráða því hvernig ríkisstjórn verði hér eftir næstu kosningar.”

Nú hefur þú stundum verið gagnrýndur fyrir að vera of upptekinn af kaldastríðsanda fortíðarinnar.

„Kaldastríðsárin eru einhver ævintýralegasti tími aldarinnar. Eftir tvær hrikalegar heimsstyrjaldir verða gífurleg átök sem enda með hruni Sovétríkjanna. Við sem vorum í þeim slag hljótum að vera nokkuð uppteknir af þeim atburðum en það er með öllu rangt að halda því fram að ég láti ráðast af einhverjum kaldastríðsanda, hvað sem í því felst. Veist þú það? Annars held ég að varðstaða okkar hægri manna í kalda stríðinu muni mikils metin í sögubókum framtíðarinnar.”

Þín gæfa er kannski að hafa alltaf verið réttu megin?

„Ég hef allavega ekki stigið mörg vitlaus skref í þessum málum. Það var ekki alltaf auðvelt og maður fékk yfir sig margar árásirnar. Ég veit ekki með þig, þú hefur vafalaust fallið fyrir Marx á sínum tíma.”

Ég var ung og áhrifagjörn og þekkti ekki lífið. En segðu mér, ef þú verður í ráðherrastól eftir næstu kosningar vildirðu þá vera í sama ráðuneyti eða taka við öðru ráðuneyti?

„Ég myndi örugglega kunna vel við mig í þessu ráðuneyti enn um sinn. Mörg spennandi verkefni bíða. Vegur mennta og menningar á enn eftir að vaxa. En það er ekki hægt að ganga að neinu vísu í þessum efnum. Stjórnmálamenn taka áhættu um framtíð sína.”

Nú hefur þú oft verið gagnrýndur fyrir ýmis ummæli á heimasíðu þinni. Finnst þér vera við hæfi að ráðherra birti dóma og skammir um tiltekna einstaklinga á heimasíðu sinni?

„Ég get ekki tekið undir það með þér að ég hafi birt þar dóma og skammir. Ég er að segja mína skoðun. Gleymdu því ekki, að ég held síðunni ekki að neinum, menn verða að heimsækja hana. Þú spurðir í upphafi um föður minn og stjórnmálaafskipti hans. Það er kannski ólíku saman að jafna en þó. Þegar hann var forsætisráðherra skrifaði hann reglulega Reykjavíkurbréf i Morgunblaðið, kvað fast að orði og lýsti skoðunum sínum. Þá voru vinstri sinnar sífellt að mjálma um það að ekki færi vel á því að forsætisráðherra skrifaði nafnlausar greinar í blöðin og að hann hefði ekki leyfi til að hafa þessar skoðanir. Nú veinar yngra fólk í hópi vinstri sinna mikið undan því að menn í pólitísku starfi segi sína skoðun og noti sterkar samlíkingar. Það er eins og þetta fólk haldi að menn í ákveðnum embættum séu sviptir málfrelsi. Ég ólst ekki upp við þetta. Ég ólst upp við hitt að menn berðust með orðum. Ég hef gaman af að skylmast við verðuga andstæðinga í fjölmiðlum, sérstaklega ef þeir koma til dyranna eins og þeir eru klæddir.”

Finnst þér menn kveinka sér of mikið í stjórnmálaumræðunni?

„Ég segi það nú ekki. Finnst þér það?”

Já, mér finnst menn væla alltof mikið.

„Stjórnmálamenn taka gagnrýni misjafnlega vel en verst þola gagnrýni fjölmiðlamenn. Það eru einkum þeir sem hafa kveinkað sér undan heimasíðu minni.”

Mörgum finnst að þú sért of fastur fyrir og gefir lítið færi á þér sem tilfinningaveru.

„Ég held að það geti verið alveg rétt, en er það eitthvað sem er ámælisvert þegar menn eru á opinberum vettvangi?”

Engan veginn, ég er ekki að skammast yfir því, en leynist bak við þessa hörðu skel mikil tilfinningavera?

„Áreiðanlega mjög mikil og miklu meiri en ég tjái mig nokkurn tímann um í blaðaviðtali, jafnvel þótt þú eigir í hlut. Hinsvegar er ég líklega frekar agaður og get einbeitt mér að hlutum hvar og hvenær sem er með því markmiði að ljúka þeim og læt tilfinningarnar ekki tefja mikið fyrir mér. Ég hef hitt fólk sem gengur illa að ljúka við hlutina vegna þess að tilfinningarnar hafa alltaf yfirhöndina. Ég er ekki þannig gerður.”

Hvernig komstu þér upp þessari ögun?

„Ætli hún sé ekki að mestu meðfædd. Við Gunnar Eyjólfsson leikari erum góðir vinir og við ögum okkur með sérstökum æfingum sem við stundum.”

Hvernig æfingar eru þetta?

„Þær eru kínverskar, Tsi Kong - æfingar, sem efla einbeitinguna.”

Jafnvel hörðustu andstæðingar hrósa þér fyrir dugnað í starfi. Ertu lítið gefinn fyrir iðjuleysi?

„Já, alltof lítið. Sumir segja að mesti ókostur minn sé að ég gefi mér aldrei tíma til neins annars en að vinna. Það auðveldar mér mikið í erilsömu starfi hvað Rut, konan mín, veitir mér mikinn stuðning og tekur þátt í mörgu með mér. Mesta kæruleysið sýni ég líklega í Sundhöllinni eldsnemma á morgnana. Ég hvíli mig stundum við lestur en þær stundir verða æ færri, tölvan eltir mig svo að segja um allt. Ég nota hana mjög mikið. Sennilega má segja að það sé viss hvíld í því fyrir mig að setjast niður eftir erilsama viku og skrifa heimasíðuna mína.”