2.6.2008

Hörður Sigurgestsson, sjötugur.

2. júní, 2008.

Mér er ljúft að færa Herði Sigurgestssyni heillaóskir á sjötugsafmæli hans.

Engum dylst, að Hörður ber aldur sinn vel. Hann er síungur og leggur rækt við þann mikilvæga hæfileika að njóta líðandi stundar og lifa og hrærast í samtímanum með áhuga á öllu, sem hann hefur að bjóða.

Með ævistarfi sínu hefur Hörður markað sér góðan og öruggan sess í sögu íslensks viðskiptalífs. Hann verður ætíð talinn fremstur í hópi þeirra, sem lögðu lykilskerf af mörkum við að skapa nýjan stíl við stjórn fyrirtækja á áttunda og níunda áratugnum.

Árangurinn af þessum nýju aðferðum lét ekki á sér standa. Fyrirtæki tóku stórstígum framförum undir forystu Harðar. Enginn fór varhluta af framtaksemi hans og dugnaði. Má fullyrða, að um árabil hafi ekkert mikilvægt mál verið leitt til lykta í íslensku viðskiptalífi, án þess að Hörður kæmi að því beint eða óbeint.

Ríkur þáttur í öllum störfum Harðar er, að ekki skuli ráðist í neitt nema að vel athuguðu máli, með vísan til góðrar greiningar og með eins glögga sýn og kostur er yfir alla þætti þess, sem til meðferðar er hverju sinni.

Hörður lét snemma að sér kveða á þann hátt, að skipti máli og eftir var tekið.

Minnist ég þess frá árum mínum í Háskóla Íslands og við vinnu að hagsmunamálum stúdenta af hve mikilli virðingu var vitnað til þess, hvernig Hörður og félagar hans héldu á málum stúedentaráðs og rekstri hótela á stúdentagörðunum. Skipti sá góði vitnisburður máli, þegar fyrir því var barist, að stúdentar fengju meiri áhrif á stjórn eigin hagsmunamála.

Það var því engin tilviljun, að leitað var til Harðar með tilmælum um að setjast í háskólaráð Háskóla Íslands, þegar ákveðið var með lögum 1999, að menn utan skólans skyldu setjast í ráðið. Sinnti hann því verkefni af eins miklum áhuga og öllu öðru og var fyrr en varði orðinn áhrifamikill á vettvangi skólans og ráðsins og kominn á fljúgandi ferð við að skipuleggja vísindagarða í Vatnsmýrinni.

Hið sama er að segja um önnur verkefni, sem Hörður hefur tekið að sér hin síðari ár, formennsku í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands eða Landsbókasafns Íslands – á skömmum tíma tileinkar sér svo mikla þekkingu á hinum ólíku viðfangsefnum, að ekki verður fram hjá henni gengið við mótun stefnu eða töku ákvarðana.

Hörður hefur látið sig málefni Sjálfstæðisflokksins miklu varða allt frá því á námsárum sínum, þegar hann tók þátt í starfi Vöku. Síðar sat Hörður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna og innan fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík hefur hann tekið mikinn þátt í kosningastarfi.

Samfelld kynni okkar Harðar hófust síðla árs 1970, þegar við tókum upp þann sið nokkrir flokksbræður að hittast reglulega í hádeginu á föstudögum. Liggur í augum uppi, að á þeim tæpu 40 árum, sem síðan eru liðin, hafi mörg mál verið brotin til mergjar í spaklegum viðræðum á þessum hádegisfundum.

Ég mæli fyrir munn okkar allra félaga Harðar á þessum skemmtilega vettvangi, þegar ég þakka honum hlut hans. Hann rekur aldrei í vörðurnar og hefur alltaf eitthvað til málanna að leggja, hvort heldur rætt er um stjórnmál, viðskipti, ferðalög eða menningarmál, svo að ekki sé minnst á flugvélategundir eða bíla, nýjar bækur eða uppfærslu á óperum austan hafs og vestan.

Það er með þessi tæplega 40 ára góðu kynni í huga að ég fullyrði, að Hörður njóti þess að lifa og hrærast í samtímanum og fylgjast með því, sem gerist hér heima og erlendis. Ég vona, að hann fái notið þess sem lengst með Áslaugu, börnum þeirra og barnabörnum – og við eigum einnig vináttu þeirra enn um langt árabil.

Vissulega er hver og einn sinnar gæfu smiður. Hitt er þó óhjákvæmilegt að samferðarfólk komi einnig við sögu.

Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka, að hafa átt svo langa og góða samleið með þeim Áslaugu og Herði – hin síðari ár tengist hún einnig griðastað okkar í Fljótshlíðinni, þar sem Hörður hefur að sjálfsögðu valist til forystu við umsýslu á landi.

Ávallt er okkur til gleði að hitta þau eins og enn sannast í hinni glæsilegu veislu hér í dag.

Innilega til hamingju með daginn!