Samið við Microsoft - ávarp
Samningur við Microsoft
Við komum hér saman í dag á merkum tímamótum í sögu tölvuþróunar á Íslandi. Samkomulag hefur tekist milli menntamálaráðuneytisins og Microsoft-fyrirtækisins um að hugbúnaður þess verði þýddur á íslensku. Með samkomulaginu er staða íslenskrar tungu treyst í upplýsingasamfélaginu. Auk þess er lagður grunnur að samstarfi við öflugasta tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki heims. Vil ég fagna því, hve mikinn skilning fyrirtækið hefur sýnt á varðstöðu okkar Íslendinga um tungu okkar.
Um langt árabil hefur verið stefnt að þeirri niðurstöðu, sem hér er kynnt og ætla ég að nefna nokkrar stiklur á þeirri leið.
Fyrir um það bil þremur árum gaf menntamálaráðuneytið út ritið Í krafti upplýsinga, sem hefur að geyma tillögur ráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni. Síðan hefur verið unnið markvisst að því að framkvæma þessar tillögur. Hvert nýja verkefnið eftir annað er til marks um það.
Í ritinu segir meðal annars, þegar rætt er um þá stefnu, sem mótuð var árið 1993, að ráðuneytið kosti einungis útgáfu hugbúnaðar fyrir DOS/Windows: „Sá böggull fylgir þó skammrifi að Windows-stýrikerfið sem fylgir tölvum sem keyptar eru á Íslandi er á ensku. Þetta leiðir til þess að tölvuumhverfi íslenskra grunnskólabarna er enskt. Þessu þarf að breyta.” Þá er lýst því markmiði, að notendaskil Windows verði á íslensku.
Ég hef lagt mikla áherslu á, að við náum þessu markmiði. Lýsti ég því meðal annars á málræktarþingi vegna dags íslenskrar tungu í nóvember 1997, hvernig að málinu hefði verið unnið. Urðu nokkrar umræður um efnið í kjölfarið og vil ég sérstaklega þakka, hve Skýrslutæknifélag Íslands tók vel undir baráttuna fyrir því, að íslenskan yrði hafin til meiri vegs í hugbúnaði. Einnig vil ég nefna Íslenska málstöð og málnefnd til sögunnar auk fjölmiðla, sem hafa lagt þessum málstað gott lið.
Hinn 19. júní 1998 ritaði menntamálaráðuneytið bréf til Microsoft í Danmörku með eindregnum tilmælum um að viðræður fulltrúa ráðuneytisins og fyrirtækisins færu fram. Skömmu síðar urðu óskir okkar Íslendinga að fréttaefni á alþjóðavettvangi, en hinn 2. júlí barst mér bréf frá stjórnendum Microsoft í höfuðstöðvum þess í Bandaríkjunum, þeim David Brooks og Andréas Berglund. Þar er skýrt frá því, að það sé einlægur vilji fyrirtækisins að koma til móts við okkur og þýða hugbúnað þess á íslensku.
Samningaviðræður við Microsoft hófust með fundi í menntamálaráðuneytinu 23. ágúst 1998. Þá hitti ég fulltrúa Microsoft og var lagt á ráðin um það, hvernig unnt væri að ná hinu sameiginlega markmiði. Auk sérfræðinga ráðuneytisins hafa fulltrúar frá Ríkiskaupum síðan tekið þátt í viðræðum við Microsoft um málið. Er skemmst frá því að segja, að sameiginleg niðurstaða náðist og kynnti ég hana í ríkisstjórn hinn 22. desember síðastliðinn og fékk ég þá umboð til að rita undir þau skjöl, sem liggja hér fyrir í dag. Microsoft fól norrænum fulltrúum sínum að vinna að endanlegri gerð samkomulagsins og eru þeir hér á fundinum í dag.
Samkomulagið felst annars vegar í minnisblaði, sem lýsir sameiginlegum markmiðum aðilanna og hins vegar í formlegum samningi um þýðingu á Windows 98 hugbúnaðinum frá Microsoft.
Í minnisblaðinu setja aðilar fram eftirtalin markmið:
Aðilar eru sammála um að gera með sér samning um þýðingu á Windows 98. Hann er undirritaður á sama tíma og minnisblaðið.
Menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir aðgerðum er miði að því að draga úr ólögmætri notkun hugbúnaðar hér á landi. Markmið þessara aðgerða verði að hugbúnaðarþjófnaður verði hérlendis ekki algengari en gerist í nágrannalöndum okkar.
Menntamálaráðuneytið og Microsoft hefji þegar viðræður er miði að því að ná samkomulagi um þýðingu á Office 2000 hugbúnaði fyrirtækisins og þeim kerfishugbúnaði sem leysa mun Windows 98 af hólmi. Stefnt er að því að viðræðum þessum ljúki ekki síðar en 1. ágúst 1999.
Aðilar vinni að aukinni notkun upplýsingatækni í íslenska menntakerfinu m.a. með samningum um lækkað verð á Microsoft hugbúnaði til íslenskra skóla.
Komið verði á fót sameiginlegum þróunarsjóði til að efla gerð íslensks kennsluhugbúnaðar.
Eins og þessi upptalning sýnir hafa aðilar að samkomulaginu sett sér sameiginleg markmið um fleira en að íslenska hugbúnaðinn.
Ef við lítum á hinn formlega samning má skilgreina hlutverk aðila á þennan hátt:
Microsoft annast og greiðir fyrir þýðingu á Windows 98 hugbúnaðinum ásamt Internet Explorer og gefur hann út á íslenskum markaði ekki síðar en níu mánuðum eftir undirritun samningsins í dag. Menntamálaráðuneytið hefur faglegt eftirlit með þýðingunni.
Íslensk stjórnvöld beita sér fyrir sérstöku og markvissu átaki til að uppræta þjófnað á hugbúnaði á íslenskum markaði. Þau skuldbinda sig til að útrýma ólögmætum hugbúnaði úr ríkisfyrirtækjum fyrir árslok 1999.
Ég hef rætt við Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda um að Ríkisendurskoðun kanni með skipulegum hætti, hve mikið er um að ríkisstofnanir noti ólögmætan hugbúnað. Telur hann stofnun sína vel í stakk búna til að sinna þessu verkefni. Raunar hlýtur að koma mörgum á óvart, að þörf sé á sérstöku átaki í þessu efni hjá ríkisstofnunum. Er það engu að síður staðreynd.
Þá ákvað ríkisstjórnin, að Ráðgjafarnefnd forsætisráðuneytisins um upplýsinga- og tölvumál, svokölluð RUT-nefnd, hefði umsjón með þessu sérstaka átaki gegn hugbúnaðarþjófnaði.
Íslendingar eru aðilar að alþjóðasamningum, sem vernda höfundarétt vegna hugbúnaðar. Verður leitað allra ráða til að framfylgja þessum samningum hér á landi. Þetta er ekki aðeins nauðsynlegt vegna þessa tímamótasamnings við Microsoft heldur til að við stöndum við skuldbindingar okkar og fáum ekki illt orð á okkur fyrir ólögmæta meðferð og þjófnað á þessum verðmætum. Er ég auk þess sannfærður um, að útgjöld vegna þessa verða þegar til lengdar lætur arðbær fjárfesting í öflugri innlendri hugbúnaðargerð fyrir íslenskan og alþjóðlegan markað.
Ég lýk máli mínu með því að þakka fulltrúum Microsoft fyrir ánægjulegt samstarf síðustu mánuði að þessu mikilvæga verkefni. Einnig vil ég færa þeim embættismönnum Ríkiskaupa og menntamálaráðuneytisins, sem að málinu komu þakkir fyrir vel unnin störf.