13.11.2007

Nýr fjarskiptabúnaður fyrir Vaktstöð siglinga

Undirritun samnings í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð. 13. nóvember, 2007.

Í Vaktstöð siglinga eru þrjár grunneiningar sem áður voru á þremur mismunandi stöðum og raunar fleiri fyrr á árum.

Þessar grunneiningar eru tilkynningarskylda íslenskra skipa, strandarstöðvaþjónustan og stjórnstöð landhelgisgæslunnar.

Tilkynningaskylda íslenskra skipa sem var hjá Slysavarnafélagi Íslands og síðar Slysavarnafélaginu Landsbjörgu fluttist í fjarskiptamiðstöðina í Gufunesi fyrir tæplega 10 árum og var starfsemin þar við hlið strandarstöðvaþjónustunnar sem smá saman tók við fjarstýringu sex strandastöðva, eftir að þær urðu sjálfvirkar.

Mjög náin samskipti voru milli þessara eininga og stjórnstöðvar landhelgisgæslunnar og því hafði oft verið rætt um að mikil hagræðing og aukið öryggi gæti skapast við að sameina alla þessa öryggisaðila undir sama þaki og innan sömu stöðvar. Það markmið náðist með Vaktstöð siglinga fyrir rúmum þremur árum í krafti nýrra lagaávkæða og samninga um starfsemi hennar.

Í Vaktstöð siglinga hefur verið komið á saumlausum samskiptum mikilvægra  öryggisaðila sem áður störfuðu hver á sínum stað en eiga sameiginlegt að vera mikilvægir þættir í öryggiskerfi sjófarenda við strendur Íslands.  Tækjabúnaður, þekking og reynsla hafa verið sameinuð í öflugri einingu til  þjónustu við sjófarendur, sjóbjörgunarsveitir og aðra sem þurfa á þjónustu hennar að halda. 

Dýr tækjabúnaður er samnýttur og áhersla hefur verið lögð á  að uppræta allan tví- eða jafnvel þríverknað.  Samskipti og þjónusta hafa verið einfölduð hvort heldur við erlenda eða innlenda sjófarendur.  Innan Vaktstöðvar siglinga er tekið við boðum frá sjófarendum og þeim miðlað til viðeigandi aðila innan íslenska stjórnkerfisins og er ferlið eitt hið  einfaldasta og markvissasta sem þekkist í heiminum. Hafa ýmis erlend stjórnvöld kynnt sér það undanfarin ár í leit að góðri fyrirmynd til þess í senn að auka öryggi og bæta þjónustu

Vaktstöð siglinga byggist á samstarfi tveggja ráðuneyta, þ.e. samgönguráðuneytis og dómsmálaráuneytis. Tvær ríkisstofnanir, siglingastofnun og landhelgisgæslan ásamt Neyðarlínunni og Slysavarnafélaginu Landsbjörg eru aðilar að samstarfsamningi um rekstur stöðvarinnar.  Leyfi ég mér að fullyrða, að samstarfið hafi gengið mjög vel og hefur starfsemi Vaktstöðvar siglinga þróast og dafnað á einstakan hátt, frá því að við þáverandi samgönguráðherra vorum hér í mars 2004 og rituðum undir samning um stofnun hennar.

Til þess að Vaktstöð siglinga geti gegnt mikilvægu hlutverki sínu þurfa tæki og kerfi hennar að geta þjónað sjófarendum og öðrum viðskiptavinum stöðvarinnar sem best og öruggast. 

Fjarskiptabúnaður strandarstöðvahluta stöðvarinnar er orðinn margra áratuga gamall og úr sér genginn.  Stór hluti hans hefur verið á Rjúpnahæð í landi Kópavogs en ljóst hefur verið undanfarin ár að þaðan yrði að flytja vegna íbúðabyggðar. 

Undanfarið hefur verið unnið að því að endurnýja búnaðinn og nú hefur verið samið við  austuríska fjarskiptafyrirtækið Frequentis. Fyrirtækið mun tryggja Vaktstöð siglinga ný fjarskiptakerfi strandarstöðvanna, hafa umsjón með uppsetningu  hins nýja búnaðar og þjálfa starfsmenn í notkun hans.

Frequentis fjarskiptabúnaðurinn og stýrikerfi hans standast allar alþjóðlegar skuldbindingar og kröfur, sem eru gerðar til fjarskiptabúnaðar strandarstöðva og sjóbjörgunarmiðstöðva, þ.e. Global Maritime Distress And Safety System (GMDSS).  Stýrikerfið auðveldar samhæfingu við önnur fjarskipta- og fjareftirlitskerfi Vaktstöðvar siglinga og auk þess við ratsjáreftirlitskerfi sem færi vel að starfsemi stöðvarinnar, þegar fram líða stundir.  Fjarskiptarásum á notkunarsviði strandarstöðvanna fjölgar þannig að vaktstöðin getur sinnt eða stjórnað mun fleiri aðgerðum, stórum sem smáum, en áður.  Starfsumhverfið ætti því enn að breytast og batna og verða tæknilega eins og best verður á kosið.

Síðar í dag mæli ég fyrir frumvarpi að nýjum almannavarnalögum á alþingi og frumvarpi til laga um samræmda neyðarsímsvörun. Við smíði frumvarpanna var tekið ríkt mið af þeirri þróun, sem hefur orðið í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð með sívaxandi samstarfi allra, sem gegna lykilhlutverki við að gæta öryggis landsmanna.

Vaktstöð siglinga er lýsandi dæmi um hið nýja og öfluga samstarf á þessu sviði. Ég vil þakka starfsmönnum hennar gott og mikið starf. Án mikils metnaðar starfsmanna hefði ekki verið unnt að sameina  kraftana undir merkjum Vaktstöðvar siglinga á svo árangursríkan hátt sem raun ber vitni.