17.2.2009

Skýrsla Stoltenbergs- og íslensk öryggismál.

SVS og Varðberg, þriðjudag, 17. febrúar 2009.

Vorið 2008 voru samþykkt tvenn lög á alþingi, sem snerta öryggismál okkar Íslendinga. Annars vegar lög um varnarmál og hins vegar lög um almannavarnir. Utanríkisráðherra flutti frumvarpið um varnarmál en dómsmálaráðherra almannavarnafrumvarpið.

Þessi tvenn lög eru til stuðnings þeirri skoðun, sem ég hélt fram, þegar ég fékk síðast tækifæri til að tala á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs í mars 2007. Þá hélt ég því fram, að öryggis- og varnarmálin væru nú enn frekar en áður innanríkismál fremur en utanríkismál. Samvinna okkar við aðrar þjóðir á þessu sviði snerti borgaraleg viðfangsefni meira en áður og við ættum því að huga náið að hinum borgaralega þætti öryggismálanna inn á við og út á við. Áherslan hefði flust frá landvörnum í hefðbundnum skilningi þess orðs til heimavarna, þar sem borgaralegar stofnanir kæmu sífellt meira til sögunnar

Varnarmálalögin hafa að markmiði að tryggja forræði utanríkisráðuneytisins á hernaðarlegum öryggismálum þjóðarinnar eftir brottför varnarliðsins. Lögin eru sett til að flytja hernaðarleg málefni úr ráðuneytinu í varnarmálastofnun en hennar hlutverk er að sjá um rekstur ratsjárkerfis, sem reist var á vegum NATO og fyrir fé Bandaríkjamanna. Þá annast varnarmálastofnun einnig rekstur mannvirkja á Keflavíkurflugvelli á svonefndu öryggissvæði þar, annast skipulag heræfinga og loftrýmisgæslu auk tengsla við hermálayfirvöld NATO, en nokkurt gegnsæi skortir varðandi þann þátt.

Almannavarnalögin hafa mun víðtækari skírskotun og ná þau í raun til allra þátta þjóðlífsins. Í þeim er gert ráð fyrir, að komið verði á fót almannavarna- og öryggismálaráði með þátttöku margra ráðherra og embættismanna auk fulltrúa sveitarfélaga og frjálsra félaga.

Í nýlegri ritgerð um öryggissjálfsmynd Íslands, sem Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt  við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur skrifað um hin nýju lög frá vorinu 2008 segir, að í þessum tvennum lögum „birtist skýrast sú togstreita sem ríkir um hvort nálgast eigi öryggi landsins út frá borgaralegu eða hernaðarlegu sjónarmiði.“  Þess vegna segist hún kjósa, að leggja þessa tvo lagabálka til grundvallar, þegar hún leitast við að skilgreina „sjálfsmynd valdhafa í öryggismálum eins og hún birtist í opinberum umræðum,“ svo að vitnað sé beint í ritgerðina.

Ég tók þátt í gerð beggja þessara lagafrumvarpa og ræddi þau bæði á þingi. Aðild mín að varnarmálafrumvarpinu var mun minni en almannavarnafrumvarpinu. Í ræðu um varnarmálin á þingi taldi ég eðlilegt að nefna hernaðarlega öryggishagsmuni til sögunnar.

Silja Bára segir, að í mínum orðum hafi kveðið nokkuð við nýjan tón, þar sem henni virðist, að í varnarmálafrumvarpinu sjálfu og framsöguræðu utanríkisráðherra  hafi markvisst verið forðast að tala um hernaðarlega hagsmuni og hernaðartengd málefni af nokkru tagi. Í staðinn hafi ráðherrann talað undir rós og rætt um „varnartengd verkefni“ og málefni, þótt það hlyti að vera ljóst,  að þar var í raun verið að fjalla um hernaðartengd málefni, sem falla undir hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Ekki dulmál.

Við framkvæmd varnarmálalaganna hefur nýtt, ólögbundið stofnanaheiti komið til sögunnar, það er Varnarmálastofnun Íslands og út á við getur enginn efast um, að henni sé í raun ætlað hernaðarlegt hlutverk.  Forstjóri stofnunarinnar sagði nýlega í samtali við Morgunblaðið, að ekki væri unnt reka eftirlit innan borgaralegra stofnana nema með því að gera borgaralegu starfsemina að varnartengdri starfsemi eða að hætta að keyra þetta sem varnartengda starfsemi og gera þetta allt borgaralegt,“  eins og það var orðað.  Ef það yrði á hinn bóginn  gert, myndu Íslendingar  hætta  að fá ratsjármerkin í gegnum kerfið, sem hér er rekið. Íslendingar væru ekki með her en samstarfsaðilar varnarmálastofnunar væru herir. Varnarmálastofnun væri borgaraleg stofnun með varnartengt hlutverk – með öðrum orðum, hernaðarlegt hlutverk.

Ég dreg í efa, að á vettvangi Atlantshafsbandalagsins mundu menn banna Íslendingum að taka á móti merkjum úr ratsjárkerfi, sem þeir sjálfir reka, þótt aðrir kæmu að móttöku þeirra en starfsmenn varnarmálastofnunar.  Ég sé ekki hvaða hag NATO hefur af því að gera kröfu til þess, að íslenska utanríkisráðuneytið stofni til hernaðarlegrar starfsemi undir dulnefni til að sinna verkefnum í  þágu bandalagsins hér á landi.

Ætli íslenska utanríkisráðuneytið að ræða efni Stoltenberg-skýrslunnar á sama dulmáli og notað var um varnarmálalögin, er hætt við, að efni hennar komist aldrei nægilega vel til skila hér á landi.  Ég hef þegar orðið var við, að látið er eins og sá þáttur skýrslunnar, sem snýr að hernaðarlegu samstarfi snerti okkur Íslendinga lítið sem ekkert – við getum einfaldlega leyft okkur að líta fram hjá honum.

Ef við ætlum að gera það, höfum við að engu megintilgang þess verks, sem Thorvald Stoltenberg var fenginn til að vinna um miðjan júní 2008. Í inngangi tillagna sinna segir Stoltenberg meðal annars (þýðingin er á vegum utanríkisráðuneytisins):

„Almennt er litið svo á að norræna svæðið verði stöðugt mikilvægara í landfræðipólitískum og hernaðarlegum skilningi. Það er vegna þess mikilvægis sem norrænu hafsvæðin hafa sem framleiðslu- og flutningasvæði að því er varðar olíu og gas fyrir markaði í Evrópu og vegna þróunar á norðurslóðum.

Innan ESB og NATO er aukinn áhugi á svæðisbundnu samstarfi milli aðildarríkja og ríkja sem ekki eru aðildarríki.“

Með tillögum sínum vill Stoltenberg gera Norðurlöndum  sameiginlega kleift að bregðast við breytingum á landfræðipólitískum, það er geopólitískum, og hernaðarlegum, það er strategískum, aðstæðum á sínu eigin svæði.

Tvö Norðurlandanna af fimm, Finnland og Svíþjóð, eru utan NATO og tvö eru utan ESB, Ísland og Noregur, aðeins Danmörk er bæði í ESB og NATO en hins vegar á það ekki við um Færeyjar og Grænland, sem lúta vernd Dana í öryggismálum og skipta miklu fyrir öryggi á Norður-Atlantshafi. NATO hefur haft aðstöðu í Færeyjum og á Grænlandi og í Thule á Grænlandi halda Bandaríkjamenn úti herstöð, sem er liður í kjarnorkuvopnakerfi þeirra. Grænlendingar sögðu skilið við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu 1985.

Í skýrslu sinni víkur Stoltenberg að þeirri breytingu, sem varð við brottför bandaríska varnarliðsins héðan frá Íslandi. Hann segir, að síðan hafi íslensk yfirvöld (varnarmálastofnun) borið ábyrgð á rekstri aðstöðunnar á Keflavíkurflugvelli og ratsjárkerfinu sem sinnir loftrýmiseftirliti og þá segir: „Ísland hefur notið hagnýtrar aðstoðar frá Danmörku og Noregi við þjálfun þess íslenska starfsfólks sem starfar á þessum vettvangi.“

Ástæða er til að staldra við þessi orð og minna á, að með varnarmálastofnun var lagt af stað á þeim grunni, að Íslendingar ættu aðeins að sinna þar borgaralegum verkefnum, eins og þeir hefðu gert, á meðan bandaríska varnarliðið var hér. Hafi ný þjálfun komið til sögunnar í samvinnu við Dani og Norðmenn er ástæða til að velta fyrir sér, hvort að hún hafi verið „varnartengd“, svo að notað sé hugtak utanríkisráðuneytisins yfir hernaðarleg viðfangsefni.

Varðstaða í háloftum.

Ég les tillögur Stoltenbergs um norræna ábyrgð á loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu yfir Íslandi á þann veg, að með henni sé hann að skapa ný tengsl Finna og Svía við NATO, því að bandalagið mun ekki láta af hernaðarlegri varðstöðu á N-Atlantshafi, auk þess sem hann væntir þess, að Íslendingar láti sig hernaðarlegan þátt eigin öryggis beint varða.

Eins og kunnugt er urðu hermálayfirvöld NATO og einstakra NATO-ríkja við þeirri ósk íslenskra stjórnvalda að senda hingað reglulega flugsveitir til að sinna loftrýmiseftirliti. Ég tel, að þetta eftirlit þjóni fyrst og síðast pólitískum tilgangi. Með því minnir NATO á, að hér er um háloftasvæði bandalagsríkjanna að ræða og nú vill Stoltenberg, að norrænu ríkin utan NATO verði einnig þátttakendur í að helga sér þetta svæði.

Ef um væri að ræða beinar land- eða nærvarnir Íslands, ætti að grípa til annarra ráðstafana en þeirra að kalla öðru hverju til flugveitir frá öðrum ríkjum. Þessar varnir yrðu best tryggðar með meðaldrægum loftvarnaflaugum á suðvestur horni landsins, eins og bent var á strax við brottför Bandaríkjahers héðan.

Hitt er, að til að NATO og Norðurlöndin geti haldið loftrými N-Atlantshafs örugglega undir eftirliti af sinni hálfu, þarf góða aðstöðu á flugvelli eða flugvöllum hér á landi og einnig fyrir ratsjár eða annað, sem flugvélum við þetta eftirlit er nauðsynlegt. Í því skyni þarf að þjálfa fólk og sjá til þess, að hér sé eldsneyti og skotfæri fyrir flugvélarnar.

Rússneskar sprengiflugvélar hófu að nýju reglubundið flug á norðurskautssvæðinu og suður eftir N-Atlantshafi sumarið 2007. Þá og á árinu 2008 var sagt frá ferðum vélanna í fréttum en á þessu ári hafa þær farið í leiðangra við Norður-Noreg, án þess að það þyki fréttnæmt. Loftrýmiseftirlit á vegum NATO og Norðurlanda miðar að því að koma í veg fyrir, að litið sé að hafsvæðin norður af Íslandi sem heimahaga rússneskra sprengiflugvéla.

Varðstaða á hafinu.

Tillaga Stoltenbergs um norrænt borgaralegt eftirlitskerfi með hafsvæðum er í samræmi við þá stefnu, sem býr að baki ákvörðunum um smíði nýs varðskips og nýrrar flugvélar fyrir Landhelgisgæslu Íslands, en starfsemi  landhelgisgæslunnar og samstarf  hennar við aðrar þjóðir snertir alla þætti auðlindagæslu, öryggis, eftirlits, leitar og björgunar og löggæslu á hafinu. 

Í maí 2008 var gefin út landhelgisgæsluáætlun fram til ársins 2010. Enginn, sem les þá áætlun, getur efast um mikinn metnað fyrir hönd Landhelgisgæslu Íslands. Er mikilvægt, að hann ráði áfram ferð, þótt hagur ríkissjóðs hafi versnað. Í áætluninni er gert ráð fyrir, að flutningar á NA-Atlantshafi margfaldist á næstu árum.

Mat landhelgisgæslunnar er þetta:

 

„Breytt heimsmynd, hætta á hryðjuverkum, smygl á eiturlyfjum og aukinn flutningur á olíu, gasi og öðrum mengandi efnum kalla á hert eftirlit og aukna öryggisgæslu á höfunum. Norður-Atlantshafið er auðugt að auðlindum og því mikilvægt, af efnahags- og umhverfislegum ástæðum, að tryggja öryggi á hafinu.“

 

Gæslan bendir á, verði stór skip fyrir áföllum eða vélarbilun við landið geti það haft gríðarlegar umhverfis- og efnahagslegar afleiðingar fyrir Íslendinga. Þá sé hætt við að aðilar sem flytji eiturefnaúrgang freistist til að losa slíkan úrgang á svæðum þar sem lítið eftirlit er. Þess vegna sé mikilvægt að landhelgisgæslan viti af ferðum allra skipa sem flytja hættulegan farm innan efnahagslögsögu Íslands. Þá sé jafnmikilvægt, að landhelgisgæslan hafi getu til að

fylgjast með þeim og búi yfir búnaði, þekkingu og mannskap þannig að hægt sé að bregðast við í tíma ef skip þessi verða fyrir áföllum eða ef vart verður við mengun frá þeim.

 

Tillögur Stoltenbergs um sameiginlegt norrænt borgaralegt eftirlit á höfunum með gervitunglum, skipum, landstöðvum og hlustunarkerfum eru fagnaðarefni fyrir okkur Íslendinga. Frá okkar bæjardyrum séð er nauðsynlegt að tengja þetta eftirlit vestur til Bandaríkjanna og Kanada og suður til Bretlandseyja. Unnið hefur verið að því, að Ísland verði aðili að samstarfssamningi þessara ríkja um öryggi á hafinu auk þess sem gerður hefur verið sérstakur tvíhliða samstarfssamningur milli Landhelgisgæslu Íslands og bandarísku strandgæslunnar. Landhelgisgæslan á samstarf við systurstofnanir í 19 ríkjum austan hafs og vestan á samstarfvettvangi, sem á ensku nefnist North Atlantic Coast Guard Forum og fer Georg Lárusson, forstjóri gæslunnar, með formennsku í þessum félagsskap þetta árið.

 

Hlutverk Landhelgisgæslu Íslands.

 

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að íslensk stjórnvöld eigi að gera samstarf í öryggismálum undir merkjum Landhelgisgæslu Íslands að meginstefi í öllu slíku samstarfi sínu við önnur ríki hér á Norður-Atlantshafi, hvort heldur er í fjölþjóðasamstarfi eins og við Norðurlönd, ESB og NATO eða einstök ríki. Á þessu sviði höfum við bæði tæki og mannafla í fremstu röð og við getum sinnt öllum verkefnum, sem eru borgaralegs eðlis. Stoltenberg sér slík verkefni aðeins vaxa og verða mikilvægari.

 

Sú þróun er í senn varasöm og óheppileg, að varnarmálastofnun verði einhvers konar millistykki í samskiptum landhelgisgæslu við önnur ríki. Þetta hlutverk er raunar í andstöðu við lög um stofnunina, en henni er ekki ætlað að girða fyrir alþjóðlegt samstarf íslenskra stofnana við erlenda aðila. Þá ber diplómötum að koma að öryggis- og varnarmálum úr annarri átt. Til að viðbragð og skipulag borgaralegra öryggisstofnana sé skjótt og markvisst á hættustundu þurfa þær að vinna náið saman dag frá degi og án milligöngu annarra.

 

Í skýrslu sinni leggur Stoltenberg ríka áherslu á nýtingu nýjustu tækni gervitungla og tölvu til að þróa, það sem hann kallar samþætt eftirlitskerfi með hafsvæðum og þar tengist saman kerfi einstakra landa og  fjölþjóðlegra stofnana. Eftirlitskerfi af þessum toga gagnast ekki til fulls nema fyrir hendi sé geta og búnaður til að bregðast við, ef eitthvað kallar á aðgerðir. Landhelgisgæslan er eina stofnunin hér á landi, sem hefur slíka getu og búnað. Hún ein getur komið að hinu sameiginlega stjórnkerfi fyrir strandgæslu og björgunarsveitir á Norðurlöndum, sem Stoltenberg vill, að komið verði á fót.

Hér er hins vegar staðið þannig að málum, að varnarmálastofnun miðlar ekki sjálfkrafa upplýsingum úr hernaðarlegu kerfi NATO til landhelgisgæslunnar. Er þetta aðeins til marks um, að leitast sé við að styrkja stöðu sína innan stjórnkerfisins í krafti leyndarhyggju í stað þess að treysta þeim, sem treysta ber og er þetta sérstaklega undarlegt, þegar um er að ræða stofnun,  landhelgisgæsluna, sem kölluð er á vettvang, ef eitthvað fer úrskeiðis. Verði skýrsla Stoltenbergs til að opna augu manna fyrir nauðsynlegu samstarfi milli stofana innan einstakra landa, mætti hrinda tillögum um það efni strax í framkvæmd.

Hernaðarleg viðbót.

Íslensk stjórnvöld verða að taka afstöðu til þeirra tillagna í skýrslu Stoltenbergs, sem snerta hernaðarlega þætti. Hinn fyrsti í þeim kafla snýst um flutninga, hjúkrunarlið, þjálfun, búnað og æfingasvæði. Aukið samstarf um þessa þætti stuðli að hagkvæmni fyrir utan að styrkja Norðurlönd til að láta að sér kveða við friðargæslu víða um heim.

Í skýrslunni er lagt til að komið verði á fót sveit, sem nefnd er viðbragðssveit á landi og sjó í íslenskri þýðingu en nær væri að kalla norrænt landgöngulið, það er lið til strandhöggs. Er því lýst þannig: „Herlið, sem er sérhæft í aðgerðum á strandsvæðum og þröngum siglingaleiðum, er dæmi um sérsvið sem norrænu löndin hafa þekkingu á og spurn er eftir erlendis.“

Gert er ráð fyrir, að sveitin verði þjálfuð til starfa á norðurslóðum og njóti stuðnings birgðaskipa, sem búin eru til heimskautasiglinga. Hætta er á því, að næstu nágrannar  Norðurlanda kynnu að líta á æfingar landgöngusveitar sem ógnun við landsvæði sitt,  þess vegna gæti Ísland orðið kjörinn æfingastaður fyrir slíka sveit.

Hér á landi er góð aðstaða til þjálfunar og æfinga. Nægir þar að nefna byggingar í Keflavíkurstöðinni en þar má skapa rými til kennslu án mikils kostnaðar. Þá er þar ónotað sjúkrahús og kvikmyndahús. Hér á landi myndi aðstaða til þjálfunar  bæði verða táknrænt framtak um aukna samvinnu Norðurlanda og gefa nemendum færi á að öðlast þjálfun við næsta framandi aðstæður. Mætti tengja skólann æfingabúðum fyrir björgunarsveitarmenn við Hellissand á Snæfellsnesi.

Hér hef ég stiklað á stóru í tillögum Stoltenbergs og ekki litið til þess, sem fellur undir kaflann Samfélagsöryggi. Ég tel þær tillögur skynsamlegar eins og þær, sem ég hef nefnt. Lokatillagan, 13. tillagan, er um, að norrænu ríkisstjórnirnar ættu að senda frá sér gagnkvæma samstöðuyfirlýsingu í öryggismálum, þar sem þær gera grein fyrir því með skuldbindandi hætti, hvernig þær muni bregðast við, ef norrænt land verður fyrir árás utanfrá eða óviðeigandi þrýstingi.

Telur Stoltenberg, að yfirlýsing um þetta efni muni auðvelda allar ákvarðanir um nánara hernaðarsamstarf.  Þetta samstarf verði viðbót við en komi ekki í stað þeirra utanríkis- og varnarskuldbindinga, sem hvíli nú á einstökum norrænum ríkjum.

Þessi lokasetning skýrslu hans er mikilvæg, því að í henni felst viðurkenning á því, að tilgangurinn er ekki að hrófla við neinu, sem fyrir er, heldur bæta það með auknu samstarfi á nýjum, norrænum grunni.

Á þessari stundu er ekki unnt að segja neitt um, hvernig úrvinnslu skýrslunnar á hinum pólitíska vettvangi verður háttað. Ég er þeirrar skoðunar, að miklu skipti fyrir Norðurlöndin að marka sér skýra sameiginlega stefnu um þetta efni, en hún yrði í raun einnig sameiginleg norðurskautsstefna þeirra. Með því árétta þau samstöðu sína um gæslu mikilvægra hagsmuna  í sínum heimshluta, þar sem allt stefnir í átt til mikilla breytinga og fleiri hafa verið að móta nýja stefnu til gæslu hagsmuna sinna, eins og hér skal rakið.

Norðurskautsstefna mótuð.

Hinn 9. janúar sl. ritaði George W. Bush, fráfarandi Bandaríkjaforseti, undir nýja norðurskautsstefnu Bandaríkjanna. Byggist stefnan á sjö meginþáttum: 1) Öryggismálum. 2) Alþjóðareglum. 3) Réttindum á landgrunni utan efnahagslögsögu og ágreiningi um markalínur. 4) Mikilvægi alþjóðasamvinnu við rannsóknir. 5) Sjóflutningum. 6) Hagrænum þáttum, þ. á m. orkulindum. 7) Umhverfisvernd og varðveislu náttúruauðlinda.

Ríkisstjórn Kanada mótaði nýja norðurskautsstefnu árið 2007. Hinn 10. ágúst það ár var skýrt frá því, að tvær nýjar, kanadískar herstöðvar yrðu stofnaðar í heimskautahéruðum landsins.

Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada sagði af því tilefni, að Kanadamenn stæðu frammi fyrir tveimur kostum, þegar þeir litu til fullveldisréttar síns á Norðurskautinu: „We either use it or lose it. And make no mistake, this government intends to use it.“ Ákveðið var að verja 7 milljörðum Bandaríkjadala til að smíða átta vopnuð kanadísk eftirlitsskip til starfa á þessum slóðum.

Hinn 20. nóvember 2008 birti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stefnu sína í norðurskautsmálum.  Þar er lýst áhuga á orkulindum við heimskautið, fiskistofnum, siglingaleiðum, öryggisgæslu og umhverfisvá. Þá vill sambandið fá áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

Á þingi Evrópusambandsins hefur verið ályktað á þann veg, að sambandið ætti að beita sér fyrir sérstakri alþjóðalöggjöf eða samningi um norðurskautið. Í stefnu Bandaríkjanna er því sjónarmiði hafnað en hvatt til þess, að Bandaríkin staðfesti hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hann verði lagður til grundvallar við lausn mála á norðurskautinu.

Fimm ríki eiga land að Norður-Íshafi og geta gert kröfu til yfirráða þar samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna: Bandaríkin, Kanada, Grænland (Danmörk), Noregur og Rússland – þrjú ríki að auki eiga aðild að Norðurskautsráðinu  vegna hnattstöðu sinnar: Finnland, Ísland og Svíþjóð.

Að mínu áliti á Evrópusambandið ekki neinn rétt til aðildar að þessu samstarfi og óskir þess um það endurspegla aðeins viðleitni innan þess til að teygja sig til áhrifa og yfirráða á norðurslóðum, þar á meðal N-Atlantshafi.

Á rússneska þinginu er nú unnið að því að setja lög um siglingar á norð-austur siglingaleiðinni, það er á milli Kyrrahafs og Atlantshafs fyrir norðan Rússland. Með henni á að marka ytri mörk leiðarinnar og setja skilyrði um búnað skipa og umhverfisvernd. Norðurskautssvæðið og orkunýting þar er mikilvægur þáttur í nýrri þjóðaröryggisstefnu Rússa, en mótun hennar er á lokastigi, og er henni ætlað að gilda til 2020.

Danska ríkisstjórnin kynnti ítarlega norðurskautsstefnu sína í 44 blaðsíðna skjali í maí 2008 og tekur hún mið af hagsmunum Grænlands og stöðu landsins innan danska ríkisins. Náið samstarf er milli dönsku herstjórnarinnar á Grænlandi og Landhelgisgæslu Íslands um gæslu öryggis. Byggist það meðal annars á samningi við danska varnarmálaráðuneytið frá því í janúar 2007. Danir taka við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí af Norðmönnum.

Meðal Norðurlanda og Vestur-Evrópulanda almennt eru Norðmenn í fararbroddi, þegar rætt er um nýtingu auðlinda og öryggismál á norðurskautssvæðinu. Þess sjást skýr merki, að norsk stjórnvöld hafa meiri áhyggjur en áður af hernaðarlegum umsvifum Rússa á þessum slóðum.

Anne-Grete Ström-Erichsen, varnarmálaráðherra Noregs, ræddi ítarlega um hernaðarstöðuna á norðurslóðum og Rússland í stefnuræðu sinni við upphaf  þessa árs. Norðmenn fyndu nú fyrir nærveru Rússlands, sem hefði meiri fjárráð en áður, Rússlands, sem færi frekar eigin leiðir en áður og flytti mál sitt með þyngri þjóðernistóni og einstefnu. Boðskapurinn væri einfaldur, þegar rússneskar flugvélar væru næstum vikulega á ferð við Noregsstrendur, eða þegar flugmóðurskipið Kutznetsov væri þar á ferð: Rússland er ekki lengur veikburða.

Ráðherrann sagði, að þessum boðum væri ekki beint gegn Noregi heldur væri verið að senda skilaboð til Vesturlanda og NATO almennt. Ykist spenna milli Rússlands og Vesturlanda hefði það áhrif á norðurslóðum. Rússar hefðu efnahagslega hagsmuni af því að á svæðinu ríkti stöðugleiki. Hins vegar væri ekki unnt að líta fram hjá því, að norðurslóðir hefðu mikla hernaðarlega þýðingu. Hernaðarumsvif væru minni en á tíma kalda stríðsins en hin mestu síðan Berlínarmúrinn féll. Norðmenn yrðu að búa sig undir að þannig yrði það til frambúðar.

Hér ræðir norski varnarmálaráðherrann  raunhæft viðfangsefni í utanríkis- og öryggismálum, sem snertir okkur Íslendinga ekki síður en Norðmenn. Má segja, að það hafi verið staðfest með málþingi, sem hér var haldið í samvinnu við NATO á dögunum, þar sem þessi mál voru til umræðu. NATO hefur því miður ekki sýnt norðurslóðum þann áhuga, sem skyldi. Alantshafsbandalagið ætti ekki síður en aðrir að móta sér norðurskautsstefnu.

Kaflaskil í öryggis- og varnarmálum.

Hér er verk að vinna, þar sem Íslendingar verða að láta að sér kveða til að vekja athygli á augljósum breytingum og gæta eigin hagsmuna.  Það verður hvorki gert með því að tala dulmál um ráðstafanir til að tryggja öryggi Íslands né halda hér úti dýrum stofnunum til þess eins að halda í gamla tíma.

Sem dómsmálaráðherra lagði ég  áherslu á, að við gerð nýrra laga um Landhelgisgæslu Íslands, starfsáætlana hennar, alþjóðlega samvinnu og endurnýjun tækjakosts,  yrði tekið mið af gjörbreyttum aðstæðum og nýjum viðhorfum í Norðurhöfum. Gekk það eftir. Með nýrri flugvél og varðskipi verður gæslan  betur  fær en nokkru sinni fyrr til að taka þátt í samstarfi af því tagi, sem óhjákvæmilegt er við nágrannaþjóðir okkar á norðurslóðum og meðal annars er boðað í skýrslu Stoltenbergs.

Það er í senn sjálfstæðismál og öryggismál að standa vörð um gæsluna og störf hennar, þótt móti blási í opinberum fjármálum. Ég tel, að forgangsraða eigi í hennar þágu, þegar hugað er að varnar- og öryggishagsmunum Íslands.

Við eigum að vinna að því, að hér verði fjölþjóðleg svæðismiðstöð eftirlits á hafinu undir forystu landhelgisgæslunnar. Fjármunum til öryggismála verði varið til þess frekar en til að reka varnarmálastofnun, enda geta borgaralegar stofnanir tekið við verkefnum hennar. Atlantshafsbandalagið á ekki að ákveða ráðstöfun fjármuna til íslenskra öryggismála, enda sé ekki dregið úr starfsemi Íslendinga í þágu þess.

Skýrsla Stoltenbergs fellur vel að stefnu okkar, sem höfum lagt höfuðáherslu á nauðsyn þess að treysta borgaralegt öryggi í norðurhöfum. Hún gerir Íslendingum kleift að verða virkir þátttakendur í nýju norrænu samstarfi.

Í upphafi máls míns vék að greiningu Silju Báru Ómarsdóttur á varnarmálalögunum og almannavarnalögunum og leit hennar að öryggissjálfsmynd Íslendinga. Í niðurstöðum sínum segir hún:

„Almannavarnalögin eru því mun nær því sem öryggisfræðin myndu telja nútímalega skilgreiningu á öryggi, þ.e. öryggi sem byggt er á umhverfi og samfélagi, en ekki einungis hernaði og stjórnmálum.“

Ég er þeirrar skoðunar, að sjónarmiðin, sem búa að baki almannavarnalögunum og lögunum um Landhelgisgæslu Íslands eigi að ráða ferð íslenskra stjórnvalda við mótun og úrvinnslu nútímalegrar stefnu í öryggismálum.  Með varnarmálastofnun er verið að leggja rækt við leifar liðins tíma. 

Nú eru kaflaskil í sögu íslenskra öryggismála. Skýrsla Stoltenbergs auðveldar Íslendingum að hefja nýjan kafla og gera það í náinni samvinnu við Norðurlöndin.