22.4.2009

Jóhanna segist leiða Ísland í ESB - Brusselvaldið leggur Samfylkingu lið.

Pistill á amx.is 22. apríl 2009.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við mbl.is í hádegi 21. apríl, að því sterkari sem Samfylkingin yrði í kosningunum þeim mun líklegra yrði, að hún leiddi Ísland í Evrópusambandið með vinstri-græna sér við hlið, þar sem Evrópusambandsaðild yrði meginmál í stjórnarmyndunarviðræðum að kosningum loknum. Hún sagðist hafa „fulla trú“ á því að ná „ásættanlegri niðurstöðu“ með vinstri-grænum, sem „leiði okkur inn í Evrópusambandið.“

Nokkru síðar birtist viðtal við Steingrím J. Sigfússon á visir.is, þar sem hann er spurður um ummæli tveggja þingmanna Samfylkingarinnar og frambjóðenda, Björgvins G. Sigurðssonar og Árna Páls Árnasonar, frá 20. apríl þess efnis, að ESB-aðild sé úrslitaatriði fyrir Samfylkinguna við stjórnarmyndun. Steingrímur J. sagði:

„Ég hef ekki heyrt þetta sett fram með sama hætti af formanni Samfylkingarinnar eða öðrum forystumönnum eins og utanríkisráðherra, en þau fara nú kannski með prókúruna að hálfu Samfylkingarinnar… En ég get ekki leynt því að mér finnst frekar óskynsamlegt hjá mönnum að fara að loka sig af með þessum hætti….Þeim mun minni úrslistakosti eða fyrirfram skilyrði sem menn setja, þeim mun auðveldara er að ganga til viðræðna.“

Jóhanna sagðist ekki vilja kannast við „ófrávíkjanleg skilyrði“ , þótt viðtalið á mbl.is hafi borið öll merki slíkra skilyrða, enda eru þau hið eina, sem ræður ferð í samningatækni hennar. Deilan vegna stjórnarskrármálsins sannaði enn, að Jóhanna vill ekki horfast í augu við, að kröfur hennar séu hafðar að engu. Steingrímur J. kann að lenda í sömu stöðu og Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, sem sat á forsetastóli, án þess að ráða nokkru um dagskrá þingsins. Aðild að ESB verður á dagskrá ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Á visir.is var sagt frá því um kvöldmatarleyti 21. apríl, að vinstri grænir virtust tilbúnir að fallast á kröfu Samfylkingarinnar um að farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Byggðist þetta á því, að Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, segði það samningsatriði og spurningu um tæknilega útfærslu á hvaða stigi leitað yrði eftir vilja þjóðarinnar og nú væri tími til að opna allar gáttir í þessum efnum vinstri grænir ætluðu að láta þjóðina skera úr um Evrópumálin. Hvernig það verði gert væri bara framkvæmdaatriði sem samið yrði um af flokkunum. „Þetta eru bara tæknilegar útfærslur. Það sem máli skiptir er að þjóðin skeri úr um þetta,“ sagði Ögmundur.

Orð Ögmundar sýna, að hann er fús að sætta sig við dagskrárvald Jóhönnu til að halda völdum og talar nú á þann veg, að allt sé betra en íhaldið og vísar þar væntanlega til ESB. Þá kallaði RÚV á Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, í fréttatíma sína til að segja hlustendum frá því, eins og ekkert sé sjálfsagðara, að Samfylking og vinstri-grænir séu bara sammála um að vera ósammála í Evrópumálum. Þegar Samfylkingin sagðist um miðjan desember 2008 vera ósammála Sjálfstæðisflokknum í Evrópumálum, var það talið stofna stjórnarsamstarfi í stórhættu, nú er litið á það sem styrkleikamerki væntanlegs stjórnarsamstarfs. Hvað hefur breyst? Eru einhver ný stjórnmálafræðileg rök fyrir niðurstöðunni?

*

Síðustu daga kosningabaráttunnar hafa Evrópumálin sett meiri svip á umræður stjórnmálamanna en oft áður svo nærri kjördegi. Reynslan til þessa hefur verið sú, að áhersla á aðild að Evrópusambandinu minnkar eftir því, sem nær dregur kosningum. Nú hefur annað verið uppi á teningnum og þar réð miklu frumkvæði sjálfstæðismanna.

Benedikt Jóhannesson, stærfræðingur og útgefandi, reið á vaðið með grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 16. apríl en henni lauk á þessum orðum:

„Eina úrræði þjóðarinnar er að taka málin í sínar hendur og krefjast þess að stjórnmálamenn setji málið [aðild að Evrópusambandinu] á dagskrá. Það geta menn gert með því að undirrita áskorun til stjórnvalda á vefsvæðinu www.sammala.is þar sem þeir taka saman höndum sem eru sammála um að ríkisstjórnin, sem tekur við völdum að loknum kosningum 25. apríl, eigi að hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum að skilgreina samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu.“

Greinin vakti ánægju aðildarsinna og var Benedikt fenginn í spjallþætti vegna hennar auk þess auglýsingar birtust með þjóðþekktu fólki, þar á meðal sjálfstæðismönnum, þar sem hvatt var til þess, að menn rituðu nafn sitt á vefsvæðið sammala.is

Samfylkingarfólk gladdist sérstaklega yfir grein Benedikts og til marks um það má nefna grein eftir Eið Guðnason, fyrrv. ráðherra og sendiherra, sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 19. apríl. Henni lauk á þessum orðum:

„Norðmenn höfnuðu aðild að ESB einkum vegna þjóðernisstefnu og hræðsluáróðurs Miðflokksins í Noregi. Ekki vegna þess að samningsdrögin væru vond. Sjálfstæðisflokkurinn og VG reka nú að hluta til sama hræðsluáróður og Miðflokkurinn gerði í Noregi. Dauðahald í ónýta krónu og heimóttarleg einangrunarstefna eru ávísun á áratuga fátækt afkomenda okkar.

Sem betur fer er fólk innan Sjálfstæðisflokksins – margt fólk sem er raunsætt og með báða fætur á jörðinni. Það væri líklega ráð að prenta hina prýðilegu grein Benedikts Jóhannessonar (Mbl. 16.04. Stefna stjórnmálaflokkarnir að nýju hruni?) í Morgunblaðinu á hverjum degi fram til kosninga og jafnvel lengur. Ég ráðlegg andstæðingum ESB innan Sjálfstæðisflokksins að lesa þessa grein – oft.“

Ég undrast stóryrði Eiðs um þá, sem eru honum ósammála um, hvort Ísland eigi að fara í Evrópusambandið. Fyrir því eru skýr málefnaleg rök af hálfu okkar Íslendinga og ég hef ekki farið í smiðju Norðmanna í þessu máli.

*

Evrópunefnd, sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra, skipaði á sínum tíma og laut formennsku þeirra Illuga Gunnarssonar, Sjálfstæðisflokki, og Ágústi Ólafi Ágústssyni, Samfylkingu, skilaði niðurstöðu föstudaginn 17. apríl en ekki var um sameiginlegt álit að ræða.

Niðurstaða Illuga var að leitað yrði eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um, að sjóðurinn styddi Íslendinga við að taka upp evru án aðildar að Evrópusambandinu við lok samsamstarfsins við sjóðinn. Nú virtist sem áður einörð afstaða sambandsins gegn því, að ríki tæki upp evru án aðildar væri að breytast. Langt gæti verið í ESB-aðild Íslands og því þyrfti að kanna þennan kost og vísaði Illugi í skýrslu á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), sem birt var í The Financial Times 6. apríl 2009, þar sem Evrópusambandið var hvatt til að slaka verulega á þeim skilyrðum sem sett hafa verið fyrir evruaðild ríkja í Mið- og Austur-Evrópu.

Næstu daga birtu sjálfstæðismenn heilsíðu auglýsingu með mynd af Bjarna Benediktssyni, formanni sínum, þar sem gjaldmiðilsstefna Illuga í Evrópunefndinni var kynnt.

Mánudaginn 20. apríl birtist í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins og síðan Spegli RÚV viðtal við Percy Westerlund, sendiherra ESB gagnvart Íslandi með búsetu í Ósló, þar sem hann andmælti harðlega og raunar háðuglega stefnunni, sem Illugi kynnti 17. apríl um evru í samvinnu við AGS, sjóðurinn kæmi ekkert að þessu máli og einhliða evru-upptaka væri fráleit leið fyrir Íslendinga.

Ég mótmælti þessum orðum sendiherrans á vefsíðu minni og síðan í pistli á vefsíðunni amx.is. Taldi ég hann fara langt af braut með afskiptum sínum af flokkspólitískum deilum, hann væri að blanda sér í íslensk innanríkismál og kosningabaráttu á fráleitan hátt.

Bjarni Benediktsson brást við frumhlaupi sendiherrans í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 21. apríl. Hann sagði, að Íslendingar ættu ekki að láta embættismenn í Brussel segja sér fyrir verkum um hvað þeir mættu hugsa, skoða og kanna. Það ætti að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við að finna leiðir til að endurreisa íslenska hagkerfið.

*

Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, þótti ekkert athugavert við, að Percy Westerlund, erlendur sendiherra, hæfi flokkspólitíska þátttöku í kosningaumræðum og baráttu innan við viku fyrir kjördag. Össur fagnaði Percy Westerlund sem samherja í átökum við Sjálfstæðisflokkinn, en um hann sagði hæstvirtur utanríkisráðherra af sinni alkunnu smekk- og rökvísi:

„Sami hringlandaháttur birtist um ESB. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn einsog vönkuð kvíga, sem veit ekki hvað snýr upp eða niður.“

Þessi framganga Össurar er utanríkisráðherra, sem ber að hafa auga á því, að erlendir sendimenn seilist ekki um of til afskipta af málefnum Íslendinga sjálfra og haldi sig í raun langt frá afskiptum af þeim, til lítils sóma. Össur Skarphéðinsson virðist frekar líta á sig sem ráðherra í þágu sjónarmiða Evrópusambandsins en íslenskra. Úr því að Össur kýs ekki að gera athugasemd við framgöngu sendiherrans verður hlutur hans sem utanríkisráðherra jafnvel verri en sendiherrans og sýnir, að ekki er unnt að treysta Össuri fyrir íslenskum hagsmunum gagnvart Evrópusambandinu.

Hefðu Íslendingar á sínum tíma elt uppi sendiherra eða embættismenn ríkja eða ríkjahópa, sem voru andvígir útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar, hefðu þeir jafnan fengið svarið, að Íslendingar mættu ekki stækka lögsöguna. Á þessum árum datt engum í hug að eltast við útlendinga með slíkum spurningum. Hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að engir hér á landi stóðu í sömu sporum og Samfylkingin nú, að meta hagsmuni annars ríkis eða ríkjahóps þyngri en Íslendinga.

Forvitnilegt væri að vita, hvort þeir, sem rita undir kjörorðið sammala.is séu sammála framgöngu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, og málflutningi hans í tilefni af íhlutun sendiherrans.

*

Samfylkingin nýtur stuðnings embættismannakerfis Evrópusambandsins, Brusselvaldsins, í kosningabaráttunni. Sendiherra ESB gagnvart Íslandi grípur inn í stjórnmálaumræðuna til að verja málstað Samfylkingarinnar og hafnar rökum og sjónarmiðum, sem eiga fullan rétt á sér.

Gegn þessum stuðningi frá Brusselvaldinu gefur Jóhanna Sigurðardóttir fyrirheit um að leiða þjóðina inn í Evrópusambandið, hvað sem vinstri-grænir segja fyrir kosningarnar. Jóhanna ætlar að hafa dagskrárvaldið eftir kosningar og beita því í þágu Brusselvaldsins, sem seilist til yfirráða á Norður-Atlantshafi en hefur til þessa verið hafnað af Norðmönnum og Grænlendingum í þjóðaratkvæðagreiðslu.