18.1.2009

Silfur Egils - 18. janúar, 2008.

Egill Helgason: Sæll Björn.

Björn Bjarnason: Blessaður.

Egill: Velkominn í þáttinn.

Björn Bjarnason: Þakka.

Egill: Þú hefur, ja lagt það á þig núna í miðjum atganginum að skrifa bók um Evrópusambandið. Ég, og þetta eru náttúrulega stórar spurningar sem að blasa við þjóðinni í því sambandi og Sjálfstæðisflokknum líka. Menn hafa reynt eins og til dæmis hann hérna áðan, Fjalar og ég reyndar var nú að tala um þetta í Kastljósi um daginn að Evrópusambandið væri það sem kallast „red herring“ í augnablikinu, sem sagt að það væri kannski ekki tímabært að tala um það?

Björn Bjarnason: Já, ég sagði þetta líka í haust og fékk skammir fyrir og ég sagði að það væri ákveðin firring í því að ætla að fara að setja Evrópuumræðuna í fókus á þessum tímum en það var blásið út af borðinu og menn vildu fara í Evrópuumræðuna. Ég stjórnaði því ekki því að ég hef ekki verið áhugamaður um það að á þessum tímum færum við að beina athyglinni að því hvort við eigum að fara í Evrópusambandið eða ekki. En úr því að menn ákváðu að fara þá leið að þá er ég þátttakandi í því eins og þú og aðrir við verðum að ræða málið. Og þarna tók ég saman greinar sem ég hef skrifað á undanförnum árum og setti það í eina bók þegar vinur minn Jakob F. Ásgeirsson vildi gefa hana út. Þannig að þannig er nú tilurð þessa komið. Ég er ekki áhugamaður um það endilega að við séum að eyða tíma í að ræða um Evrópusambandið nú á þessum tíma.

Egill: Heldurðu að það séu brýnni mál?

Björn Bjarnason: Ég held að það séu brýnni mál. Ég held að Evrópusambandið sé ekki leiðin fyrir okkur út úr þeim vanda sem við erum í. Ég tel að við höfum þegar fengið alla kosti í samstarfi við Evrópusambandið með samningnum um evrópska efnahagssvæðið, að ókostirnir einir séu eftir.

Egill: En ertu hræddur um að þetta geti farið illa með Sjálfstæðisflokkinn, að hann klofni jafnvel út af þessu?

Björn Bjarnason: Mér finnst nú þróunin og ég held nú að við höfum tekið rétta ákvörðun þarna 14. nóvember þegar var ákveðið að, bæði að flýta landsfundinum og einnig að setja Evrópumálin á oddinn að þá held ég að það hafi verið tekin rétt ákvörðun sem byggist á því að við þurfum að ræða málið og ég held að ferlið síðan, það var mjög fjölmennur fundur til dæmis í gær, og þeir segja að um 1.500 manns hafi sótt fundi um þetta innan flokksins, að ferlið hafi dregið úr líkum á því að flokkurinn klofnaði eins og ég ræddi nú við þig hér held ég í byrjun síðasta árs.

Egill: En hvernig, en hver heldurðu að verði þá niðurstaðan, menn hafa talað um ja annað hvort að sækja um aðild hreinlega og hafa tvöfalda atkvæðagreiðslu sem að myndi þá fela í sér að það er greitt atkvæði um það hvort við eigum að sækja um. Hvað af þessu hugnast þér?

Björn Bjarnason: Ja, ég held að það séu nú fleiri leiðir líka Egill í þessu. Ég held að það sé til dæmis hægt að taka sérstaka ákvörðun um það hvort við eigum að skipta um gjaldmiðil. Og ég er að skrifa mig eiginlega frá þeirri skoðun sem ég hafði á sínum tíma um það að það væri samasem-merki á milli þess að fara inn í Evrópusambandið og skipta um gjaldmiðil. Ég tel að það hafi komið fram að.

Egill: Þú hefur skipt um skoðun þar?

Björn Bjarnason: Já, það er nefnilega það, og þá þarf ég að gefa út heila bók til þess að, til að rökstyðja það.

Egill: Já.

Björn Bjarnason: En það er alveg hægt að taka ákvörðun um það að skipta um gjaldmiðil án þess að fara í Evrópusambandið. Þetta held ég að sé sjálfstætt ákvörðunaratriði sem þarf að taka fyrir í flokknum og síðan þurfa menn líka að taka afstöðu til þess hvort það eigi að fara í Evrópusambandið eða ekki og síðan er kominn ákveðinn vinkill í þetta líka eins og við sjáum. Þetta er orðið svona innanfélagsmál má segja í pólitíkinni að ræða um það hvaða afstöðu hefurðu í þessu og hvernig viltu nálgast það og við þurfum að móta okkur leið í því líka.

Egill: En trúirðu því að sko þrátt fyrir að hvað voru það 30 hagfræðingar.

Björn Bjarnason: 32.

Egill: Það voru 32 sem skrifuðu um daginn um að það væri ómögulegt að taka upp erlendan gjaldmiðil einhliða. Þú ert ennþá þeirrar skoðunar að það sé hægt?

Björn Bjarnason: Ég er þeirrar skoðunar að það er hægt auðvitað geta verið hagfræðileg rök með og á móti og við höfum oft verið í þeirri stöðu Íslendingar að stjórnmálamenn hafa tekið ákvarðanir þrátt fyrir að hinir vísustu menn hafi talið að það ætti nú kannski að bíða eins og til dæmis þegar við ákváðum að stofna lýðveldi hér 1944. Það voru líka miklir og mætir menn, menntamenn í þjóðfélaginu sem sögðu, þið skulið fara hægar, þetta er of hratt farið. Þannig að sagan geymir fjölda dæma um það að hinir vísustu menn hafa talið stjórnmálamennina kannski fara of hratt og það er eitthvað sem menn verða að gera upp við sig.

Egill: En ef landsfundurinn samþykkir einfaldlega bara að sækja um aðild að Evrópusambandinu?

Björn Bjarnason: Jú, ég held að það séu nú ekki líkur á því þannig að ég hef nú ekki hugsað það til enda Egill.

Egill: Þú heldur að það séu ekki líkur á því?

Björn Bjarnason: Nei, ég held að það séu ekki líkur á því að landsfundurinn samþykki alveg afdráttarlaust að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef verið á fundum bæði hér í Reykjavík um þessi mál og líka utan Reykjavíkur og ég met nú stöðuna þannig innan Sjálfstæðisflokksins að það sé ekki stemmning fyrir því að segja bara: Ísland í Evrópusambandið, punktur og við erum búin að leysa öll okkar mál. Þetta er miklu flóknara viðfangsefni heldur en svo.

Egill: En hvað verður þá um ríkisstjórnina, Samfylkingin hefur nú eiginlega bara hótað því að slíta stjórninni ef að Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki í?

Björn Bjarnason: Já, ég get nú ekki svarað fyrir Samfylkinguna og ég get ekki svarað fyrir hvernig þeir bregðast við. Þeir eru nú að boða framtíðarþing er það ekki eftir viku og [ætla að] leggja á ráðin um það hvað þeir ætla að gera. Það er líka ákveðið ferli í gangi greinilega í öllum flokkum. Framsóknarflokkurinn flýtir sínu flokksþingi, skiptir um formann, kannski búið að gera það núna á þessari stundu við vitum það ekki. Við erum að flýta okkar landsfundi og móta okkur stefnu. Samfylkingin er að stilla upp sérstökum fundi til þess að móta sér stefnu. Ef að það væri ekki Evrópusambandið sem menn teldu að það ætti að ræða þá gæti alveg eins verið að menn veltu því fyrir sér: Eru flokkarnir að setja sig í stellingar til þess að búa sig undir þingkosningar? Og eru flokkarnir að stilla sér upp til þess að átta sig á því hvaða stefnumál þeir eiga að setja á oddinn ef það kæmi til þingkosninga?

Egill: Þannig að þér finnst ekkert ólíklegt að það verði kosið í vor?

Björn Bjarnason: Ég hef aldrei útilokað það, sumir segja að það eigi að kjósa í nóvember eftir að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kemur út. Ég er alveg sammála því sem kom hér fram fyrr í þínum þætti að auðvitað á að nota allar leiðir sem við höfum í þjóðfélaginu til þess að draga úr líkum á því að hér verði einhver átök sem byggjast á því að andstæðar fylkingar séu gráar fyrir járnum og lýðræðislega leiðin er jú að efna til kosninga.

Egill: Já.

Björn Bjarnason: Varðandi hins vegar Evrópusambandið þá hef ég líka sett fram þá skoðun að það sé svo mikið í húfi fyrir okkur, við þurfum að afsala okkur svo miklu ef við förum að senda inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu að ég hef rökstutt það að það eigi að bera þá ákvörðun líka undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Egill: En líturðu ekki á þetta sem hótun hjá Samfylkingunni, þeir hafa verið að segja, ef að Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki eindregna afstöðu í Evrópumálum, þá í áttina til Evrópu þá erum við bara farin úr ríkisstjórninni?

Björn Bjarnason: Finnst þér þetta nú skynsamlegt að vera að hóta okkur svona og hlutast til um innri málefni okkar? Ég held að þetta sé nú frekar kannski tilhneiging hjá þeim til þess að setja þetta mál á oddinn. Ef það er hótun nú þá verða þeir að standa við hana. Við látum ekki stjórna okkur með þessum hætti í stórmáli og eins og menn vita þá koma ríkisstjórnir og fara og það er efnt til þingkosninga af og til og menn skipta um flokka og svo framvegis. En menn taka ekki ákvörðun um að afsala sér fullveldinu og sjálfstæðinu nema einu sinni.

Egill: Já. En þannig að það bendir þá ýmislegt til þess að ríkisstjórnin springi bara eftir þennan landsfund?

Björn Bjarnason: Ég ætla nú ekki að segja það, það er undir öðrum komið heldur en mér að ákveða það, þú verður að spyrja aðra um það. En þú ert vel þjálfaður í að lesa í orð og í bókinni minni velti ég því fyrir mér og hef skrifað greinar um það líka: Eru þetta sýndartillögur eða er þetta raunveruleiki? Og við sjáum það og ég tek dæmi frá '55, '56 þegar varnarmálin voru notuð til þess að ýta Sjálfstæðisflokknum út. Eru Evrópumálin núna eitthvað tæki sem menn ætla að nota í aðdraganda kosninga til að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar og gera svo ekkert með eftir að kosningum er lokið?

Egill: Mig langar að nefna annað við þig, það eru þessir rannsóknarferlar sem eru að koma upp núna og nú er búið að skipa saksóknara, manni virðist að saksóknarinn, þetta er ábyggilega vænsti maður en hann er lítt reyndur maður og virðist hafa lítið fé úr að spila í sinni vinnu. Við erum hins vegar með efnahagsbrotadeild lögreglunnar sem er líka févana og ég veit að inni í kerfinu hafa menn miklar áhyggjur af að það eru að hlaðast inn mál inn í kerfið og menn eru að hafa áhyggjur af að þessi mál muni daga uppi vegna þess hve rannsóknaraðilarnir eru veikir?

Björn Bjarnason: Ríkislögreglustjóri sendi frá sér yfirlýsingu 23. desember um stöðu mála hjá efnahagsbrotadeildinni og þar kemur fram að hún er mjög góð. Ef það hefur hlaðist upp á þeim innan við mánuði sem liðinn er síðan þá er það nýtt og þá er það líka væntanlega sem tengist bankahruninu sem fer í hendurnar á sérstaka saksóknaranum.

Egill: En hefur hann nógu mikla, mikið?

Björn Bjarnason: Hann hefur 50 milljónir samkvæmt þessu plani sem við höfum sett en að sjálfsögðu, 50 milljónir plús ef að það verður svo mikið að hann annar því ekki. Því að það liggur líka alveg í þessum greinargerðum og öllu sem við höfum lagt fram að hann hefur heimildir til að ráða erlenda sérfræðinga, kalla til lögreglumenn bæði úr efnahagsbrotadeildinni og úr öðrum lögregluliðum til að mynda kjarna lögreglumanna og síðan með viðskiptafræðinga og annað. Ég kvíði þessu ekki.

Egill: Þú gerir þér grein fyrir því að hann þarf sennilega meiri peninga en 50 milljónir?

Björn Bjarnason: Já, við settum þarna 50 milljónir, rannsóknarnefndin sem þingið kaus hefur fengið 150 milljónir. Þannig að það má segja að þingið hafi ákveðið samtals 200 milljónir. Rannsóknarnefndin á að skila fyrir nóvember. Hinn á að starfa til 2011. Við vitum ekki hvernig þessi mál raðast inn en hann er með nóg fé til þess að fara af stað.

Egill: Nei, en það er fullt af málum sem eru að koma upp núna sem manni sýnist að þurfi að, muni þurfa að rannsaka?

Björn Bjarnason: Já, en eru það sakamál?

Egill: Ja, það er spurning. Ég veit að, ég hef reyndar heimildir þarna innan úr Fjármálaeftirlitinu, menn hafa áhyggjur af því að það muni þurfa að koma svo málum áfram til lögreglu og að lögregla verði þá vanmegnug að rannsaka?

Björn Bjarnason: Ja, ég held að menn eigi ekki að gefa sér þá mynd. Ég held að við séum búin að fá þarna mjög vel þjálfaðan mann í lögreglumálum og saksóknaramálum, ákærumálum. Hann hefur tekið erfið verkefni. Hann tók nú verkefni sem þótti nú mjög flókið á sínum tíma þegar Jón Baldvin var að tala um það að það hefði verið hleraður síminn hjá honum sem utanríkisráðherra. Hann rannsakaði það og komst að niðurstöðu. Þannig að hann hefur tekið að sér, en þessi efnahagsbrot geta verið svo flókin að það er ekki við því að búast að nokkur lögfræðingur ráði við það einn. Það verður að fá hóp manna væntanlega til að þess að greina það.

Egill: Og þú ert hlynntur því að fá erlenda aðila inn í rannsóknina?

Björn Bjarnason: Ef á þarf að halda.

Egill: Og spara þar ekki?

Björn Bjarnason: Nei, ég tel að það eigi ekki að spara í þessu. Ég tel að það sé nauðsynlegur liður í því að skapa hér hæfilegt jafnvægi í þjóðfélaginu. Fyrir utan, við verðum að passa okkur líka, Egill, sagan geymir dæmi um það að menn hafa talað sig inn í eitthvað ástand og látið lögregluna fara af stað og rannsóknina fara af stað og verið á undan raunveruleikanum í því. Þannig að við ætlum ekki að hefja neinar galdra- eða nornaofsóknir.

Egill: En hvað finnst þér um þessi mál sem eru að koma upp, það eru að koma upp ótal mál um mjög skrýtna viðskiptahætti?

Björn Bjarnason: Já, ég er alveg sammála þér um það. En reynsla mín líka af Baugsmálinu er sú, heyrðu Björn, passaðu þig nú og segðu ekki of mikið því að það munu lögfræðingar nota hvert orð sem þú segir til þess að veikja stöðu þeirra sem þú felur að sinna rannsóknum. Baugsmálið er dæmigert um það hvernig er verið að reyna að búa til einhvern hnykil stjórnmála og lögreglu og ofsóknastimpil og allt það sem dómsmálaráðherrann sagði er notað og blásið upp og ég ætla bara að passa mig að gefa mönnum ekki slíkt færi á mér í þessu.

Egill: En þar náttúrulega máttum við kannski sjá að vissu leyti ofurefli að þeir, sakborningar í Baugsmálinu voru með hjörð af lögfræðingum, þeir kærðu málið á hverju einasta.

Björn Bjarnason: Og þetta segja menn núna, þeir sögðu það ekki þá.

Egill: Kærðu menn á öllum stigum.

Björn Bjarnason: Þetta var ekki sagt þá, þá var sagt að það væri verið að eyða of miklum peningum af hálfu ríkisvaldsins til þess að rannsaka málið og þá var ég útmálaður sem einhver skúrkur ársins einu sinni af því að ég væri að vinna að því að saksóknari sérstakur gæti sinnt þessu og fengið fé til þess. Þannig að það er fljótt að snúast.

Egill: Aha, en við þurfum að læra þá af reynslunni.

Björn Bjarnason: Við þurfum að læra af reynslunni, svo má náttúrulega deila um það hvað dómararnir segja, við vitum ekki hver niðurstaða dómaranna verður. En ég tel að það sem við erum að gera og meðal annars kemur það fram í rökstuðningi mínum varðandi sérstaka saksóknarann að lærdómur er dreginn af Baugsmálinu. Og við fengum fulltrúa allra stjórnmálaflokka til þess að koma í ráðuneytið og fjalla um það áður en við skipuðum manninn.

Egill: En samt er að sko efnahagsbrotadeildin er með hvað 129 milljarða á þessu ári?

Björn Bjarnason: Milljarða, nei ekki svo.

Egill: Nei, milljónir, milljónir, fyrirgefðu maður er orðinn svo ruglaður í öllum þessum tölum.

Björn Bjarnason: Já, á ég að segja þér það að ég held að þetta segi nú ekki, þessi mælikvarði segi nú ekki alla söguna. Ég held að það eigi.

Egill: Og, og sérsveitin er með hvað 300 milljónir?

Björn Bjarnason: Já, það var tekin ákvörðun um það 1. mars 2004 að efla sérsveitina og það voru settir peningar og þegar menn eru að tala um þessa peninga í efnahagsbrotadeildina þá sleppa þeir því sem við höfum sett í þetta á fjáraukalögum til þess að gera mönnum kleift að sinna Baugsmálinu.

Egill: En sástu ekki norska þáttinn þar sem að Helgi Magnús sat svona, súnkaði niður í stólnum mjög vonlaus.

Björn Bjarnason: Jú, ég skrifaði líka um það.

Egill: Einhvern veginn í framan og sagði við bara, við ráðum ekki við þetta sagði hann.

Björn Bjarnason: Já, það er sorglegt. Mér finnst að menn eigi ekki að tala svona niður embætti sín. Menn eiga ekki að láta?..

Egill: Já, en var hann ekki bara að segja sannleikann?

Björn Bjarnason: Nei, það held ég ekki. Hann kom nú með ákæru líka núna. Nú er hann að berjast í skattamáli Baugs og þá er byrjað þetta sama sem þú varst að lýsa að það er verið að nota hvern einasta krók og kima í réttarkerfinu til þess að fá nú úrskurð um hvort þessi stafur sé á réttum stað eða ekki.

Egill: Menn séu vanhæfir eða ekki.

Björn Bjarnason: Já.

Egill: Við skulum nefna aðeins mótmælendurna. Finnst þér stafa hætta af mótmælendum, þeim sem hafa verið að mótmæla hér?

Björn Bjarnason: Ég veit ekki hvað ég á að segja um það. Það geta náttúrulega alltaf í öllum hópum verið einstaklingar sem ganga yfir strikið þannig að alltaf er hætta í þjóðfélagi eins og þú veist hvort sem ástandið er eins og það er núna eða einhvern veginn öðruvísi ef að menn tapi áttum. En vissulega er ákveðin hætta á ferðinni ef okkur tekst ekki að skapa það jafnvægi í þjóðfélaginu þar sem menn, menn ganga fram án þess að vera að ögra yfirvöldunum. Ég tel að lögreglan hafi staðið sig frábærlega vel. Ég er mjög stoltur af framgöngu lögreglunnar og þegar litið er yfir stöðunar að þá er sorglegt að lögreglumaður skuli hafa verið kinnbeinsbrotinn á Hótel Borg, þú varst nú vitni að þeim atburðum, ég sá þá ekki.

Egill: Ég var nú ekki vitni að þeim, ég stóð hjá jólatrénu og var að tala við Pál Baldvin.

Björn Bjarnason: Já, gott þú varst ekki laminn af einhverjum ...

Egill: Ég var lengst þarna frá.

Björn Bjarnason: Eins og myndir sýna, en hérna þetta er alvarlegt, við getum hlegið að þessu en það er náttúrulega grafalvarlegt ef  lögreglumaður er kinnbeinsbrotinn og lögreglumaður var líka meiddur upp við lögreglustöðina. Það eru þau meiðsli sem við sjáum. Þannig beita menn sér gagnvart lögreglunni.

Egill: En er það þess vegna sem menn vilja hafa sérsveitina sterka?

Björn Bjarnason: Sérsveitin var nú ekki stofnuð út af þessu, sérsveitin var stofnuð þegar myndaðist hérna ákveðið ástand, eða efld, hún var efld, hún var til áður en þetta skipulag í kringum hana var myndað í mars 2004 þegar var ákveðið ástand hérna í borginni og það kom í ljós að það var vopnaður maður á ferð í borginni og það var enginn sérsveitarmaður á vakt og þá sagði ég: Þetta gengur ekki, það verður að búa þannig um hnútana að lögreglan geti alltaf kallað til aðstoðar við sig menn sem eru þjálfaðir í því sérstaklega að takast á við vopnaða einstaklinga. Þetta er ástæðan, þetta gerðist þarna síðla árs 2003 og síðan var þessi ákvörðun tekin og ég tel að hún hafi verið rétt og skynsamleg.

Egill: En nú er til dæmis ung kona, það var í, maður sá það í gær að það var ung kona sem vinnur á leikskóla í Reykjavík hún fékk heimsókn á vinnustaðinn, það komu óeinkennisklæddir lögreglumenn fara með hana upp á stöð og fara að yfirheyra hana um einhvern, um það að hún hafi verið í mótmælum?

Björn Bjarnason: Þetta voru ekki sérsveitarmenn, þetta eru menn sem eru væntanlega að vinna úr gögnum, því að menn verða að átta sig á því að allt það sem að?..

Egill: En af hverju þarf að kortleggja, ég meina ef að fólk er að mótmæla svona í?..

Björn Bjarnason: Það eru myndir líklega, öryggismyndavélar sem taka til dæmis í þinghúsinu. Sástu það ekki að Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sagði frá því opinberlega að hann hefði ákveðið að kæra til lögreglunnar innrásina í þinghúsið og lögreglan hefur fengið þessa kæru og hún þarf að rannsaka málið.

Egill: En þurfum við ekki bara að fara að nota sömu, svipaðar aðferðir á mennina sem að, óreiðumennina sem að komu Íslandi á hausinn?

Björn Bjarnason: Já, þá ertu kominn inn á þetta, þarna eru menn að yfirheyra fólk sem sést á öryggismyndavélum og er að brjótast inn í þinghúsið.

Egill: Já, en þeir náðust ekki á öryggismyndavél.

Björn Bjarnason: Nei, en þá ertu kominn inn á, þá er ég kominn inn á þetta sem ég var að tala um við þig að við verðum að passa okkur og sagan geymir líka dæmi um það að menn hafa gengið of langt án þess að hafa undirbyggt það og ég vona að okkur takist að finna það jafnvægi líka. Og auðvitað eigum við það.

Egill: Það þarf að skapa traust í samfélaginu.

Björn Bjarnason: Já, ég er sammála því.

Egill: Já, en eitt að lokum Björn, það er nú sagt að þú sért að hætta í pólitík eða hætta sem ráðherra.

Björn Bjarnason: Ég veit ekki, ég mun aldrei hætta í pólitík.

Egill: En þú ert að hætta sem ráðherra er það ekki?

Björn Bjarnason: Ja, það er hugsanlegt jú.

Egill: Er þetta ekki svona hálfhörmulegt að hætta núna á þessum tíma þegar ja efnahagur landsins er hruninn. Þetta er eitthvert ferli sem byrjar hérna með einkavæðingu bankanna og ég meina þú getur varla verið stoltur af stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins?

Björn Bjarnason: Af því sem ég hef verið að gera er ég mjög stoltur af mörgu. Ég hef komið mörgu.

Egill: En ef þú horfir yfir hið breiða svið?

Björn Bjarnason: Jú, en þá verðum við að skoða það.

Egill: Nú erum við með skuldugustu, einhverja skuldugustu þjóð í heimi og byrðar sem þjóðin þarf að bera hér um ókomna framtíð, þetta er hörmuleg niðurstaða?

Björn Bjarnason: En þá verðum við að horfa á [heildarmyndina], Niall Fergusson, þú veist sagnfræðingur, hann hefur skrifað mjög merka grein sem kom núna í Vanity Fair, þú ættir að lesa hana. Þar sem hann segir, allt í einu varð eitthvað til sem hætti að vera það, sem við gætum kallað heimskringlu eða jarðarkringlu, eitthvað varð til sem heitir fjármálakringla og það sem við lentum í Íslendingar [var] að við vorum með fjármálakerfi sem var 10 sinnum stærra heldur en efnahagur okkar. Og það er þessi lærdómur [sem verður að skoða] og ég held að menn eigi að skoða þetta. Þú segir, ég eigi að skoða þetta í breiðu samhengi. Þú verður líka að skoða það í heimssamhengi.

Egill: En þurfið þið stjórnmálamennirnir ekki að taka ábyrgð á þessu?

Björn Bjarnason: Við gerum það og ræðum það og verðum að brjóta það til mergjar.

Egill: En finnst þér ekki, er ekki fáránlegt að ríkisstjórnin sitji áfram sem að sigldi hér öllu í strand?

Björn Bjarnason: Ja, eins og ég sagði og við töluðum um áður að þá sýnist mér nú flokkarnir vera að stilla sér þannig upp að þeir geti farið í kosningar og auðvitað er hið lýðræðislega kerfi fyrir ríkisstjórnina eins og hér kemur fram að efna til kosninga. Hvort það verður gert fyrr eða síðar, ég held að það séu allir sammála um það að það verður áður en þetta kjörtímabil rennur á enda.

Egill: Að sækja sér nýtt umboð þá?

Björn Bjarnason: Að sækja sér nýtt umboð, láta reyna á þetta í kosningum og það er mjög spennandi og á ég að segja þér það að það er mjög skemmtilegt að sjá hinn mikla stjórnmálaáhuga sem er orðinn, hvað margir eru núna farnir að tjá sig um breytingar á stjórnarskránni, nýtt stjórnarfyrirkomulag í landinu og hvað eina og hvað eina. Þetta er spennandi tími fyrir stjórnmálamenn. Ég mun ekki hætta í pólitík þótt ég hætti í ríkisstjórn, og þótt ég hætti á Alþingi einhvern tímann þá mun ég ekki hætta í pólitík.

Egill: Nei, jæja þakka þér Björn fyrir að koma.