17.1.2008

Varnarmálafrumvarp

Ræða á alþingi, 17. janúar, 2008.

Ég fagna því, að þetta frumvarp er lagt hér fram til umræðu. Vissulega er tímabært, að á alþingi sé fjallað um það, hvernig Íslendingar eigi að koma að eigin landvörnum.

Alþingi hefur aldrei fyrr fjallað um varnarmál á þeim grunni, sem hér er kynntur. Með frumvarpinu er viðurkennt, að Íslendingar hafi hernaðarlegra öryggishagsmuna að gæta og þeir séu reiðubúnir að leggja nokkuð af mörkum í því skyni, án þess þó að koma á fót íslenskum her.

Virk þátttaka í störfum Atlantshafsbandalagsins er lögfest og byggt er á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna sem grunnstoð, þegar litið er til liðsafla og aðgerða til varnar landinu, auk þess sem lagt er á ráðin um náið hernaðarlegt samstarf við nágrannaþjóðir í Evrópu og heræfingar hér á landi.

Í september 2006 þegar samið var við Bandaríkjamenn um fyrirkomulag varna landsins á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 við brottför varnarliðsins, gaf ríkisstjórnin yfirlýsingu í níu liðum um nauðsynlegar ráðstafanir af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Þetta frumvarp er mikilvægur liður í því að framkvæma þessa yfirlýsingu.

Í fyrstu grein frumvarpsins er tekið af skarið um gildissvið varnarmálalaga. Þau snúast um stjórnsýslu varnarmála á íslensku yfirráðasvæði og samskipti íslenskra stjórnvalda við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála. Sérstaklega er tekið fram, að lögin taki ekki til verkefna stjórnvalda, sem eru borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæslu og almannavarna.

Frumvarpinu er með öðrum orðum ekki ætlað að breyta neinu að því er varðar störf lögreglu eða landhelgisgæslu eða bein samskipti þessara mikilvægu öryggisstofnana við erlenda samstarfsaðila. Ég tel, að í frumvarpinu felist ný tækifæri fyrir þessar stofnanir til að tengjast betur samstarfsneti NATO-ríkjanna á því sviði, sem snertir borgaralega þætti öryggismálanna.

Okkur er tamt að hugsa um öryggis- og varnarmál þjóðarinnar sem utanríkismál af þeirri einföldu ástæðu, að íslenska utanríkisþjónustan annaðist öll samskipti við herlið Bandaríkjamanna og úrlausn mála í tengslum við framkvæmd varnarsamningsins.  Við höfum áratuga langa reynslu af því að ræða við aðra um það, hvað þeir kunni að vilja gera til að tryggja öryggi Íslands og hafsvæðanna umhverfis landið.

Nú þegar varnarliðið er farið breytist hlutverk einstakra ráðuneyta í samræmi við það. Samgönguráðuneytið fer með yfirstjórn Keflavíkurflugvallar eins og annarra flugvalla og stofnanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hafa axlað aukna og að sumu leyti nýja ábyrgð í öryggismálum.

Í greinargerð varnarmálafrumvarpsins segir, að það lúti að verkefnum sem varða varnarviðbúnað ríkisins og ytra öryggi þess.  Með því sé settur skýr lagarammi um verkefni íslenskra stjórnvalda á sviði öryggis- og varnarmála og aðskilnað varnartengdra verkefna frá öðrum borgaralegum verkefnum stjórnvalda á sviði öryggismála.

Í greinargerðinni segir einnig, að hugtakið öryggis- og varnarstefna sé þýðing á enska hugtakinu security and defense policy og vísi þetta hugtak í frumvarpinu til mála, sem snúi að samstarfi Íslands við önnur ríki og alþjóðastofnanir á sviði landvarna og varna gegn öðrum hættum og ógnum, sem steðjað geti að íslensku þjóðinni og íslensku forráðasvæði og eigi upptök sín í hinu alþjóðlega samfélagi.

Sérstök varnarmálaskrifstofa innan utanríkisráðuneytisins annaðist samskiptin við Bandaríkjamenn og herstjórn þeirra í Keflavíkurstöðinni. Með frumvarpinu eru verkefni, sem voru á hendi þessarar skrifstofu, færð til sérstakrar varnarmálastofnunar, án þess að hróflað sé við stefnumótandi hlutverki utanríkisráðuneytisins á þessu sviði.

Með þessari skipan er stuðlað að gegnsærri stjórnsýslu á þessu sviði en áður hefur verið.

Varnarmálafrumvarpið tekur einnig af skarið um það, hvernig staðið skuli að lokalið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006, þar sem segir, að gerðar verði ráðstafanir til að lesa úr öllum merkjum frá ratsjárstofnun, sem þýðingu hafa varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands.

Varnarmálastofnun annast rekstur íslenska loftvarnakerfisins, þar á meðal fjarskiptastöðva og ratsjárstöðva Atlantshafsbandalagsins hérlendis. Með því er hinn hernaðarlegi þáttur þeirrar starfsemi í þágu NATO áréttaður.

Í ræðu, sem ég flutti um ábyrgð okkar Íslendinga á eigin vörnum og öryggi hinn 29. mars 2007 sagði ég meðal annars:

„Ég tel, að eftirlit með þessum merkjum [þ.e. ratsjármerkjunum] eigi annars vegar að vera hjá flugumferðarstjórum og hins vegar þeim, sem manna vaktstöðina við Skógarhlíð auk þess sem þau séu send inn í eftirlitskerfi NATO. Með öllu er óþarft að halda úti sérstakri vaktstöð vegna þeirra merkja, sem aflað er með tækjum ratsjárstofnunar.“

Engin ákvæði í þessu frumvarpi útiloka, að staðið verði að þessu eftirlit á þennan veg, þegar það er orðið að lögum.

Í frumvarpinu er byggt á þeirri meginreglu, að varnarmálastofnun og starfsmenn hennar annist öll samskipti við NATO og sjái um að taka á móti og miðla upplýsingum inn í eftirlitskerfi bandalagsins um hernaðarlega tengd málefni. Þessir starfsmenn annast einnig rekstur og viðhald tækja og búnaðar ratsjár- eða loftvarnakerfisins. Þeir eru hins vegar ekki hermenn og geta því ekki farið í spor þeirra verði kerfið virkjað til átaka. Verði það gert, þarf að kalla til erlenda, herþjálfaða menn.

Frumvarpið mælir fyrir um samstarf varnarmálastofnunar við önnur stjórnvöld, stofnanir eða opinber hlutafélög, sem hafa með höndum verkefni, sem tengjast starfssviði varnarmálastofnunar, samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðherra.

Í greinargerð frumvarpsins segir, að frumvarpið útiloki ekki „að stofnað verði til samstarfs milli stofnana, sem starfa á grundvelli ákvæða þess, og borgaralegra stofnana íslenska ríkisins, sem vinna að gæslu almannaöryggis. Yrði þar um gagnsæja samninga milli stofnana að ræða.“

Þarna er í raun lýst sama fyrirkomulagi og býr að baki vaktstöð siglinga, sem starfar við Skógarhlíð, en starfsemi hennar byggist á samningi milli samgönguráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis um samhæfingu krafta í því skyni að styrkja almennt öryggi landsmanna og þeirra, sem eru á siglingu í nágrenni landsins.

Hið sama á að gera með samningum til að styrkja öryggi þeirra, sem ferðast í lofti yfir landinu og í nágrenni þess. Liggur í augum uppi að samhæfa eigi mannafla og tækjabúnað í landinu í því skyni, enda spillir það á engan hátt fyrir því, að nauðsynlegum upplýsingum sé miðlað inn í loftvarnakerfi NATO samkvæmt þeirri skipan, sem lýst er í frumvarpinu.

Ég ætla ekki að fara yfir einstakar greinar frumvarpsins en vil þó vekja athygli á því, að þar er lagt til, að embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli verði alfarið úr sögunni.

Hinn 1. janúar 2007 var embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum stofnað og fer það með yfirstjórn lögreglu á Suðurnesjum og á flugvallarsvæðinu, þar á meðal í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli er hins vegar áfram getið í nokkrum lögum en verði frumvarpið samþykkt hverfa þær tilvísanir.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir sérstöku öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli. Ég er þeirrar skoðunar, að varnarmálastofnun eigi að semja um gæslu þess svæðis við lögreglustjórann á Suðurnesjum og embætti hans eigi að hafa óskorað forræði allra borgaralegra öryggismála á flugvallarsvæðinu. Forðast ber flóknar boðleiðir, þegar öryggisgæsla er annars vegar og öllum er okkur ljóst, hve miklu skiptir, að hún sé skilvirk á Keflavíkurflugvelli.

Utanríkisráðherra fól fyrir nokkru sérstökum starfshópi að gera hættumat fyrir Ísland og situr hann enn að störfum. Hópurinn kom til kynningarfundar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hinn 13. desember síðastliðinn og lagði ég fyrir hann ítarlega skýrslu um víðtækar öryggisráðstafanir hér á landi og er hún aðgengileg á vefsíðu ráðuneytisins.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir hlut öryggisstofnana ríkisins á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við gæslu öryggis lands og þjóðar. Í því efni legg ég áherslu á, að þessum stofnunum sé tryggt nægilegt afl og heimildir til nauðsynlegra aðgerða. Þær eigi með sér gott samstarf og unnt sé að samhæfa stjórn aðgerða eftir eðli þeirra hverju sinni. Þá geti stofnanirnar átt öflugt og milliliðalaust samstarf við sambærilegar erlendar stofnanir.

Varnarmálafrumvarpið takmarkar ekki umboð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess að leiða borgaralegar öryggisstofnanir með þessi markmið að leiðarljósi.

*

Allsherjarnefnd alþingis hefur nú til meðferðar frumvarp mitt til laga um almannavarnir, þar sem mælt er fyrir um nýskipan þeirra mála með öryggis- og almannavarnaráði og samhæfingar- og stjórnstöðinni við Skógarhlíð.

Alþingi hefur nýlega samþykkt lög um nýskipan löggæslumála og Landhelgisgæslu Íslands en í báðum tilvikum var tekið mið af nýjum og breyttum aðstæðum eins og gert er með frumvarpi því til varnarmálalaga, sem hér er til umræðu.

Alþjóðlegt samstarf öryggisstofnana á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er mikið og vaxandi. Þetta samstarf byggist allt á því, að um borgaralegar stofnanir er að ræða. Hið alþjóðlega samstarf, sem mælt er fyrir um í frumvarpinu, sem hér er til umræðu, snýst um hernaðarlega þætti.

*

Ég tel, að hér á Norður-Atlantshafi sé nauðsynlegt að huga að öryggismálum á annan veg en gert hefur verið á þeim tæpu tveimur áratugum, sem liðnir eru frá lyktum kalda stríðsins.

Þar eru tveir meginþættir, sem koma til álita:

Í fyrsta lagi auðlindanýting fyrir norðan heimskautsbaug og flutningur verðmæta þaðan á siglingaleiðum beggja vegna Íslands.

Í öðru lagi endurkoma rússneskra sprengjuflugvéla frá Kólaskaganum suður Norður-Atlantshaf allt til Danmerkur og Hollands og umhverfis Ísland.

Við fyrri breytingunni vegna auðlindanýtingar á að bregðast með borgaralegum öryggisráðstöfunum.

Við seinni breytingunni á að bregðast með hernaðarlegum ráðstöfunum. Í því sambandi er athyglisvert að kynna sér sjónarmið norskra stjórnvalda. Hinn 7. janúar sl. flutti Anne-Grete Ström-Erichsen, varnarmálaráðherra Noregs, stefnuræðu í Oslo Militær Samfund.

Hún sagði, að nauðsynlegt væri að huga vel að hlutverki NATO og móta þyrfti bandalaginu ný strategísk markmið. Nefndi hún í því sambandi viðfangsefni, sem Norðmenn mundu huga að sérstaklega á næstu árum.

Það þyrfti meðal annars að endurskilgreina áherslur NATO og efla styrk þess og aðgerðir í aðildarríkjunum og nágrenni þeirra. Hætta væri á því, að NATO væri að fjarlægjast aðildarríkin vegna aðgerða utan eigin svæðis.

Nefndi ráðherrann dæmi um það, sem mætti gera og sagði: „Við erum nú að þróa víðtækt samstarf nokkurra NATO-landa um eftirlit og öryggisgæslu á Íslandi og umhverfis landið. Hér erum við í raun að tala um risastórt svæði á Noregshafi og Norður-Atlantshafi. Við viljum, að NATO láti meira að sér kveða við þetta verkefni. Það mundi ekki aðeins stuðla að viðbúnaði og stöðugleika á þessu stóra svæði. Það mundi einnig gera bandalagið sýnilegra í okkar heimshluta.“

Ég tek undir þetta sjónarmið norska varnarmálaráðherrans. Það á að nýta hinar breyttu hernaðarlegu aðstæður hér og á Norður-Atlantshafi til að virkja sameiginlega NATO-krafta betur. Atlantshafsbandalagið stendur ekki undir nafni, ef það helgar sig ekki öryggisgæslu á Atlantshafi, hafinu, sem tengir Evrópu og Norður-Ameríku. Án öflugra Atlantshafstengsla verður Atlantshafsbandalagið að engu.

Við Íslendingar höfum frá upphafi Atlantshafsbandalagsins lagt okkar af mörkum til að bandalagið geti tryggt öryggi og stöðugleika í okkar heimshluta. Þetta frumvarp, sem hér er til umræðu, markar rammann utan um það, hvernig  íslensk stjórnvöld ætla að gera það áfram með virkum tengslum við öryggiskerfi NATO  og þátttöku í hernaðarlegu og pólitísku samstarfi bandalagsríkjanna.