16.9.2008

Kalda stríðið - dómur sögunnar.

Erindi hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, 16. september, 2008.

 

 

 

Kalda stríðið – dómur sögunnar – heitið á þessum orðum er sprottið af umræðum fyrr á þessu ári. Viðfangsefnið er verðugt og minnir á, að margt er enn ósagt um tímann frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar fram að hruni Sovétríkjanna.

Eftir fall þriðja ríkisins og Hitlers rofnaði samstaða sigurvegaranna. Þeir skiptu heiminum í tvö áhrifasvæði. Járntjald lá í gegnum Þýskaland. Í tæpa hálfa öld stóðu tvö ólík þjóðfélagskerfi grá fyrir járnum andspænis hvort öðru. Oftar en einu magnaðist spenna á milli þeirra – og þegar litið er til baka sést, að oftar en einu sinni stóð mannkyn á barmi kjarnorkuvopnaátaka. Hættan á þeim varð mest í Kúbudeilunni árið 1962.

Berlín var kölluð höfuðborg kalda stríðsins. Vesturhluti borgarinnar var umlukinn hernámssvæði Sovétmanna, Austur-Þýskalandi. Vesturveldin þrjú, Bandaríkin, Bretland og Frakkland, lögðu sig fram um að tryggja sjálfstæði eigin svæða í Vestur-Berlín. 1948 svöruðu þeir tilraun Sovétmanna til að svelta borgarbúa í vesturhlutanum til uppgjafar  með loftbrú.

Í Berlín má enn þann dag í dag sjá margt til minja um kalda stríðið, meðal annars Kongresshalle, ráðstefnuhöll, í Tiergarten, skammt frá þýska þinghúsinu, Reichstag. Bandaríkjastjórn gaf Berlínabúum þetta einstaka hús árið 1957.

Eleanor Dulles, Berlínarfulltrúi bandaríska utanríkisráðuneytisins, systir Johns Fosters, utanríkisráðherra, og Alans, yfirmanns CIA, er kölluð „móðir“ hússins og jafnvel Vestur-Berlínar. Án frumkvæðis Eleanor og dugnaðar er talið, að borgin hefði aldrei fengið nafngiftina höfuðborg kalda stríðsins. Hún barðist fyrir því, að Vestur-Berlín yrði alls ekki Sovétmönnum að bráð og með Kongresshalle reisti hún sýnilegt og glæsilegt tákn um staðfastan vilja Bandaríkjamanna til stuðnings Berlínarbúum.

Byggingarlistin var notuð sem vopn í kalda stríðinu eins og  aðrar listgreinar. Í Austur-Berlín beittu kommúnistar henni sér til dýrðar með uppbyggingu við Stalinallee. Fyrstu mannvirki þar komu til sögunnar í janúar 1952 og þar hreyktu menn sér af glæsibyggingum í þágu alþýðunnar og bentu á rústirnar í Vestur-Berlín til marks um, að kommúnismi væri skilvirkari en kapítalismi.

Þegar vestur-þýska þingið kom saman í Berlín funduðu þingmennirnir í Kongresshalle til að árétta órjúfanleg stjórnmálatengsl Vestur-Berlínar og Vestur-Þýskalands. Þótti stjórnendum Austur-Þýskalands sér storkað með þessum þingfundum og sendu fylkingar af MiG 19 og MiG 21 orrustuþotum yfir höllina í minna en 100 metra hæð og rufu þær hljóðmúrinn beint yfir höfðum þingmannanna.

Þegar Berlínarmúrinn hrundi 9. nóvember 1989, hófust endalok kalda stríðsins. Í borginni er nú unnt að sjá áþreifanlegan vitnisburð um sigur kapítalisma yfir kommúnisma. Höll lýðveldisins, þinghús Austur-Þýskalands hefur verið rifið  og þar skammt frá við ána Spree er nú safn um DDR – þýska alþýðulýðveldið, þar sem harðstjórn kommúnista er milduð með því að reyna að gera hana dálítið broslega, þótt hún eigi það alls ekki skilið.

Þjóðverjar keppast við að skrifa sig í gegnum kalda stríðið til að átta sig betur en ella á dómi sögunnar, þótt um hann sé í sjálfu sér ekki deilt. Þeir hafa skrifað tölvuforrit til að auðvelda sér að raða saman tættum Stasi-skjölum, sem fundust í ruslatunnum á sínum tíma.

Hér á landi eru sagnfræðingar einnig áhugasamir um að rýna í sögu kalda stríðsins. Ég er eindreginn talsmaður þess, að unnið sé að sagnfræðilegum rannsóknum á þessu sviði, til að upplýsa alla þætti mála. Vegna þeirrar afstöðu, sem ég tók á tíma kalda stríðsins, fagna ég dómi sögunnar.

Faðir minn, Bjarni Benediktsson, tók mikinn þátt í kalda stríðinu hér á landi og vann ótrauður að því, að Ísland væri virkur þátttakandi í baráttu lýðræðisríkjanna gegn Sovétvaldinu. Við systkinin höfum nú afhent skjöl hans Borgarskjalasafni, þar sem unnið er að skráningu þeirra. Sum skjalanna, meðal annars þau, sem snerta aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, má skoða á vefsíðunni bjarnibenediktsson.is

Á síðunni má sjá, að í safninu er meðal annars að finna gögn um íslenska og danska kommúnista, Kommúnistaflokk Íslands, um skipulag kommúnista, byltingarhugmyndir og uppskriftir úr tímaritinu Rétti á árunum 1923-1949, um heimsstríð og auðvaldið.

Þar eru einnig frásagnir af viðræðum um NATO-aðild Íslands og af samningaviðræðum Norðurlandaþjóðanna um varnarbandalag. Safnið geymir skjöl um varnarsamninginn 5. maí 1951, aðdraganda og eftirmál, hvaða skotmörk Rússar voru taldir hafa á Íslandi, og lýst er hættuástandi í heiminum.

Sum þessara skjala hafa sagnfræðingar fengið að kynna sér, á meðan safnið var í minni vörslu, en ég hef verið mjög tregur til að veita aðgang að því óskráðu. Um aðgang að hinu skráða safni hefur verið samið við Borgarskjalasafn. Efnisþættirnir, sem ég nefndi, gefa til kynna, hvað þarna er að finna en þeir minna einnig á um hvað kalda stríðið snerist.

Hér á landi var háð hörð hugmyndafræðileg barátta, þar sem stjórnstöðvar heimskommúnismans létu að sér kveða með útsendurum og fjárstuðningi. Sósíalistaflokkurinn hafði á þessum árum á stefnuskrá sinni að ná völdum í landinu með ofbeldi. Formaður miðstjórnar Sósíalistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason, hótaði þingmönnum aftöku áður en gengið var til atkvæða um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið og árás var gerð á Alþingishúsið eftir að þeir félagar Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson létu þau röngu boð út ganga að þeir væru fangar í þinghúsinu.

Andstæðingar aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningsins við Bandaríkin töldu ákvarðanir um þessi efni landráð, sem hefðu byggst á leynimakki, ef ekki þvingunum. Fullyrðingar í þessa veru heyrast ekki lengur, enda eiga þær ekki við nein rök að styðjast.

Áróðurinn gegn varnarsamstarfinu var einnig á þann veg, að í eitt skipti fyrir öll og að eilífu væri Ísland orðið að bandarískri herstöð, útverði Bandaríkjanna, einskonar herfangi þeirra. Bandaríkjamönnum mundi aldrei detta til hugar að kalla herafla sinn frá Íslandi. Þetta hefur einnig reynst rangt.

Sömu sögu er að segja um stóryrði þess efnis, að Bandaríkjamenn hefðu flutt kjarnorkuvopn með leynd til landsins. Ásakanir í þá veru voru ósannar en gáfu svovéskum herforingjum átyllu til að hóta Íslendingum með kjarnorkuárás.

Ég skrifaði mikið um utanríkis-, öryggis- og varnarmál á áttunda og níunda áratugnum og má finna sýnishorn af því efni í ritsafninu Í hita kalda stríðsins, sem Nýja bókafélagið gaf út árið 2001. Þeir, sem lesa greinarnar, sjá, að áhugi minn beindist einkum að strategískum þáttum og hvernig Ísland tengdist vígbúnaðarkapphlaupinu milli austurs og vesturs.

Í grein frá árinu  1980 sagði ég, að við mat á stöðu Íslands á alþjóðvettvangi væri ekki of langsótt að velta fyrir sér heildarþróun alþjóðamála. Íslendingar gætu ekki skorist úr leik. Þeir byggju á lykilhafsvæði og land þeirra væri í raun skurðpunktur milli austurs og vesturs. Nefndi ég fimm ástæður til að skýra hernaðarlega stöðu Íslands. Þar sagði:

1.     Vegna þess hve kafbátar búnir kjarnorkueldflaugum eru mikilvægur liður í miðkerfinu milli risaveldanna og 70% af slíkum kafbátum Sovétríkjanna hafa bækistöð fyrir norðan Ísland er landið vegna legu sinnar hluti af þessu kerfi. Hvorugt risaveldanna mundi þola óvissu eða tómarúm á Íslandi.

2.     Sameiginlegt varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins byggist á því, að sérhver bandalagsþjóð leggi sitt af mörkum til sameiginlegra varna. Framlag hvers og eins fer eftir efnum og ástæðum. Íslendingar leggja fram land undir varnarstöð, sem er lífsnauðsynlegur hlekkur í sameiginlega varnarkerfinu, um leið og hún er sérstök öryggistrygging fyrir Ísland. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu án sérstaks varnarviðbúnaðar í landinu sjálfu er þverstæða, sem ekki er unnt að rökstyðja með skynsamlegum hætti eða á fræðilegum forsendum.

3.     Ekki er unnt að greina á milli Norður-Evrópu eða Norður-Atlantshafs og Mið-Evrópu. Hættuástand eða átök í norðri mundu leiða til mikillar spennu og síðar átaka í Mið-Evrópu. Með stefnu sinni í utanríkis- og öryggismálum leggur Ísland lóð á vogarskál friðar í Evrópu.

4.     Án þess að með sýnilegum hætti sé ljóst, að unnt verði að flytja liðsafla og birgðir frá Norður-Ameríku til Vestur-Evrópu á hættutímum er varnarstefna Atlantshafsbandalagsins einskis virði. Átökin í síðari heimsstyrjöldinni sýndu, að aðstaða á Íslandi er nauðsynleg til að heyja orrustu á Atlantshafi og hafa betur.

5.     Núverandi skipan mála, þar sem Vestur-Evrópa og ríkin í Norður-Ameríku sameinast um að tryggja öryggishagsmuni sína, er óskastaða frá íslenskum sjónarhóli. Færi svo, að hugmyndin um „fortress America“, þ.e. Bandaríkjamenn dragi úr skuldbindingum sínum gagnvart vörnum Vestur-Evrópu, kæmi til framkvæmda yrðu Íslendingar settir í mjög erfiða aðstöðu. Til að komast hjá því að þurfa að velja á milli Evrópu og Norður-Ameríku hljóta þeir að leggja sig fram um að viðhalda núverandi skipan.

Þá sagði ég einnig helsta markmið Sovétríkjanna í samskiptum við Ísland væri að fá landsmenn til að rjúfa varnarsamstarfið við Bandaríkin og ganga úr Atlantshafsbandalaginu. Með þetta sama markmið væru þeir, sem gengju undir kjörorðinu: Ísland úr NATO, herinn burt.

Þannig leit ég á málin 30 árum eftir að Ísland hafði gengið í NATO og gert varnarsamninginn við Bandaríkin. Ég er enn sömu skoðunar um stöðu Íslands á þessum tíma og hvaða gildi afstaða íslenskra stjórnvalda hafði í hernaðarlegu tilliti.

Dómur sögunnar er á þann veg, að stefna okkar í öryggismálum hafi reynst þjóðinni farsæl. Undir lok kalda stríðsins reyndi mjög á hana, þegar Ronald Reagan mótaði flotastefnu, sem miðaði að því, að bandaríski flotinn sækti norður fyrir Ísland og grandaði sovéskum kjarnorkukafbátum sem næst heimahöfnum þeirra á Kóla-skaganum.

Þá var meðal annars sagt í umræðum hér, að Ísland væri kjarnorkuheilinn í flotastefnu Bandaríkjanna og látið í veðri vaka, að Bandaríkjamenn vildu byggja óeðlilega stóra, nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli til að koma þessum heila fyrir í kjallara hennar! Umræðurnar urðu til þess, að flugstöðin varð minni en upphaflega var áætlað.

Í sjálfu sér er ekki undrunarefni, að þeir, sem höfðu aðra skoðun, en hér hefur verið lýst, á hernaðarlegu gildi Íslands á þessum árum, vilji sem minnst um þá skoðun tala.

Umræður um Ísland og kalda stríðið hafa einnig snúist mest um annað en hernaðarleg atriði og öryggismál, sem voru þó kjarni ágreinings milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Kjarnorkvopnin frystu ástandið, þau sköpuðu ógnarjafnvægið.

Rætt var um stöðu Íslands í kalda stríðinu næsta hávaðalítið á tíunda áratug síðustu aldar.  Við vorum nokkrir, sem töldum eðlilegt, að hér á landi eins og annars staðar gerðu kommúnistar upp við fortíðina. Töluðum við fyrir daufum eyrum, því að meira að segja Morgunblaðið taldi óþarft að eltast við þá, sem hæst töluðu um „lygi“ blaðsins í kalda stríðinu.

Í síðasta Reykjavíkurbréfi, sem Styrmir Gunnarsson skrifaði sem ritstjóri Morgunblaðsins og birtist hinn 1. júní síðastliðinn, sagði:

„Þegar Berlínarmúrinn féll og kalda stríðinu lauk vildu ungir og kappsfullir starfsmenn á ritstjórn Morgunblaðsins láta kné fylgja kviði og efna til uppgjörs við sósíalista vegna þess, sem hér hafði gerzt á árum kalda stríðsins. Þá vakti fyrir þeim að efna til víðtækrar leitar í erlendum skjalasöfnum að gögnum, sem sönnuðu tengsl stjórnmálahreyfingar sósíalista á Íslandi við kommúnistaflokkana í Austur-Evrópu, fjárstreymi hingað frá þeim og áform þeirra um að koma á sósíalísku þjóðfélagi á Íslandi með stuðningi hinna erlendu aðila.

Þessi áform um uppgjör runnu út í sandinn vegna þess, að Matthías Johannessen, þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sem hafði síðasta orðið í málefnum ritstjórnar, sagði nei. Hann taldi nóg komið af sundrungu þjóðarinnar í kalda stríðinu og ekkert vit væri í því að halda lengra á þeirri braut. Á árunum á undan hafði Matthías lagt sig fram um að draga úr því sundurlyndi, sem orðið hafði í röðum rithöfunda og annarra listamanna í kalda stríðinu. Eins og þeir sem eldri eru muna var menningunni beitt mjög fyrir kaldastríðsvagninn.“

Að öðru leyti snerist þetta kveðjubréf Styrmis að mestu um það, sem hefur orðið að mesta hitamáli í umræðum um Ísland og kalda stríðið hin síðustu misseri, það er  hlerarnir og hlut lögreglu við gæslu innra öryggis ríkisins.

Hér er ekki tilefni til að rekja allt, sem sagt hefur verið um þau mál eða einkennileg tilvik þeim tengd. Nokkrar umræður urðu um málið á vorfundum alþingis 2006 og þá var samþykkt þingsályktun 3. júní, þar sem ríkisstjórninni var falið að skipa nefnd til þess að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanni að þeim. Með ályktuninni var sú pólitíska stefna  mörkuð að þessar upplýsingar skyldu gerðar fræðimönnum aðgengilegar og var sérstakri nefnd síðan falið að gera tillögu um hvernig staðið skyldi að því, en nefndin var skipuð 22. júní 2006.

Þar sem ætla mátti, að öll gögn og upplýsingar um öryggismál íslenska ríkisins á árunum 1945–1991 væru ekki aðgengileg almenningi á grundvelli upplýsingalaga, aðallega vegna einkalífsverndar þeirra sem sættu eftirliti eða rannsókn á þessu tímabili, þótti nauðsynlegt að mæla í lögum fyrir um aðgangsrétt nefndarmanna að þessum gögnum og leggja um leið þagnarskyldu á þá. Jafnframt var lögfest að öllum opinberum starfsmönnum, bæði núverandi og fyrrverandi, yrði skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands á árunum 1945–1991 þrátt fyrir ákvæði laga um þagnarskyldu.    Þá var lögfest,  að nefndin hefði á starfstíma sínum samráð við forseta Alþingis og formenn þingflokka um framvindu verksins. Þótti slíkt samráð afar mikilvægt til að tryggja áfram samstöðuna, sem náðist um málið, þegar alþingi samþykkti ályktun sína vorið 2006. Var einnig eindregin samstaða á þingi um lögfestingu þessara heimilda fyrir nefndina.

Hún skilaði síðan skýrslu 9. febrúar 2007. Helstu niðurstöður hennar voru þessar:

·        Hleranir varðandi öryggi ríkisins áttu sér stað á árunum 1949-68.

·        Lögreglan átti frumkvæðið að hlerunum í apríl 1951 og 1968. Um annað er ókunnugt.

·        Ávallt var kveðinn upp dómsúrskurður sem heimilaði hleranir áður en þær voru framkvæmdar.

·        Lögreglan gat ekki hlerað með þeim búnaði sem hún  hafði á þessum [tíma] án atbeina starfsmanna Pósts og síma.

·        Þessar hleranir voru ekki teknar upp á segulbönd og við þær varð til lítið af skriflegum gögnum.

·        Vinnubrögð og verklag voru almennt þannig að lítið var skráð af upplýsingum um öryggismál.

·        Gögnum hjá Útlendingaeftirlitinu í lögreglustöðinni við Hverfisgötu var eytt 1976.

·        Starfssvið forstöðumanns Útlendingaeftirlitsins laut m.a. að innra öryggi ríkisins.

·        Útlendingaeftirlitið hafði eftirlit með erlendum sendiráðsmönnum, einkum frá ríkjum Varsjárbandalagsins.

Í skýrslunni eru nefnd 6 tilvik frá 1949 til 1968, þegar dómarar veittu heimild til hlerana: 1949 vegna aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. 1951 vegna komu Dwigths D. Eisenhowers, yfirhershöfðingja NATO í janúar og síðan í apríl vegna komu bandaríska varnarliðsins. 1961 vegna landhelgissamninga við Breta. 1963 vegna heimsóknar Lyndons B. Johnsons, varaforseta Bandaríkjanna,  og 1968 vegna utanríkisráðherrafundar NATO.

Nefndin segir ekkert benda til þess, að hleranir hafi verið heimilaðar um innra öryggi eftir 1968. Í öllum tilvikunum sex telur nefndin, að málsmeðferð hafi verið sú, að lögreglustjóri hafði samband við ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, sem skrifaði Sakadómi bréf um nauðsyn hlerunar, einu sinni skrifaði ráðherra undir bréfið, Jóhann Þ. Jósefsson, settur dómsmálaráðherra, árið 1949

Dómari heimilaði hlerun með úrskurði samkvæmt nefndarskýrslunni og allir heimildarmenn nefndarinnar fullyrtu, að engar tengingar til hlerunar hefðu átt sér stað, fyrr en dómsúrskurðurinn lá fyrir.

Í skýrslunni segir orðrétt:

„Í fjölmiðlum hafa menn talað um dularfullt klikk sem heyrðist í símum þeirra og vöktu grunsemdir um að síminn væri hleraður. Þeir tæknimenn Símans, sem nefndin ræddi við, fullyrða að þegar hlerað var heyrðist ekkert klikk, en hins vegar getur slíkt hljóð orsakast af ýmsum ástæðum sem eiga sér eðlilegar skýringar, svo sem við viðhald og viðgerðir.“

Því hefur verið haldið fram, að þessar hleranir, sem hér hefur verið lýst hafi verið „pólitískar hleranir“. Þetta virðist sagt til að unnt sé að heimfæra það, sem að framan er lýst, undir það, sem gerðist í Noregi á tímum kalda stríðsins.

Norska stórþingið fól snemma árs 1994 sérstakri nefnd að rannsaka, hvað hæft væri í ásökunum um ólöglegt eftirlit með norskum ríkisborgurum á tíma kalda stríðsins. Nefndin, Lund-nefndin svokallaða, skilaði skýrslu tveimur árum síðar og taldi, að norska öryggislögreglan hefði fylgst á ólögmætan hátt með fjölda manna, einkum kommúnistum og sósíalistum. Var einstaklingum gefinn kostur á að kynna sér skýrslur um sig og krefjast bóta.

Fráleitt er að bera það, sem lýst er í Lund-skýrslunni, saman við hleranir hér á landi. Hér hefur ekkert komið fram til stuðnings ásökunum um ólögmætar aðgerðir yfirvalda. Í Noregi var sýnt fram á óeðlilega náin tengsl milli Verkamannaflokksins og öryggislögreglunnar.

Hér hafa sumir látið eins og dómarar hafi verið valdalaus verkfæri í höndum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og þeir hafi farið án rökstuðnings að vilja ráðherrans. Í þeirri afstöðu felst dæmalaus óvirðing við þá dómara sem hlut áttu að máli.

Í þessu samhengi má nefna síðustu hleranir 1968 en þá heimilaði Þórður Björnsson sakadómari, lengi bæjarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokksins og eindreginn andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, að síma yrðu hleraðir.  Spyrja má: Er sennilegt að þessi áhrifamaður í Framsóknarflokknum, sem þá var raunar í harðri stjórnarandstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum, hafi heimilað dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að stunda pólitískar njósnir um andstæðinga sína?

Símhleranir í þágu lögreglu, eru löglegar, enda með samþykki dómara. Lögregluhleranir standa stutt, eru bundnar tilteknum atburðum og eru eingöngu notaðar í þágu lögreglu.

Pólitískar hleranir eru ólöglegar, standa um langan tíma og eru notaðar til að koma upplýsingum á framfæri við pólitíska andstæðinga.

Hér á landi voru stundaðar löglegar hleranir í þágu lögreglu með heimild dómara. Um þetta verður ekki deilt, þótt menn séu ekki endilega sammála um, hvort ástæða hafi verið til að óska eftir heimild til hlerana eða nefna til sögunnar þau símanúmer, sem sjá má í opinberum gögnum.

Dr. Þór Whitehead  ritar um öryggi Íslands á válegum tímum í tímaritið Þjóðmál 2006 og dregur þar upp mynd af stefnu kommúnista, baráttuaðferðum þeirra og viðbrögðum lögreglu. Augljóst er, að Gúttóslagurinn 1932 skipti sköpum um mat lögreglu á nauðsynlegum viðbrögðum til að hún hefði undirtökin í átökum við kommúnista og fylgismenn þeirra.

Gúttóslagurinn átti rætur í pólitískum átökum og þar munaði minnstu, að andstæðingar lögreglu og lögmætra stjórnvalda næðu yfirhöndinni. Gúttóslagurinn sýndi og sannaði, að lögregla varð að geta áttað sig betur fyrirfram á yfirvofandi hættu eða mótmælum.

Símhleranir eru dæmigerð aðferð lögreglu til að búa sig sem best undir það, sem í vændum kann að verða. Með vísan til reynslunnar af Gúttóslagnum taldi lögregla líklegast, að pólitískir andstæðingar ákvarðana stjórnvalda tækju höndum saman til að spilla fyrir framgangi mála.  Þetta skýrir símanúmerin, sem kynnt voru fyrir dómurunum. Í skýrslu hlerananefndarinnar frá 2007 segir um hleranir í þágu innra öryggis ríkisins 1949 til 1968:

„Hleranir fóru fyrst fram á 2. hæð lögreglustöðvarinnar í Pósthússtræti 3. Nokkrir símar voru settir upp með fjórum til fimm tengingum. Segulbönd voru ekki notuð við hleranir á þessum tíma. Punktað var niður það sem þótti athugunarvert, m.a. nöfn. Heimildarmenn fullyrða að aldrei hafi neitt verið skráð sem varðaði einkahagsmuni þeirra einstaklinga sem voru hleraðir. Í lok hvers dags var síðan metið hvað skipti máli og það varðveitt en hinu eytt. Nokkrir starfsmenn embættis lögreglustjórans í Reykjavík önnuðust hleranir, þ. á m. sérstakur trúnaðarmaður lögreglustjóra. Sökum manneklu var ekki hlerað að næturlagi.“

Þessi lýsing gefur ekki tilefni til að álykta, að um öflugt eða víðtækt eftirlit hafi verið að ræða. Satt að segja virðist það hafa verið frekar lítilfjörlegt.  Raunar má ætla, að lögregla hafi litið á heimildir sínar sem nauðsynlega varúðarráðstöfun, ef spenna magnaðist á hinum pólitíska átakavettvangi.

Öll tilvikin sem um ræðir tengjast ákveðnum viðburðum. Hið sama á við enn þann dag í dag. Lögreglan skipuleggur aðgerðir í samræmi við greiningu og hættumat og mælist til þess að hafa þær heimildir hverju sinni, sem hún telur best duga til þess að gegna hlutverki sínu. Það ræðst af atvikum og framvindu mála hvort lögreglan nýtir sér þær heimildir, sem hún fær frá dómurum.

Góðir áheyrendur.

Ég hef hér stiklað á nokkrum þáttum, sem settu svip á kalda stríðið. Uppgjör þjóða við þennan kafla í sögu sinni ræðst af  aðstæðum þeirra.

Ef fyrir lægi staðfest vitneskja um lögbrot af hálfu íslenskra stjórnvalda, hikaði ég ekki við að mæla með viðbrögðum til að rétta hlut þeirra, sem máttu þola órétt vegna slíkra brota. Þá kæmi til álita að semja sérstök lög til að auðvelda fórnarlömbum að  leita skaðabóta.

Ekkert bendir til þess, að stjórnvöld hafi farið á svig við lög við ákvarðanir sínar. Ágreiningur um, hvort nauðsynlegt hafi verið að taka þessar ákvarðanir, tengist deilum fortíðar og fráleitt er að leggja mælistiku samtímans á þær. Hér er um sögulegar staðreyndir að ræða og við þeim verður ekki haggað, hvort sem mönnum líkar þær eða ekki.

Ég minntist á Berlín í upphafi þessa erindis. Þar hitti ég nýlega dr. Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Þýskalands, sem gegndi mikilvægu hlutverki af hálfu vestur-þýskra stjórnvalda við sameiningu Þýskalands. Við ræddum þá sögulegu atburði og breytingarnar í Berlín frá hruni múrsins.

Schäuble sagði kalda stríðið og skiptingu Berlínar ekki vekja neinn sérstakan áhuga ungs fólks. Hann ætti 28 ára dóttur og þegar hún hlustaði á föður sinn ræða atvik úr kalda stríðinu og hvernig því lauk segði hún gjarnan: Æ, pabbi, hvers vegna talar þú ekki bara um Rómaveldi!

Enn er verið að skrifa sögu Rómaveldis og ráða í  örlög  manna og málefna þar. Á sama hátt verður enn um langan aldur  rýnt í sögu kalda stríðsins og deilt um einstaka atburði þess. Engu að síður tel ég dóm sögunnar um átök austurs og vesturs þegar fallinn. Sameining Berlínar undir lýðræðislegri stjórn í öllu Þýskalandi er skýrasta táknið um inntak þess dóms.