6.9.2008

Sigurbjörn Einarsson - minning.

Morgunblaðið 6. september, 2008.

Sigurbjörn Einarsson ávann sér einstakan sess í sögu þjóðarinnar. Hans verður minnst sem áhrifamikils kennimanns og öflugs kirkjuföður. Viska hans og hlýja höfðaði til allra.

Ég heyrði hann síðast flytja snjalla og áhrifamikla prédikun fyrir fáeinum vikum, hinn 27. júlí, í Reykholtskirkju. Þar fullvissaði hann okkur enn og aftur á sinn einstæða hátt um návist Jesú Krists, hann væri í gær og í dag hinn sami og um aldir. Kristin trú væri auk þess helgasta arfleifð og dýrmætasta eign þjóðarinnar. Hann minntist Jónasar Hallgrímssonar og sagði:

„Já, Jónas og önnur þau stórmenni íslenskrar sögu, sem við eigum mest að þakka, kunnu að meta þá örvun til góðs, þau heilnæmu áhrif, þá blessun, sem kristin trú býr yfir og gefur. Þeir vildu leggja rækt við helgustu arfleifð og dýrmætustu eign þjóðarinnar. Þetta nærði og styrkti þá ættjarðarást, þá þjóðarvakningu, sem færði okkur frelsi og fullveldi á sínum tíma en hófst með þeirri vakningu um íslenska tungu, sem við höfum búið að síðan, það hefur verið samstaða um það hér á landi til þessa að vaka yfir tungunni sem sjálfu því fjöreggi, sem sjálfstætt Ísland á líf sitt undir. Þessa íslensku lífsvitund mega engar veiðivonir á alþjóðamiðum né neinn velsældardoði fá að slæva eða kæfa.“

Og síðar í ræðunni sagði hann:

„Það kemur fyrir, að mennirnir blindast og krossfesta sína eigin gæfu, hjálp og blessun. Verst fer þeim ævinlega, þegar þeir blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér – ég er ekki viss nema einhverjir sperrtir hanar á tildurshaugum samtímans mættu taka þetta til sín. Og það er ekki hættulaust að seljast undir framandi íhlutanir og yfirráð.“

Áhrif Sigurbjörns voru mikil og birtust hvarvetna, þar sem hann lét að sér kveða. Frumkvæði hans að endurreisn Skálholts skipti sköpum. Sálmabókin væri svipminni, ætti hann þar ekki fjölmarga sálma. Þýðing hans á Játningum Ágústínusar kirkjuföður er einstakt framlag til bókmenntanna.

Hins söknum við þó mest, sem kynntumst vináttu hans, að njóta ekki oftar hlýja handtaksins og sjá ekki oftar bregða fyrir bliki í auga af glettni eða til að árétta einarða skoðun á mönnum og málefnum. Öflugur málsvari kristni og mannúðar er genginn, blessuð sé minning hans.