11.3.2009

Heimildir sérstaks saksóknara - ræður

Fyrri ræða:

Ég fagna framkomu þessa frumvarps og vil lýsa því að þegar unnið var að því að semja frumvarpið um hinn sérstaka saksóknara var í upphaflegum tillögum mínum um það gert ráð fyrir því að hann hefði víðtækari heimildir til að leita upplýsinga og gagna en niðurstaðan varð. Niðurstaða frumvarpsins sem ég flutti og varð síðan að lögum hér á Alþingi byggðist á andstöðu viðskiptaráðuneytisins og þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar við það að heimildirnar yrðu jafnvíðtækar og upphaflegar tillögur mínar gerðu ráð fyrir.

Ég taldi alltaf nauðsynlegt að hinn sérstaki saksóknari hefði víðtækari heimildir en venjulegt er fyrir saksóknara og einmitt þess vegna lagði ég áherslu á það frá upphafi að flutt yrði sérstakt frumvarp og sérstök lög sett um þann saksóknara sem tæki að sér að rannsaka þau mál sem undir þetta embætti heyra. Það frumvarp sem hér er flutt staðfestir aðeins að mínu mati nauðsyn þess að það hafi verið gengið til verks á þann veg sem gert hefur verið, að koma þessu embætti á laggirnar til að rannsaka þau mál sem undir það falla.

Ég undrast að heyra að hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, núverandi enn formaður Samfylkingarinnar, skuli hafa lýst því yfir í sjónvarpsviðtali að hún teldi að stofnun þessa embættis hefði verið óþörf. Það kemur mér mjög á óvart að það viðhorf komi fram nú þegar þetta embætti er að hefja göngu sína. En þetta dregur svo sem dám af þeirri staðreynd að þegar málið var til meðferðar í fyrrverandi ríkisstjórn og til afgreiðslu þar var tafið fyrir því að það næði fram að ganga af samstarfsflokki okkar sjálfstæðismanna og þá látið að því liggja að það væri vegna þess að það þyrfti að eiga einhverja samleið með frumvarpi sem hér var til umræðu um sérstaka rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem síðan tafðist vegna afstöðu Vinstri grænna til þess máls á sínum tíma, eins og frægt er og var rætt hér fyrir jólin.

Þetta er allt að komast í þann búning sem þarf til þess að embættið hafi þær heimildir sem nauðsynlegar eru svo það geti skilað því sem að var stefnt. Einnig er ljóst að það þarf að auka mannafla hjá embættinu. Við lögðum af stað með heimildir í fjárlögum upp á 50 milljónir og ég heyri nú að hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra er með hugmyndir um að efla embættið.

Það væri fróðlegt hér í þessum umræðum að fá greinargerð hæstv. ráðherra um það hvernig hún sér það fyrir sér. Einnig væri mjög gagnlegt fyrir þingið í þessum umræðum, þegar verið er að ræða þetta embætti og auknar heimildir þess, að fá upplýsingar hjá hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra um það hvernig hún sér fyrir sér ráðgjöf þess saksóknara sem hefur verið hér á landi, Evu Joly, sem hefur komið hér fram og m.a. rætt um að hún telji að það sé allt of lítill mannskapur og að það þurfi allt að 20 manns til að starfa við þetta embætti svo það nái þeim árangri sem að er stefnt og heyra ráðherra ræða þær hugmyndir og hvaða hlutverki hinn franski/norski saksóknari eigi að gegna hér við ráðgjöf sína. Er það bundið við hinn sérstaka saksóknara eða er það víðtækara á vegum ríkisstjórnarinnar sem á að nýta krafta hennar?

Þegar fjallað er um mannafla hjá þessu embætti vil ég líka láta þess getið að þegar ég lagði fram tillögurnar um að því yrði komið á laggirnar var ákveðin tortryggni, líka hjá samstarfsflokki mínum þá í ríkisstjórninni, um það hvaða fjárveitingar skyldu renna til embættisins. Þá var það sérstaklega núverandi hæstv. forsætisráðherra sem taldi að það yrði að fara mjög varlega í öll útgjöld vegna þessa embættis og yrði að halda því innan strangra fjárhagslegra marka. Ég fagna því ef það viðhorf hefur nú breyst og það sé meiri vilji í ríkisstjórninni til að veitt sé fé til þess að þetta embætti geti skilað þeim árangri sem að hefur verið stefnt, allt frá því að hugmyndir um það komu fram. Um það að koma embættinu á laggirnar var mikil samstaða hér í þinginu að lokum við afgreiðslu málsins, eins og menn vita.

Ég styð heils hugar þetta frumvarp og vona að það fái skjótan framgang í þinginu þannig að það sé ekki vafi um þetta. Ég hef alla tíð frá því að þessi mál komu hér á dagskrá hvatt til þess að menn héldu ekki í skjóli bankaleyndar til baka upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að upplýsa mál sem best. Ég er þeirrar skoðunar að hugtakið bankaleynd eigi ekki við um atburði sem eru hluti af því gjaldþrotaferli og því ferli öllu sem nú er verið að gera upp.

Mig undrar að Fjármálaeftirlitið skuli ekki hafa afhent embætti hins sérstaka saksóknara endurskoðunarskýrslur sem það hefur látið vinna og veitt honum og embættinu aðgang að þeim skýrslum. Það er full ástæða til að árétta nauðsyn þess að menn opni hirslur sínar og gagnasöfn fyrir þessu embætti til að það geti náð þeim árangri sem að er stefnt. Hugtakið bankaleynd um einhverja atburði sem heyra sögunni til og eru í raun ekki annað en upplýsandi um það hvað hér hefur gerst á ekki lengur við, að mínu mati, þegar um þau mál er rætt.

Ég ítreka að ég styð þetta mál heils hugar og hefði raunar sjálfur gjarnan viljað flytja frumvarp af þessum toga um heimildir fyrir saksóknarann en það komst ekki í gegnum þingflokk Samfylkingarinnar og samstarfsráðherra mína í Samfylkingunni á þeim tíma sem þetta embætti varð til.

 

Seinni ræða:

Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra þessi svör og þær upplýsingar sem hér hafa komið fram, sem ég tel að skýri málið. Ég tel einnig, í tilefni af þeim orðaskiptum sem urðu um réttarstöðu hins sérstaka saksóknara, og hvernig hann kemur að ríkissaksóknara, að um það sé að ræða að auka réttaröryggið með því að hafa þetta tvö stjórnsýslustig. Þeir sem telja að eitthvað sé að stjórnsýslu héraðssaksóknara eða hins sérstaka saksóknara geta kært þann þátt sérstaklega til ríkissaksóknarans en ríkissaksóknarinn sé ekki að hlutast um þær ákvarðanir sem teknar eru efnislega af saksóknara. Það er mjög mikilvægt atriði að hafa í huga.

Einnig er það svo að þegar um þetta er rætt er nauðsynlegt að líta til þess að þarna gilda hæfisreglur og ef einhverjum málum er skotið sérstaklega til ríkissaksóknara, af lægra stjórnsýslustigi upp á hærra stjórnsýslustig innan stjórnsýslurammans, er ríkissaksóknari að sjálfsögðu vanhæfur að fjalla um þau mál ef svo ber undir og snerta hann sérstaklega. Þarna er því ekki um neitt alhæft afskiptavald að ræða. Það lýtur að einstökum atriðum, stjórnsýslulegum atriðum, en efnislega lít ég þannig á að hinn sérstaki saksóknari eigi að taka endanlegar ákvarðanir um það hvort ákæra eigi í málum eða slíkt ef það er það sem hér hefur verið til umræðu.

Varðandi hinn þáttinn, sem ég vék að, þá vil ég koma því að við þessar umræður að ég var þeirrar skoðunar í upphafi að hafa ætti þessar víðtæku heimildir í lögunum. Ég bar það undir viðskiptaráðuneytið og viðskiptaráðherra og neikvætt svar kom til baka og það var það sem ég var að vísa til. Ég taldi víst að hæstv. viðskiptaráðherra hefði á þeim tíma tekið þetta upp á pólitískum vettvangi í þingflokki sínum eða annars staðar en hér hefur verið upplýst af hæstv. utanríkisráðherra að svo virðist ekki hafa verið. Þetta virðist ekki hafa verið rætt sérstaklega í þingflokki Samfylkingarinnar og það hefur þá skýrst í þessum umræðum. En það liggur fyrir, og er hægt að bréfa það og skoða ef menn vilja, hvaða álitaefni það voru sem bar á milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins, á milli mín sem dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskiptaráðherra, og hvað það var sem ég gaf eftir til að málið næði fram að ganga og sameiginleg sátt yrði.

Ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram í þessum umræðum vegna þess að ég hef alla tíð litið þannig á að þessar heimildir ættu að vera svona víðtækar. Að vísu held ég þetta séu núna — og reynslan hafi sýnt að þær þurfa að vera víðtækari en við gerðum ráð fyrir þegar við vorum að leggja upp með þetta, en þær heimildir sem við mæltum fyrir um og vildum ná fram hefðu auðveldað hinum sérstaka saksóknara að hefja sín störf.

Hvað rannsóknarnefndina varðar þá er ég feginn að hæstv. fjármálaráðherra er ekki í salnum þegar við ræðum þetta. Þegar ég tók þetta upp þá fékk ég slík ónot í mig og ógnandi stöðu fyrir framan ræðupúltið og síðan fylgdi handlagning hæstv. núverandi fjármálaráðherra yfir þáverandi hæstv. forsætisráðherra. Ég vona að slík atvik endurtaki sig ekki hér en það var það sem ég var að vísa til en ekki meðferðar málsins í hv. allsherjarnefnd — ég var að vísa til þeirrar uppákomu sem varð hér þegar ég leyfði mér að segja þá skoðun mína, sem ég hafði rök fyrir, að málið hefði tafist vegna afstöðu Vinstri grænna.