Hleranir.
Umræður utan dagskrár 28. maí, 2008.
Hér á landi tíðkast, að telji einstaklingar ríkisvaldið gera á sinn hlut sækja þeir rétt sinn í samræmi við lög. Það á við í þessu máli eins og öðrum.
Að dómsmálayfirvöld biðjist afsökunar vegna niðurstöðu dómara er með öllu óþekkt – mál eru til lykta leidd fyrir dómstólum. Að deila við dómarann eftir á skiptir almennt engu.
Í þessu máli hafa menn látið eins og dómarar hafi verið valdalaus verkfæri í höndum dómsmálaráðherra og dómarar hafi farið án rökstuðnings að hans vilja. Í þessari afstöðu felst dæmalaus óvirðing við þá dómara, sem hlut áttu að máli.
Hér má nefna, að síðustu hleranir, 1968, heimilaði Þórður Björnsson, sakadómari, - lengi bæjarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokksins og eindreginn andstæðingur Sjálfstæðiflokksins. Á að trúa því að þessi áhrifamaður í Framsóknarflokknum, sem þá var raunar í harðri stjórnarandstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum - hafi heimilað dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að stunda ,,pólitískar njósnir" um andstæðinga sína?
Í umræðunum, eins og til þeirra er stofnað að þessu sinni, er einnig ástæðulaust að gleyma því, að Kjartan Ólafsson var framkvæmdastjóri flokks, Sósíalistaflokksins, sem hafði á stefnuskrá sinni að ná völdum í landinu með ofbeldi. Engin ástæða er til að skauta framhjá þeirri staðreynd. Kjartan var jafnframt einn helsti milligöngumaður um samskipti við bræðraflokkinn í Austur-Þýskalandi, sem stóð fyrir mestu persónunjósnum allra tíma! Formaður miðstjórnar flokks Kjartans - Brynjólfur Bjarnason - hótaði þingmönnum aftöku, áður en gengið var til atkvæða um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið og árás var gerð á þinghúsið, eftir að þeir félagar Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson létu þau röngu boð út ganga, að þeir væru fangar hér í húsinu.
Trúir stefnu sinni hikuðu kommúnistar og sósíalistar hér á landi ekki við að beita valdi í þágu eigin málstaðar. Fræg eru átök þeirra gegn bæjarstjórn 9. nóvember 1932 og gegn alþingi 30. mars 1949, en þá var gerð alvarlegasta atlagan að lýðræði og þingræði á Íslandi.
Í þessum átökum sannaðist, að lögregla átti mjög undir högg að sækja. Hún var einfaldlega of fáliðuð og illa búin. Þess vegna var sú stefna mótuð, að lögregla skyldi treysta á almenna borgara sér til aðstoðar. Í þessari varnarráðstöfun er eða finna skýringu á öllum símahlerunum. Lögregla fór fram á milligöngu dómsmálaráðuneytis gagnvart dómstólum um þær heimildir, sem veittar voru. Hér var um lið í lögregluaðgerðum að ræða.
Öll tilvikin, sem um ræðir, tengjast ákveðnum viðburðum.
Hið sama á við enn þann dag í dag. Lögregla skipuleggur aðgerðir í samræmi við greiningu og hættumat. Hún mælist til þess að hafa þær heimildir hverju sinni, sem hún telur duga best til að gegna hlutverki sínu.
Hér gildir nú hið sama og áður, að það ræðst af atvikum og framvindu mála, hvort lögregla nýtir þær heimildir, sem hún fær frá dómurum.
Við höfum kynnst því hin síðari ár, hvernig brugðist er við aukinni hættu á hryðjuverkum. Nú eru gerðir alþjóðasamningar byggðir á alþjóðlegu hættumati og þjóðum gert skylt að innleiða þá í eigin löggjöf, eins og við þekkjum af umræðum hér á þingi.
Löggjöf um heimildir lögreglu hafa einnig þróast í tímans rás og mikill bálkur um það efni, frumvarp til laga um meðferð sakamála, hefur verið hér til umræðu á þingi í vetur. Er ástæða til að fagna þeirri samstöðu, sem myndast hefur í allsherjarnefnd þingsins við meðferð málsins.
Ég treysti því, að nú sé öllum þingmönnum vel kunnugt um heimildir lögreglu í þessum efnum og hvaða skilyrðum þær eru háðar.
Ég hef ekki kynnt mér nein af þeim gögnum, sem liggja að baki rannsóknum Kjartans Ólafssonar.
Ég hef enga ástæðu til að ætla, að lögregla hafi hlerað síma án dómsúrskurðar.
------
Í lok umræðunnar sagði ég:
Ég skorast ekki undan því að taka þátt í umræðum um þessi mál, síður en svo. Ég hef gert það í marga áratugi, kynnt mér gögnin betur, held ég, en flestir þingmenn hér inni og veit nákvæmlega um hvað ég er að tala þegar ég er að fjalla um þessi mál. Ef ekki má rifja upp sögulegar staðreyndir hér, af atburðum sem gerðust í þessum þingsal, þegar þessi mál eru rædd, finnst mér hræsnin vera orðin of mikil í umræðum á hinu háa Alþingi.
Ég hef staðið að því hvað eftir annað að hvetja til þess að þessi mál séu upplýst. Ég hef staðið að tillögum og unnið að því sem ráðherra og mun halda áfram að vinna að því að upplýsa þessi mál eins og frekast er kostur. Ekkert nýtt hefur komið hér fram en ljóst er að menn draga mismunandi ályktanir af þeim staðreyndum sem liggja fyrir. Gott og vel og það er sjálfsagt að menn geri það eins og í sagnfræði almennt. Ekkert hefur komið fram hér sem segir okkur að lögbrot hafi verið framin á einstaklingum eða að farið hafi verið á svig við lög af yfirvöldum í þessum málum. Það staðfestir það sem fram hefur komið í öllum gögnum til þessa. Menn geta haldið áfram og sett á laggirnar fleiri nefndir. Ég fullyrði: Það kemur ekkert fram sem sýnir að ólöglega hafi verið staðið að málum.
Menn geta deilt um það hvort rétt hafi verið að gera þetta eða hitt. Á þeim tíma sem menn stóðu að þessum aðgerðum, fóru með það fyrir dómara — þar var samþykkt að gera þetta og menn verða að hafa það í huga og geta síðan dregið sínar ályktanir.
Herra forseti. Þetta eru ágætar umræður. Þær skila okkur ekki öðru en því að menn lýsa skoðunum sínum. Þær breyta ekki þessum staðreyndum og leiða ekki til annars en þess að þingmenn, ætla ég að vona, eru upplýstir um það hvað m.a. hefur gerst í þessum þingsal og hvað menn hafa sagt á þessum stað, og víst má rifja það upp eins og allt annað sem hér gerist.