Mótum þjóðarsamstöðu um Evrópustefnu
Grein í Morgunblaðinu 24. 06. 09.
Til Icesave-samninganna var gengið á grundvelli þingsályktunartillögu, sem samþykkt var á alþingi 5. desember 2008. Í þann mund, sem þáverandi ríkisstjórn sprakk, eða 24. janúar 2009 ritaði Steingrímur J. Sigfússon grein í Morgunblaðið, þar sem hann ítrekaði andstöðu sína við fyrirhugaða Icesave-samninga. Nokkrum vikum síðar, þegar Steingrímur J. var orðinn fjármálaráðherra sagðist hann vænta „glæsilegrar niðurstöðu“ í Icesave-málinu. Þau orð dró hann nokkru síðar til baka.
Svavar Gestsson, sendiherra, tók að sér að leiða Icesave-samningaviðræðurnar til lykta. Daginn áður en það gerðist, sagðist Steingrímur J. á þingi ekki vita neitt um gang málsins, fram færu könnunarviðræður.
Að lokinni undirskrift samninganna, áskildu nokkrir þingmenn vinstri-grænna, þar á meðal þingflokksformaður og heilbrigðisráðherra, sér rétt til að greiða þeim ekki atkvæði sitt. Jóhanna Sigurðardóttir taldi sjálfsagt, að Sjálfstæðisflokkurinn sæi til þess, að alþingi veitti samningunum brautargengi. Bjarni Benediktsson sagði 18. júní á þingi, að það kæmi ekki til álita. Þá sögðu stjórnarþingmenn og ráðherrar, að nauðsynlegt væri að skoða samningana vel í nefnd. Líklegt er, að óttinn við, að ríkisstjórnin falli með höfnun samninganna, verði til þess, að stjórnarþingmenn leggi þeim lið.
Nú virðast flestir sammála um, að huga hefði átt betur að meðferð málsins, áður en lagt var inn á samningabrautina við Hollendinga og Breta. Skoða hefði átt alla kosti til hlítar, einkum dómstólaleið í stað hinnar pólitísku. Nú sitja þeir menn í ríkisstjórn, sem vildu alls ekki semja, en eru þó helstu talsmenn þess, að samningarnir verði samþykktir, annars verði þjóðin sett í skammarkrók á alþjóðavettvangi.
Spyrja má, hvort skammarlegra sé að samþykkja nauðungarsamninga vegna ráðherrastóla eða standa og falla með sannfæringu sinni. Hafni alþingi Icesave-samningunum, þarf einfaldlega að halda málinu áfram gagnvart Hollendingum og Bretum, hvað sem örlögum ríkisstjórnarinnar líður. Varla er staðan sú í samskiptum okkar við nágrannaþjóðir, að þær spyrji um peningana eða lífið?
Málatilbúnaður og rök ríkisstjórnarinnar lúta að því, að Icesave-samningarnir veiti aðgang að alþjóðasamstarfi og þar með aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þessi ofurbyrði er á okkur lögð, svo að við komumst í ESB.
Í sömu andrá og utanríkismálanefnd alþingis ræðir Icesave-samningana eru á borði hennar tvær þingsályktunartillögur um samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Tillaga ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir hraðferð til þessara viðræðna, án samkomulags á heimavelli um skilyrði og markmið. Tillaga stjórnarandstöðunnar byggist á því, að allur undirbúningur að hugsanlegum viðræðum verði vandaður. Í tillögunni er ekki tekið fyrir fram af skarið um aðildarumsókn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað, að ákvörðun um umsókn að ESB og efni umsóknarinnar skuli borið undir atkvæði þjóðarinnar.
Reynslan af Icesave-viðræðunum sýnir, að hverja ákvörðun um gerð samninga við önnur ríki ber að taka af vandlega íhugðu máli og gæta þess jafnan að upplýsa þjóðina og hafa hana eða fulltrúa hennar með í ráðum. Pólitíska stefnan vegna Icesave var mótuð undir þrýstingi við óvenjulegar aðstæður.
Besta leiðin til að útiloka, að Icesave-samningatæknin verði fyrirmynd viðræðna við ESB, er að bera hvert ESB-úrslitaskref undir þjóðina. Fyrst ber því að spyrja hana, hvort senda eigi aðildarumsókn til Brussel.
Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson styðja aðildarviðræður við ESB en eru á móti aðild! Afstaða þeirra til Icesave-samninga sýnir, að ekkert hald er í slíkum yfirlýsingum þeirra félaga. Þeir vildu alls ekki ganga til Icesave-samninganna í stjórnarandstöðu en styðja þá nú til að halda ráðherrastólum.
Hið sama yrði uppi á teningnum eftir gerð aðildarsamnings við Evrópusambandið. Ríkisstjórn og aðrir aðstandendur samningsins mundu mæla honum bót, þó ekki væri til annars en lengja líf ríkisstjórnarinnar.
Í nýlegri könnun Gallup töldu 76% allra kjósenda mikilvægt, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en Íslendingar sendu umsókn um aðild að ESB. Þar af töldu sex af hverjum 10 mjög mikilvægt, að orðið yrði við þessari kröfu.
Hér með er tekið undir þessa kröfu og skorað á þingmenn að verða við henni til að tryggja víðtæka þjóðarsamstöðu um Evrópustefnu og tengsl við Evrópusambandið.
Höfundur er fyrrverandi ráðherra.