15.3.2009

Stjórnmál um prófkjörshelgi.

Þegar ákveðið var hinn 23. janúar að fresta landsfundi Sjálfstæðisflokksins til 26. mars, boða til þingkosninga 9. maí og efna til prófkjara innan flokksins fyrir landsfundinn auk þess sem við blasti, að Geir H. Haarde mundi ekki gefa kost á sér til endurkjörs, hvorki sem þingmaður né flokksformaður, var augljóst, að sjálfstæðismenn væru að hefja stormasama vegferð.

Þá lá þó ekki fyrir, að upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði. Það gerðist þremur dögum síðar, mánudaginn 26. janúar, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir krafðist þess, að Geir H. Haarde hætti sem forsætisráðherra og Geir svaraði með því, að ekki væri unnt að starfa með Samfylkingunni í ríkisstjórn, flokki „í tætlum“ eins og hann orðaði það.

Við því hafði verið varað, að stjórnmálamenn myndu missa sjónar á því meginverkefni sínu eftir bankahrunið, að koma þjóðarskútunni aftur á réttan kjöl, ef stjórnarsamstarfi lyki, þing yrði rofið og efnt til nýrra kosninga. Samfylkingin hafði slík ráð að engu. Hún þorði einfaldlega ekki að sitja lengur í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum auk þess sem Ingibjörg Sólrún hafði enga krafta lengur til að gegna ráðherraembætti eða flokksforystu eins og síðan hefur sannast með brotthvarfi hennar af vettvangi stjórnmálanna.

Ríkisstjórn Jóhönnu

Ný ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð sunnudaginn 1. febrúar. Í dag eru sjö vikur liðnar frá því að stjórnin settist að völdum og allt hefur ræst um tímasóun við stjórnarskipti. Ríkisstjórnin hefur ekki komið með nein mál á alþingi til að styrkja hag heimila og fyrirtækja, sem ekki voru á dagskrá fyrri ríkisstjórnar. Hið nýja, sem frá henni hefur komið, snýr að brottrekstri seðlabankastjóra, eftirlaunum þingmanna , breytingu á kosningalögum og stjórnarskrá. Öll nýju málin eru til þess eins fallin að dreifa enn frekar athygli þingmanna frá meginverkefninu, að takast á við afleiðingar bankahrunsins.

Til marks um fáránleika tillagna ríkisstjórnarinnar er, að allsherjarnefnd alþingis skuli verja tíma sínum til að ræða frumvarp um aukið vægi persónukjörs í þingkosningum á sama tíma og nefndarmenn eru allir önnum kafnir við að berjast um sæti á framboðslistum í prófkjörum.

Þá er fráleitt, að daginn eftir að sérstök nefnd þingmanna er kjörin til að ræða breytingar á stjórnarskrá, skuli Jóhanna Sigurðardóttir gefa yfirlýsingu um kosningarnar 25. apríl og að þing skuli rofið þann sama dag, en það gengur þvert á hugmyndir manna um breytingu á stjórnarskránni 1991. Þessi dæmalausa aðferð við þingrof er viðhöfð til að bjarga andliti ríkisstjórnarinnar og meirihluta þings undan gagnrýni á að til afgreiðslu séu ágreiningsmál á þingi, eftir að boðað er til kosninga með þingrofi. Þingmenn allra flokka töldu árið 1991, að frá því að kosningar hefðu verið boðaðar og fram að þeim ætti þing aðeins að sitja til að afgreiða brýn mál í sátt allra þingflokka. Nú er vitað, að alvarlegur ágreiningur er um stjórnarskrármálið á þingi.

Við þessar aðstæður ganga flokkar til undirbúnings prófkjara og flest þeirra eru núna um þessa helgi.

Samheldinn Sjálfstæðisflokkur

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú efnt til prófkjara í öllum kjördæmum nema einu, norðvesturkjördæmi, en þar verður kosið um næstu helgi. Heildarsvipur úrslita ber með sér, að þingflokkur sjálfstæðismanna nýtur góðs stuðnings flokksmanna. Þátttakan hefði vissulega mátt vera meiri, en ólíklegt er, að fleiri kjósendur hefðu breytt neinu um röðun manna á listann. Þá hefur verið vakið máls á því, að konur setji ekki nægilega sterkan svip á lista flokksins í Reykjavík. Þetta er ekki nýtt og á að ræða betur á vettvangi flokksfélaga í höfuðborginni í aðdraganda og við undirbúning kosninga.

Við vorum þrír ráðherrar í þessum kjördæmum, sem gáfum ekki kost á okkur til endurkjörs, Árni M. Mathiesen, Geir H. Haarde og ég. Í því einu felst tækifæri til meiri endurnýjunar, en kjósendur hafa kynnst um árabil.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem sat með okkur í ríkisstjórn, ákvað að sækjast eftir endurkjöri og getur vel við sinn hlut unað. Ragnheiður Ríkharðsdóttir stekkur upp eftir listanum í suðvesturkjördæmi og þau Óli Björn Kárason og Rósa Guðbjartsdóttir koma inn á öflugan hátt. Kjör Óla Björns í fimmta sætið vekur ekki síst athygli, þar sem hann hefur ekki áður verið í framboði. Af stöðu þeirra Jóns Gunnarssonar, í fjórða sæti, og Ármanns Kr. Ólafssonar, þingmanns, sem hlaut sjöunda sæti, má draga þá ályktun, að ekki hafi verið einhugur meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður, tók djarfa ákvörðun með því að flytja sig úr suðvesturkjördæmi og sækjast eftir efsta sætinu í suðurkjördæmi með aðeins fáeinna vikna fyrirvara. Niðurstaðan sýnir, að þetta var rétt ákvörðun, því að Ragnheiður Elín náði markmiði sínu og skipar sér þar með í forystusveit Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Í fjórum efstu sætunum í suðurkjördæmi eru þrjár konur, ásamt Árna Johnsen, alþingismanni, í öðru sæti, en þau Kjartan Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir, alþingismenn, urðu að lúta í lægra haldi.

Þegar Þorgerður Katrín kynnti, að hún óskaði eftir kjöri í fyrsta til annað sæti, var ljóst, að hún ætlaði ekki að láta sverfa til stáls í átökum við Bjarna Benediktsson um fyrsta sætið í suðvesturkjördæmi. Kosningabarátta þeirra bar merki um gagnkvæma virðingu.

Í Reykjavík var barist hart um fyrsta sæti á lista sjálfstæðismanna í átökum milli Illuga Gunnarsonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Illugi sigraði örugglega. Pétur H. Blöndal styrkti stöðu sína með því að ná þriðja sæti og Ólöf Nordal, sem bauð sig í fyrsta sinn fram í Reykjavík, hlaut mjög góða kosningu í fjórða sætið. Sigurður Kári Kristjánsson , Birgir Ármannsson og Ásta Möller sýndu enn, að þau njóta góðs trausts meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Í norðausturkjördæmi hlaut Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, öruggt endurkjör í fyrsta sæti, Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur, bauð sig fram í fyrsta sinn og hlaut góðan stuðning í annað sæti en Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaðu okkar sjálfstæðismanna, fór niður um eitt sæti og hafnaði í því þriðja.

Ég sagði á vefsíðu minni bjorn.is laugardaginn 14. mars, að með niðurstöðu prófkjaranna í Reykjavík og suðvesturkjördæmi væri ný forysta væri að fæðast í Sjálfstæðisflokknum. Sú skoðun mín styrktist við sigur Ragnheiðar Elínar í suðurkjördæmi.

Bjarni Benediktsson er í formannsframboði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eftir hálfan mánuð. Hann nýtur víðtæks stuðnings innan flokksins og meðal þeirra, sem fá nú umboð til forystu í prófkjörum. Sjálfstæðisflokkurinn vinnur markvisst að því að styrkja innviði sína til framtíðar og gerir það fyrir opnum tjöldum.

Framsóknarflokkur í vanda

Frá myndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur fylgi Framsóknarflokksins dalað og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem hefur verið formaður flokksins frá því um miðjan janúar, hefur mistekist að ávinna sér nauðsynlegt traust. Hér ræður miklu framganga þingmanna Framsóknarflokksins á alþingi. Þeir hafa gengist upp í keppni við Mörð Árnason, sem var hafnað í prófkjöri Samfylkingarinnar, í illmælgi í garð Sjálfstæðisflokksins auk þess að sýna stjórnarflokkunum auðsveipni, sem á ekkert skylt við það fyrirheit að verja stjórnina vantrausti.

Stjórnarflokkarnir fengu framsóknarmenn til stuðnings við minnihlutatstjórn sína með fyrirheiti um stjórnlagaþing og næstu daga og kannski vikur verður deilt um það mál á þing. Fyrst í nefnd undir formennsku Valgerðar Sverrisdóttur og síðan í umræðum í þingsalnum sjálfum. Um þetta telja framsóknarmenn brýnast að ræða á þingi fram að kosningum. Ef þeir ímynda sér, að þetta mál verði til þess að auka fylgi þeirra og styrkja stöðu meðal kjósenda, sýnir það, hve Framsóknarflokkurinn hefur fjarlægst raunveruleg viðfangsefni við landstjórnina.

Framsóknarmenn hafa leikið þann leik í aðdraganda þingkosninga að kasta einhverju óskamáli sínu á loft og gefið til kynna samstarfsvilja við þann, sem grípur boltann og heldur áfram með hann í mark, því að sjálfir hafa þeir ekki haft neina burði í mörg ár til að leiða neitt mál til lykta.

Fyrir kosningar 2003 tóku framsóknarmenn til við að ræða um 90% húsnæðislán, sem hafa reynst dýrkeypt. Fyrir kosningar 2007 var allt sett á annan endann vegna kröfu framsóknarmanna um breytingu á stjórnarskránni. Við stjórnarmyndunina í janúar, þótti stjórnlagaþing allt í einu lausn á öllum framsóknarvanda. Nú felst framsóknargaldurinn í því að afskrifa 20% af skuldum og framsóknarmenn kveinka sér undan því, að stjórnarflokkarnir vilji ekki á sig hlusta og hafi meira að segja snúið alþjóðagjaldeyrissjóðnum gegn Framsóknarflokknum.

Samfylking í tætlum

Frá því að Geir H. Haarde lýsti Samfylkingunni sem flokki í tætlum við stjórnarslitin 26. janúar, hefur réttmæti þeirra orða sannast dag frá degi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lætur af formennsku vegna veikinda eins og Geir H, Haarde gerir í Sjálfstæðisflokknum. Í stað þess að umræður hefjist innan Samfylkingarinnar um leit að framtíðarleiðtoga er hafist handa við að biðja Jóhönnu Sigurðardóttur náðarsamlegast að taka að sér formennsku í flokknum, þótt ekki verði nema í tvö ár.

Þessi bæn til Jóhönnu byggist á því, að innviðir Samfylkingarinnar þola ekki formannsátök. Jón Baldvin Hannibalsson hafði þó gefið til kynna, að hann gæti vel hugsað sér að sækjast eftir formennskunni. Honum var á hinn bóginn hafnað svo rækilega í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, að allir draumar hans um formennsku hljóta að vera úr sögunni.

Össur Skarphéðinsson fékk það sæti í prófkjörinu, 2. sætið, sem hann vildi í Reykjavík en með svo litlu fylgi, að hann mun ekki sækjast eftir formennsku. Dagur B. Eggertsson, sem Ingibjörg Sólrún valdi með eigin hendi á framboðslista Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur, sækist eftir varaformennsku í flokknum. Það gerir Árni Páll Árnason, alþingismaður einnig, en hann sýndi mikinn styrk í suðvesturkjördæmi, þegar hann sigraði Lúðvík Geirsson, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, höfuðvígis Samfylkingarinnar, sem gaf þá skýringu á tapi sínu, að Hafnfirðingar vildu ekki sjá á eftir sér inn á þing! Fyrir fall hans í keppninni við Árna Pál, var Lúðvík jafnvel talinn formannsefni í Samfylkingunni.

Tveir ráðherrar Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félagsmálaráðherra, hlutu skammarverðlaun í prófkjörunum.

Það er mikið veikleikamerki fyrir Samfylkinguna, ef hún neyðist til að kjósa bráðabirgðaformann á landsþinginu, sem haldið verður um sömu helgi og sjálfstæðismenn efna til landsfundar. Hafi Samfylkingin það eitt að bjóða í komandi kosningum, að Jóhanna Sigurðardóttir hafi skipt um skoðun og ákveðið að leiða flokkinn í neyð hans, er unnt að færa rök fyrir því, að flokkurinn hafi hrunið með bönkunum.