1.12.1999

Menningarár 2000 - dagskrá kynnt

Menningarár 2000
1. desember 1999.

Vel er ráðið að efna til kynningar á dagskrá menningarársins 2000 á fullveldisdaginn, 1. desember. Sú ákvörðun minnir á, að skáld, listamenn og menntamenn, voru í fremstu röð þeirra, sem stuðluðu að sjálfstæði þjóðarinnar. Jónas Hallgrímsson, listaskáldið góða, lagði sitt af mörkum til að móta með þjóðinni ást á landinu í þann mund sem Jón Sigurðsson forseti mótaði stefnuna, sem leiddi til fullveldis 1. desember 1918. Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherrans, er ekki síður minnst fyrir ljóð sín en stjórnmálalegan glæsileika. Einar Benediktsson skáld hafði óbilandi trú á tækifærum Íslands og Íslendinga og barðist í senn fyrir fullu sjálfstæði þjóðarinnar og nýtingu þeirra auðlinda, sem í landinu búa.

Þannig má nefna fleiri skáld og listamenn til stjórnmálasögunnar. Við Íslendingar áttum okkur mjög auðveldlega á tengslum milli menningar og sjálfstæðis. Án hvatningar skáldanna og eldmóðs þeirra hefðum við ekki náð þeirri stöðu, að við treystum okkur til að verða þátttakendur í þeim þætti samstarfs Evrópuríkja, sem er kenndur við menningarborgir.

Það var í maí 1994, sem borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillögu Katrínar Fjeldsted, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að sótt yrði um að Reykjavík yrði tilnefnd menningarborg Evrópu. Í nóvember 1995 samþykkti síðan Evrópusambandið að Reykjavík yrði í hópi níu menningarborga árið 2000 og síðan hefur verið unnið að því að undirbúa það, sem kynnt er hér í dag. Meginþungi verksins hefur hvílt á Þórunni Sigurðardóttur stjórnanda þess, sem mótar starfið með stjórn menningarársins. Ríki, borg og fyrirtæki eru öflugir fjárhagslegir bakhjarlar. Þessir aðilar hefðu þó allir mátt sín lítils, ef á Íslandi hefði ekki þróast og þroskast blómstrandi menningar- og listastarfsemi með þátttöku öflugra og framúrskarandi listamanna.

Í rúmlega 1100 ára sögu Íslandsbyggðar hefur menningarlíf þjóðarinnar aldrei verið fjölbreyttara en þegar við göngum inn í menningarárið sjálft. Undirstaða þessarar fjölbreytni byggist á traustum grunni. Með menningararfinn sem viðspyrnu hefur þjóðin sótt fram á öllum sviðum í þeirri vissu, að hvorki fámenni né fjarlægðir setja þeim skorður, sem hafa eitthvað sérstakt og gott fram að færa.

Tómas Guðmundsson borgarskáld komst svo að orði skömmu eftir að við höfðum stofnað lýðveldi:

"En sé sá menningararfur, sem vér höfum varðveitt, slíkur sem viðurkennt er, höfum vér heldur engu að leyna heiminn um smæð vora. Það hefur jafnan þótt nokkur skortur á innri háttvísi að berast meira á en góðu hófi gegnir, og væntanlega verður það eitt af vandasömustu viðfangsefnum vors unga lýðveldis að temja sér þann virðuleik, sem hæfir menningu vorri, og þá hófsemi. sem bezt fer efnahag vorum og ástæðum. Þess verður naumast krafizt af oss með nokkurri sanngirni, að vér höldum uppi gagnvart öðrum ríkjum íburði og rausn margfalt stærri þjóða, enda mundum vér aldrei til langframa afla oss trausts að hætti þeirra manna, sem telja meira fram til skatts en efni standa til."

Við skulum vona, að hinir góðu skipuleggjendur þeirrar glæsilegu dagskrár, sem hér er kynnt, hafi haft þessa hugsun að leiðarljósi. Við stofnum ekki til menningarárs í því skyni að reisa okkur hurðarás um öxl eða miklast af því, sem við getum ekki. Við hikum hins vegar ekki við að sýna hvað í okkur býr.

Við náum mestum árangri þegar tekst að virkja menningarlega strauma og stefnur með íslenskum höndum og breyta þeim í eitthvað nýtt. Aldrei fyrr höfum við átt jafnmarga listamenn til að gera þetta með glæsibrag, árangurinn birtist okkur ekki aðeins hér á landi heldur víða um lönd.

Menningarárið 2000 gefur okkur einstakt tækifæri á miklum tímamótum til að árétta sterka stöðu okkar og sækja fram með nýjum hætti og á nýjum forsendum.

Um leið og ég þakka þeim, sem hafa mótað dagskrá menningarársins af miklum stórhug, óska ég hinum stóra hópi listamanna, sem lætur að sér kveða á árinu, mikillar velgengni. Góður hugur fylgir þeim fulltrúum þjóðarinnar, sem eiga eftir að sækja fram á erlendum vettvangi í tilefni ársins. Þar ber kórinn Raddir Evrópu hæst.

Megi með ágætum takast að hrinda hinni glæsilegu dagskrá menningarársins í framkvæmd.