11.3.2009

Breyting á stjórnarskrá - seinni ræða.

Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, ég tel að það sem er brýnast og ætti að einbeita sér að í þessum umræðum sé 2. gr. þessa frumvarps, þ.e. að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að það verði borið undir þjóðaratkvæði þegar Alþingi hefur tekið ákvarðanir um og samþykkt að stjórnarskránni skuli breytt. Ég tel að þetta ákvæði sé í raun grundvallarákvæði í þeim breytingum sem hér eru til umræðu. Ég átta mig ekki almennilega á því, virðulegi forseti, hvernig á því stendur að þessi 2. gr. er flutt í frumvarpi þar sem síðan er bráðabirgðaákvæði um sérstakt stjórnlagaþing þar sem valdið til þess að breyta stjórnarskránni er tekið af Alþingi.

Í greinargerð með 2. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Í greininni er gengið út frá því að frumkvæði að breytingu eða viðauka á stjórnarskránni verði að meginstefnu áfram hjá Alþingi. Samkvæmt 55. gr. stjskr. verður einhver alþingismanna eða ráðherra að flytja frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskránni sem lagt er til að verði framvegis nefnt frumvarp til stjórnskipunarlaga, en það er þjálla heiti en það sem notað hefur verið. Þá verður slíkt frumvarp einnig flutt sem stjórnarfrumvarp skv. 25. gr. stjskr. Gert er ráð fyrir að það verði eftir sem áður skilyrði fyrir framgangi frumvarps til stjórnskipunarlaga að það verði samþykkt á Alþingi eftir því sem nánar er kveðið á um í 1. mgr.“

Þetta stendur í greinargerð með 2. gr. þessa frumvarps en síðan er öllu málinu kippt til baka með þessu bráðabirgðaákvæði. Þetta frumvarp er ótrúlega illa unnið og ótrúlega sérkennilegt þegar litið er til þess að það er verið að fjalla um breytingu á stjórnarskránni. Ef þingmenn eru þeirrar skoðunar og sömu skoðunar og ég að það eigi að leita álits þjóðarinnar í ríkari mæli en gert hefur verið liggur beinast við að samþykkja þessa grein í frumvarpinu, 2. gr., og láta hitt bíða, fá hana og láta þjóðina ákveða hvort hún hafi áhuga á því að þessi breyting nái fram að ganga og að á það muni reyna, væntanlega þá eftir að nýtt þing kemur saman. Núna þarf að breyta stjórnarskránni með því að hafa kosningar á milli og nýtt þing þarf að samþykkja hana. Það tekur sinn tíma. En hér er talað fyrir mjög sérkennilegu tvöföldu kerfi sem gengur ekki upp þegar nánar er skoðað og þess vegna held ég að það sé rétt sem fram hefur komið í umræðunum að þetta bráðabirgðaákvæði er flutt til þess að tryggja að framsóknarmenn verji þessa ríkisstjórn vantrausti, það sé í raun ekkert meint með þessu ákvæði annað en að fá framsóknarmenn til að verja þessa ríkisstjórn vantrausti og þetta bráðabirgðaákvæði verði það fyrsta sem menn kasti á brott þegar farið verður að fjalla um þetta nánar eftir að umræðunni hér lýkur.

Ég er líka alveg sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Ellerts B. Schrams og tek undir með honum, að sjálfsögðu þarf að komast að samkomulagi um það hér í þinginu hvernig mál eru til lykta leidd. Það er óviðunandi, jafnt fyrir stjórnarandstöðu og stjórnina, hvernig ástand hefur verið myndað hér í þinginu. Það er ekki verk stjórnarandstöðunnar að þetta ástand hefur skapast, heldur þeirra sem leggja tillögur fyrir þingið, þessa tillögu, tillögu um breytingar á kosningalögunum og aðrar tillögur sem hér hafa komið fram sem eru algerlega ónauðsynlegar í ljósi þess ástands sem ríkir í þjóðfélaginu og þeirra verkefna sem þingsins bíður ef það á að takast á við þau.

Ég er ósammála hv. þm. Ellerti B. Schram um að með þeim hugmyndum sem hér eru lagðar til og við erum að ræða sé verið að bregðast við einhverju ástandi í þjóðfélaginu. Svo er ekki. Það er verið að takast á við ástand í bakherbergjum stjórnmálamannanna og stjórnmálaflokkanna til að ná meiri hluta með stuðningi Framsóknarflokksins. Það er ekkert flóknara en það. Það er ekki verið að bregðast við neinu ástandi í þjóðfélaginu með þessu, þetta er hreint útspil í því skyni að halda lífi í þessari ríkisstjórn. Ég held að maður verði að gæta sín þegar verið er að leiða þetta mál inn í víðtæka þjóðfélagsumræðu og láta eins og málið snúist um hana. Það snýst ekki um hana, það snýst um að tryggja að Framsóknarflokkurinn verji þessa stjórn vantrausti og síðan verður náttúrulega fyrst kastað á brott þessu ákvæði um stjórnlagaþingið, það liggur alveg ljóst fyrir, enda gengur frumvarpið út á það í raun og veru.

Meginkjarni frumvarpsins er um að frumkvæðið eigi að vera í þinginu. Árum saman hefur verið kvartað um það að þingið hafi verið látið lúta í lægra haldi fyrir framkvæmdarvaldinu og þeir þingmenn sem mest hafa talað um það koma svo hingað og leggja til að þingið afsali sér stjórnarskrárvaldi og kasti því frá sér. Er það vegurinn til að auka virðingu Alþingis og treysta stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu eða almennt í þjóðfélaginu að flytja slíka tillögu? Algjör þverstæða og gengur ekki upp.

Eins og þegar talað er um að þetta frumvarp auðveldi á einhvern hátt aðild að Evrópusambandinu. Hvernig í ósköpunum geta menn fundið það út? Og einhverjar skýringar á 1. gr. — ef það er svo að þetta frumvarp auðveldi aðild að Evrópusambandinu, er það þá með samþykki vinstri grænna? (Gripið fram í: Já.) Er það með samþykki vinstri grænna að hér sé flutt frumvarp sem auðveldi aðild að Evrópusambandinu? Af hverju stíga menn þá ekki skrefið alla leið? Af hverju er þá ekki lagt til með þessu frumvarpi að unnt verði að framselja vald til yfirþjóðlegra stofnana? Það er alveg rétt sem (Gripið fram í.) fyrrverandi sendiherra, hæstv. forsætisráðherra, sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra, sagði í leiðara í Fréttablaðsins í gær, í ljósi stefnu Samfylkingarinnar í Evrópusambandsmálunum er þetta frumvarp auðmýkjandi fyrir forsætisráðherrann og fyrir Samfylkinguna. Hér er frumvarp um breytingar á stjórnarskránni án þess að tekið sé á því grundvallarmáli sem snertir aðild að Evrópusambandinu. Síðan eru skrifaðar inn í greinargerð einhverjar setningar og ég spyr hv. þingmann — hér er þó einn þingmaður frá Vinstri grænum: Er það svo að vinstri grænir skilji þannig 1. gr. þessa frumvarps að það auðveldi aðild Íslands að Evrópusambandinu, að það tryggi gagnvart Evrópusambandinu að það muni ekki sölsa undir sig auðlindir þjóðarinnar ef við göngum í það?