29.7.2000

Bæjardyrahúsið á Reynistað

Bæjardyrahúsið
á Reynistað,
23. júlí, 2000.

Af mörgum embættisverkum, sem ég hef unnið sem menntamálaráðherra, er mér þetta einna kærast, að fá tækifæri til að taka þátt í því, þegar gamla bæjardyrahúsið á Reynistað er formlega opnað eftir tilfærslu og viðgerð. Ástæðan fyrir ánægju minni tengist ekki aðeins þessum merka atburði heldur ekki síður hinu, að hér var ég hvert sumar í sveit svo að segja allan sjötta áratuginn og aðeins fram á þann sjöunda. Héðan á ég því margar góðar minningar.

Aðrir eru mér færari að lýsa því, hvaða gildi það hefur fyrir íslenskan menningararf og byggingarsögu, að tekist hefur að varðveita stafverksgerðina úr bæjardyraportinu, sem kennt er við Þóru Björnsdóttur biskupsekkju. Ég kynntist því hins vegar á sínum tíma, hvernig var að vinna innan þiljanna og man eftir, þegar bæjardyrnar voru fluttar um set árið 1960 og steypt og hlaðið um þær húsi. Raunar var svo vel að dyrunum búið á sínum tíma, að gestir héldu, að bæjardyrnar hefðu staðið þar um langan aldur og þeir væru að skoða fornminjar að utan og innan. Nú hefur hins vegar verið enn fagmannlegar að verki staðið og dyrnar standa þar að auki núna nær sínum upprunalega stað.

Við strákarnir, sem vorum hér í sveit, gerðum okkur enga grein fyrir því um hve merkar minjar úr byggingasögunni var að ræða, þegar við vorum að sýsla við reiðtygi í bæjardyrunum og hengja þau á snaga á þiljunum eða aðstoða við að kynda undir eldinum í smiðjunni á bakvið bæjardyrnar. Þar slógu Jón bóndi og Sigurður sonur hans skeifur úr glóandi smíðajárni eða hertu járn eins og gert hafði verið um aldir. Þegar ekki viðraði til heyskapar fékk ég stundum það verkefni að sópa og hreinsa bæjardyrnar og loft þeirra, fylgdi því jafnan einhver sérstök tilfinning að opna stigahurðina í norðaustur-horni bæjardyranna og fara upp á loftið. Þar hvarf maður langt aftur á vit fortíðar, andrúmsloftið eitt var þannig, þótt vitneskjan um hina gömlu og merku sögu og listasmíð væri lítil sem engin.

Að hafa verið hér jafnlengi á helstu mótunarárunum hefur vissulega haft mikið að segja og stend ég í ævinlegri þakkarskuld við húsbændurna á Reynistað fyrir veganestið, sem ég fékk héðan. Jón á Reynistað og Sigrún kona hans settu með reisn sinni mikinn svip á staðinn og enginn, sem starfaði undir stjórn Jóns, er ómótaður af þeirri reynslu. Sigurður bóndi og Guðrún heitin kona hans, synir þeirra og annað heimafólk á Reynistað ekki síst Monika Sigurðardóttir og Guðmundur, bróðir hennar, voru mér eins og önnur fjölskylda á þessum árum og fyrir þá góðu samfylgd vil ég þakka, þegar við komum saman af þessu ánægjulega tilefni hér í dag.

Þótt langt sé um liðið síðan ég kom á Reynistað síðast, finnst mér hver hóll og þúfa kunnugleg. Líklega er það að sannast á mér eins og flestum öðrum, að ýmsir atburðir og atvik frá æskuárunum skýrast í minningunni, eftir því sem árin líða.

Ég er jafnframt að átta mig betur á þeim forréttindum, sem fólust í því að kynnast verklaginu og búskaparháttunum, því að hér sameinaðist gamall og nýr tími með einstökum hætti. Einkum er ævintýralegt að rifja það upp, hve hestar voru mikið notaðir við heyskapinn. Var oft sprett úr spori á heyvögnunum, en tveimur hestum var beitt fyrir þá, og stóð kúskurinn við grind fremst á vagninum og hélt þar um taumana, en sat á heyinu eftir að vagninn hafði verið hlaðinn. Þrátt fyrir áhuga Jóns á sögu Skagafjarðar, þótti mönnum vagnarnir líklega svo hversdagslegt fyrirbæri, að mér skilst, að nú sé tæplega unnt að finna neinar ljósmyndir af þeim í notkun, að minnsta kosti hef ég verið spurður, hvort slíkar sögulegar heimildir sé að finna í mínum fórum, svo er ekki en ég veit, að hér á Reynisstað á Sigurður að minnsta kosti eina mynd.

Enginn sem kemur að Reynistað verður ósnortinn af sögunni. Mörg örnefni minna á hana, ekki síst klaustrið. Á 1000 ára afmælisári kristni á Íslandi beinist athygli einkum að þessum þætti í sögu okkar. Orðspor Reynistaðar fer auk þess víða með frægð þess fólks, sem hér hefur búið í aldanna rás. Hér var til dæmis Guðríður Þorbjarnadóttir fyrir um 1000 árum og Snorri sonur hennar, fyrsti hvíti maðurinn, sem fæddist í Norður-Ameríku. Sagan segir, að hann hafi reist móður sinni kirkju í Glaumbæ, á meðan hún gekk til Rómar. Minnir frásögnin um þá kirkjusmíð á Þjóðhildarkirkjuna í Brattahlíð á Grænlandi, þar sem Guðríður var gefin Þorfinni föður Snorra og frá Brattahlíð héldu þau til Vínlands, en þar var einmitt um síðustu helgi efnt til mikillar hátíðar vegna kristni og landafunda. Hinna ágætu forfeðra okkar er ekki aðeins minnst hér á landi um þessar mundir heldur vekja afrek þeirra aðdáun um heim allan.

Tilefni þess að við komum hér saman í dag er einmitt að heiðra minningu þess fólks, sem gætti arfleifðar sinnar og þar með okkar allra af mikilli kostgæfni. Alþingi hefur nýlega samþykkt ályktun um Kristnihátíðarsjóð, sem miðar meðal annars að því að rannsaka betur forna staði, sem tengjast sögu kristni á Íslandi og þar á meðal klaustranna. Ef til vill vaknar áhugi á því að rannsaka þennan þátt í sögu Reynistaðar meira en hingað til. Félli það vel að hinu metnaðarfulla starfi, sem unnið er hér í Skagafirði í safnamálum. Er það um margt til fyrirmyndar á landsvísu og hlýtur að halda áfram að vaxa og dafna. Þar gætir ekki síður forsjálni og áhuga Jóns á Reynistað en þegar hann tók ákvörðunina um að varðveita bæjarportið á fjórða áratugnum. Minnist ég þess, þegar ég fékk að fara með Jóni í heimsókn í Glaumbæ og hann brýndi fyrir mér gildi þess að varðveita torfbæi og gömul verkfæri en þetta gerðist á þeim tíma, þegar menn voru helst með hugann við að skerpa sem mest skilin milli fortíðar og samtíðar og gáfu almennt lítið fyrir varðveislu gamalla húsa. Ég er þess fullviss, að endurreisn bæjardyranna með þessum veglega hætti á eftir að kalla hingað marga gesti og skerpa myndina af sögulegu mikilvægi Reynistaðar í huga landsmanna.

Góðir áheyrendur!

Margar og góðar minningar sækja á hugann, þegar ég kem hingað aftur að Reynistað, en ég læt staðar numið við að rifja þær allar upp. Ég ítreka þakklæti mitt fyrir að fá tækifæri til að taka þátt í þessari athöfn, ég þakka fólkinu á Reynistað allt gamalt og gott og fyrir að standa vörð um einstakar minjar úr sögu lands og þjóðar. Ég færi Sigríði Sigurðardóttur, forstöðumanni Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ, þakkir fyrir frumkvæði hennar við að búa þessum minjum varanlegan umbúnað. Innilega til hamingju með daginn!