13.11.1999

Stofnþing Kennarasambands Íslands

Stofnþing
Kennarasambands Íslands
13. nóvember 1999.

Ég óska félagsmönnum í Kennarasambandi Íslands til hamingju með hinn nýja sameiginlega vettvang. Það eru mikilvæg þáttaskil, þegar tvö öflug og gamalgróin félög kennara sameinast og ákveðin er nýskipan í félagsmálum þeirra. Vænti ég góðs af samstarfi við forystu og félagsmenn hins nýja sambands og heiti stuðningi mínum við hugmyndir þeirra og tillögur sem eru til þess fallnar að efla skólastarf á Íslandi.

Á síðasta áratug tuttugustu aldar hafa orðið miklar breytingar á skipulagi íslenskra skólamála. Hið nýja kennarasamband og nýju kennarafélögin taka mið af þessum breytingum. Er sama, hvar drepið er niður, alls staðar er unnið á nýjum forsendum að því að efla íslenskt mennta- og skólastarf. Fullyrði ég, að sambærileg þáttaskil hafi ekki orðið í menntamálum þjóðarinnar, frá því að fræðslumálum var fyrst skipað með lögum í upphafi aldarinnar. Á þeim rúmum fjórum árum, sem ég hef setið á stóli menntamálaráðherra, hefur verið unnið að breytingum í skólamálum í góðri samvinnu við kennara. Þegar nýju Kennarasambandi Íslands er ýtt úr vör, er gagnlegt að meta starfsvettvang hinna tæplega sjö þúsund kvenna og karla, sem starfa innan sambandsins.

Ég nefni fjögur meginatriði:

Í fyrsta lagi flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Alþingi samþykkti þessa gjörbreytingu á öllu starfsumhverfi grunnskólans í febrúar 1995. Þá deildu kennarar og ríkisvaldið hart vegna kjaramála. Sem þingmaður og frambjóðandi minnist ég hörkufunda um skólamál í kosningabaráttunni þá um veturinn. Varð mér þá ljóst, að ekki ríkti fullt traust milli ráðuneytis og forystumanna kennara. Eftir að ég varð menntamálaráðherra lagði ég mig fram um að eyða þessari tortryggni. Jafnframt var ég sannfærður um, að ekki tækist nauðsynleg sátt um flutning grunnskólans nema fullur trúnaður væri í samskiptum við kennara. Allir yrðu að vera samstiga, þegar það sögulega skref yrði stigið.

Í júní 1995 skipaði ég verkefnisstjórn undir forystu Hrólfs Kjartanssonar deildarstjóra. Hafði hún það verkefni að samhæfa og samræma undirbúning og aðgerðir vegna flutnings grunnskólans. Þá voru einnig skipaðar þrjár undirnefndir til að fjalla um fjármál, kjaramál og fræðsluskrifstofur. Áttu kennarar aðild að öllum þessum nefndum fyrir utan þá, sem vann að samkomulagi milli ríkisins og sveitarfélaganna um fjármál.

Á fjölmörgum opinberum fundum, sem efnt var til vegna flutningsins, notaði ég gjarnan þá líkingu, að við værum að flytja grunnskólann í bómull frá ríki til sveitarfélaga. Raunar væri full ástæða til þess, því að við værum að sýsla með fjöregg þjóðarinnar, menntun barna og ungmenna. Tókst með miklum ágætum að leysa þetta vandasama verk, sem er mesta valddreifing í sögu þjóðarinnar. Hefur starfsemi sveitarfélaga tekið stakkaskiptum, eftir að þau fengu skólana í sínar hendur. Sveitarstjórnakosningar á síðasta ári snerust að verulegu leyti um skólamál. Fjárveitingar til grunnskóla eru meiri en áður, unnið hefur verið að einsetningu þeirra og kennslustundum hefur fjölgað ár frá ári. Að ósk kennara var samningsumboð um kaup og kjör á einni hendi hjá sveitarfélögunum. Þróun hefur á hinn bóginn orðið á þann veg, að samningar hafa að nokkru farið í hendur einstakra sveitarfélaga og starfsmanna þeirra.

Ég er enn sömu skoðunar og á fundum um flutninginn, að líta megi á hann sem fyrsta skrefið í þá átt að flytja grunnskólann í hendur foreldra. Er ég sannfræður um, að náið samstarf heimilis og skóla um menntun og velferð nemenda sé helst til þess fallið að styrkja forsendur góðs skólastarfs til framtíðar. Í sveitarfélögum eru sveitarstjórnir að móta tillögur um nýmæli í stjórn og rekstri skólanna undir forsjá þeirra.

Í öðru lagi nefni ég breytingar á Kennaraháskóla Íslands. Lengi hafði verið rætt um að samhæfa kennaranám og vinna að því að færa nám í Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands á háskólastig. Var í því sambandi rætt um uppeldis- og kennaramenntun og jafnframt að hinn nýi skóli vísaði til uppeldis í heiti sínu.

Í samvinnu við stjórnendur skólanna, sem skyldu fluttir á háskólastig og í samráði við starfsmenn þeirra var unnið að þessari miklu breytingu. Starfið varð í raun miklu víðtækara en svo að leggja niður fjóra skóla og stofna nýjan. Gengið var til þess verks að semja fyrstu heildarlögin um háskólastigið. Eftir að þau höfðu verið mótuð voru lög um nýjan Kennaraháskóla Íslands samin og samþykkt. Hinn nýi skóli tók síðan til starfa 1. janúar 1998.

Ekki er síður vandasamt að sameina ríkisrekna skóla en einkarekin fyrirtæki. Hver vinnustaður hefur eigin starfsanda og hver skóli sérstakan skólabrag. Hefur stjórnendum nýja Kennaraháskóla Íslands tekist vel á að móta innra starf hans. Kennaraháskóli Íslands hefur ekki getað sinnt óskum allra, sem vilja stunda þar grunnskólakennaranám. Hið gagnstæða verður uppi á teningnum, þegar rætt er nám leikskólakennara, þar vantar nemendur. Háskólinn á Akureyri getur tekið á móti fleiri grunnskóla- og leikskólakennaranemum. Þess vegna er ekki unnt að halda því fram með fullum rökum, að í landinu komist færri að í þessu námi en vilja.

Á síðastliðnum vetri vann nefnd með aðild kennara skýrslu um kennaraþörf til ársins 2010. Skýrslan er mjög gagnleg og hefur verið höfð til hliðsjónar við stefnumótun af hálfu ráðuneytisins. Þar er meðal annars tekið mið af hinni góðu reynslu af fjarnámi á vegum Kennaraháskóla Íslands. Er fjarkennsla talin fljótvirkasta úrræðið til að fjölga kennurum með full réttindi í grunnskólum.

Haldið verður áfram að efla kennaramenntun. Ég hef ekki verið talsmaður þess, að hið almenna kennaranám verði lengra en þrjú ár. Hins vegar hefur stuðningur við endurmenntun kennara verið stóraukinn og tekið upp nýtt skipulag á henni í góðri sátt við forystumenn kennarasamtakanna og Samband íslenskra sveitarfélaga. Í úttekt á kennaranáminu, sem gerð var með þátttöku erlendra sérfræðinga, var á það bent, að ekki ætti að leggja megináherslu á að lengja grunnámið. Þeir vildu, að endurmenntun og símenntun yrði frekar efld.

Í þriðja lagi vil ég minna á gildistöku nýrra laga um framhaldsskólann 1. ágúst 1996, sama dag og grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna. Framhaldsskólinn er alfarið í umsjá ríkisins, þótt fjárfesting í skólahúsnæði sé sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Sjálfstæði skólameistara gagnvart menntamálaráðuneytinu er meira en áður. Þeir ráða alla starfsmenn skóla og stjórna innri málefnum þeirra á grundvelli laga og reglugerða. Samstarf ráðuneytisins við framhaldsskóla byggist nú einkum á svonefndum skólasamningum, þar sem bæði er fjallað um fjármál, innra starf og markmið skólanna. Að þessu leyti hefur menntamálaráðuneytið rutt brautina innan stjórnkerfis ríkisins.

Er nú unnið að gerð skólasamninga í þriðja sinn. Ekki er áhugi hjá skólameisturum á því að hverfa frá þessu fyrirkomulagi í samskiptum við ráðuneytið. Vissulega fá þeir ekki allir þá fjármuni, sem þeir óska, en eins og menn sjá, ef þeir kynna sér efni fjárlagafrumvarps fyrir árið 2000 og frumvarps fjáraukalaga fyrir árið 1999, þá er gert ráð fyrir því, að fjárveitingar til framhaldsskóla aukist umtalsvert eða um 310 milljónir á fjárlagaárinu 2000 og um 220 milljónir á þessu. Þegar litið er á framkvæmdir í þágu framhaldsskóla, er ljóst, að víða vilja menn auka húsakost sinn og um það gilda í mörgum tilvikum samningar. Áform um nýja byggingasamninga eru skilgreind sem markmið skólasamninga. Ég sé ekki forsendu fyrir framhaldsskólum víðar á landinu en nú er. Nýjungar í þjónustu byggjast ekki síst á fjarkennslu, sem hefur þróast mjög ört og nýtur vaxandi vinsælda á framhaldsskólastigi.

Í húsnæðismálum er helst þörf á að huga að róttækum umbótum á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur tafið fyrir þróuninni í Reykjavík, að borgaryfirvöld hafa löngum verið treg til að axla sömu skyldur og önnur sveitarfélög gagnvart framhaldsskólanum. Nú fara hins vegar fram viðræður á milli ráðuneytisins og borgaryfirvalda. Geri ég mér vonir um, að þær leiði til þess að samkomulag takist um megindrætti áætlunar til næstu ára. Jafnframt er líklegt að huga þurfi að byggingu nýs framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Með einkaframkvæmdinni við Iðnskólann í Hafnarfirði hefur verið farið inn á nýjar brautir við að reisa skólahús. Gefi sú framkvæmd góða raun kann hún að verða fordæmi fyrir aðra.

Úrvinnsla síðustu kjarasamninga við framhaldsskólakennara hefur verið erfið. Snertir það ekki síst þær stundir, sem eru kallaðar vinna undir stjórn skólameistara. Hef ég heyrt þá skýringu á þessum stundum, að þær hafi verið sérstakt kappsmál mitt vegna væntanlegrar vinnu við skólanámskrár. Framsýni mín í skólamálum var ekki slík á árinu 1997 eða afskipti af gerð kjarasamninga, að þar hefði ég lagt á þessi ráð vegna fyrirsjáanlegra breytinga á starfsumhverfi kennara. Þetta umhverfi og allar aðstæður í innra starfi skóla eru hins vegar sífellt að breytast. Undir minni forystu vill menntamálaráðuneytið stuðla að sanngjörnu mati á nýjum aðstæðum í framhaldsskólum og úrlausn vanda sem óhjákvæmilega hlýtur að koma upp við útfærslu viðamikilla breytinga á námskrá og heildarskipulagi skóla. Raunar má benda á, að þetta hafi þegar verið gert með ýmsum hætti, ekki síst með samkomulagi frá því í maí 1999 um viðbótarframlag vegna gildistöku nýrrar námskrár, sem varið er til námsefnisgerðar, endurmenntunar og skólanámskráa.

Menntamálalráðuneytið er reiðubúið til samstarfs við framhaldsskólakennara um forvinnu vegna samningsgerðar á næsta ári. Vill ráðuneytið efna til skoðanaskipta um stefnumótun sína og útfærslu þeirra nýju aðstæðna sem eru uppi í skólunum meðal annars vegna endurnýjunar námskráa. Er þá einkum horft til einfaldara og sveigjanlegra kerfis. Þá er það skoðun ráðuneytisins, að taka verði tillit til þess að framhaldsskólar keppa við aðra um kaup og kjör starfsmanna.

Ég hef greint forystumönnum Kennarasambands Íslands frá þessum viðhorfum og þeir hafa skýrt frá áhyggjum sínum vegna samanburðar í kjaraþróun frá því að síðustu samningar voru gerðir. Öll viljum við, að skýrar leikreglur gildi og þeim sé fylgt fram af sanngirni. Kjarasamningar eru slíkar leikreglur og ber að fara eftir þeim. Að mínu mati skiptir mestu núna að undirbúa komandi samningagerð vegna framhaldsskólakennara sem best.

Breytingum á framhaldsskólastiginu er ekki lokið. Til þess að framfylgja mótaðri stefnu gerði ég breytingu innan ráðuneytisins. Hörður Lárusson deildarstjóri tók að sér að verða sérstakur ráðgjafi minn um framhaldsskólastigið en Aðalsteinn Eiríksson skólameistari tók við störfum hans sem forystumaður framhaldsskóladeildar. Hörður vinnur meðal annars að eftirfarandi verkefnum: að undirbúa ákvörðun um inntökuskilyrði í framhaldsskóla; að undirbúa framkvæmd samræmdra prófa í framhaldsskólum; að skilgreina lágmarksfjölda kennslustunda í einstökum námsgreinum; að skilgreina inntöku nemenda, einkum starfsnámsnemenda, í háskóla; að leggja grunn að eftirliti með framkvæmd og gildistöku námskrárinnar. Þá vinnur hann að því að undirbúa áform um að stytta framhaldsskólann í þrjú ár með sérstakri áherslu á að stytta námstíma til stúdentsprófs.

Ég hef óskað eftir því að samtök kennara og skólameistara auk samstarfsnefndar háskólastigsins tilnefni menn til að vera Herði Lárussyni til samráðs og samstarfs við þetta mikla starf. Jafnframt hef ég lagt fyrir alþingi frumvarp til breytinga á framhaldsskólalögunum, þar sem skilyrði vegna samræmdra prófa eru skilgreind með öðrum hætti en í núgildandi lögum. Jafnframt liggur fyrir alþingi frumvarp til breytinga á grunnskólalögum, sem meðal annars beinist að því að samræmdum prófum í 10. bekk verði fjölgað úr fjórum í sex og þau gerð valfrjáls.

Í fjórða og síðasta lagi nefni ég endurskoðun námskránna fyrir þrjú fyrstu skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, auk námskrár fyrir tónlistarskóla. Það mikla verk hófst haustið 1996, þegar flutningur grunnskólans var kominn í höfn og nýju framhaldsskólalögin voru gengin í gildi. Kynnti ég nýja aðalnámskrá fyrir grunnskóla hinn 26. mars 1999 og gekk hún í gildi 1. júní síðastliðinn. Ný aðalnámskrá framhaldsskóla var kynnt 12. apríl 1999 og tók hún gildi frá og með 1. júní síðastliðinn. Ný aðalnámskrá leikskóla var kynnt 28. maí 1999 og tók hún gildi 1. júlí síðastliðinn. Vinna við námskrá tónlistarskóla er á lokastigi og hefur verið gerð áætlun um útgáfu hennar sem nær fram á mitt næsta ár.

Góð sátt ríkti um megináherslur námskránna í samsráðshópi stjórnmálaflokkanna um málið. Samráð var um alla námskrárvinnuna við hagsmunaaðila á öllum stigum verksins og efnt var til sérstakrar kynningar á nýrri skólastefnu undir kjörorðinu Enn betri skóli með fundum um allt land vorið 1998 auk þess sem rit með helstu þáttum stefnunnar var sent inn á hvert heimili. Í námskrárnar var lögð vinna, sem svarar til rúmra 33 mannára eða meðalstarfsævi eins manns en í allt komu hátt á þriðja hundrað manns að verkinu. Voru það nær allt starfandi kennarar. Er ástæða til að færa þeim og samtökum kennara sérstakar þakkir fyrir þetta mikla framlag og góða samstarf.

Öll hefti námskránna liggja nú fyrir þegar litið er til leikskóla, grunnskóla og bóknámsdeilda framhaldsskólans. Hefur þegar verið unnið að markvissri kynningu á einstökum þáttum fyrir kennara í leikskólum og grunnskólum og gefið út kynningarrit um helstu áhersluþætti námskrárinnar. Námskráin kemur að fullu til framkvæmda í grunnskólum á þremur árum. Stórauknu fé hefur verið veitt til námsefnisgerðar og endurmenntunar kennara.

Ný aðalnámskrá framhaldsskóla tók gildi 1. júní í ár og skal hún vera komin til fullra framkvæmda í öllum framhaldsskólum eigi síðar en að fimm árum liðnum.

Námskrá framhaldsskóla er gefin út í heftum, almennur hluti í einu hefti og námskrár einstakra bóknámsgreina og námskrár í sérgreinum starfsnáms í sérstökum heftum. Námskrám bóknámsgreina hefur verið dreift til skóla. Útgáfa námskráa í sérgreinum starfsnáms hefst fyrir 1. janúar nk. og stefnt er að því að hraða þeirri útgáfu sem mest.

Aðalnámskrá er ætlað að styrkja og móta heilsteypt skólastarf bæði innan hvers skóla og almennt í landinu. Námskröfur eru skýrar og eiga að vera skiljanlegar öllum sem að skólastarfi koma. Við gerð námskrár framhaldsskóla var tekið mið af lögum um skólana og rétti nemenda til að ákveða sjálfir hvernig námsleiðir þeir velja sér innan hinna mörkuðu námsbrauta. Þá gerir ný aðalnámskrá ráð fyrir sveigjanleika í starfi einstakra skóla.

Stefnt er að því að snemma á næsta ári verði gefið út kynningarrit um breytingar á framhaldsskólastigi vegna nýju námskránna. Er brýnt, að þessar upplýsingar séu fyrir hendi, svo að nemendur og foreldrar þeirra geti áttað sig á þeim. Starf Harðar Lárussonar, sem áður er getið, felst meðal annars í því að semja þetta kynningarrit. í kjölfarið hyggst ég efna til funda í öllum framhaldsskólum landsins um nýju námskrána.

Starfsgreinaráð, en þau eru alls 14 talsins, skipuð sjö fulltrúum hvert, gera tillögu til menntamálaráðuneytis um inntak náms í einstökum starfsgreinum. Í sumum þeirra eru námskrár tiltölulega nýjar, á öðrum sviðum þarf að semja námskrár frá grunni. Þegar rætt er um nám í framhaldsskólum er nauðsynlegt að hafa þessa tvískiptingu við námskrárgerðina í huga, annars vegar hefur ráðuneytið sjálft frumkvæði í námskrárgerð fyrir bóknámsbrautir en hins vegar starfsgreinaráðin fyrir verknámsgreinar. Einnig er vert að minnast þess, að ýmsar brautir, sem menn hafa til þessa litið á sem bóknámsbrautir verða nú starfsnámsbrautir. Lögum samkvæmt eru bóknámsbrautirnar aðeins þrjár.

Ég hef orðið þess var, einkum meðal framhaldsskólakennara, að sumir þeirra telja að sér, námsgreinum sínum eða skólum hert með nýju námskránum. Er jafnvel kvartað undan því, að vinnan við skrárnar hafi ekki verið nægilega kynnt. Hvorugt á við rök að styðjast. Ástæða er til að árétta í þessu sambandi, að ég tel ósennilegt, að nokkru sinni verði að nýju ráðist í sambærilega vinnu við endurskoðun námskráa og unnin var frá hausti 1996 fram á vor 1999. Þar var einstakt tækifæri nýtt til að stilla þrjú fyrstu skólastigin saman og skapa stígandi og samfellu milli þeirra. Góð sátt náðist um þann heildarramma, innan hans ber síðan að þróa námskrár frekar í samræmi við breyttar kröfur á hverjum tíma.

Góðir fundarmenn!

Þetta eru þau fjögur atriði, sem ég nefni sérstaklega hér í dag, þegar tækifæri gefst til að ávarpa forystusveit kennara á þessum merku tímamótum í félagslegu starfi ykkar.

Sameiginlega höfum við lagt grunn að enn meiri sókn í menntamálum og skólastarfi á komandi árum. Fyrir þessa góðu samvinnu vil ég þakka.

Upplýsingatækni hefur náð góðri fótfestu í öllum skólum og hefur hún þegar haft mikil áhrif á allt innra starf þeirra. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi tækni muni hafa meiri áhrif á starf kennarans en nokkur önnur breyting við miðlun upplýsinga frá örófi alda. Bent er á að tölvan valdi því til dæmis, að kennarinn verði ekki lengur bestur í bekknum, heldur sá innan hans, sem getur aflað mestra upplýsinga og unnið best úr þeim með aðstöð tölvunnar. Ég hef sett fram þá hugmynd, að allir framhaldsskólanemar eignist eigin fartölvu til nota innan og utan skóla. Hefur hugmyndinni verið vel tekið en einnig hefur verið bent á vankanta við að framkvæma hana. Er nú unnið að frekari útfærslu hennar innan ráðuneytisins.

Öll þekkið þið bandaríska skólamanninn og uppeldisfrömuðinn Howard Gardner við Harvard-háskóla. Minnist ég skemmtilegrar kynningar á skoðunum hans á fundi á vegum kennara og leikskólakennara á Akureyri fyrr á þessu ári. Nýlega rakst ég á tillögur Gardners að verkefnaáætlun menntamálaráðherra, sem liti til næstu ára. Þar lagði hann til að eftirtaldir sjö meginþættir yrðu hafðir að leiðarljósi:

1. Viðurkenna yrði sífelldar breytingar. Skólamenn yrðu að gera sér grein fyrir því, að þeir gætu ekki lengur samið námskrá eða próf og látið síðan þar við sitja. Þvert á móti þyrftu þeir sífellt að skoða eitthvað nýtt og endurskoða markmið og leiðir - í raun þyrfti að stjórna skólakerfinu eins og skipi í ólgusjó, þar sem unnt væri að bregðast við á skjótan hátt og nýta sér hvert færi sem gæfist til að laga sig að sífelldum breytingum.

2. Alþjóðlegur samanburður með prófum ætti ekki að setja mikinn svip á skólastarf. Prófin væru ekki nægilega góð til þess, oft mældu þau aðeins lægsta samnefnarann. Umfram allt annað ætti að forðast að kenna til að ná prófum. Væri námskráin góð ættu nemendurnir hvort sem er að ná góðum árangri.

3. Staðreyndir og vald á upplýsingum ættu ekki að vera í fyrirrúmi. Mestum tíma í skólum um víða veröld hefði til þessa verið varið til að kenna staðreyndir og tryggja að nemendur hefðu þær á valdi sínu. Óskynsamlegt væri að halda áfram á sömu braut og fyrir því væru tvær ástæður. Í fyrsta lagi tvöfaldaðist magn upplýsinga á fárra ára fresti og það væri engin leið fyrir neinn að hafa þær sæmilega á valdi sínu. Í öðru lagi gerðu tölvur okkur nú kleift að hafa upplýsingar við fingurgómana í orðsins fyllstu merkingu. Ef við gætum með því að ýta á hnapp eða segja orð fengið að vita, hvað höfuðborgin í Bosníu heitir eða þrjár helstu árnar fyrir sunnan Sahara í Afríku, hvers vegna ættum við þá að eyða tíma í að læra þessar staðreyndir?

4. Mikilvægt væri að leggja áherslu á agaða hugsun, því að meðal dýrmætustu verðmæta menntaðra einstaklinga, sem orðið hefðu til síðustu árþúsund, væri þróun aðferða til að hugsa um okkur sjálf, veröldina í kringum okkur, líffræði, fortíð okkar og þjóðfélög. Þetta væru námsgreinarnar saga, náttúrfræði, stærðfræði, félagsfræði, samfélagsfræði, hagfræði. Þess væri ekki að vænta, að flest ungt fólk tileinkaði sér inntak þessara greina af sjálfsdáðum. Það yrði að þjálfa nemendur í þessum greinum enda skildu þær okkur frá villimönnum. Við yrðum að treysta á góða kennara og frábærar námskrár til að miðla þessum fróðleik til næstu kynslóða. Flestir reyndu að fara yfir þessar greinar á ákveðnum tíma, til dæmis frá Plato til Nato á 36 vikum. Slík yfirferð ætti ekkert skylt við agaða hugsun, því að í henni fælist ekki annað en staðreyndatal. Miklu áhrifameira væri að fara djúpt ofan í nokkur viðfangsefni - til dæmis þróunarkenninguna eða orsakir fyrri heimsstyrjaldarinnar. Með því kæmist maður ekki aðeins að því, hvernig ætti að hugsa á agaðan hátt, heldur gæti hann einnig notað þá þekkingu til að takast á við önnur verkefni, greina þau og skilja.

5. Nauðsynlegt væri að viðurkenna að allir eru misjafnlega af guði gerðir og nýta sér það. Til þessa hefðu flestir skólar um heim allan verið eins, innan þeirra hefði öllum verið kennt hið sama með sömu aðferð og allir settir undir sömu mælistiku. Þetta hefði verið talið sanngjarnt. Rannsóknir kenndu okkur hins vegar, að einstaklingar væru mjög mismunandi að andlegu upplagi. Með því að kenna með ákveðinni aðferð hefðum við þess vegna kannski einkum verið að koma til móts við eina skapgerð, þótt það hafi ekki verið ætlunin. Þegar kennari væri með 30 til 50 nemendur í bekk ætti hann ekki margra annarra kosta völ en láta eitt yfir alla ganga. Tæknin gerði okkur hins vegar þegar kleift að veita persónulegri kennslu samkvæmt persónulegri námskrá, sem beindist að hverjum einstökum nemanda. Kenna mætti algebru á marga mismunandi vegu. Það væri einnig unnt að gefa nemendum kost á að sýna kunnáttu sína á mismunandi vegu. Vafalaust væri unnt með fjölbreyttari prófaðferðum að draga fram mismunandi hæfileika við lausn einstakra verkefna með því að höfða til tjáningar, ritfærni eða listfengi nemandans.

6. Móta skyldi skólana í samræmi við gildi þjóðfélagsins. Ekki gæfist tími til að vera með sérstakar stundir fyrir siðfræði, tillitssemi, góða framgöngu í samfélaginu og slíka hluti. Kennsla í þessum fögum kynni að vera ónauðsynleg, ef skólaandi mótaðist af þessum gildum. Væru kennarar heiðarlegir, næmir, vingjarnlegir og kurteisir hver gagnvart öðrum og í garð nemenda sinna fengju þeir þessi skilaboð í kaupbæti.

7. Virða bæri mannlegan þátt menntunar. Fyrir alla væri freistandi, og einkum fyrir forystumenn í atvinnulífi og stjórnmálum, að líta á menntun sem tæknilegt eða stjórnsýslulegt úrlausnarefni, sem leyst væri með tæknilegum eða stjórnsýslulegum aðferðum. Finna bæri réttu leiðina til að ná árangri, fara hana, og allir myndu gera sitt til að ná sem bestum árangri.

Góðir áheyrendur!

Starfsumhverfi ykkar er að breytast, hitt breytist ekki, að áhrif kennara fylgja nemendum alla ævigöngu þeirra. Öll eigum við minningar úr skóla og eru þær einkum bundnar kennurum okkar. Þetta breytist ekki. Störf og áhrif kennara verða aldrei metin til fulls.

Þið völduð sólina sem merki stofnþings ykkar, þegar til verður nýtt Kennarasamband Íslands og ný kennarafélög. Þið ætlið að gera átak til að bæta ímynd kennara og kennarastarfsins. Ég fagna þessum áformum. Þau falla vel að stefnunni um Enn betri skóla. Íslenska skólakerfið er gott. Við byggjum á traustum grunni, þegar blásið er til nýrrar sóknar. Ég óska þeim til hamingju, sem þið hafið kosið til forystu- og trúnaðarstarfa. Megi gæfa fylgja nýjum samtökum ykkar.